Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 384. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 672  —  384. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um tvísetningu fangaklefa.


     1.      Hve oft hefur komið fyrir að fangaklefar hafa verið tvísetnir á síðustu fimm árum?
    Klefaskráningar eru ekki skráðar hjá Fangelsismálastofnun ríkisins en þær eru skráðar hjá fangelsunum sjálfum. Ekki er hægt að fá umbeðnar upplýsingar með einföldum hætti.
    Á tímabilinu 1. janúar 2007 til 27. október 2011 voru fimm tveggja manna klefar í Hegningarhúsinu og voru að jafnaði tveir fangar í sérhverjum þeirra á tímabilinu. Einum þessara klefa var lokað 27. október sl. og honum breytt í setustofu fanga. Þess má geta að stærri klefar fangelsisins voru áður fyrr notaðir fyrir þrjá fanga og hafa því frá upphafi verið fyrir fleiri en einn fanga.
    Í fangelsinu að Kópavogsbraut 17 eru tveir klefar sem notaðir hafa verið sem tveggja manna klefar þegar brýn þörf hefur verið á því.
    Í fangelsinu Bitru er einn klefi sem notaður hefur verið fyrir tvo fanga.
    Í fangelsinu Litla-Hrauni hefur, þegar brýna nauðsyn hefur borið til, verið hægt að nota þrjá klefa fyrir tvo fanga.
    Fangelsismálastofnun ríkisins hefur ávallt reynt eins og kostur er að komast hjá því að vista fleiri en einn fanga í klefa. Stofnunin tók þá ákvörðun á árinu 2011 að fækka innkomum í fangelsi landsins til að komast hjá því að vista tvo fanga í klefa.

     2.      Hvenær má vænta þess að tvísetning fangaklefa heyri til liðinni tíð?
    Þegar framboð fangelsisrýma annar eftirspurn mun tvísetning fangaklefa heyra liðinni tíð en eins og segir hér að framan er leitast við að takmarka tvímenningu klefa eins og framast er unnt.

     3.      Kemur til greina að gera Hegningarhúsið við Skólavörðustíg að safni um dóms- og fangelsismál en þar hafði Landsyfirrétturinn og síðar Hæstiréttur lengi húsnæði og þar eru fangaklefar sem hafa verið tvísetnir fram á þessa öld?
    Ekki hefur verið ákveðið hvað verði í húsinu að Skólavörðustíg 9 þegar fangelsisrekstri lýkur þar en hugmyndir um söfn og t.d. veitingarekstur koma vel til greina.