Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 556. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 860  —  556. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2011.



1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2011 bar hæst umræðu um aðgerð NATO í Afganistan sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Verkefnið í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Mikil umræða skapaðist út frá þeirri ákvörðun sem tekin var á leiðtogafundi NATO í Lissabon í nóvember 2010 að árið 2014 verði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið. Markmiðið með yfirfærslunni er að Afganir geti sjálfir tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins bæði hvað varðar her og lögreglu. Nefndarmenn lögðu áherslu á mikilvægi þess að málefni Afganistans yrðu áfram forgangsverkefni ef þörf krefði eftir að yfirfærslu þeirra frá NATO til Afgana hefði átt sér stað og nauðsynlegt sé að veita aðstoð fram yfir skipulögð lok hernaðar árið 2014.
    Jafnframt fór fram umræða um ákvarðanir leiðtogafundarins í Lissabon og útfærslur á þeim, auk nýrrar grunnstefnu bandalagsins til næstu 10 ára sem samþykkt var á fundinum. Þetta er í þriðja sinn sem bandalagsríki NATO koma sér saman um grunnstefnu frá stofnun samtakanna árið 1949 og er markmið hennar að gera störf NATO markvissari, hagkvæmari og auka samvinnu við alþjóðastofnanir og ríki utan bandalagsins. Í umræðum um stefnuna var m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að NATO starfi nánar með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu. Enn fremur var rætt um mikilvægi NATO og ESB sem stofnana sem eiga 21 sameiginlegt aðildarríki og búa yfir getu og úrræðum sem stutt geta hvor aðra. Nýjar ógnir og áskoranir blasa við NATO og má segja að ný grunnstefna stuðli að því að NATO verði eins öflugt og fyrr til að tryggja frið og öryggi en með nútímalegri leiðum.
    Þá ber að nefna umræðu um samskipti NATO við Rússland sem var að vanda áberandi á árinu, ekki síst í ljósi niðurstöðu leiðtogafundarins í Lissabon, þar sem NATO og Rússar tóku höndum saman um margvíslegt samstarf um sameiginlega hagsmuni og ber þá helst að nefna mögulega samvinnu Atlantshafsbandalagsins og Rússlands á sviði eldflaugavarna fyrir Evrópu. Vonast er til að samvinna á því viðkvæma sviði geti styrkt tengslin og dregið úr tortryggni beggja aðila. Samskipti NATO og Rússlands kólnuðu árið 2008 í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Georgíu í ágúst það ár en á árunum 2010–2011 rofaði til í samskiptum NATO og Rússlands. Þá er horft til þess að í nýrri grunnstefnu NATO segir skýrt að Atlantshafsbandalagið sé ekki ógn við Rússland. Í kjölfarið var aukin umræða um mikilvægi þess að stuðla að skipulögðu samstarfi gegn sameiginlegri öryggisógn eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, kjarnorkuvopnun, sjóránum og tölvuóöryggi.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á árinu má nefna aðgerðir NATO í Líbíu, með áherslu á að styðja við bakið á verðandi lýðræðisríkjum á svæðinu. Tíðrætt var um málefni Miðausturlanda og Norður-Afríku og hvernig NATO-þingið geti veitt aðstoð við uppbyggingu lýðræðis. Þá fordæmdu aðildarríkin stjórnvöld á svæðinu fyrir að beita ofbeldi og harðræði gegn friðsömum mótmælendum. Jafnframt ber að nefna umræðu um kjarnorkuöryggi, málefni Hvíta-Rússlands og hlutverk NATO varðandi tölvuöryggi með áherslu á upplýsinga- og þjóðaröryggi.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum: stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra og vinna um þær skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður- Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO- þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 66 þingmenn frá 14 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2011 Björgvin G. Sigurðsson, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður E. Árnadóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn voru Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Íslandsdeildin hélt fjóra undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir 2011:
Stjórnarnefnd: Björgvin G. Sigurðsson
    Til vara: Ragnheiður E. Árnadóttir
Stjórnmálanefnd: Björgvin G. Sigurðsson
    Til vara: Skúli Helgason
Varnar- og öryggismálanefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir
    Til vara: Birgir Ármannsson
Nefnd um borgaralegt öryggi: Birgitta Jónsdóttir
    Til vara: Ólína Þorvarðardóttir
Efnahagsnefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir
    Til vara: Birgir Ármannsson
Vísinda- og tækninefnd: Björgvin G. Sigurðsson
    Til vara: Skúli Helgason
    Á ársfundi NATO-þingsins árið 2010 var Ragnheiður E. Árnadóttir kjörin varaformaður annarrar undirnefndar varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins, undirnefndar um öryggismál framtíðar og varnargetu (Future Security and Defence Capabilities). Hún var endurkjörin varaformaður nefndarinnar á ársfundi NATO-þingsins í Búkarest 2011.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars ár hvert. Þá sækja fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2011 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi á Asóreyjum, vorfundi í Varna og ársfundi í Varsjá. Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.

