Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 596  —  409. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson, Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson,
Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 32. gr. um framsal leyfisveitingarvalds ráðherra skv. 1. mgr. 4. gr. til Orkustofnunar, sbr. einnig erindisbréf ráðherra til Orkustofnunar frá 10. júlí 2008, skal ráðherra veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir virkjanir í neðri hluta Þjórsár og skal Landsvirkjun hefja framkvæmdir hið fyrsta.
    Þeir virkjanakostir sem nýta skal skv. 1. mgr. eru:
     a.      Hvammsvirkjun, 82 MW að afli.
     b.      Holtavirkjun, 53 MW að afli.
     c.      Urriðafossvirkjun, 130 MW að afli.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp sama efnis var flutt á 139. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Umsagnir bárust frá Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Samorku, Samtökum atvinnulífsins, Sól á Suðurlandi og Vegagerðinni.
    Það kemur meðal annars fram í umsögnum að Orkustofnun hafi, með erindisbréfi ráðherra frá 10. júlí 2008, verið falið að fara með leyfisveitingarvald ráðherra samkvæmt ákvæðum laganna, þ.m.t. veitingu virkjunarleyfis. Með frumvarpinu er lagt til að þrátt fyrir það fyrirkomulag skuli ráðherra veita Landsvirkjun virkjunarleyfi til að ráðast í gerð þriggja virkjana, þ.e. Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar, í þeim tilgangi að efla atvinnulíf á sunnanverðu landinu. Verði frumvarpið að lögum skal hið fyrsta hefja framkvæmdir við þær þrjár virkjanir sem eru kenndar við Urriðafoss, Holt og Hvamm og nýta orkuna þaðan til uppbyggingar atvinnulífs á sunnanverðu landinu. Þessi áform um virkjanir hafa þegar uppfyllt öll skilyrði umhverfissjónarmiða og hagkvæmnissjónarmiða. Virkjanirnar hafa þegar farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum án athugasemda, verið í tvígang settar í rammaáætlun og komið vel út í bæði skiptin, eru fjárhagslegar hagkvæmar og styrkja íslenskt atvinnulíf.
    Sterk rök hníga að því að rétt sé að fullnýta tiltekið svæði áður en haldið er inn á ný svæði. Fjárfestingarstofa hefur lýst því yfir að fjöldamörg verkefni séu í undirbúningi, t.d. á sviði gagnavera og smærri iðnaðar. Landsvirkjun tilkynnti 9. nóvember 2007 að stjórn fyrirtækisins hefði ákveðið að orkan úr neðri hluta Þjórsár ætti að fara til annarra verkefna en stóriðju. Í tilkynningunni segir: „Stjórn Landsvirkjunar telur mikilsvert að fyrirtækið fái sem hæst verð fyrir raforkuna, dreifi áhættu og auki fjölbreytni viðskiptavina sinna. Landsvirkjun hefur því ákveðið að hefja viðræður um raforkusölu við fyrirtæki sem hyggjast byggja upp netþjónabú á Íslandi. Einnig eru í undirbúningi viðræður við fyrirtæki á sviði kísilhreinsunar fyrir sólarrafala. Ekki er enn hægt að greina frá því hver þessi fyrirtæki eru. Líkleg staðsetning þessarar starfsemi verður á Suðurlandi og Reykjanesi. Áhersla Landsvirkjunar á netþjónabú og sólarkísil byggist á því að vænta má hærra raforkuverðs í þeim viðskiptum en við aðra stórkaupendur. Landsvirkjun mun þess vegna ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi.“
    Staðan í íslensku efnahagslífi er allt önnur nú en haustið 2007 og það er brýnna en nokkru sinni fyrr að tryggja orku til fjölbreyttra verkefna eins og vísað er til í framangreindri samþykkt stjórnar Landsvirkjunar. Mikilvægt er að Landsvirkjun endurskoði þessa samþykkt frá árinu 2007 og líti til allra mögulegra kosta þegar kemur að sölu raforku frá þessum svæðum. Landsvirkjun verður eins og aðrir að endurmeta stöðu sína í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga sem aukið atvinnuleysi hefur á samfélagið. Allra leiða verður að leita til að vinna bug á því þjóðarböli sem atvinnuleysi er. Augljóst er að ekki verður farið í uppbyggingu verkefna í orkufrekum iðnaði á sunnanverðu landinu nema orka frá Þjórsá sé tryggð.
    Ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um hvernig haga skuli orkunýtingu í landinu þrátt fyrir að hafa kveðið á um eftirfarandi í stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009: „Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, sbr. þjóðhagsáætlun, svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, svo sem gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.
    Einnig verði unnið skipulega að úrvinnslu áforma um aðrar stórfjárfestingar í atvinnulífinu þannig að taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra. […] Sveitarfélög og önnur stjórnvöld tryggi að farið verði að tímafrestum við gerð skipulags og allar leyfisveitingar og greitt verði fyrir nýjum fjárfestingum eins og kostur er.“
    29. janúar 2010 synjaði umhverfisráðherra skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri Þjórsá staðfestingar. Annars vegar var um að ræða tillögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps um breytingu á aðalskipulagi hreppsins og hins vegar aðalskipulag Flóahrepps 2006– 2018, en ráðherra samþykkti skipulagið að öðru leyti en því sem laut að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Þessar ákvarðanir ráðherra höfðu alvarlegar afleiðingar á áform um virkjun í neðri hluta Þjórsár. Í ljósi hæstaréttardóms nr. 579/2010 þar sem ákvörðun ráðherra var ógilt er nauðsynlegt og eðlilegt að Alþingi taki af allan vafa í málinu og kveði á um virkjun neðri hluta Þjórsár, enda hníga öll rök að því að ráðist verði í framkvæmdirnar sem fyrst.
    Skráð atvinnuleysi í janúar 2011 var 8,5% samkvæmt heimildum Vinnumálastofnunar eða að meðaltali 13.458 manns. Á sama tíma á árinu 2010 var atvinnuleysi 9%. Þá eru ótalin þúsund manna sem flust hafa burt af landinu. Það er brýnt að sporna við atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum og skynsamleg nýting orkuauðlindanna er mikilvægt lóð á vogarskálarnar. Aðilar vinnumarkaðarins kalla mjög eftir því að ákvarðanir verði teknar á þessu sviði og síðast 29. mars 2010 hvatti miðstjórn Alþýðusambands Íslands til þess að áfram verði haldið í orkunýtingu.
    Í ljósi gríðarlegs atvinnuleysis og þess hversu brýn þörf er fyrir atvinnuuppbyggingu hér á landi er rétt að ráðast í þessar framkvæmdir enda hafa viðamiklar rannsóknir verið gerðar. Ekki er unnt að selja orku sem ekki er til og við munum fæla frá landinu þá sem vilja fjárfesta hér á landi ef ekki er unnt að virkja hér. Flutningsmenn telja að lokum rétt að árétta að hvergi verði slakað á kröfum í umhverfismálum enda hefur þegar farið fram mat á umhverfisáhrifum þessara verkefna og þau hafa komið afar vel út úr rammaáætlun. Ekki skal heldur slakað á umhverfiskröfum til væntanlegra notenda raforkunnar.