Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 439. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 776  —  439. mál.
Svarinnanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um þjóðhagslega arðsemi framkvæmda
í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011–2022.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er þjóðhagsleg arðsemi eftirtalinna framkvæmda í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011–2022:
     a.      Hringvegur, um Lón,
     b.      Hringvegur, um Hornafjarðarfljót,
     c.      Hringvegur, norðaustan Selfoss, brú á Ölfusá,
     d.      Hringvegur, Selfoss – Hveragerði,
     e.      Hringvegur, um Hellisheiði,
     f.      Hringvegur, vestan Litlu kaffistofu,
     g.      Hringvegur, Þingvallavegur – Kollafjörður,
     h.      Hringvegur, Kollafjörður – Hvalfjarðarvegur,
     i.      Reykjanesbraut, sunnan Hafnarfjarðar,
     j.      Arnarnesvegur,
     k.      Álftanesvegur, Hafnarfjarðarvegur – Bessastaðavegur,
     l.      Hringvegur, um Borgarnes,
     m.      Vestfjarðavegur, um Gufudalssveit,
     n.      Vestfjarðavegur, Eiði – Kjálkafjörður,
     o.      Vestfjarðavegur, Dynjandisheiði,
     p.      Skagastrandarvegur, Hringvegur – Laxá,
     q.      Hringvegur, Jökulsá á Fjöllum,
     r.      Norðausturvegur, um Skjálfandafljót og Tjörn,
     s.      Norðausturvegur, Þistilfjörður – Vopnafjörður,
     t.      Suðurfjarðavegur,
     u.      Dettifossvegur vestri – Norðausturvegur,
     v.      Axarvegur, Hringvegur – Hringvegur,
     w.      Hjallahálsgöng,
     x.      Dýrafjarðargöng,
     y.      Norðfjarðargöng?


    Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2012–2022 eru verkefni ekki valin eða þeim forgangsraðað með tilliti til þjóðhagslegrar arðsemi. Í stað þess hefur undanfarin ár verið stuðst við svokallaða markmiðsáætlun þar sem skilgreind hafa verið eftirfarandi framkvæmdamarkmið:
     *      Bundið slitlag á Hringveginn og til þéttbýlisstaða með 200 íbúa eða fleiri.
     *      Tengja saman byggðakjarna með uppbyggðum vegum.
     *      Bundið slitlag á ferðamannaleiðir með mikla umferð.
     *      Endurbyggja brýr á helstu flutningaleiðum.
     *      Breikka vegi, auka flutningsgetu og öryggi.
     *      Endurbyggja vegi þar sem slitlag hefur verið lagt á án undangenginna endurbóta.
     *      Breikka einbreiðar brýr á Hringveginum þar sem er mikil umferð.
    Framangreind röðun eftir framkvæmdamarkmiðum reyndist í aðalatriðum vel á síðasta áætlunartímabili. Til viðbótar þessum markmiðum hafa síðan komið til sögunnar ný markmið:
     *      Aðgreining akstursstefna.
     *      Gerð öryggissvæða við hlið vega.
     *      Breikkun einbreiðra brúa í ríkari mæli en áður.
    Reikningar á þjóðhagslegri arðsemi einstakra framkvæmda hafa stundum verið framkvæmdir í tengslum við samanburð ólíkra valkosta í vegagerð. Nýjustu dæmin eru vegirnir út frá höfuðborginni og Hvalfjarðar- og Vaðlaheiðargöng en þar var reiknuð arðsemi í tengslum við viðræður um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun árið 2010.
    Kostnaður við þessa reikninga var um 3.427.747 millj. kr. án virðisaukaskatts á verðlagi þess tíma, eða að jafnaði 685.550 kr. á hvert einstakt verkefni og tók það 362 tíma eða um 12 mannvikur miðað við eðlilegt magn útseldrar vinnu á hvern starfsmann á ráðgjafastofu. Auk þessa lagði Vegagerðin til allar kostnaðaráætlanir framkvæmdanna auk annarra upplýsinga til handa ráðgjafastofunni. Það gefur því auga leið að reikningar á þjóðhagslegri arðsemi allra verkefna í fyrirspurninni mundi taka langan tíma og kosta mikið fé.
    Meðal markmiða um hagkvæmar samgöngur í stefnumótun samgönguáætlunar 2011–2022 er að stefnt skuli að því að nýir innviðir verði skipulagðir og þeim forgangsraðað með hliðsjón af félagshagfræðilegri greiningu. Er þá vísað til stærri verkefna.
    Við forgangsröðun framkvæmda í vegagerð er félagshagfræðileg greining skýrð sem hefðbundin arðsemisgreining, eða cost-benefit analysis, þar sem annars vegar eru greindir kostnaðar- og tekjuþættir veghaldara og umferðarinnar sem unnt er að verðleggja og hins vegar huglægir þættir sem ekki verður lagt kostnaðarmat á. Sem dæmi um huglæga þætti má nefna fórnarkostnað umhverfisins. Þar er m.a. um að tefla gróður, dýralíf, landslag og útivistarsvæði. Í stað þess að leggja beint kostnaðarmat á þessa þætti eru þeim gefnar einkunnir og þeir vegnir saman við hina beinhörðu útkomu í krónum talið. Það er því ljóst að aðferðin leiðir ekki til hreinnar reikningslegrar niðurstöðu heldur er hún að verulegu leyti huglæg. Eftirfarandi tafla sýnir þá þætti sem koma inn í félagshagfræðilega greiningu:

Matsþáttur Verðmat Huglægt mat
Kostnaður við mannvirki X
Hrakvirði mannvirkis X
Rekstrar- og viðhaldskostnaður mannvirkis X
Ábati og rekstrarkostnaður notenda
*    Tímavirði
– Umferðartafir X
– Stytting leiða X
– Breyttur hraði X
*    Rekstrarkostnaður ökutækja X
*    Þægindi við akstur X
Skattaáhrif og velferðarkostnaður skattlagningar X
Umhverfi, slys og ytri áhrif
*    Loftmengun, NOx, HC, SO2, CO X
*    Loftslagsáhrif CO2 X
*    Slys X
*    Hávaði X
Kostnaður vegna lands X
Efnahagsleg svæðisáhrif X
Lífsgæði borgarsamfélags X
Fórnarkostnaður umhverfis í annarri notkun
*    Gróður X
*    Dýralíf X
*    Landslag X
*    Útivistarsvæði X

    Félagshagfræðileg arðsemisgreining er umfangsmikið verk og dýrt eins og áður hefur komið fram. Það getur því ekki komið til álita að nota þá aðferðafræði nema fyrir umfangsmikil og dýr mannvirki. Unnt er að fá vísbendingu um forgangsröðun allra stærstu verkefna með þessari aðferð. Hún hentar á hinn bóginn enn betur við samanburð á valkostum við úrlausn tiltekinna verkefna. Má þar nefna sem dæmi nýjan veg sem val stendur um að fari fyrir fjörð, yfir fjörð eða með jarðgöngum undir fjörð eins og t.d. í Hvalfirði. Félagshagfræðileg greining eykur á gagnsæi við ákvarðanatöku en tekur ekki valdið af þeim sem það hafa. Hún hjálpar þeim aftur á móti við að taka upplýstar ákvarðanir.
    Til viðbótar má nefna að kostnaðarsöm verkefni þar sem umferð er lítil fá gjarnan lága arðsemiseinkunn nema styttingar vegalengda séu þeim mun meiri. Þetta gerist oft á landsbyggðinni þótt verkefni séu brýn í augum þeirra sem þurfa að komast leiðar sinnar við erfiðar aðstæður. Í ljósi þess að markmiðsröðun framkvæmda hefur reynst vel á undanförnum áratug er eðlilegt að hún verði notuð áfram en þá í tengslum við félagshagfræðilega greiningu á þann hátt sem að framan greinir. Í sóknaráætluninni „Ísland 2020“ er líka miðað við markmiðsáætlun þar sem tillögur eru um að áætlun um uppbyggingu grunnnets samgangna verði lokið fyrir árið 2020.