Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 557. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 861  —  557. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2011.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2011 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi helst verið í brennidepli.
    Fyrst ber að nefna áherslu á umræðu um samstarf og stjórnskipulag á norðurslóðum. Vinna við drög að skýrslu um málið frá Clifford Lincoln, fyrrverandi formanni nefndarinnar, var tíðrædd á árinu en fyrirhugað er að leggja skýrsluna fram á ráðstefnu alþjóðlega norðurskautsársins í Montreal 2012. Í skýrslunni er m.a. lagt til að Norðurskautsráðið fái stöðu alþjóðastofnunar með fullgildingu milliríkjasamnings, komið verði á varanlegri skrifstofu ráðsins og fullnægjandi og stöðugri fjárhagsáætlun.
    Í öðru lagi var umræða um umhverfismál með áherslu á loftslagsbreytingar að venju mjög áberandi. Nefndarmenn kynntu sér og ræddu framvindu vinnu við aðra skýrslu um mannlífsþróun á norðurskautssvæðinu (AHDR II) sem ráðgert er að verði gefin út árið 2014. Í umræðum um drög að skýrslunni lögðu nefndarmenn áherslu á mikilvægi þess að fundin yrði raunhæf leið til að nýta efni hennar til þess að bæta lífsskilyrði íbúa svæðisins.
    Í þriðja lagi fór fram umræða um tillögu Íslandsdeildar að nýju fyrirkomulagi formennsku nefndarinnar. Tillagan gerði ráð fyrir að formennskan flyttist milli fulltrúa þingmannaráðstefnunnar að jafnaði á tveggja ára fresti og lýstu nefndarmenn yfir stuðningi við hana og var hún samþykkt samhljóða. Voru nefndarmenn sammála um að sú breyting gæti stuðlað að auknum skilningi þinga aðildarríkjanna á málefnum norðurslóða og verkefnum þingmannanefndarinnar.
    Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2011 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, áhersluatriði formennsku Svía í Norðurskautsráðinu og umræðuefni tíundu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin verður á Akureyri 5.–7. september 2012. Valin hafa verið þrjú þemu fyrir ráðstefnuna, í fyrsta lagi stjórnskipulag á norðurslóðum og Norðurskautsráðið, í öðru lagi viðskiptatækifæri á svæðinu og í þriðja lagi bætt mannlífsþróun. Þá var bindandi samningi Norðurskautsráðsins um björgunarmál á norðurslóðum fagnað af nefndarmönnum og samstaða um mikilvægi þeirrar þróunar að Norðurskautsráðið verði í ríkari mæli vettvangur ákvarðanatöku.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni hennar er að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Einnig hefur orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem viðkomu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Allar spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið án íss og klaka að sumarlagi. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færist æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig sé að jafnaði að hækka á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga. Af frumkvæði Íslands er fyrirhugað að ljúka nýrri vísindaskýrslu um loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu og afleiðingar þeirra fyrir vistkerfi og mannlíf svæðisins (ACIA) árið 2014.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2011 Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Breytingar urðu á skipan Íslandsdeildar og var tilkynnt um þær á þingfundi 1. október. Þá tók Jónína Rós Guðmundsdóttir sæti Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem aðalmaður og Róbert Marshall, þingflokki Samfylkingarinnar, tók sæti Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem varamaður. Á fundi Íslandsdeildar 7. nóvember var Jónína Rós kosin varaformaður. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.

4. Fundir þingmannanefndar 2011.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar á árinu.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Tromsø 22. febrúar 2011.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður, sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar, auk Kjartans Fjeldsted, starfandi ritara. Helstu mál á dagskrá voru samanburðarrannsóknir á stefnum aðildarríkja nefndarinnar í málefnum norðurslóða, drög að alþjóðasamningi um stöðu Sama, drög að nýrri skýrslu um stjórnskipulag á norðurslóðum, og tillaga Íslands að nýju fyrirkomulagi formennsku nefndarinnar.
