Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 862  —  558. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2011.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í starfsemi þingmannanefnda EFTA og EES árið 2011 voru tvö mál einkum í brennidepli. Annars vegar var ítrekað fjallað um fjármálakreppuna í Evrópu og viðbrögð við henni og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Frá sjónarhóli Íslands var umfjöllun um alþjóðlegu fjármálakreppuna einkar mikilvæg. Umfjöllun um hana var hvort tveggja í senn almenn og sértæk þar sem athygli beindist að íslenska bankahruninu og afleiðingum þess. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum grein fyrir gengi endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lauk í ágúst 2011 og framvindu Icesave-málsins. Þá komu viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við bankahruninu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefndarinnar.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Stöðnun í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hefur gert það að verkum að samtök ríkja og einstök lönd hafa beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 24 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar í þingmannanefndum EFTA og EES árið 2009 má nefna norðurslóðamál en Íslandsdeildin kom þeim á dagskrá á fundi í Reykjavík árið 2010 og áfram var fjallað um þau á árinu 2011.
    Að lokum skal þess getið að nafni Íslandsdeildar var breytt á árinu. Með breytingum á þingsköpum Alþingis sem samþykktar voru 11. júní 2011 heitir nefndin Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES í stað Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áður. Gamla nafnið þótti ekki endurspegla að Íslandsdeildin starfar jöfnum höndum í þingmannanefnd EFTA og í þingmannanefnd EES. Starfið í þingmannanefnd EES er síst veigaminna en í þingmannanefnd EFTA. Nafnbreytingin er í samræmi við það sem tíðkast í þjóðþingum hinna EFTA/EES-ríkjanna, þ.e. í Stórþinginu í Noregi og Landsdeginum í Liechtenstein.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES- samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES.
    Í byrjun árs 2011 skipuðu Íslandsdeild Árni Þór Sigurðsson, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, Vigdís Hauksdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Við kosningu í alþjóðanefndir 1. október 2011 urðu þær breytingar að Magnús Orri Schram og Skúli Helgason tóku sæti Valgerðar Bjarnadóttur og Jónínu Rósar Guðmundsdóttur fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar. Jafnframt tók Skúli við varaformennsku Íslandsdeildar. Valgerður Bjarnadóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir tóku sæti varamanna í stað Skúla Helgasonar og Björgvin G. Sigurðsson. Þá tók Birkir Jón Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, sæti varamanns í stað Vigdísar Hauksdóttur.
    Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4. Starfsemi Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu. Þar var starfsemi Íslandsdeildar skipulögð og þátttaka í fundum þingmannanefnda EES og EFTA undirbúin.
    Á árinu tók Árni Þór Sigurðsson að sér starf skýrsluhöfundar skýrslu þingmannanefndar EES um málefni norðurslóða þar sem sjónum var beint að tækifærum jafnt sem áskorunum á svæðinu. Meðhöfundur hans af hálfu Evrópuþingsins var eistneski þingmaðurinn Indrek Taraand og var skýrslan kynnt á fundi á Svalbarða.
    Alþjóðlega fjármálakreppan og þar með talin málefni Íslands henni tengdri komu til umræðu á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum grein fyrir endurreisnaráætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem lauk í ágúst 2011 og þróun Icesave-máls. Viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við bankahruninu komu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefndanna.
    Loks kom aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu ítrekað til tals á fundum nefndanna og gerðu þingmenn Íslandsdeildar grein fyrir þróun umsóknarferlisins.

5. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2010.
     Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2010. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar þrisvar sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum og stofnunum í Víetnam til að styðja við að formlegar fríverslunarviðræður EFTA við Víetnam gætu hafist.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Fimm skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu í tímaröð.

Fundur þingmannanefndar EFTA í Brussel 21. febrúar 2011.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Árni Þór Sigurðsson, formaður, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Helstu dagskrárliðir fundarins voru staða og framtíð EES-samningsins. Umræðum um þau mál var skipt í umræðu fræðimanna og fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB. Þá boðaði nefndin sendiherra EFTA-ríkjanna í Brussel á lokaðan fund þar sem fram fóru opinskáar umræður um stöðu EES-samningsins og tvíhliða samninga Sviss og ESB, þróun og framtíðarhorfur, auk þess sem þingmenn og fulltrúar sendiráðanna deildu reynslu sinni af samskiptum við stofnanir ESB á grundvelli EES-samningsins.