Febrúarfundir.
    Dagana 20.–22. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru niðurstöður leiðtogafundar NATO sem haldinn var í Lissabon í nóvember 2010 og fyrirhugaðar umbreytingar í Afganistan. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu Björgvin G. Sigurðsson, formaður, og Ragnheiður E. Árnadóttir fundina, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Á meðal fyrirlesara var Martin Howard, aðstoðarframkvæmdastjóri framkvæmdasviðs NATO og ráðgjafi framkvæmdastjóra varðandi stefnumótun og stjórnun hernaðaraðgerða NATO í Afganistan og víðar. Hann gerði grein fyrir framgangi helstu verkefna NATO og áhersluatriðum þeirra. Howard sagði NATO standa frammi fyrir erfiðum og krefjandi verkefnum og skýrði m.a. frá framvindu mála í Afganistan og helstu áskorunum sem blasa við í tengslum við það stóra verkefni. Unnið sé út frá þeirri ákvörðun sem tekin var á leiðtogafundinum í Lissabon að 2014 verði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið. Markmiðið sé að Afganir geti sjálfir tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins bæði hvað varðar her og lögreglu. Markmiðið sé skýrt en tíminn verði að leiða í ljós hver framvindan verði.
    William Caldwell, hershöfðingi og yfirmaður þjálfunar í Afganistan, kynnti fyrir fundargestum hvernig skipulagningu, framkvæmd og umfangi þjálfunar þjóðaröryggissveita Afganistans (ANSF) væri háttað. Undir hans stjórn er megináhersla lögð á að auka læsi hermannanna og lögregluþjóna öryggissveitanna. Þegar Caldwell tók við starfi sínu fyrir um ári síðan var læsi hermanna og lögregluþjóna um 14% og er ljóst að það hafði mikil áhrif á bæði hraða og dýpt þjálfunarinnar. Hann kom því á fót sérstökum námskeiðum þar sem kenndur var lestur auk áherslu á tungumál. Þá ræddi Caldwell um mikilvægi leiðtogaþjálfunar auk fræðslu um siðferði og spillingu. Þá benti hann á jákvæðar breytingar sem átt hafa sér stað, m.a. að innanríkisráðherra Afganistans hefur sett sér markmið til að stuðla að úrbótum í landinu er varða aukið aðgengi að menntun, bættum lífskjörum, viðunandi vinnuaðstæðum og réttindum minnihlutahópa. Með þessi markmið að leiðarljósi er stigið stórt skref í átt að umbótum og styrkari innviðum landsins. Þá hefur varnarmálaráðuneyti Afganistans gert talsverðar breytingar til auka ábyrgð, trúverðugleika, skilvirkni og öryggi. Caldwell sagði að þrátt fyrir að jákvæð skref hafi verið stigin sé nauðsynlegt að fjárfesta enn frekar í menntun afgönsku þjóðarinnar til að styrkja brotna innviði samfélagsins.
    Dirk Brengelmann, aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmála- og öryggissviðs NATO og ráðgjafi framkvæmdastjóra um stjórnmál og samstarf við ríki utan bandalagsins, flutti fyrirlestur um stjórnmálastefnu NATO í ljósi nýrrar grunnstefnu bandalagsins. Brengelmann sagði nýju grunnstefnuna m.a. leggja áherslu á að gera störf NATO markvissari, hagkvæmari og auka samvinnu við alþjóðastofnanir og ríki utan bandalagsins. Mikilvægt sé að NATO starfi nánar en áður með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu. Þá ræddi Patrick Auroy, aðstoðarframkvæmdastjóri fjárfestingasviðs NATO í varnarmálum, um eldflaugavarnakerfi bandalagsins. Hann sagði niðurstöður leiðtogafundarins í Lissabon, þar sem NATO og Rússar tóku höndum saman um margvíslegt samstarf um sameiginlega hagsmuni, afar mikilvægar. Þegar uppbygging eldflaugavarnakerfis bandalagsríkjanna sé skoðuð og þátttaka Rússa í henni sé það grundvallaratriði að samband NATO við Rússland byggist á gagnkvæmu trausti. Þá tóku tveir sendiherrar hjá NATO, þeir Martin Erdmann frá Þýskalandi og Linas Linkevicius frá Litháen auk John Heffern, varafastafulltrúa Bandaríkjanna hjá NATO, þátt í pallborðsumræðu við þingmenn.