    Lars Møller, fulltrúi dönsku formennskunnar í Norðurskautsráðinu, gerði fundinum grein fyrir starfsemi ráðsins og undirbúningi undir ráðherrafundinn í Nuuk í maí, en þar mun Svíþjóð taka við formennskunni úr hendi Dana. Á fundinum er m.a. áætlað að undirritaður verði bindandi samningur um björgunarmál á norðurslóðum, og er það í samræmi við þá þróun að Norðurskautsráðið verði í ríkari mæli vettvangur ákvarðanatöku. Þá greindi Møller frá því að umsóknir um áheyrnaraðild að ráðinu hefðu borist frá framkvæmdastjórn ESB og Ítalíu, Kína, Japan og S-Kóreu, en ekki væri einhugur í ráðinu um það hvernig afgreiða bæri umsóknirnar. Í athugasemdum við framsögu Møllers lagði Þórunn Sveinbjarnardóttir m.a. áherslu á að starf þingmannaráðstefnunnar og Norðurskautsráðsins yrði betur samræmt.
    Þá sagði Dr. Lassi Heininen, formaður Northern Research Forum (NRF), frá samanburðarrannsóknum sínum á stefnu aðildarríkja nefndarinnar í málefnum norðurslóða. Í máli hans kom m.a. fram að öll ríkin nema Svíþjóð hefðu nú komið sér upp slíkri stefnu. Áætlað er að Danmörk og Noregur setji fram nýja stefnu í málefnum norðurslóða í vor.
    Fulltrúi finnska Samaþingsins kynnti fyrir fundinum drög að nýjum milliríkjasamningi Noregs, Svíþjóðar og Finnlands um málefni Sama, en samþykkt var síðastliðið haust að ganga til samninga á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga. Ef samkomulag næst verður þetta fyrsti alþjóðasamningurinn sem gerður er um málefni sömu frumbyggjaþjóðar.
    Því næst ræddi fundurinn drög að skýrslu um stjórnskipulag á norðurslóðum frá Clifford Lincoln, fyrrverandi formanni nefndarinnar, en hugmynd Lincolns er sú að skýrslan verði lögð fram á ráðstefnu alþjóðlega norðurskautsársins í Montreal 2012. Í umræðum um skýrsluna áréttuðu ýmsir þingmenn m.a. mikilvægi þess að komið yrði á fót fastri skrifstofu Norðurskautsráðsins. Ákveðið var að koma á fundi með Lincoln og samstarfsmönnum hans til að ræða drögin frekar í tengslum við fund nefndarinnar Reykjavík í júní 2011.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir kynnti tillögu Íslands að nýju fyrirkomulagi formennsku nefndarinnar, en tillagan gerir ráð fyrir að formennskan flytjist milli aðildarríkja þingmannaráðstefnunnar í stafrófsröð á tveggja ára fresti. Fulltrúar Evrópuþingsins, Danmerkur, Svíþjóðar og Kanada, lýstu allir yfir stuðningi við tillögu Íslands en fulltrúi rússneska sambandsráðsins, Vladimir Torlopov, taldi það miður að nefndin gæti þá ekki lengur kosið sér formann. Kanadamenn lögðu þó til að reglurnar gerðu einnig ráð fyrir því að aðildarríki gæti tímabundið frestað því að taka við formennskunni, t.d. vegna pólitískrar óvissu heima fyrir, og mæltist sú tillaga vel fyrir. Var framkvæmdastjóra nefndarinnar falið að breyta reglunum í samræmi við tillögu Kanadamanna og leggja fram ný drög svo hægt yrði að taka ákvörðun í málinu á næsta fundi nefndarinnar í Reykjavík. Reglunum verður þó aðeins breytt að bandarísku sendinefndinni viðstaddri, enda eru ákvarðanir um breytingar á reglum nefndarinnar teknar samhljóða.
    Ólína Þorvarðardóttir, forseti Vestnorræna ráðsins, sagði fundinum frá fyrirhugaðri þemaráðstefnu ráðsins í Færeyjum 7.–9. júní 2011, þar sem meginumræðuefnið er þjónusta við eldri borgara og björgunarmál á norðurslóðum, en sá hluti ráðstefnunnar er haldinn í samvinnu við Norðurlandaráð og NORA.