    Í umræðu fræðimanna hélt Fredrik Sejersted, prófessor í Evrópurétti við Háskólann í Ósló og formaður nefndar norskra stjórnvalda til þess að gera yfirgripsmikla úttekt á EES, erindi um Noreg og EES. Hann kynnti starf nefndarinnar sem tók til starfa í ársbyrjun 2011 og var ætlað að skila niðurstöðu fyrir lok ársins. Nefndin skyldi samkvæmt starfsumboði sínu meta áhrif EES-samningsins og annarra samninga sem Noregur hefur gert við Evrópusambandið og jafnframt stuðla að málefnalegri Evrópuumræðu í Noregi. Í máli Sejersteds kom fram að EES-samningurinn hafi staðist tímans tönn þrátt fyrir að honum hafi verið ætlaður mun styttri líftími. En að sama skapi hefðu ytri aðstæður samningsins, stofnanauppbygging ESB og sáttmálar þeir sem sambandið grundvallast á þróast á þann hátt að æ örðugra væri fyrir aðila EES-samningsins að greina milli þeirra mála er féllu innan samningsins og þeirra er féllu utan gildissviðs EES. Til þessa hefði tekist að koma í veg fyrir stórfelldan vanda en með tilkomu Lissabonsáttmálans hefði orðið erfiðara að greina á milli EES-tækra mála og þeirra er féllu utan EES. Sagði Sejersted að með þetta stef að leiðarljósi mundi EES-nefndin norska reyna að benda á leiðir til úrbóta.
    René Schwok, prófessor við háskólann í Genf, hélt erindi um samvinnu Sviss og ESB sem byggist á fjölda tvíhliða samninga. Sviss tengist innri markaði ESB en nokkur spenna er um þróun samstarfsins til framtíðar. ESB vill að Sviss taki upp regluverk sambandsins nánast sjálfkrafa eins og gildir um EFTA/EES-ríkin en Sviss hefur neitað slíkri leið og sagt hana brjóta í bága við fullveldi sitt. Þá er deilt um bankaleynd í Sviss og möguleika til skattlagningar á innstæður ESB-borgara þar í landi. Schwok sagði Svisslendinga ekki hafa haft meiri efasemdir um Evrópusamvinnuna um 20 ára skeið og skrifaðist það annars vegar á vænlegri stöðu efnahagsmála í Sviss en innan sambandsins og hins vegar á slæma ímynd ESB þar í landi. Sterk andstaða væri gegn hugmyndum um að Sviss gengi í EES og skýrðist það einkum af þremur þáttum, fullveldisrökum, efnislegum rökum eins og andstöðu við þjónustutilskipunina, og sjálfsmynd þjóðarinnar sem litaðist af þjóðaratkvæðagreiðslunni 1992 þar sem aðild að EES var hafnað.
    Marc Maresceau, prófessor við háskólann í Ghent, fjallaði um EES-samstarfið frá sjónarhóli ESB og sér í lagi um yfirlýsingu ráðherraráðs ESB frá 14. desember 2010 um samstarfið við EFTA-ríkin. Í yfirlýsingunni er boðað að samvinnan við EFTA-ríkin aukist enn á komandi árum og hvatt til þess að úttekt á henni fari fram af hálfu ESB á næstu tveimur árum samhliða úttektum í Noregi og Liechtenstein. Meðal þess sem skoða skal í úttekt ESB er hvort núverandi stofnanauppbygging EES-samningsins svari kalli tímans eða hvort hana skuli þróa og nýrra lausna leitað. Að síðustu segir að við úttekt ESB skuli hafa í huga mögulegar breytingar á aðild að EES. Maresceau, sem var framkvæmdastjórn ESB og ráðherraráðinu til ráðgjafar í aðdraganda yfirlýsingar ráðherraráðsins, sagði að sitt mat væri að þegar kæmi að EES/EFTA-ríkjunum þá væri samstarfið við ESB afar farsælt og að lítill vilji væri til afgerandi breytinga af hálfu ESB. Hins vegar væru mál öllu snúnari er kæmi að samskiptum Sviss og ESB þar sem viss kergja einkenndi afstöðu ESB sem liti svo á að tvíhliða fyrirkomulag það sem við lýði er, væri viss þröskuldur fyrir virkni innri markaðarins. Þá ræddi Maresceau nokkuð um vilja ESB til að nýta EES-samninginn sem fyrirmynd að því að útvíkka innri markaðinn til smáríkja í Evrópu á borð við San Marínó, Andorra og Mónakó. Það yrði þó aðeins gert með vilja EES/EFTA-ríkjanna sem kynni ekki að vera auðsótt.
