Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 490. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 750  —  490. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988,
með síðari breytingum (barnaföt o.fl.).

Flm.: Bjarni Benediktsson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson,
Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson,
Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í haust lagði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í þriðja sinn á þessu kjörtímabili fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Áhersla er lögð á að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og er meginmarkmið þeirra rúmlega þrjátíu aðgerða sem felast í tillögunni að styrkja íslenskt efnahagslíf og gefa fólki von um bjartari framtíð.
    Einn þáttur í þessum aðgerðum er að koma til móts við barnafjölskyldur sem hafa þurft að axla einna þyngstu byrðarnar í kjölfar efnahagshrunsins 2008, eins og fram kemur í samantekt Seðlabankans um stöðu heimilanna frá því í apríl 2010.
    Til lengri tíma litið ber að stefna að lækkun virðisaukaskatts og jafnframt að einfalda innheimtu hans með einu almennu skattþrepi. Núverandi aðstæður í ríkisbúskapnum koma í veg fyrir að því markmiði verði náð á kjörtímabilinu samhliða öðrum skattalækkunum. Hins vegar er skynsamlegt að nýta lægra skattþrepið til að styðja betur við barnafjölskyldur.
    Barnafólk eyðir stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í að fæða og klæða börn sín. Barnaföt og aðrar nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi, bleyjur, barnamatur, kerrur og öryggisbúnaður er dýr hér á landi í samanburði við mörg nágrannalönd. Það kemur m.a. til af því að víða er virðisaukaskatturinn mun lægri en hér eða enginn, eins og við á um barnaföt í Bretlandi. Þetta hefur leitt til þess að verslunin hefur í nokkrum mæli flust úr landi sem aftur hefur áhrif á íslenska verslun.
    Hér er því lagt til að færa barnavörur í neðra virðisaukaskattsþrepið. Þannig mundi virðisaukaskattur á þessar vörur lækka úr 25,5% í 7%.
    Það er ótvírætt að með þessari aðgerð væri komið mjög til móts við þennan hóp í samfélaginu sem hefur orðið illa úti í efnahagsþrengingunum. Um leið mundi verslunin styrkjast.