    Enn fremur lýsti forseti NATO-þingsins, Karl A. Lamers, yfir vandlætingu á því ofbeldi sem beitt hefur verið í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku síðustu daga til að bæla niður friðsamleg mótmæli almennings og hvatti stjórnvöld á svæðinu til að láta af því. Hann sagði að það að búa við lýðræðislega stjórnarhætti og tjáningarfrelsi vera grundvallarréttindi almennings sem beri að virða. Lamers sagði jafnframt að NATO-þingið mundi fylgjast náið með þróun mála á svæðinu til að geta metið og brugðist við ef ákall um aðstoð bærist við lýðræðisumbætur. Ástandið yrði rætt á sérstakri málstofu um Miðjarðarhafssvæðið og Mið- Austurlönd sem fyrirhuguð var í lok febrúar, á stjórnarnefndarfundi NATO-þingsins í byrjun apríl og vorþingi NATO-þingsins í lok maí 2011.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 21. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Hann ræddi sérstaklega um niðurstöður leiðtogafundar NATO í Lissabon með áherslu á aðgerðir NATO í Afganistan og eldflaugavarnir bandalagsins. Þá sagði hann mikilvægt að NATO bætti samskipti sín við aðrar alþjóðlegar stofnanir. Rasmussen ræddi jafnframt um stofnun nýrrar deildar innan alþjóðadeildar NATO í ágúst 2010, um nýjar öryggisógnir (ESCD) og sagði hana vera skýrt dæmi um samhæfingu í starfsemi NATO á þeim sviðum sem í auknum mæli hefur áhrif á öryggismál bandalagsríkjanna, þ.e. hryðjuverk, netárásir, ógnir við orkuöryggi og útbreiðslu gereyðingarvopna.
    Forseti NATO-þingsins, Karl A. Lamers, sagðist leggja áherslu á bætt og aukin samskipti við Evrópusambandið og Rússland og aukinnar meðvitundar almennings bandalagsríkjanna um hlutverk NATO. Á meðal mála sem komu upp í umræðunni sem á eftir fylgdi voru uppreisnir almennings í Mið-Austurlöndum, samskipti NATO og Evrópusambandsins, málefni kvenna í Afganistan með áherslu á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, samband NATO og Rússlands og netöryggi.
    Á lokadegi febrúarfundanna heimsóttu NATO-þingmenn SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og áttu fund með háttsettum embættismönnum. Þar sem m.a. var rætt um umfangsmiklar aðgerðir NATO í Afganistan og framkvæmd yfirfærslu öryggismála landsins í hendur afganskra öryggissveita árið 2014. Manfred Lange, hershöfðingi og starfsmannastjóri aðalherstöðvanna, fræddi nefndarmenn um starfsemina og svaraði spurningum. Við lok fundarins gagnrýndi forseti NATO-þingsins harðlega stjórnvöld í Líbíu fyrir að beita ofbeldi þegna sína sem mótmæla friðsamlega.

Marsfundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Ponta Delgada á Asóreyjum. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru niðurstöður leiðtogafundar NATO sem haldinn var í Lissabon í nóvember 2010, samskipti NATO-þingsins og rússneska þingsins, kynjasjónarmið í öryggismálum og ástandið í Norður-Afríku og Miðausturlöndum. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Björgvin G. Sigurðsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Karl A. Lamers, forseti NATO-þingsins, opnaði fundinn með mínútu þögn til minningar um fórnarlömb náttúruhamfaranna í Japan. Þá bauð Carlos César, borgarstjóri Asóreyja, nefndarmenn velkomna og benti á táknræna staðsetning Asóreyja í miðju Atlantshafinu, mitt á milli Evrópu og N-Ameríku. Því næst hélt Pedro Gomes Barbosa, prófessor við Lissabonháskóla, erindi um ástandið og þróun mála í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Í máli sínu lagði Barbosa áherslu á mikilvægi þess að skoða ástandið út frá trúarbrögðum og sögulegu samhengi. Hann lagði til að vestræn stjórnvöld beindu aðstoð sinni að félagslegri og efnahagslegri þróun en það væri besta leiðin til að vinna gegn áhrifum bókstafstrúar.
    Kynjasjónarmið í öryggismálum voru tekin til umræðu en frá árinu 2007 hafa nokkrir fundir um þau mál farið fram á vor- og ársfundum NATO-þingsins. Þessir fundir hafa verið skipulagðir sem hliðarviðburðir að frumkvæði og á kostnað einstakra landsdeilda. Forseti þingsins fór yfir þróun þessara mála hjá NATO-þinginu og kynnti eftirfarandi tillögur til að auka vægi kynjasjónarmiða í starfseminni á árinu 2011. Í fyrsta lagi þátttöku í NATO- ráðstefnu um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, í öðru lagi innleiðingu ályktunar nr. 1325 í starf nefndar NATO-þingsins um borgaralegt öryggi og í þriðja lagi umræðu um kynjasjónarmið á Rose-Roth málstofu um Afganistan sem haldin verður í London í nóvember 2011. Þá voru nefndarmenn sammála um að kynjasjónarmið í öryggismálum væru mikilvægt forgangsverkefni fyrir NATO-þingið og að það ætti að endurspeglast í dagskrá ársfundar NATO-þingsins í Búkarest í október 2011, auk þess sem nefndarformenn voru hvattir til að taka tillit til þeirra við vinnu nefndanna.