    Að lokum flutti Peter Meyer, fulltrúi nýskipaðrar utanríkisþjónustu ESB (EEAS), erindi um fyrrnefnda yfirlýsingu ráðherraráðs ESB og það starf sem framundan væri á grundvelli yfirlýsingarinnar. Sagði hann að verið væri að leita leiða til að endurbæta bæði tæknilega útfærslu EES-samningsins og líka á hvern hátt væri hugsanlega hægt að útfæra samninginn í ljósi þeirra umfangsmiklu breytinga sem átt hefðu sér stað á umliðnum 15 árum. Rótin að þessu starfi lægi ekki í því að um stórfelld vandamál væri að ræða heldur frekar í hinu að ESB vildi vera reiðubúið ef miklar breytingar yrðu á umgjörð EES.
    Í umræðu um stjórnmálaþróun í EFTA-ríkjunum gerði Árni Þór Sigurðsson grein fyrir því að forseti Íslands hefði daginn áður synjað staðfestingar lögum frá Alþingi um Icesave-samkomulag. Hann fór nokkrum orðum um bakgrunn Icesave-málsins sem hlotið hefur ítrekaða umfjöllun í þingmannanefnd EFTA, sér í lagi eftir aðkomu Eftirlitsstofnunar EFTA að málinu, og gerði jafnframt grein fyrir þeim viðbrögðum stjórnvalda að stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu um málið við fyrsta tækifæri. Þá greindi Árni Þór frá ógildingu Hæstaréttar á kosningum til stjórnlagaþings og sagði nefnd að störfum við að móta viðbrögð stjórnvalda við úrskurðinum. Að síðustu fjallaði Árni Þór um stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins og sagði frá yfirstandandi rýnivinnu.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA í Hanoi 22.–25. febrúar 2011.
    Dagana 22.–25. febrúar heimsótti sendinefnd þingmannanefndar EFTA Hanoi, höfuðborg Víetnam. Markmið heimsóknarinnar var að eiga viðræður um ávinning hugsanlegs fríverslunarsamnings EFTA og Víetnam við þarlenda þingmenn og stofnanir og liðka fyrir því að formlegar samningaviðræður geti hafist. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES áttu sæti í sendinefndinni Árni Þór Sigurðsson, formaður, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði en engin ríkjasamtök hafa náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að ESB undanskildu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Forsaga heimsóknar sendinefndarinnar til Hanoi er sú að í maí 2010 var sérstakur vinnuhópur EFTA-ríkjanna og Víetnam settur á stofn til að gera hagkvæmnisathugun á mögulegum fríverslunarsamningi milli landanna. Niðurstaða athugunarinnar lá fyrir 17. febrúar 2011 og leiddi í ljós að slíkur samningur yrði hagfelldur fyrir báða aðila. Það er vilji EFTA-ríkjanna að hefja formlegar fríverslunarviðræður sem fyrst en eins og fyrr sagði var eitt markmiða heimsóknarinnar að liðka fyrir því að formlegar viðræður geti hafist.
    Gestgjafi heimsóknarinnar var víetnamska þingið. Sendinefndin átti fundi með eftirtöldum aðilum meðan á heimsókninni stóð: Nguyen Duc Kien, varaforseta víetnamska þingsins; Vu Viet Ngoan, varaformanni efnahagsnefndar þingsins; Ngo Quan Xuan, varaformanni utanríkismálanefndar þingsins; Nguyen Duc Kien, aðstoðarráðherra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti; og fulltrúum samtaka fiskframleiðenda í Víetnam. Auk þess átti sendinefndin undirbúningsfund með sendiherrum Noregs og Sviss í Hanoi.