    Morten Høglund sagði frá því að norska þjóðþingið hefði staðfest samning Norðmanna og Rússa um landamæramörk í Barentshafi hinn 8. febrúar 2011 og fulltrúi Evrópuþingsins, Pat the Cope Gallagher, tilkynnti að Evrópuþingið hefði samþykkt ályktun um málefni norðurslóða í janúar. Þá sagði kanadíski þingmaðurinn Larry Bagnell frá þingsályktunartillögu sem hann hefði lagt fram á kanadíska þinginu um að banna kjarnorkuvopn á norðurskautinu.
    Fulltrúi sænska þingsins, þingkonan Ann-Kristine Johansson, tilkynnti fundinum að stefnu Svía í norðurskautsmálum væri að vænta í vor. Þá gerði Þórunn Sveinbjarnardóttir fundinum grein fyrir þingsályktunartillögu um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, sem nú liggur fyrir Alþingi, og var óformlegri þýðingu tillögunnar dreift á fundinum.
    Ákveðið var að haustfundur þingmannanefndarinnar færi fram í Syktivkar, Kómí-lýðveldinu, Rússlandi, dagana 27.–30. september 2011.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Reykjavík 9.–10. júní.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Helstu mál á dagskrá voru áhersluatriði Svía í formennsku í Norðurskautsráðinu, ný stefna Íslands í norðurslóðamálum og umræðuefni næstu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin verður á Íslandi 2012. Þá var haldin málstofa í tengslum við fundinn 10. júní um stjórnskipulag á norðurslóðum. Morten Høglund, formaður nefndarinnar, stýrði fundunum.
    Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti erindi um stefnu Íslands í norðurslóðamálum og svaraði spurningum nefndarmanna. Hann sagði málefni norðurslóða vera forgangsmál hjá íslenskum stjórnvöldum og gríðarlega mikilvægt Íslendingum þar sem lega landsins og aðgangur að náttúruauðlindum norðurslóða hafi mótað hagsmuni þjóðarinnar og samskipti við önnur ríki. Helstu áhersluatriði stefnu Íslands í norðurslóðamálum séu m.a. að efla og styrkja Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni svæðisins og tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins. Þá er lögð rík áhersla á að gæta öryggishagsmuna í víðu samhengi á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og verndun réttinda frumbyggja með stuðningi við beina aðild þeirra að ákvörðunum um málefni svæðisins. Einnig sé brýnt að byggja á hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna sem upp kunna að koma í tengslum við norðurslóðir og skoða sérstaklega aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingunum.
    Anders Ljunggren, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, gerði fundinum grein fyrir áhersluatriðum sænsku formennskunnar í Norðurskautsráðinu og helstu niðurstöðum ráðherrafundarins sem haldinn var í Nuuk 12. maí 2011. Á fundinum tók Svíþjóð við formennsku í ráðinu af Dönum. Sögulegur bindandi samningur um björgunarmál á norðurslóðum var undirritaður á fundinum, og er það í samræmi við þá þróun að Norðurskautsráðið verði í ríkari mæli vettvangur ákvarðanatöku. Ljunggren sagði sjálfbærni lykilhugtak þegar málefni norðurslóða væru skoðuð og mikilvægt væri að frumbyggjar kæmu að töku ákvarðana um svæðið. Þá sagði hann þörf á því að setja samskiptamál á svæðinu í forgang. Ljunggren var spurður að því hvort öryggismál yrðu tekin upp í Norðurskautsráðinu og svaraði hann því til að ekki væri áhugi innan ráðsins á að fara inn á svið hernaðar en öryggismál í víðum skilningi sem m.a. nær til sjó- og mengunarslysa geti ekki verið undanskilin málefnum ráðsins.
    Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, hélt erindi um framvindu vinnu við aðra skýrslu um mannlífsþróun á norðurskautssvæðinu (AHDR II) sem ráðgert er að verði gefin út árið 2014. Fyrri skýrslan kom út árið 2004 og vakti efni hennar mikla athygli. Í umræðum um efni skýrslunnar voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess að fundin verið raunhæf leið til að nýta efni skýrslunnar til þess að bæta lífsskilyrði íbúa svæðisins. Í umræðum eftir framsögu Níelsar lagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir m.a. áherslu á mikilvægi þess að efni skýrslunnar yrði nýtt við gerð langtímastefnumótunar á svæðinu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Enn fremur spurði Guðfríður Lilja hvort gefin yrði út tillaga með skýrslunni sem stjórnvöld gætu nýtt sér við stefnumótun um málefni svæðisins. Níels svaraði því til að ekki yrði gefin út sérstök tillaga með skýrslunni, eingöngu leiðbeinandi orð um notkun hennar, en það væri í verkahring stjórnmálamanna og embættismanna að nota efni skýrslunnar á sem gagnlegastan hátt.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kynnti tillögu Íslands að nýju fyrirkomulagi formennsku nefndarinnar, en tillagan gerir ráð fyrir að formennskan flytjist milli aðildarríkja þingmannaráðstefnunnar á tveggja ára fresti. Lýstu nefndarmenn yfir stuðningi við tillöguna og var tekin ákvörðun um að ræða málið á næsta fundi nefndarinnar í september. Þá var rætt um skipulagningu næstu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin verður á Íslandi 2012. Guðfríður Lilja sagði mikinn áhuga vera á því að halda ráðstefnuna á Akureyri og bað nefndarmenn að skoða dagsetningarnar 13.–16. ágúst 2012 sem hugsanlegan fundartíma. Hún lagði jafnframt til að nefndarmenn skoðuðu hvernig hægt væri að stuðla að því að samræma betur starf þingmannaráðstefnunnar og Norðurskautsráðsins og hvort það yrði gert með því að halda ráðstefnuna nær dagsetningum leiðtogafunda ráðsins. Þá var rætt um umræðuefni ráðstefnunnar og voru nefndarmenn hvattir til að senda hugmyndir til framkvæmdastjóra nefndarinnar.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Fulltrúi sænska þingsins, þingkonan Anita Brodén, sagði formennsku Svía í norðurskautsráðinu hafa vakið jákvæða athygli á málefnum norðurslóða í Svíþjóð. Þá sé stefnu Svía um málefni norðurslóða að vænta í sumar. Í Finnlandi hefur enn ekki verið mynduð ný ríkisstjórn eftir þingkosningarnar í apríl en búist er við að hún verið mynduð á næstu dögum. Þá sagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frá aukinni umræðu og meðvitund um norðurskautsmál á Íslandi, m.a. í kjölfar nýrrar stefnu í málaflokknum. Í stefnunni sé m.a. lögð rík áhersla á styrkingu Norðurskautsráðsins, hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem umgjörð um nýtingu hafsins og úrlausn deilumála, öryggis- og björgunarmál á hafi og málefni frumbyggja. Enn fremur lagði varaformaður nefndarinnar, Juliane Henningsen frá Danmörku, til að grænlenska þingið fengi áheyrnaraðild að þingmannanefndinni og ræddi þá tillögu nánar á næsta fundi sínum. Þá sagði Níels Einarsson nefndarmönnum frá ráðstefnu á vegum Rannsóknarþings norðursins (NRF) sem fyrirhugað var að halda í Hveragerði 4.–6. september 2011.
    Þann 10. júní var haldin málstofa um stjórnskipulag á norðurslóðum og stýrði Clifford Lincoln, fyrrverandi formaður nefndarinnar, umræðunum. Markmið málstofunnar var að ræða drög að skýrslu Lincolns um stjórnskipulag á norðurslóðum sem fyrirhugað er að leggja fram á ráðstefnu alþjóðlega norðurskautsársins í Montreal 2012. Í inngangsorðum sínum varpaði Lincoln fram hugmyndum og spurningum til umhugsunar fyrir nefndarmenn og umræður málstofunnar. Hann sagði velgengni þingmannanefndarinnar m.a. felast í smæð sinni, einingu og samhljóða áliti og ekki síst brennandi áhuga nefndarmanna á málefnum norðurslóða. Nefndin hefur lagt fram hugmyndir og komið þeim í framkvæmd eins og raunin var með skýrslu um mannlífsþróun á norðurskautssvæðinu (AHDR) sem kom út árið 2004.