    Enn fremur fór Lamers yfir fyrirhugaða starfsemi NATO-þingsins á árinu 2011 og sagði hana hafa verið lagaða að niðurstöðum leiðtogafundarins í Lissabon og ástandinu í Mið- Austurlöndum og Norður-Afríku. Fyrir vorþingið í Varna yrði tekið saman upplýsingaskjal um ákvarðanir leiðtogafundarins í Lissabon og útfærslur á þeim. Þá lagði hann til að skipulögð yrði rannsóknarheimsókn til Egyptalands og Túnis á árinu. Tekin var ákvörðun um að málefni flóttamanna yrði sett á dagskrá ársfundarins í Búkarest og Japönum yrði boðin þátttaka á vorþinginu í Varna til að ræða afleiðingar af kjarnorkuslyssins í Fukushima í febrúar 2011 og þann lærdóm sem draga megi af því. Jafnframt samþykkti nefndin með 14 atkvæðum gegn 7 að taka þátt í kosningaeftirliti í Makedóníu. Danski þingmaðurinn John Dyrby Paulsen vakti athygli nefndarmanna á bréfi sem hann sendi framkvæmdastjóra NATO-þingsins þar sem hann lagði til að þingið veitti vaxandi ógn sjóræningja meiri athygli.
    Rætt var um skipulagningu árlegra febrúarfunda sem haldnir eru í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og öryggis- og varnarmálanefndar. Nefndarmenn voru sammála um að láta framkvæmdastjóra NATO-þingsins eftir að koma með tillögu að breytingum á skipulagningu fundarins árið 2012 í ljósi umræðna nefndarmanna. Þá kynnti Pierre Claude Nolin, kanadíski öldungadeildarþingmaðurinn og formaður vinnuhóps um endurbætur á NATO-þinginu, tillögur fundar hópsins sem haldinn var í febrúar 2011. Nefndarmenn studdu tillögurnar sem m.a. fjölluðu um framlög sendinefnda sem ekki eru aðilar að NATO-þinginu, stefnumótun varðandi hliðaratburði í tengslum við þingin og leiðbeiningar um dreifingu óopinberra gagna í tengslum við fundi NATO-þingsins.
    Sérstakur dagskrárliður fjallaði um tillögur að því hvernig NATO-þingið geti veitt aðstoð við uppbyggingu lýðræðis í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Í umræðunum kom fram að nefndarmenn töldu þróun mála á svæðinu forgangsverkefni fyrir þingið og að hefja eigi undirbúning að rannsóknarheimsókn í þennan heimshluta með auðmýkt að leiðarljósi.
    Samskipti NATO-þingsins við Hvíta-Rússland voru rædd. Lamers fór yfir stöðu mála og sagði að síðast þegar málefnið hafi verið rætt, fyrir ári síðan, hafi nefndin ákveðið að gera engar breytingar á samskiptum þingsins við landið, heldur fylgjast náið með þróun stjórnmálaástandsins. Síðan þá hafi ástandið versnað í kjölfar gallaðra forsetakosninga í desember 2010 og að stjórnarandstöðan sé beitt aukinni kúgun. Nefndarmenn voru sammála um að málið yrði tekið fyrir í skýrslu stjórnmálanefndar þingsins og endurskoðað fljótlega.
    Jafnframt var rætt um þátttöku Rússlands í starfsemi þingsins. Í kjölfar átaka Rússlands og Georgíu í ágúst 2008 var samstaða innan NATO-þingsins um að ekki væri verjandi að halda áfram óbreyttu samstarfi við Rússa en rússneska þingið hefur aukaaðild að NATO- þinginu. Á ársfundi NATO-þingsins í Valencia í nóvember 2008 tók stjórnarnefndin ákvörðun um að takmarka þátttöku rússneskra þingmanna í fundum og ráðstefnum NATO-þingsins. Á stjórnarnefndarfundinum í mars 2010 í Memphis var samstarfið við rússneska þingið til umræðu og var ákveðið að leyfa rússneskum þingmönnum að taka þátt í svokölluðum Rose Roth ráðstefnum NATO-þingsins auk þess að sækja vorfundi og ársfundi. Rússneskir þingmenn hafa enn ekki heimild til þátttöku í nefndarfundum utan vor- og ársfundar. Lemars lagði fram tillögu um málið sem var samþykkt með 17 atkvæðum gegn 5. Helstu atriði tillögunnar voru þau að formaður nefndar NATO-þingsins og formaður þeirrar nefndar sem heimsótt er í viðkomandi landi geti ákveðið að heimila þátttöku frá Rússlandi í viðkomandi heimsókn. Formenn nefnda og undirnefnda NATO-þingsins geta óskað eftir leiðsögn frá stjórnarnefnd NATO-þingsins við ákvarðanatöku um málið. Þetta fyrirkomulag yrði endurskoðað að ári. Þá mun Lamers leita eftir samþykki rússnesku landsdeildarinnar á fyrirkomulaginu í heimsókn sinni til Rússlands seinni hluta árs 2011. Stærð sendinefnda frá Rússlandi yrði áfram að hámarki tíu fulltrúar.