    Í málflutningi þingmanna EFTA á fundunum var hnykkt á fáum en skýrum skilaboðum í þeim tilgangi að liðka fyrir samningaviðræðum. Þau voru meðal annars að EFTA-ríkin eru áreiðanlegur samstarfsaðili sem reynir eftir fremsta megni að setja sig í spor og aðstæður viðsemjenda sinna og taka mið af efnahagslegum markmiðum þeirra þegar kemur að fríverslunarviðræðum. Ef horft er yfir tilurð og sögu fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við ríki utan ESB sést að EFTA-ríkin búa yfir miklum sveigjanleika til að koma samningum í höfn. Metnaðarstig samninga þeirra sem EFTA-ríkin gera við samstarfsríki sín tekur mið af aðstæðum hverju sinni og ef horft er til þeirra 22 samninga EFTA sem í gildi eru, spanna þeir allt frá einföldustu vöruskiptasamningum til flókinna samninga sem einnig taka til þjónustu, opinberra innkaupa, tæknilegrar aðstoðar á sviði umhverfisverndar og þar fram eftir götunum. Þá var undirstrikað að EFTA-ríkin leggja þunga áherslu á sjálfbæra þróun. EFTA-ríkin horfa jákvæðum augum til þess hve miðlæg umhverfisvernd er í öllum helstu stefnumiðum víetnamskra stjórnvalda eins og þau voru fram sett á flokksþingi kommúnistaflokksins í lok janúar 2011. Loks hafa EFTA-ríkin skuldbundið sig til að veita Víetnam viðurkenningu sem „markaðshagkerfi“, í skilningi reglna WTO, í síðasta lagi við fullnustu fríverslunarsamnings milli EFTA og Víetnam. Þetta atriði er Víetnömum sérlega mikilvægt en þegar Víetnam gerðist aðili að WTO var ríkið ekki viðurkennt sem markaðshagkerfi og samkvæmt reglum stofnunarinnar þurfa önnur aðildarríki ekki að viðurkenna Víetnam sem slíkt fyrr en árið 2018.
    Boðskapur þessi féll í góðan jarðveg hjá viðræðuaðilum í Hanoi. Þeir virtust sér í lagi ánægðir að heyra það staðfest frá þingmönnum frá EFTA-ríkjunum að EFTA væri sveigjanlegur viðsemjandi sem tæki mið af aðstæðum viðsemjenda sinna og væri ekki með fyrir fram skilgreind stefnumið þegar kæmi að markmiðasetningu slíkra fríverslunarsamninga. Ber þetta e.t.v. að skoðast í því samhengi að ESB og Víetnam eiga einnig í þreifingum um hugsanlegar fríverslunarviðræður nú um stundir og er umfangsmikil könnun á efnahagslegum snertiflötum ESB og Víetnam í gangi, en nálgun ESB við slíka vinnu er stífari og í fastari skorðum en hjá EFTA. Þá verður að undirstrika hversu mikilvægt það er í augum Víetnama að EFTA-ríkin hafi skuldbundið sig til að viðurkenna Víetnam sem „markaðshagkerfi“ í skilningi reglna WTO.

36. fundur þingmannanefndar EES í Ósló og á Svalbarða 11.–15. apríl 2011.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (einungis Ósló-fundinn), auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar. Helstu dagskrármál fundarins voru þróun EES-samningsins og þær úttektir sem unnið er að í Noregi og innan ráðherraráðs ESB á samningnum, staða mála hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og málefni norðurslóða.
    Formlegur hluti þingmannanefndar EES fór fram í Longyearbyen á Svalbarða. Áður en þangað var haldið átti nefndin fund í Ósló með Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, þar sem farið var yfir stefnu Norðmanna í málefnum norðurslóða og EES. Lögð var áhersla á að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri sá lagarammi sem nýta bæri til að útkljá deilur ríkja um landgrunn og lögsögumörk á norðurslóðum. Var bent á samkomulag Norðmanna og Rússa frá apríl 2010 um lögsögumörk í Barentshafinu eftir 40 ára deilu til sönnunar þess að hafréttarsáttmálinn væri slíkur grunnur og að Rússar væru tilbúnir að leysa deilumál á grundvelli hans. Ekki væri ástæða til sérstaks alþjóðlegs sáttmála um norðurskautið líkt og Suðurskautslandið. Hvað varðar EES fjallaði Støre stuttlega um yfirstandandi úttekt norskra stjórnvalda á EES-samningnum þar sem pólitísk, efnahagsleg og félagsleg áhrif samningsins eru metin heildrænt. Þá sagðist hann við umræðu um mögulega stækkun EES með því að taka ný ríki inn í EFTA vera neikvæður gagnvart slíkum hugmyndum þar sem rekstur samningsins gæti orðið erfiðari með fjölgun ríkja á EFTA-hlið enda þurfa þau á vettvangi samningsins að tala einum rómi. Valgerður Bjarnadóttir tók til máls á fundinum og gerði stuttlega grein fyrir þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem samþykkt var 28. mars 2011.
