Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 488. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 744  —  488. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

Frá atvinnuveganefnd.


1. gr.

    Á eftir 18. gr. a laganna kemur ný grein sem verður 18. gr. b, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja ákvæði um að matvælafyrirtæki geti merkt matvæli sem þau framleiða eða dreifa með viðurkenndri áherslumerkingu sem gefi til kynna að matvælin séu í samræmi við stefnu stjórnvalda um manneldismarkmið, af miklum gæðum eða hafi önnur sameiginleg einkenni.
    Í reglugerðinni skal kveðið á um gerð merkinga og hvaða kröfur eru gerðar fyrir notkun þeirra, í hvaða tilgangi heimilt sé að nota þær, gæðaviðmið, kröfur til framleiðslu og verkunar, hvernig eftirliti skuli háttað, ábyrgð matvælafyrirtækja, skráningu, kostnað við eftirlit og annað er varðar notkun þeirra.
    Við undirbúning setningar reglugerðar skal ráðherra leita álits landlæknisembættisins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á 139. löggjafarþingi lagði Siv Friðleifsdóttir, ásamt fleirum, fram þingsályktunartillögu um norræna hollustumerkið Skráargatið (þskj. 831, 508. mál). Þar var lagt til að Alþingi samþykkti að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beitti sér fyrir því að unnt yrði að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur sem framleiddar væru hérlendis. Tillögunni var vísað til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem óskaði umsagna um hana en lauk ekki umfjöllun sinni. Á yfirstandandi löggjafarþingi var tillagan lögð fram á nýjan leik (þskj. 22, 22. mál) og var vísað til atvinnuveganefndar til umfjöllunar. Þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að flýta framgangi tillögunnar með því að veita ráðherra þær lagaheimildir sem honum væru nauðsynlegar til að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið.
    Frumvarp þetta varð til í tengslum við meðferð atvinnuveganefndar á þingsályktunartillögunni sem nefndin leggur til að verði samþykkt óbreytt. Nánari röksemdir fyrir samþykkt hennar og ýmis atriði sem veitt geta leiðbeiningu um hvernig nefndin sér fyrir sér að hún komist til framkvæmda er að finna í nefndaráliti atvinnuveganefndar, sjá þskj. 743 í 22. máli.
    Þar sem hollustumerkið Skráargatið er samstarfsverkefni nokkurra Norðurlandaþjóða var við frumvarpsgerðina litið til þess með hvaða hætti merkinu hefur verið fenginn lagagrundvöllur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Af þeim sökum má segja að uppbygging og efni frumvarpsins sæki fyrirmynd sína til löggjafar framangreindra landa að teknu tilliti til uppbyggingar íslenskrar stjórnsýslu og íslenskra lagasetningarhátta.
    Með frumvarpinu er lagt til að einni nýrri grein sem innihaldi þrjár málsgreinar verði bætt við matvælalög.
    Í 1. mgr. er lagt til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð sem innihaldi ákvæði um að matvælafyrirtæki, samkvæmt skilgreiningu matvælalaga, geti merkt matvæli sem þau framleiða eða dreifa með viðurkenndri áherslumerkingu sem gefi til kynna að matvælin séu í samræmi við stefnu stjórnvalda um manneldismarkmið, af miklum gæðum eða hafi önnur sameiginleg einkenni. Þó svo að megintilgangur frumvarpsins sé að gera ráðherra mögulegt að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur framleiddar hérlendis þykir hallkvæmt að honum verði á sama tíma fengin heimild til þess að setja reglugerðir um aðra viðurkennda áherslumerkingu matvæla. Er það í samræmi við þá leið sem farin var í Danmörku og kemur fram í 6. kafla dönsku matvælalaganna (d. lov om fødevarer nr. 526 frá 24. júní 2005, með síðari breytingum). Mætti þannig til dæmis hugsa sér að ráðherra geti með reglugerð heimilað þeim framleiðendum landbúnaðarafurða sem fullvinna afurðir sínar heima fyrir í samræmi við ákvæði laga og reglugerða að merkja þær sérstakri merkingu sem gefi þetta sérkenni þeirra til kynna með einföldum og afgerandi hætti.