    Framkvæmdastjóri NATO-þingsins fór yfir skýrslu um fjármál ársins 2010 og var hún samþykkt af nefndarmönnum. Að lokum kynnti Lamers drög að yfirlýsingu stjórnarnefndar NATO-þingsins um aðgerðir NATO í Líbíu og var hún samþykkt eftir minni háttar orðalagsbreytingar. Í yfirlýsingunni fagnar stjórnarnefndin samþykkt NATO um yfirtöku stjórnunar bandalagsins á hernaðaraðgerðum í Líbíu. Hernaðaraðgerðunum sé framfylgt í umboði ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem viðbrögð við víðtækum og kerfisbundnum árásum á óbreytta borgara í Líbíu.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Varna dagana 27.–30. maí. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Ragnheiður E. Árnadóttir, formaður, og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Um 250 þingmenn sóttu fundinn frá 28 aðildarríkjum NATO.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust fór fram fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands. Þar fluttu Todor Churov, fastafulltrúi Búlgaríu gagnvart NATO, og Dmitry Rogozin, fastafulltrúi Rússlands gagnvart NATO, framsöguerindi um samstarf NATO og Rússlands eftir leiðtogafundinn í Lissabon í nóvember 2010 og svöruðu spurningum nefndarmanna. Churov sagði mikilvægar ákvarðanir hafa verið teknar á fundinum í Lissabon sem stuðla að jákvæðari samskiptum milli NATO og Rússlands. Í því sambandi nefndi hann sérstaklega samstarf um breytt skotflaugavarnakerfi og baráttuna gegn sameiginlegri ógn. Í máli sínu gagnrýndi Rogozin harðlega hvernig fyrirhugað samstarf Rússa og bandalagsþjóðanna varðandi nýtt skotflaugavarnakerfi í Evrópu hefði verið sett fram í Lissabon. Hann sagði að í raun væri um evrópskt kerfi að ræða sem stýrt væri af Bandaríkjamönnum en hann teldi rétt að tengja nýja kerfið við það rússneska sem væri nú þegar til staðar. Þá vonaðist hann til að Evrópubúar skýldu sér ekki bak við Bandaríkjamenn heldur tækju virkan þátt í umræðum um málið.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2011. Aukin áhersla verður lögð á málefni Miðausturlanda og Norður-Afríku, kjarnorkuöryggi, málefni flóttamanna, ógn sjóræningja og málefni Hvíta-Rússlands og Georgíu. Áframhaldandi áhersla verður lögð á verkefni NATO í Afganistan auk þess sem niðurstöður leiðtogafundarins í Lissabon verða ræddar í öllum málefnanefndum NATO-þingsins. Þá hefur efri deild þingsins í Indónesíu óskað eftir áheyrnaraðild að NATO-þinginu og verður það rætt nánar eftir að ósk hefur einnig borist frá neðri deild þingsins. Enn fremur óskaði forseti NATO-þingsins, Karl Lamers, Serbíu til hamingju með handtökuna á fyrrverandi yfirmanni herliðs Bosníu-Serba, Ratko Mladic.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var einkum fjallað um ákvarðanir fyrrnefnds leiðtogafundar í Lissabon, aðgerðir NATO í Afganistan, málefni Hvíta-Rússlands og hagvöxt í Kína. Vísinda- og tækninefnd þingsins ræddi m.a. um líf- og efnafræðilegar ógnir, vatns- og matvælaöryggi og málefni Afganistans. Þá fjallaði efnahagsnefndin um þann vanda sem fylgdi erfiðu efnahagslegu umhverfi, hagkerfið á Balkanskaga í ljósi alþjóða- fjármálakreppunnar, efnahagslega uppbyggingu í Afganistan og félagslegar og efnahagslegar rætur uppreisnanna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Ragnheiður E. Árnadóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar og spurði Alanoud Al Aharekh, sérfræðing um málefni Miðausturlanda, meðal annars um hlut kvenna í uppreisnunum í Líbíu og annars staðar í Norður-Afríku. Aharekh sagði mikla þátttöku kvenna í uppreisnunum táknmynd þeirrar undiröldu sem er í kvenfrelsishreyfingum í heimshlutanum.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um þrjár skýrslur á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um umskipti í Afganistan, önnur um skotflaugavarnakerfi og framtíðarsýn NATO og sú þriðja fjallaði um aðgerðir NATO í ljósi nýrrar grunnstefnu bandalagsins og Evrópusambandið sem mótspilara. Ragnheiður E. Árnadóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar og spurði m.a. John Koenig, stjórnmálaráðgjafa yfirmanns aðgerða NATO í Líbíu (Operation Unified Protector), hvenær búast mætti við að aðgerðunum í Líbíu lyki og ef aðgerðir NATO yrðu farsællega til lykta leiddar hvort hægt væri að treysta því að ástandið í landinu yrði betra en áður fyrir íbúa þess? Þá spurði Ragnheiður um stöðu Gaddafis og hvort Koenig teldi nauðsynlegt að koma honum burt úr Líbíu? Koenig svaraði því til að reynt væri að hraða aðgerðum og ná settu marki á sem stystum tíma út frá umboði ályktunar Sameinuðu þjóðanna númer 1973. Mikið hefði nú þegar áunnist fyrir íbúa Líbíu með aðgerðum NATO en verkinu væri ekki lokið og óvissuþættir of margir til að mögulegt væri að segja til um hvenær því lyki. Hann sagði jákvæð teikn á lofti sem gæfu ástæðu til bjartsýni og sagðist þess viss að lífskjör íbúa Líbíu mundu batna.
