Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 590  —  371. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Margréti Sæmundsdóttur og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Umsögn barst frá Fjórðungssambandi Vestfjarða.
    Með frumvarpinu er lagt til að stutt verði við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á tilteknum svæðum á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda. Þeir framleiðendur sem eiga rétt á flutningsjöfnun samkvæmt frumvarpinu eru þeir sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en aðrir framleiðendur sem eru nær markaði, t.d. á höfuðborgarsvæðinu.
    
Svæði flutningsjöfnunar.
    Í frumvarpinu er lagt til að landinu sé skipt upp í svæði eftir svokölluðu byggðakorti sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur með ákvörðun samþykkt að gildi fyrir árin 2008–2013. Til upplýsingar má geta þess að kortið er m.a. að finna á vef Byggðastofnunar. Til styrksvæða samkvæmt frumvarpinu teljast þau svæði sem heimilt er að veita styrk til samkvæmt byggðakorti og er þeim skipt í svæði 1 og 2 og miðast jöfnun flutningskostnaðar við vegalengdir frá innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn. Nefndin fjallaði um það hvaða sveitarfélög falla undir flutningsjöfnunina samkvæmt frumvarpinu og hvernig þau skiptast milli svæða 1 og 2 og hvort rétt sé að leggja til að sveitarfélögum á svæði 2 yrði fjölgað. Var í því sambandi rætt um fámenn sveitarfélög, vegakerfi og fjarlægðir frá innanlandsmarkaði þar sem ætla má að sé umframkostnaður við flutninga.
    Meiri hlutinn leggur til að Bæjarhreppur falli brott úr upptalningu þar sem hann hefur verið sameinaður Húnaþingi vestra og tekur sameiningin gildi 1. janúar 2012.

Skilyrði styrkveitingar.
    Nefndin fjallaði einnig um skilyrði styrkveitingar en í 1. mgr. 5. gr. er lagt til að styrkir séu veittir til framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar. Styrkveitingar eru samkvæmt frumvarpinu því bundnar við framleiðendur. Þá er í 2. mgr. 5. gr. lagt til að þeir sem eiga rétt til flutningsjöfnunarstyrkja vegna framleiðslu á styrksvæðum séu einstaklingar sem stunda atvinnurekstur og eru með lögheimili á styrksvæði og lögaðilar sem eru með starfsemi og heimilisfesti á styrksvæði. Varan sem flutt er milli svæða innan lands verður því að fara í framleiðsluferli á heimasvæði framleiðanda til þess að hann geti sótt um styrk vegna flutningskostnaðar hennar.
    Í frumvarpinu er lagt til að það verði skilyrði styrkveitingar að viðkomandi aðili skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi. Þá er það einnig skilyrði að viðkomandi einstaklingur eða lögaðili hafa ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir dagsetningu umsóknar.

Málsmeðferð umsóknar.
    Í frumvarpinu er ekki lagt til að sett séu tímamörk á vinnslu umsókna en ráðherra veitt heimild í 10. gr. til að útfæra framkvæmd laganna en er bundinn af lágmarksreglum stjórnsýslulaga. Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um fjárhæð styrkja en hámarksfjárhæð á þriggja ára tímabili miðast við 200.000 evrur. Ekki er gert að skilyrði að fjárhæðinni sé skipt milli ára. Meiri hlutinn tekur fram að við afgreiðslu styrkjanna verði styrkþegi upplýstur um fjárhæðina í evrum og þar með hlutfall af heildarfjárhæð styrkveitingar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sá sem fær styrk sé ábyrgur fyrir því að veita réttar upplýsingar, t.d. varðandi styrki frá opinberum aðilum sem gætu komið til frádráttar. Þá er einnig kveðið á um að ef upplýst verður að heildarfjárhæð styrks fer umfram hámarksfjárhæð skuli endurkrefja styrkþega um flutningsjöfnunarstyrkinn í heild. Meiri hlutinn telur því mjög mikilvægt að ráðuneytið upplýsi styrkþega um þær reglur sem gilda um styrkveitinguna og gæti að því að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, m.a. rannsóknarreglu og reglu um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds.

Gildistími, gildissvið o.fl.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin verði tímabundin til tveggja ára og miðist við gildistíma byggðakorts ESA, þ.e. þau öðlist gildi 1. janúar 2012 og falli úr gildi 31. desember 2013. Flutningskostnaður á árinu 2012 fellur undir gildissvið frumvarpsins og hægt er að sækja um endurgreiðslu fram til 31. mars 2013, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að eðlilegt sé að fram fari endurskoðun á reglunum með tilliti til nýs byggðakorts og nýrra útreikninga á flutningskostnaði áður en lögin falli úr gildi. Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram sjónarmið um að stytta gildistíma frumvarpsins úr tveimur í eitt ár. Meiri hlutinn telur rétt að leggja það til og telur nauðsynlegt að ráðuneytið fylgist náið með þróun flutningskostnaðar á þeim tíma og leggi til breytingar á reglum um svæðisbundna flutningsjöfnun ef þróunin gefur tilefni til þess. Meiri hlutinn leggur því einnig til að kveðið verði á um að endurskoðun laganna skuli fara fram innan árs frá gildistöku.
    Meiri hlutinn bendir á að myndir í greinargerð hafa víxlast. Á mynd 2 má sjá mælingar á útreiknuðum taxta samkvæmt kostnaðarhlutfalli til eða frá Reykjavík og frá eða til annarra svæða á landinu en á mynd 1 sambærilegar mælingar fyrir Reyðarfjörð til eða frá öðrum svæðum.
    Meiri hlutinn leggur til smávægilega lagfæringu á 6. gr., þ.e. að tilvísun í 4. mgr. 5. gr. í 1. málsl. 2. mgr. verði felld brott þar sem að óþarfi er að tiltaka einstök skilyrði 5. gr. umfram önnur sem gilda um styrkveitingar samkvæmt frumvarpinu.
         Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Orðið „Bæjarhreppur“ í 2. mgr. 4. gr. falli brott.
     2.      Orðin „sbr. 4. mgr. 5. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. falli brott.
     3.      Í stað orðanna „31. desember 2013“ í 11. gr. komi: 31. desember 2012. Endurskoða skal ákvæði laga þessara innan árs frá gildistöku.

Alþingi, 16. desember 2011.Helgi Hjörvar,


form.


Þráinn Bertelsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,


frsm.Logi Már Einarsson.


Skúli Helgason.


Birkir Jón Jónsson.Lilja Mósesdóttir.