Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 357. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 653  —  357. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um skipan
samráðshóps um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er samráðshópur iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða skipaður á grundvelli formlegrar ráðherranefndar?
     2.      Hverjir sitja í samráðshópnum fyrir hönd ráðherra?


    Vinnu verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða lauk í júní 2011 með því að verkefnisstjórnin skilað skýrslunni Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar til iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Um skipan og störf verkefnisstjórnar er nánar fjallað í skýrslunni.
    Í kjölfar skila verkefnisstjórnar í júní 2011 unnu starfsmenn iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis, með liðsinni formanna faghópa verkefnisstjórnar, að tillögu til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun. Fór sú vinna fram á grundvelli skýrslu verkefnisstjórnar og laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Drög að þingsályktunartillögu voru send í 12 vikna opið kynningarferli sem hófst 19. ágúst og lauk 11. nóvember 2011. Alls bárust 225 umsagnir og hefur verið unnið að því undanfarnar vikur að fara yfir þær.
    Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 leggur iðnaðarráðherra tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða fram í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra. Enginn formlegur samráðshópur hefur verið skipaður til þess, heldur er samráðið í samræmi við lög.
    Eftir að umsagnarferli lauk 11. nóvember sl. hafa iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra haft samráð við ýmsa fagaðila sem og þingmenn stjórnarflokkanna við lokafrágang þingsályktunartillögunnar.