    Nefnd um borgaralegt öryggi fjallaði á fundi sínum m.a. um ástandið í Afganistan, málefni Úkraínu og hlutverk NATO varðandi tölvuöryggi með áherslu á upplýsinga- og þjóðaröryggi. Drög að skýrslum um umræðuefnin voru kynnt nefndarmönnum af skýrsluhöfundum. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar og benti á mikilvægi þess þegar rætt sé um net- og tölvuöryggi að greint sé á milli svokallaðra tölvuhakkara og afhjúpenda. Þeir fyrrnefndu brjótist inn í tölvukerfi og geri jafnvel árásir á netsvæði en afhjúpendur sendi frá sé upplýsingar um ákveðin mál. Birgitta sagði varasamt að rugla saman þessum tveimur ólíku hugtökum eins og gerst hafi í umræðum um drög að skýrslu nefndarinnar um upplýsinga- og þjóðaröryggi. Í drögum að skýrslu nefndarinnar kom m.a. fram að NATO hefði mikilvægu hlutverki að gegna varðandi tölvuöryggi, ekki síst í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar og þekkingar sem bandalagsríkin búa yfir varðandi upplýsingatækni og samskipti.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 30. maí. Forseti NATO-þingsins setti þingfundinn og ræddi m.a. uppreisnirnar í Norður-Afríku og Miðausturlöndum og fagnaði lýðræðislegu markmiði þeirra og sagði NATO-þingið tilbúið til aðstoðar ef þess væri óskað. Þá lagði Lamers áherslu á mikilvægi batnandi samskipta NATO og Rússlands. Einnig ávörpuðu þingið Tsetska Tsacheva, forseti búlgarska þingsins, Boyko Borissov, forsætisráðherra Búlgaríu, Masataka Suzuki, sérstakur ráðgjafi formanns öryggismálaráðs Japans, og aðmíráll Samuel Locklear III, yfirmaður herdeilda NATO (Allied Joint Force Command Naples).
    Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði þingfundinn. Rasmussen fór m.a. yfir helstu niðurstöður leiðtogafundar NATO í Lissabon og aðgerðir bandalagsins í Líbíu. Framkvæmdastjórinn sagði ljóst að vandamál Líbíu yrðu ekki eingöngu leyst með hervaldi en NATO mundi beita þrýstingi þar til liðsmenn Gaddafis drægju herlið sitt til baka. Hann sagði of snemmt að draga lærdóm af aðgerðunum í Líbíu en vildi benda á þrjú atriði sem skiptu sköpum varðandi verkefnið. Í fyrsta lagi nefndi hann mikilvægi þess að komast að samkomulagi um rétta stefnu. Með nýrri grunnstefnu NATO hefðu bandalagsþjóðirnar 28 lagt sitt til sameiginlegrar stefnumótunar og komist að samhljóða áliti sem væri starfsemi NATO nauðsynlegt. Í öðru lagi nefndi hann getu bandalagsins og lýsti í því sambandi yfir áhyggjum af lækkandi fjárframlögum til varnarmála í mörgum bandalagsríkjum Evrópu. Í þriðja lagi sagði hann skuldbindingu nauðsynlega og áréttaði að í aðgerðunum í Líbíu hefði hana ekki skort þó að stundum hefði verið barningur með hin tvö atriðin. Auk þess fjallaði Rasmussen um aðgerðir NATO í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands og fjárhagsáætlun NATO.
    Í fyrirspurnatíma að afloknu ávarpi framkvæmdastjórans tók Ragnheiður E. Árnadóttir til máls og lýsti yfir vonbrigðum með að ekki væri minnst á málefni norðurslóða í nýrri grunnstefnu NATO og spurði framkvæmdastjórann hver stefna NATO væri gagnvart svæðinu. Rasmussen svaraði því til að ástæða þess að norðurskautssvæðið væri ekki nefnt í grunnstefnu NATO fæli ekki í sér áhugaleysi heldur væri það látið ógert til að koma í veg fyrir þann misskilning að hervæðing ætti sér stað á svæðinu.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Búkarest dagana 8.–11. október. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Björgvin G. Sigurðsson, formaður, Ragnheiður E. Árnadóttir og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Rúmlega 300 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar yfir tuttugu annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust var haldinn fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands þar sem rætt var um samskipti og samstarf NATO og Rússlands. Á fundinum hélt fyrsti varaforseti afganska þingsins, Khalid A. Pashtoon, erindi um öryggismál og stjórnmálaástandið í Afganistan og svaraði spurningum nefndarmanna. Pashtoon sagði Indland mikilvægan bandamann Afganistans og lagði áherslu á að ef ríki vilja rétta Afganistan hjálparhönd sé nauðsynlegt að horfa til Pakistans. Þá sagði hann Rússa nú þegar þátttakendur í ýmsum verkefnum í landinu.
