Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 466. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 712  —  466. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum
og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Mörður Árnason.


1. gr.

    Orðið „selir“ í 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði laga þessara taka ekki til hvala en um þá gilda sérstök lög.

3. gr.

    Á eftir 17. gr. a laganna kemur ný grein, 17. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Selir.


    Leyfðar eru veiðar á landsel og útsel nema á sérstökum griðasvæðum sem ráðherra ákveður með reglugerð að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, Bændasamtök Íslands og landeigendur sem við á. Veiðar í grennd við látur eru óheimilar. Veiðar á vöðusel og farsel eru óheimilar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 30/1925, um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, lög nr. 29/1937, um útrýmingu sels í Húnaósi, og tilskipun um veiðar á Íslandi frá 20. júní 1849.

Greinargerð.


    Selir hafa ekki verið taldir til villtra dýra í lögum sem um þau gilda. Lög sem gilda um seli eru Jónsbókarákvæði frá 13. öld ásamt tilskipun konungs um veiðar á Íslandi frá 20. júní 1849. Þá er ákvæði um seli að finna í lögum um selaskot á Breiðafirði og uppidráp (nr. 30/1925), lögum um útrýmingu sels í Húnaósi (nr. 29/1937), lögum um lax- og silungsveiði (nr. 61/2006) og landskiptalögum (nr. 46/1941). Samkvæmt lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna (nr. 64/1965) ber Hafrannsóknastofnuninni að afla alhliða þekkingar um hafið og lífríki þess og meta nýtingarmöguleika á auðlindum hafsins. Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur (nr. 60/1992) er kveðið á um skyldu stofnunarinnar til vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra. Heildarlög sem fjalla um vernd og veiðar eru ekki til fyrir seli og fyrir löngu orðið tímabært að setja slík lög enda eiga meginreglur umhverfisréttar og velferðar dýra að gilda um seli líkt og önnur spendýr. Áður hefur verið reynt að færa lög um seli og selveiðar til nútímans en án árangurs. Frumvarp um selveiðar var lagt fram á Alþingi 1983–1984 en dagaði uppi, og í frumvarpi til gildandi villidýralaga var gert ráð fyrir að lögin næðu til sela. Selaákvæðin í frumvarpinu voru hins vegar felld brott á síðustu stundu, skömmu áður en Alþingi samþykkti lögin vorið 1994. Fram kom í ræðu umhverfisráðherra við 2. umræðu að greiða ætti úr málinu sumarið eftir (1994) en það var ekki gert. Full ástæða er til að flokka sel með öðrum villtum dýrum og láta hann njóta þeirrar verndar sem villidýralögin veita, meðal annars hvað varðar veiðar, og miðar þetta frumvarp að því.
    Í frumvarpinu er lagt til að selveiðar verði heimilar áfram enda aldagömul hefð og hluti af mikilvægum hlunnindum ýmissa bænda. Hvergi mun selveiði þó stunduð sem sjálfstæð atvinnugrein, og viðskipti með selaafurðir eru hverfandi.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti mælt fyrir um sérstök griðasvæði sela í samráði við Náttúrufræðistofnun, Bændasamtök Íslands og landeigendur. Slík griðasvæði þarf að velja þannig að þau stuðli sem best að viðgangi selastofna en gæta um leið að hæfilegri fjarlægð frá veiðiám og fiskimiðum sem viðkvæmust eru gagnvart ágangi selsins. Í þessu sambandi þarf einnig að taka tillit til hagsmuna sem tengjast ferðaþjónustu, sbr. velheppnað selasetur við Húnaflóa. Slík griðasvæði þykja sjálfsögð í grannlöndum okkar, tryggja dýrinu frið frá veiðum og geta jafnframt skapað kjörinn vettvang til selaskoðunar þar sem aðstæður henta.
    Samkvæmt gildandi lögum (tilskipun um veiði á Íslandi frá 1849) má enginn skjóta landsel eða útsel á fjörðum eða víkum þar sem eru látur eða lagnir, nær en 900 m (lög nr. 116/1990). Fiskistofu er þó heimilt að ósk veiðifélags að ófriða látur, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar og Veiðimálastofnunar, en aldrei hefur reynt á það ákvæði (lög nr. 61/2006). Landselur og útselur njóta því í raun griðasvæða núna samkvæmt lögum þótt þau hafi verið nánast óvirk.
    Vöðusel og annan farsel (einkum hringanóra, blöðrusel og rostung) má hver maður hins vegar skjóta eða veiða utan netlaga, nema hvað takmarkanir gilda í grennd við selalátur og eggver. Með þessu frumvarpi yrðu slíkar veiðar óheimilar enda hafa þær ekki verið stundaðar hér síðustu áratugi.