    Á fundi þingmannanefndar EES var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Í umræðunni kom fram að rekstur samningsins gengur vel og EES/EFTA-ríkin innleiða EES-gerðir hratt og örugglega. Svokallaður innleiðingarhalli EES/EFTA-ríkjanna, sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tekur saman, er innan við 1% sem er undir þeim mörkum sem ríkin miða við að halda sig innan. Lajoras Bozi, fulltrúi formennsku Ungverja í ráðherraráði ESB, gerði grein fyrir þeirri úttekt sem ráðið er að hefja á EES-samningnum. Utanríkisþjónustu ESB (EEAS) hefur verið falið að gera úttektina og er horft til þess hvort einhverjar breytingar megi gera til að auka skilvirkni samningsins eftir tilkomu Lissabonsáttmála ESB. Gianluca Grippa, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, bætti við að í úttektinni yrði horft á sveigjanleika samningsins og getu til að taka upp nýjar gerðir og þar með að viðhalda einingu innri markaðarins. Mikil þróun hafi orðið á regluverki ESB með sáttmálauppfærslum frá því að EES-samningurinn var gerður fyrir hartnær tuttugu árum og grá svæði hafa myndast á milli reglna sem falla undir innri markaðinn og þar með EES, og reglna á öðrum sviðum. Grippa lagði áherslu á að markmið úttektarinnar væri á engan hátt að leggja til meiri háttar breytingar á EES-samningnum heldur að líta til þess hvernig tryggja mætti góða virkni hans.
    Nokkuð var fjallað um samþykkt landsfundar norska verkamannaflokksins 9.–10. apríl 2011 um að innleiða ekki svokallaða þriðju tilskipun um póstmál. Samþykktin var gerð þvert á vilja flokksforustunnar. Hermansen, fulltrúi norskra stjórnvalda á fundinum, lagði áherslu á að þótt EES-samningurinn gerði ráð fyrir lagalegu samræmi á EES-svæðinu væri líka gert ráð fyrir því að ágreiningur gæti komið upp á meðal samningsaðila um innleiðingu gerða. Sagði hann að norsk stjórnvöld mundu ráðfæra sig við ESB um hvernig leysa mætti farsællega úr málinu.
    Per Sanderud, forseti ESA, hélt venjubundið erindi um stöðu mála hjá Eftirlitsstofnuninni, og kom íslenska bankahrunið og afleiðingar þess þar töluvert við sögu. Rifjaði hann upp að skömmu fyrir jól 2010 komst ESA að þeirri niðurstöðu að svokölluð neyðarlög og sú aukna vernd sem þau gáfu innstæðueigendum á kostnað annarra kröfuhafa föllnu bankanna brytu ekki í bága við EES-samninginn. Aðrir kröfuhafar eru skuldabréfaeigendur íslensku bankanna, einkum evrópskar fjármálastofnanir, og sagði Sanderud útlit fyrir að þeir mundu tapa 40–50 milljörðum evra á bankahruninu. Þá sagðist Sanderud vænta skjótra svara frá íslenskum stjórnvöldum við bréfi ESA vegna Icesave eftir að samninga við Hollendinga og Breta í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011. Ef svarið nægði ekki til að sannfæra ESA um að aðgerðir íslenskra stjórnvalda í Icesave-málinu væru í samræmi við EES-samninginn mundi næsta skref ESA vera að senda íslenskum stjórnvöldum tilkynningu um niðurstöðu ESA þar um og stefna Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum.