    Við setningu þingsins lagði Karl Lamers, forseti NATO-þingsins, áherslu á mikilvægi þess að málefni Afganistans yrðu áfram forgangsverkefni ef þörf krefði, eftir að yfirfærsla á öryggismálum frá NATO til Afgana hefði átt sér stað árið 2014. Þá ræddi Lamers um ástandið í Miðausturlöndum og Norður-Afríku og hvatti aðildarríkin til að nýta reynslu sína til að styðja við bakið á verðandi lýðræðisríkjum á svæðinu. Jafnframt fagnaði Lamers samkomulagi Rúmena og Bandaríkjamanna um staðsetningu hluta eldflaugavarnakerfis í Rúmeníu. Hann sagði það mikilvægt framlag til öryggismála fyrir aðildarríkin og lagði áherslu á að Rússum stafaði ekki ógn af eldflaugavarnakerfinu. Jafnframt beindi hann orðum sínum til ríkisstjórna aðildarríkjanna og sagði brýnt að niðurskurður í fjármálum græfi ekki undan grundvallarskilyrðum varna og sagði mikilvægt að finna leiðir til að nýta betur það fjármagn sem veitt er til öryggis- og varnarmála.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var einkum fjallað um aðgerðir NATO í Afganistan, málefni Hvíta-Rússlands, hagvöxt í Kína og málefni Miðausturlanda og Norður- Afríku. Danski þingmaðurinn John Dyrby Paulsen var höfundur skýrslu um málefni Afganistans og spurði Björgvin G. Sigurðsson hann um þróun mála varðandi upprætingu hryðjuverkastarfsemi í Pakistan og nágrannaríkjum Afganistans og hvernig gengi að ná utan um starfsemina. Paulsen lagði áherslu á nauðsyn þess að horft sé til nágrannaríkja Afganistans og bættra samskipta á svæðinu eigi að vera mögulegt að koma á friði. Illa hafi gengið að ná utan um hryðjuverkastarfsemi á svæðinu en með aukinni meðvitund alþjóðasamfélagsins á umfangi vandans sé von til aukins árangurs. Í ályktun nefndarinnar um málefni Miðausturlanda og Norður-Afríku eru stjórnvöld fordæmd fyrir að beita ofbeldi og harðræði gegn friðsömum mótmælendum og eru Líbía og Sýrland sérstaklega nefnd í því sambandi.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um lokadrög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um umskipti í Afganistan, önnur um skotflaugavarnakerfi og framtíðarsýn NATO og sú þriðja fjallaði um aðgerðir NATO í ljósi nýrrar grunnstefnu bandalagsins og Evrópusambandið sem mótspilara. Þá var Ragnheiður E. Árnadóttir endurkjörin varaformaður annarrar undirnefndar öryggis- og varnarmálanefndar NATO-þingsins. Efnahagsnefndin tók m.a. til umræðu þann vanda sem fylgir erfiðu efnahagslegu umhverfi, hagkerfið á Balkanskaga í ljósi alþjóðafjármálakreppunnar og efnahagslega uppbyggingu í Afganistan. Þá fjallaði vísinda- og tækninefnd á sínum fundi m.a. um líf- og efnafræðilegar ógnir, vatns- og matvælaöryggi og málefni Afganistans.
    Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi m.a. um ástandið í Afganistan, málefni Úkraínu og netöryggi með áherslu á upplýsinga- og þjóðaröryggi og hlutverk NATO. Lokadrög að skýrslum um umræðuefnin voru kynnt nefndarmönnum af skýrsluhöfundum. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar og gagnrýndi harðlega skýrslu Lord Jopling um netöryggi. Jopling bauð Birgittu að senda sér athugasemdir við skýrsluna sem hún gerði og tók Jopling hluta þeirra til greina í lokadrögum. Þá lagði Birgitta fram breytingartillögur við ályktun nefndarinnar um netöryggi og var hluti þeirra samþykktur. Sú breytingartillaga sem Birgitta lagði mesta áherslu á var ekki samþykkt af nefndarmönnum en þar lagði hún til að ein grein yrði felld út úr ályktuninni. Sú grein vísaði í stefnu NATO um netöryggi sem samþykkt var í júní 2011 en í greininni er lagt til að þingmenn bandalagsríkjanna hvetji ríkisstjórnir sínar til skjótrar innleiðingar á uppfærðri stefnu NATO um netöryggi og framkvæmdaáætlun henni tengdri. Birgittu fannst ólýðræðislegt og óábyrgt af þingmönnum að vísa í stefnu sem þeir hefðu ekki aðgang að og hefðu því ekki getað kynnt sér. Þá lagði Birgitta til að nefndin fjallaði um sölu eftirlitskerfa til m.a. einræðisríkja og var samþykkt að fjalla um það málefni í náinni framtíð. Í skýrslunni kom m.a. fram að NATO hefði mikilvægu hlutverki að gegna varðandi tölvuöryggi, ekki síst í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar og þekkingar sem aðildarríkin búa yfir varðandi upplýsingatækni og samskipti. Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrir árið 2012. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 og samþykkt að hún yrði óbreytt frá árinu 2011.
