Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 374. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 751  —  374. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir
gegn snjóflóðum og skriðuföllum, með síðari breytingum.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Írisi Bjargmundsdóttur og Hafstein Pálsson frá umhverfisráðuneyti og Sigrúnu Karlsdóttur frá Veðurstofu Íslands.
    Frumvarpið felur í sér viðbót við lög nr. 49/1997 þess efnis að heimilt verði á grundvelli laganna að vinna hættumat vegna eldgosa og að veita fé úr ofanflóðasjóði til þess að framkvæma slíkt hættumat. Einnig er lögð til sú breyting að hættumat skuli ná til þéttbýlis.
    Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að til þess að unnt sé að hefja vinnu við gerð hættumats vegna eldgosa á Íslandi sé annars vegar hægt að veita fé af fjárlögum og hins vegar breyta lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þannig að ofanflóðasjóði verði heimilað að taka þátt í þessum kostnaði. Síðari leiðin var valin við gerð þessa frumvarps og styður nefndin það. Það er jafnframt skilningur nefndarinnar að vinna við slíkt hættumat muni ekki koma niður á verkefnastöðu ofanflóðasjóðs né fjárhagsstöðu hans. Telur nefndin það mikilvægt enda ljóst að afar brýn verkefni liggi fyrir sjóðnum. Einnig ræddi nefndin hvort ekki væri þörf á því að endurskoða í heild sinni löggjöf á þessu sviði með tilliti til breyttrar verkefnastöðu sjóðsins.
    Fram kom við meðferð málsins að markmið hættumats sé að halda samfélagslegu tjóni í lágmarki sem og að vera grundvöllur fyrir mótvægisaðgerðir, sem m.a. fela í sér uppsetningu viðvaranakerfa og gerð viðbragðsáætlana. Ljóst er að gerð hættumats vegna eldgosa er afar viðamikið verkefni sem tekur langan tíma. En með frumvarpinu er lagt upp með að tilgreina þriggja ára verkefni þar sem hugað verði að forgangsröðun verkþátta sem eru grunnur að hættumatinu. Nefndin leggur til þá breytingu að ákvæði frumvarpsins falli úr gildi 31. desember 2014 og verður því gildistími þeirra þrjú ár.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    4. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi og falla úr gildi 31. desember 2014.

    Mörður Árnason, Birgir Ármannsson, Ásmundur Einar Daðason og Árni Johnsen gera fyrirvara vegna ráðstöfunar fjármuna úr ofanflóðasjóði til að greiða kostnað við hættumat vegna eldgosa.
    Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. febrúar 2012.Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Róbert Marshall.Atli Gíslason.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.Ásmundur Einar Daðason,


með fyrirvara.


Árni Johnsen,


með fyrirvara.