    Þá sagði Lincoln starfsemi norðurskautsráðsins hafa boðað jákvæð þáttaskil varðandi málefni norðurslóða en mikilvægt væri að skoða starfsemi ráðsins vandlega í ljósi hraðra breytinga á svæðinu. Í skýrslu sinni leggur hann m.a. til að fundum Norðurskautsráðsins verði fjölgað og fyrirkomulag fjárhagsáætlunar endurskoðað og bætt. Lincoln benti í máli sínu á að nú á dögum væri litið á norðurslóðir sem lítinn gimstein, ríkan af náttúruauðlindum eins og olíu, gasi og demöntum, sem allir vilja eiga hlutdeild í. Þessi staða laði m.a. að stórfyrirtæki og aðra sem vilja nýta sé auðlindirnar og hætta sé á því að hagsmunir vistkerfis og íbúa séu ekki hafðir að leiðarljósi. Í ljósi þessarar þróunar leggur Lincoln til að Norðurskautsráðið geri langtímaáætlun til a.m.k. 10 ára um svæðið með samkomulagi við aðrar þjóðir. Ekki sé hagstætt að gera skammtímaáætlanir sem nái eingöngu eitt til tvö ár fram í tímann í núverandi andrúmslofti. Jafnframt óskaði Lincoln eftir aðkomu þingmannanefndarinnar að ráðstefnu alþjóðlega norðurskautsársins í Montreal 2012.
    Í umræðum um framsögu Lincolns sagðist Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hlynnt því að Norðurskautsráðið fái stöðu alþjóðasamtaka með fullgildingu milliríkjasamnings sem samþykktur er af ríkisstjórnum aðildarríkjanna og fullgiltur af þingunum. Með því yrði staða ráðsins styrkt auk þess sem fjölmörg mál mundu leysast eins og málefni áheyrnaraðila. Þá lagði Guðfríður Lilja áherslu á það að stjórnskipulag á norðurslóðum yrði meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar. Enn fremur lagði Høglund til að ráðherrar Norðurskautsráðsins hittust oftar og fleiri fagráðherrar kæmu að vinnu ráðsins.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Syktivkar 28.–29. september.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Helstu mál á dagskrá voru samstarf og stjórnskipulag á norðurslóðum, málefni frumbyggja með áherslu á Komí og umræðuefni næstu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin verður á Íslandi 2012. Morten Høglund, formaður nefndarinnar, stýrði fundunum.
    Varahéraðsstjóri Komí-lýðveldisins, Konstantin Romadanov, og forseti héraðsþingsins, Marina Isitkovskaya, buðu nefndarmenn velkomna til Komí-lýðveldisins og Syktivkar og ræddu um stjórnmálaástandið á svæðinu. Isitkovskaya sagði að m.a. væri unnið að því að friðlýsa ný svæði í lýðveldinu og herða reglur varðandi iðnvæðingu. Formaður rússnesku landsdeildarinnar, Vladimir Torlopov, fræddi nefndarmenn um reynslu Komí af alþjóðasamstarfi. Hann sagði Komí eiga mikil og góð alþjóðleg samskipti enda stærsta héraðið í Norður-Rússlandi. Barentsráðið væri mikilvægasti samstarfsvettvangurinn en einnig hafi verið gerðir margir tvíhliða samningar við nágrannalöndin. Torlopov lagði áherslu á mikilvægi náins sambands við Finnland vegna sameiginlegrar arfleifðar. Þá sagði hann fund þingmannanefndarinnar skref í þá átt að byggja Syktivkar upp sem fundarstað fyrir alþjóðlegt samstarf. Guðfríður Lilja spurði Torlopov hversu mikil áhrif alþjóðafjármálakreppan hefði haft í Komí og með hvaða hætti komið hefði til árekstra milli náttúruverndar og nýtingar olíu og gass á svæðinu. Torlopov sagði fjármálakreppuna óneitanlega hafa teygt anga sína til Komí þar sem afkoma svæðisins ylti á náttúruauðlindum og tekjum af iðnaði en miðað við önnur svæði í Rússlandi hefðu áhrifin ekki verið mikil. Varðandi árekstra milli náttúruverndar og nýtingar náttúruauðlinda sagði Torlopov samstarfið hafa gengið eins og í sögu og engin meiri háttar átök átt sér stað.