    Þingfundur NATO-þingsins fór fram á síðasta degi ársfundarins þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Karl A. Lamers, forseti NATO-þingsins, Mircea Dan Geonana, þingforseti efri deildar rúmenska þingsins, Roberta Anastase, þingforseti neðri deildar rúmenska þingsins, Traian Basescu, forseti Rúmeníu, Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, Samira Hamidi, framkvæmdastjóri samtaka afganskra kvenna, og Karl Engelbrektson, hershöfðingi og hernaðarlegur fulltrúi Svía gagnvart ESB og NATO.
    Í ávarpi sínu fór Rasmussen m.a. yfir aðgerðir NATO í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands, fjárhagsáætlun NATO og aðgerðir bandalagsins í Líbíu. Framkvæmdastjórinn ræddi um tengslin milli öryggis- og efnahagsmála og sagði þrjú hugtök lykilatriði þegar horft væri til öryggismála á tímum efnahagsþrenginga og þau væru geta, skuldbinding og samfélagsheild. Þá lægi vegurinn fram á við ekki í meiri eyðslu heldur skynsamlegri bætti hann við. Í fyrirspurnatíma að afloknu ávarpi framkvæmdastjórans tók Björgvin G. Sigurðsson til máls og spurði Rasmussen hvort hann teldi raunhæft að Afganir tækju við stjórn öryggismála af NATO árið 2014 í ljós þess erfiða ástands sem nú ríkti í landinu og hvernig stjórnunarlegum endurbótum miðaði í landinu? Rasmussen svaraði því til að ekki væri rétt að horfa til ársins 2014 sem þess árs sem NATO yfirgæfi Afganistan heldur mundi NATO áfram vera til staðar fyrir þjóðina en í breyttu hlutverki. NATO mundi færa sig yfir í stuðningshlutverk fyrir afgönsku þjóðina og sagðist hann bjartsýnn á að verkefninu lyki á áætluðum tíma. Ragnheiður E. Árnadóttir tók þátt í umræðum um konur og öryggi í Afganistan og sagðist taka undir orð Engelbrektson að ekki væri til samfélag án sterkra kvenna. Hún spurði Hamidi um viðbrögð og aðkomu karla í Afganistan að jafnréttisbaráttunni og hvort samvinna væri milli kynjanna þar að lútandi. Ragnheiður sagði að ef hægt væri að gefa eitt ráð væri það að gæta þess að karlmenn tækju þátt í jafnréttisbaráttunni þar sem jafnrétti væri ekki einkamál kvenna. Hamidi sagði erfiðlega hafa gengið að fá karlmenn til liðs við baráttuna og tók undir orð Ragnheiðar að ekki væri hægt að byggja upp frið í samfélaginu ef helmingur þjóðarinnar væri undanskilinn.
    Því næst fluttu skýrsluhöfundar framsögur um þær ályktanir sem málefnanefndirnar lögðu fram og voru þær allar samþykktar. Aðildarríkin viðurkenndu m.a. áframhaldandi þörf fyrir alþjóðlega hernaðarviðveru í Afganistan og nauðsyn þess að veita aðstoð fram yfir skipulögð lok hernaðar árið 2014.

Nefndarfundir.
    Ragnheiður E. Árnadóttir sótti nefndarfundi varnar- og öryggismálanefndar sem varaformaður undirnefndar varnar- og öryggismálanefndar í Washington í janúar og Haag í apríl auk ráðstefnu um norðurskautsmál í Tromsö í júní.

Alþingi, 20. febrúar 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


formaður.


Ragnheiður E. Árnadóttir,


varaformaður.


Birgitta Jónsdóttir.



Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2011.


Ársfundur í Búkarest, 8.–11. október:
          Ályktun 387 um netöryggi.
          Ályktun 388 um stuðning við líbísku þjóðina.
          Ályktun 389 um stöðuna andspænis erfiðu efnahagsástandi: efnahagskreppu og hættunni á því að stefna Evrópu eigi ekki við.
          Ályktun 390 um stjórnmálalega umbreytingu í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
          Ályktun 391 um baráttu gegn líf- og efnafræðilegum ógnum.
          Yfirlýsing 392 um stuðning við umbreytingar í Afganistan.