Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 6. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Nr. 7/140.

Þingskjal 859  —  6. mál.


Þingsályktun

um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.


    Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 og skýrsla þar um sem vísað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fari í eftirfarandi ferli:
     a.      Með vísan til sameiginlegrar yfirlýsingar allra fulltrúa í stjórnlagaráði í bréfi til forseta Alþingis, dags. 29. júlí 2011, þar sem þeir lýsa sig reiðubúna til að koma aftur að málinu ef fram koma breytingartillögur við frumvarp ráðsins, verði stjórnlagaráð, sem skipað var af Alþingi 24. mars 2011, kallað saman að nýju til sérstaks fjögurra daga fundar í byrjun mars til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu, sem og um aðra þætti í frumvarpinu sem ráðinu þykir þurfa. Verði það niðurstaða stjórnlagaráðs að tilefni sé til að gera breytingar á áður fram komnum tillögum skal ráðið skila breytingartillögum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis eigi síðar en 12. mars 2012.
                      Stjórnlagaráð skal á fundi sínum starfa samkvæmt þeim starfsreglum sem það hefur áður samþykkt, eftir því sem við getur átt, og skal kjör í embætti ráðsins, þ.e. formanns, varaformanns og nefndarformanna og varaformanna nefnda, halda sér, sem og kjör annarra ráðsmanna í nefndir. Fulltrúum í stjórnlagaráði skal greidd þóknun fyrir störf sín á framangreindum fundi sem samsvarar hlutfallslega þeim launum sem þeir nutu á starfstíma stjórnlagaráðs. Kostnaður við fundinn og þóknun til fulltrúa í ráðinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Undirbúningur og boðun fulltrúa stjórnlagaráðs til vinnufundarins verði í höndum skrifstofu Alþingis sem m.a. sjái ráðinu fyrir fundaraðstöðu og annarri nauðsynlegri aðstoð, þar á meðal starfsmönnum.
     b.      Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geri tillögu til Alþingis um að tillögurnar í heild, með breytingartillögum stjórnlagaráðs ef við á, ásamt spurningum um helstu álitaefni, verði bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Þingsályktunartillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu komi til lokaafgreiðslu Alþingis eigi síðar en 29. mars 2012 og verði hún samþykkt skal þjóðaratkvæðagreiðsla samkvæmt tillögunni fara fram 30. júní 2012 samhliða forsetakjöri.
     c.      Alþingi skal standa fyrir víðtækri kynningu á efni þeirra tillagna og spurninga sem bornar verða upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Samþykkt á Alþingi 22. febrúar 2012.