    Í 2. mgr. er fjallað um efni reglugerðar skv. 1. mgr. Þar kemur fram að í henni skuli kveðið á um gerð áherslumerkinga og hvaða kröfur verði gerðar fyrir notkun þeirra. Þannig skuli koma fram í hvaða tilgangi heimilt sé að nota slíkar merkingar, þau gæðaviðmið sem matvæli þurfa að uppfylla svo að slík notkun sé heimil, hvaða kröfur séu gerðar til framleiðslu og verkunar matvælanna, hvernig eftirliti með því að matvæli uppfylli þau skilyrði sem koma fram í lögum og reglugerðum skuli háttað, hver sé ábyrgð matvælafyrirtækja þegar kemur að áherslumerkingu matvæla, hvernig skráningu slíkra merkja skuli háttað, hvernig skuli farið með kostnað við eftirlit með því að matvæli uppfylli sett skilyrði og annað er varðar notkun slíkra áherslumerkinga.
    Í 3. mgr. kemur fram að við undirbúning reglugerðar skuli ráðherra leita álits landlæknisembættisins. Skv. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir m.a. annast forvarna- og heilsueflingarverkefni og efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa. Er það í samræmi við þau markmið laganna að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og stuðla að því að lýðheilsustarf byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Landlæknisembættið býr yfir mikilli þekkingu á þeim þáttum áherslumerkinga sem snúa að lýðheilsu og heilsueflingu. Þá liggja fyrir upplýsingar um að landlæknisembættið hafi lýst yfir áhuga á að taka þátt í innleiðingu hollustumerkisins Skráargatsins hér á landi auk þess sem aðkoma landlæknis er í samræmi við fyrirkomulag þessara mála í Noregi.
    Bent er á að ætlunin er að viðurlagaákvæði 31. gr. laganna eigi jafnt við um brot gegn reglum settum á grundvelli hinnar nýju greinar (18. gr. b) sem annarra greina laganna. Liggur því til grundvallar það sjónarmið að nauðsynlegt sé að varna því að áherslumerkingar verði misnotaðar. Reynsla Svía, Norðmanna og Dana er að merkingar matvæla með Skrárgatinu hafi áhrif á val neytenda við innkaup. Þá virðist vörum merktum Skráargatinu vera að fjölga í þessum löndum og sala á þeim að aukast. Virðast neytendur því treysta merkingunni og má telja líklegt að þeir telji vörur merktar hollustumerkingunni líklegar til þess að stuðla að heilsusamlegri neyslu og lífi.
    Þá skal bent á að áætlað er að 25. gr. laganna taki til kostnaðar sem eftirlitsaðilar verða fyrir vegna eftirlits með því að ákvæðum stjórnvaldsfyrirmæla settum á grundvelli greinarinnar sé fylgt.
    Í greinargerð Matvælastofnunar um Skráargatið, norræna hollustumerkið, frá janúar 2012 er m.a. fjallað um kostnað sem stofnunin sér fyrir sér að falli til við innleiðingu þess. Þar er bent á að Danir og Norðmenn hafi varið háum fjárhæðum í markaðssetningu merkisins á undanförnum árum en lítið hafi verið lagt í slíka markaðssetningu í Svíþjóð. Þá er bent á að Norræna ráðherranefndin hafi styrkt verkefnið með myndarlegum hætti en óljóst sé hvort af slíkum styrkveitingum verði nú. Er það mat stofnunarinnar að af reynslu nágrannaþjóða okkar af dæma sé nauðsynlegt að ráðast í nokkra markaðssetningu á Skráargatinu við upptöku þess. Þá setur stofnunin fram það mat, byggt á fyrirspurnum, að fimm vikna kynningarátak á veraldarvefnum og í sjónvarpi muni kosta um 12–13 millj. kr. Að lokum bendir stofnunin á að mögulegt væri einnig að kynna merkið á öðrum vettvangi, svo sem með bæklingum, greinum í dagblöðum, viðtölum og umfjöllun í útvarpi og sjónvarpi, en að slík viðbótarkynning mundi e.t.v. kosta nokkrar milljónir króna til viðbótar. Nefndin telur mat Matvælastofnunar gefa til kynna að nokkuð háar fjárhæðir þurfi til að innleiða Skrárgatið hér á landi. Þannig virðist ekki tekið nægilegt tillit til þess að matvælaframleiðendur og innflytjendur munu fljótt átta sig á að þeir geti mögulega náð nokkru forskoti á samkeppnisaðila sína með því að merkja vörur sínar Skráargatinu og kynna þær merkingar og kosti þeirra rækilega, m.a. í almennum fjölmiðlum. Telur nefndin eðlilegra að opinberar stofnanir eyði kröftum sínum og fjármunum í að byggja upp öfluga upplýsingasíðu á vefnum sem þjóni framleiðendum og seljendum, fréttamönnum og þeim neytendum sem vilja afla sér nánari upplýsinga en fram koma í merkingu á vörum og í auglýsingum framleiðenda. Þá telur nefndin hyggilegt að opinberir aðilar ráðist í almenna kynningu meðal neytenda að nokkrum mánuðum eða missirum liðnum frá gildistöku laganna, þegar Skráargatið er komið í almenna notkun meðal framleiðenda og seljenda á Íslandi og valkostir neytenda orðnir fleiri en nú er.