    Næstur tók til máls Askhab Askhabov, formaður vísindamiðstöðvar Komí og meðlimur í rússnesku vísindaakademíunni. Askhabov fræddi nefndarmenn um þróun háskólasamfélagsins í Komí og helstu framfarir í rannsóknum á norðurslóðamálum. Hann sagði mikla áherslu vera lagða á rannsóknir og náttúruvísindi og háskólann starfrækja fjölda stofnana á sviði jarðfræði, sálfræði, efnafræði og tungumála. Þá flutti Sergey Geraimovich, aðstoðarráðherra náttúruauðlinda og umhverfisverndar í Komí, erindi um náttúruauðlindir svæðisins og umhverfisvernd. Helstu náttúruauðlindir Komí eru olía, gas, kol og ýmis steinefni eins og demantar og gull og sagði hann áherslu vera lagða á sjálfbæra þróun og umhverfisvernd. Geraimovich tók í sama streng og Torlopov og sagði enga árekstra hafa orðið milli náttúruverndar og nýtingar auðlinda á svæðinu þar sem löggjöf væri skýr og friðlýst svæði víða.
    Enn fremur upplýsti Valery Markov, varaformaður héraðsstjórnar Komí, fundarmenn um ástand frumbyggja á svæðinu. Um 60% íbúa eru Rússar, 25% frá Komí og 15%, smærri hópar frumbyggja sem m.a. búa á sérstökum svæðum í norðurhluta Komí og eru veiðimenn. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að íbúar Komí hafa í auknum mæli flutt úr dreifbýli í þéttbýli og búa nú um 74% þeirra í borgum. Jafnframt kynnti Georgy Korsunov, aðstoðarskólastjóri Ukhta-tækniháskólans, viðamikla þátttöku nemenda frá Komí í alþjóðlegum skiptinemaverkefnum. Síðastur heimamanna til að ávarpa fundinn um málefni Komí var Lyudmila Andreicheva, deildarstjóri jarðfræðistofnunar Komí, sem fjallaði um loftslagsbreytingar og breytingar á veðurfari í sögulegu samhengi með áherslu á norðurhluta Rússlands. Guðfríður Lilja spurði m.a. út í sambúð ólíkra þjóðarbrota í Komi-lýðveldinu sem og hvaða stefnu stjórnvöld hefðu í jafnréttismálum kynjanna.
    Eftir hádegishlé var rætt um skipulagningu næstu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin verður á Íslandi 2012. Guðfríður Lilja sagði nefndarmönnum frá undirbúningi ráðstefnunnar og lagði til að hún yrði haldin 5.–7. september á Akureyri og var það samþykkt. Valin hafa verið þrjú þemu fyrir ráðstefnuna, í fyrsta lagi stjórnskipulag á norðurslóðum og Norðurskautsráðið, í öðru lagi viðskiptatækifæri á svæðinu og í þriðja lagi bætt mannlífsþróun. Guðfríður Lilja lagði áherslu á að útfæra umræðuefnin þrjú vandlega og benti í því sambandi á mikilvægi þess að geta stuðlað að því að tillögur vísindaskýrslna um mannlífsþróun komist í framkvæmd. Einnig sagði hún áhugavert að skoða þemað um viðskiptatækifæri út frá sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Nánar verður rætt um útfærslur umræðuefnanna á næsta fundi nefndarinnar. Formaður lagði til að Finnland, Svíþjóð og Kanada tækju að sér hlutverk skýrsluhöfunda á ráðstefnunni um meginþemun þrjú og munu fulltrúar landsdeildanna gefa svar á næsta fundi. Auk þess var rætt um hvort nægði að hafa einn skýrsluhöfund fyrir hvert þema eða hvort ákjósanlegra sé að hafa tvo.
