Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 455. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 784  —  455. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur
um verðtryggð lán íslenskra heimila og fyrirtækja.


     1.      Hve mikið hafa verðtryggð lán íslenskra heimila hækkað síðan 1. febrúar 2009, í krónum annars vegar og prósentum hins vegar, vegna skattahækkana og annarra aukinna álagna af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs?
    Áhrif skattahækkana og gjaldabreytinga ríkisins á vísitölu neysluverðs eru um 1,63% frá febrúar 2009 til 1. janúar 2012 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Verðtryggð lán íslenskra heimila hafa hækkað sem því nemur.
    Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er áætlað að verðtryggð útlán fjármálafyrirtækja til heimila, þar á meðal opinberra fjármálafyrirtækja eins og Íbúðalánasjóðs og Lánasjóðs íslenskra námsmanna, og hjá aðilum eins og Dróma (slitastjórn SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans) og KMIIF (Kaupthing Mortgage Institutional Investor Fund), hafi numið 1.409,6 milljörðum kr. í árslok 2011 (bráðabirgðatala). Áhrif skattahækkana og gjaldabreytinga ríkisins vega því til hækkunar nærfellt 23 milljörðum kr. á tímabilinu. Almenn vörugjöld eru ekki meðtalin þar sem Hagstofan greinir áhrif þeirra ekki með beinum hætti í vísitölunni.

     2.      Hve mikið hafa verðtryggð lán íslenskra fyrirtækja hækkað síðan 1. febrúar 2009, í krónum annars vegar og prósentum hins vegar, vegna skattahækkana og annarra aukinna álagna af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs?

    Áhrif skattahækkana og gjaldabreytinga ríkisins á vísitölu neysluverðs eru um 1,63% frá febrúar 2009 til 1. janúar 2012 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Verðtryggð lán fyrirtækja hækkuðu sem því nemur.
    Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands er áætlað að verðtryggð lán fyrirtækja og eignarhaldsfélaga í bankakerfinu í lok árs 2011 hafi numið um 282,2 milljörðum kr. (bráðabirgðatala) og því nemur hækkunin um 4,6 milljörðum kr. á tímabilinu. Almenn vörugjöld eru ekki meðtalin þar sem Hagstofan greinir þau ekki með beinum hætti í vísitölunni.