Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 814  —  456. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Ólínu Þorvarðardóttur
um dreifikerfi Ríkisútvarpsins ohf.


     1.      Er til áætlun um frekari uppbyggingu FM-dreifikerfis Ríkisútvarpsins á þeim svæðum þar sem sendingar nást illa, t.d. á Vestfjörðum?
    
Ríkisútvarpið hefur gert áætlun um eflingu FM-sendinga á hinni nýju Vestfjarðaleið og verður byrjað á styrkingu í Ísafjarðardjúpi á næstu vikum og mánuðum. Vonast er til að unnt verði að ljúka framkvæmdum á yfirstandandi ári.

     2.      Er til áætlun um að fjölga sendum með svonefndum RDS-merkjasendingum sem gera mögulega sjálfvirka skiptingu milli tíðna? Ef svo er, hvenær er áætlað að þeir sendar sem ná til þjóðvega verði fullbúnir?
    
Útsending Ríkisútvarpsins með RDS-tækni nær nú til þjóðvegar 1, en Vestfirðir eru eftir. Fyrirhugaðar FM-úrbætur Ríkisútvarpsins á Vestfjarðaleið (sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar) munu fela í sér RDS-væðingu á sama tíma.
    Langbylgjan hefur sambærilega eiginleika við RDS að því leyti að samfelld viðtaka í bifreiðum er möguleg langar vegalengdir, án þess að skipt sé um tíðni. Þær sendingar nást vel um alla Vestfirði.

     3.      Hver er stefna Ríkisútvarpsins varðandi hljóðvarp í jarðgöngum?
    
Ríkisútvarpið hefur litið þannig á að hljóðvarp í jarðgöngum sé á ábyrgð og kostnað framkvæmdaraðila viðkomandi ganga og hefur stofnunin verið tilbúin til tæknilegrar ráðgjafar þar um. Þannig var það varðandi Hvalfjarðargöng.

     4.      Eru til markmið um gæðastefnu Ríkisútvarpsins í dreifikerfinu?
    
Ríkisútvarpið hefur sett sér vinnureglur við viðhald á sendakerfinu og einnig er öryggishandbók fylgt.

     5.      Fara fram reglulegar mælingar og gæðaprófanir á dreifikerfinu? Ef svo er, hvar eru niðurstöður slíkra mælinga birtar?
    
Mælingar og gæðaprófanir hafa hingað til fyrst og fremst farið fram að einhverju gefnu tilefni, svo sem vegna kvartana eða fyrirhugaðra úrbóta og hafa verið notaðar fyrst og fremst innan húss hjá Ríkisútvarpinu.

     6.      Hvaða ákvæði í þjónustusamningi skv. 3. gr. laga nr. 6/2007 eiga við um dreifikerfið og hvernig teljast þau hafa verið uppfyllt?
    
Helst er það liður 2 sem á við og telur Ríkisútvarpið sig hafa uppfyllt hann hingað til, en alltaf má þó gera betur.

     7.      Hefur Ríkisútvarpið leitað eftir leyfi og aðstöðu til að reka útvarps- og sjónvarpssenda í ratsjárstöðvunum á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli í því skyni að ná til næstu miða og uppfylla þar með ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007?
    
Nei, en ratsjárstöðvarnar eru á lista dreifikerfisins yfir mögulega hýsingarstaði fyrir úrbætur þannig að Ríkisútvarpið geti betur uppfyllt ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2007.

     8.      Hefur Ríkisútvarpið ohf. gert áætlun um endurnýjun dreifikerfis sjónvarps, sem fyrirséð er að verði úrelt á næstu árum, og ef svo er, hvað felur hún í sér og hefur verið mörkuð stefna í samskiptaáætlun innanríkisráðuneytis hvað það varðar?

    Ríkisútvarpið hefur unnið að slíkri áætlun um nokkurt skeið og er að þróa hana áfram. Markmiðið er sama þekjun og í núverandi kerfi, það er að a.m.k. 99,9% landsmanna nái stafrænum sendingum í framtíðinni.