    Umræða fór fram um uppfærð drög að skýrslu Clifford Lincolns um stjórnskipulag á norðurslóðum sem fyrirhugað er að leggja fram á ráðstefnu alþjóðlega norðurskautsársins í Montreal í apríl 2012. Nefndarmenn voru almennt ánægðir með þær breytingar sem gerðar höfðu verið á skýrslunni eftir umræður nefndarinnar á síðasta fundi hennar í Reykjavík í júní 2011. Høglund lagði til að skýrslan endurspeglaði enn frekar þróun mála hjá Norðurskautsráðinu varðandi stjórnskipulag og vísaði þar sérstaklega til samnings um leitar- og björgunarmál. Hann benti jafnframt á að þar sem nýjar siglingaleiðir eru að opnast ættu norðurskautsríkin að horfa til þess og koma sér saman um sameiginlega stefnu í siglingamálum. Þá bentu nefndarmenn á mikilvægi þess að bæta við kafla um framsýni fyrir norðurskautssvæðið í skýrsluna. Einnig var lagt til að bætt yrði við málsgrein í inngangskaflann um öryggismál á sjó, náttúruauðlindir og félagslega velferð. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði til að kaflauppröðuninni yrði breytt og endað á tillögu um að Norðurskautsráðið fengi stöðu alþjóðastofnunar með fullgildingu milliríkjasamnings þar sem framkvæmd hennar væri flókin og tæki langan tíma. Á móti væri skynsamlegt að færa aðrar tillögur sem væru auðveldari í framkvæmd framar í textann eins og tillögur um varanlega skrifstofu á ákveðnum stað og fullnægjandi og stöðuga fjárhagsáætlun ráðsins. Þá lagði hún m.a. til að málsgrein um stjórnun vistkerfa yrði bætt við í skýrsluna, auk þess sem nefndarmenn voru sammála um að umræðuefnið væri áhugavert fyrir næsta fund nefndarinnar.
    Næsti dagskrárliður var kosning varaformanns nefndarinnar og lagði formaður til að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir yrði nýr varaformaður og samþykktu nefndarmenn það samhljóða. Þá kynnti Guðfríður Lilja tillögu Íslands að nýju fyrirkomulagi formennsku nefndarinnar, en tillagan gerir ráð fyrir að formennskan flytjist milli fulltrúa þingmannaráðstefnunnar að jafnaði á tveggja ára fresti. Lýstu nefndarmenn yfir stuðningi við tillöguna og var hún samþykkt.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Fulltrúi sænska þingsins, Ann-Kristin Johansson, sagði formennsku Svía í Norðurskautsráðinu og nýja stefnu ríkisstjórnarinnar í norðurslóðamálum hafa vakið jákvæða athygli á málefnum norðurslóða. Guðfríður Lilja sagði aukna umræðu vera um norðurskautsmál í íslensku samfélagi og vísaði einnig til umfjöllunar erlendra fjölmiðla um norðurslóðamál sem tengdist m.a. áhuga Kínverja á landakaupum á Íslandi. Þá hafa tvær ráðstefnur um norðurslóðamál verið haldnar nýlega á Íslandi, m.a. Rannsóknarþing norðursins (Northern Research Forum) 4.–6. september 2011. Torlopov sagði að um þessar mundir færi fram mikil vinna við löggjöf um norðurskautssvæðið í rússneska þinginu. Enn fremur sagði formaður Vestnorræna ráðsins, Kari P. Højgaard, frá niðurstöðum ársfundar ráðsins þar sem lagt var til að sameiginlegir hagsmunir Vestur-Norðurlanda yrðu kortlagðir í ljósi loftslagsbreytinga.

Alþingi, 20. febrúar 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


formaður.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,


varaformaður.


Kristján Þór Júlíusson.