    Í umræðu um skýrslu um málefni norðurslóða og EES höfðu Evrópuþingmaðurinn Indrek Tarand og Valgerður Bjarnadóttir framsögu. Tarand undirstrikaði aukinn áhuga á svæðinu og pólitískt gildi þess með því að vísa í að á síðustu árum hafa Norðmenn, Rússar, Danir, Bandaríkjamenn, Íslendingar og ESB mótað sér sérstaka stefnu á sviði norðurslóðamála. Stefnurnar væru samstíga hvað varðar markmið um verndun umhverfis og hinna viðkvæmu vistkerfa og að við auðlindanýtingu væri sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Aftur á móti væri ekki eining um stofnanauppbyggingu á svæðinu eða vettvang til ákvarðanatöku. Valgerður lagði í sínu erindi áherslu á að styrkja bæri Norðurskautsráðið sem aðalsamstarfsvettvang ríkisstjórna um málefni norðurskautsins og taldi mikilvægt að þar hefðu aðrir hagsmunaaðilar, eins og samtök frumbyggja, áheyrnaraðild. Þá sagði Valgerður hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna grundvallartæki til að gera út um deilumál ríkja um lögsögu á svæðinu. Loks lagði hún áherslu á að loftslagsbreytingar og bráðnun íshellunnar á norðurslóðum legðu norðurskautsríkjunum á herðar skyldur á sviði eftirlits- og björgunarmála og umhverfisvöktunar. Norski þingmaðurinn Harald T. Nesvik tók þátt í umræðunni og lagði áherslu á það sjónarmið norskra stjórnvalda að vissulega væri Norðurskautsráðið mikilvægur samstarfsvettvangur en þó væru ýmis mál sem eðlilegt væri að þau fimm ríki sem hefðu réttindi strandríkja á norðurskautssvæðinu hefðu samráð um sín á milli á svokölluðum fimm ríkja fundum. Strandríkin fimm hefðu sérstökum skyldum að gegna samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og því væri ekkert athugavert við að ákvarðanataka sem þeim skyldum fylgdi færi fram í þeirra hópi.
    Í lok fundar samþykkti þingmannanefndin tvær ályktanir, annars vegar um málefni norðurslóða og hins vegar um rekstur EES-samningsins.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Schaan 20.–22. júní 2011.
    Í Schaan í Liechtenstein fór fram hefðbundinn fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk þess sem þingmannanefndin hélt sameiginlegan fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var m.a. fjallað um stöðu EES-samstarfsins. Svein Roald Hansen, formaður norsku landsdeildarinnar, ræddi úttekt Norðmanna á EES sem þá stóð yfir. Harry Quaderer, formaður landsdeildar Liechtenstein, ræddi úttekt á EES sem þegar hefur verið gerð í Liechtenstein. Sagði hann niðurstöður að mestu jákvæðar en lýsti áhyggjum af mjög ströngum reglum um fjármálastarfsemi og mismunun banka eftir ríkisfangi. Í því sambandi nefndi Quaderer að stærsti banki Liechtenstein, LGT, hefði þurft að hverfa frá yfirtöku á stórum þýskum banka vegna andstöðu þýska fjármálaeftirlitsins. Valgerður Bjarnadóttir sagði það hafa komið fram hjá utanríkisráðherra að ekki væri talin þörf á hliðstæðri úttekt á EES á Íslandi, annars vegar vegna aðildarviðræðna við ESB og hins vegar vegna skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra frá árinu 2007 um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þar var bent á ýmis tækifæri í EES-samningnum sem Íslendingar gætu nýtt betur en Valgerður sagði að lítið hefði verið gert með tillögur nefndarinnar. Þá gerði Valgerður stuttlega grein fyrir breytingum á þinglegri meðferð EES-mála á Alþingi eftir að nýjar reglur þar um tóku gildi 1. október 2010.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var sjónum beint að neitunarvaldi EES/EFTA-ríkja skv. 102. gr. EES-samningsins. Knut Almestad, fyrrverandi forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, flutti framsögu um málið og velti fyrir sér hvort neitunarvaldið væri yfir höfuð virkt. Í umræðunni sem á eftir fylgdi sagði Árni Þór Sigurðsson að neitunarvaldið hefði verið grundvallaratriði í þinglegri umræðu á Íslandi um EES-samninginn þegar hann var til afgreiðslu á Alþingi á sínum tíma. Umræðan um áhrif samningsins á fullveldi Íslands hefði orðið allt önnur ef sá skilningur hefði ekki verið fyrir hendi að neitunarvaldið væri raunverulega til staðar. Spurði Árni Þór hvort líta bæri á 102. gr. sem dauðan bókstaf og taldi nauðsynlegt að fá skorið úr hvort svo væri. Almestad sagði 102. gr. ekki á sviði ESA eða EFTA-dómstólsins og því væri ekki hægt að fá úrskurð dómstóla um neitunarvaldið. Neitunarvaldið væri pólitískt og væri því beitt væru afleiðingar þess fyrst og fremst pólitískt úrlausnarefni. Hægt væri að beita neitunarvaldi en það væri þess eðlis að það kæmi í veg fyrir lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er forsenda markaðarins. Þar með mundi beiting neitunarvalds grafa undan EES-samningnum.
