Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 421. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þskj. 660  —  421. mál.




Fyrirspurn



til efnahags- og viðskiptaráðherra um innstæður.


Frá Lilju Mósesdóttur.



     1.      Hver var upphæð innstæðna almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem ríkisstjórn Íslands skuldbatt sig með yfirlýsingu 6. október 2008 til þess að tryggja að fullu í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum bönkum og sparisjóðum.
     2.      Hvaða aðilar aðrir sem umrædd yfirlýsing tók ekki til fengu innstæður sínar tryggðar að fullu og hver var upphæð þeirra innstæðna?
     3.      Hver var fjöldi eigenda innstæðna sem tryggðar voru að fullu og hvernig skiptust þeir á milli einstakra banka og sparisjóða?
     4.      Hvernig skiptist upphæð innstæðna sem tryggðar voru að fullu á milli einstaklinga, lífeyrissjóða, ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja?
     5.      Hver var upphæð tryggðra innstæðna við fall fjármálakerfisins umfram þá lágmarkstryggingu sem kveðið var á um í 10. gr. laga nr. 98/1999? Hvernig skiptist sú upphæð eftir einstaklingum, lífeyrissjóðum, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum?
     6.      Hver var fjöldi innstæðueigenda sem við fall fjármálakerfisins áttu tryggðar innstæður umfram lágmarkstryggingu? Svar óskast sundurliðað eftir einstaklingum, lífeyrissjóðum, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum.
     7.      Hversu margir sem lágmarkstrygging náði ekki til nutu aukins forgangs á grundvelli 6. gr. neyðarlaganna og hversu háa upphæð fengu þeir viðurkennda? Svar óskast sundurliðað eftir einstaklingum, lífeyrissjóðum, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum.
     8.      Hversu háa upphæð má ætla að innstæðueigendur hefðu fengið án neyðarlaga í hverjum banka fyrir sig að teknu tilliti til skuldajöfnunar?


Skriflegt svar óskast.