    Í lok fundar þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var ákveðið að gangast fyrir sameiginlegri ráðstefnu nefndanna tveggja í nóvember 2011. Hefð hefur verið fyrir slíkum ráðstefnum á tveggja ára fresti. Efni ráðstefnunnar skyldi vera úttektarstarf stjórnvalda í Noregi og Liechtenstein og Evrópusambandsins á EES.
    Á sameiginlegum fundi þingmanna og ráðherra EFTA var annars vegar fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, og hins vegar um framkvæmd EES-samningsins, en það eru fastir dagskrárliðir á slíkum fundum. Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Á fundinum fór Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, yfir stöðu og horfur fríverslunarsamninga EFTA. Í máli hennar kom m.a. fram að fríverslunarsamningur EFTA við Hong Kong hefði verið undirritaður sama dag. Nýmæli í samningnum væri ákvæði um sjálfbæra þróun en samkvæmt ákvörðun ráðherra EFTA frá júní 2011 er stefnt að því að fá inn ákvæði um umhverfisvernd og vinnuvernd í fríverslunarsamninga í framtíðinni. Fleiri fríverslunarsamningar eru í bígerð og eru formlegar viðræður í gangi við Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan (sameiginlegar viðræður þar sem ríkin mynda tollabandalag) auk Indónesíu, Indlands, Bosníu og Hersegóvínu og Svartfjallalands. Þá er vonast til þess að samningaviðræður geti hafist við Malasíu og Víetnam innan tíðar en hagkvæmnisathuganir, sem jafnan eru undanfari eiginlegra viðræðna, hafa skilað jákvæðri niðurstöðu. Árni Þór Sigurðsson spurðist nánar fyrir um gang viðræðna við Indland þar sem svo virtist sem EFTA hefði dregist aftur úr ESB í samningaviðræðum. Frick svaraði því til að indversk stjórnvöld hefðu sjálf ákveðið að láta samningaviðræður við EFTA og ESB fara fram samhliða og að viðræðulotur við EFTA væru orðnar 8 en 15 viðræðulotur hefðu farið fram við ESB. Það væri hins vegar von EFTA að hægt yrði að ganga frá fríverslunarsamningi við Indland um svipað leyti og ESB gerir það. ESB hefði sem sterkara markaðssvæði eðlilega meiri skriðþunga í viðræðunum en EFTA fylgdi á eftir.
    Í umræðum þingmanna og ráðherra EFTA um framkvæmd EES-samningsins var m.a. komið inn á umfangsmikla endurskoðun á regluverki fjármálaþjónustu innan ESB. Árni Þór Sigurðsson spurðist fyrir um innstæðutryggingakerfi í þessu sambandi og hvernig farið hefði með reglur um þær í þessu ferli. Þar væri mikilvægast að slá því föstu hvort ríkisábyrgð væri á bak við innstæðutryggingar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði ESB breyta reglum eftir pólitískum hentugleika og hvatti til þess að EFTA-ríkin stæðu föst fyrir gagnvart slíku og krefðust þess að farið væri að lögum og reglum. Dæmi um pólitíska eftirábreytingu á reglum væri sú túlkun að ríkisábyrgð væri að baki innstæðutryggingum eins og Íslendingar hefðu verið krafðir um. Þá sagði Sigmundur Davíð EFTA verða að búa sig undir mögulegt hrun á evrusvæðinu og taldi að EFTA byggi andstætt ESB við þá stöðu að þurfa ekki að vera í afneitun gagnvart þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp væri komin á evrusvæðinu.

37. fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 26.–27. október 2011.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Árni Þór Sigurðsson, formaður, Magnús Orri Schram, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Skúli Helgason og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar. Helstu dagskrármál fundarins voru þróun EES-samningsins, þær úttektir sem unnið er að í Noregi og innan ráðherraráðs ESB á EES-samningnum, staða mála hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), stefna ESB í upplýsingatækni, og þróunarsjóðir EFTA og Noregs fyrir EES.
    Á fundi þingmannanefndar EES var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Í umræðunni kom fram að rekstur samningsins gengur vel og EES/EFTA-ríkin innleiða EES-gerðir hratt og örugglega. Svokallaður innleiðingarhalli EES/EFTA-ríkjanna, sem Eftirlitsstofnun EFTA tekur saman, er innan við 1% sem er undir þeim mörkum sem ríkin miða við að halda sig innan. Fjallað var um yfirstandandi fjármálakreppu, sér í lagi vanda evrusvæðisins, sem hefur áhrif á öll ríki EES. Fram kom að björgunaraðgerðir ESB falla utan við gildissvið EES-samningsins. Styrking löggjafar um innri markaðinn sem einnig er viðbragð við kreppunni fellur þó innan samningsins. Gianluca Grippa greindi frá stöðu úttektar sem ráðherraráð ESB fól utanríkisþjónustu sambandsins að gera á virkni EES-samningsins. Lagði hann áherslu á að helsti tilgangur úttektarinnar væri að auka praktískan sveigjanleika og skilvirkni samningsins enda hefðu aðstæður gjörbreyst frá því að hann gekk í gildi. Niðurstöður munu liggja fyrir 2012 og þá verður samstarfsaðilum frá EFTA-hlið EES greint frá þeim.
    Oda Sletnes, nýr forseti ESA, hélt venjubundið erindi um stöðu mála hjá Eftirlitsstofnuninni og kom íslenska bankahrunið og afleiðingar þess þar töluvert við sögu. ESA hefði hafið formlega rannsókn á ríkisstyrkjum til fjármálafyrirtækja eftir hrun. Nefndi Sletnes sérstaklega að það væri undarlegt að Íslandsbanki væri að kaupa Byr, banki sem hefði þurft stuðning ríkisins ætti ekki að kaupa annan banka nema það væri nauðsynlegt til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Þá sagði Sletnes Icesave-málið í farvegi. Íslensk stjórnvöld hefðu svarað rökstuddu áliti ESA í byrjun september 2011 og það svar væri í skoðun hjá stofnuninni. Benti hún á að framkvæmdastjórn ESB tæki undir lögfræðilegt mat ESA í málinu í framvinduskýrslu um aðildarviðræður við Ísland sem út kom 12. október 2011. Loks sagði Sletnes ESA hafa beint tilmælum til Íslands og Noregs um að breyta reglum um greiðslur atvinnuleysisbóta til útlendinga þar sem þess er krafist að þeir hafi unnið í ákveðinn tíma til að vinna sér inn rétt til bóta. Bæði ríkin hafa lýst því yfir að þau muni breyta reglum sínum í þessu sambandi.
    Árni Þór Sigurðsson sagði það margítrekað af hálfu ESB að litið væri á Icesave-málið sem tvíhliða mál Íslands annars vegar og Hollands og Bretlands hins vegar og því væri vísun forseta ESA til þess að framkvæmdastjórnin styddi lögfræðiálit ESA marklaus. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson taldi málsmeðferð ESA undarlega og minnti á að fyrri forseti hefði haft uppi sterkar skoðanir á málinu á opinberum vettvangi áður en það barst á borð ESA. Rökstutt álit ESA bæri meiri keim af pólitík en lögfræði og óljóst væri af hverju framkvæmdastjórn ESB og ESA fyndu hjá sér þörf til að vísa í álit hvort annars í málinu. Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók undir með fyrri ræðumönnum og spurði Sletnes jafnframt út í líklegan tímaramma Icesave-málsins. Sletnes sagði ekki hægt að meta það, málið væri í eðlilegum farvegi og ESA mundi svara síðasta bréfi íslenskra stjórnvalda þegar mat á því lægi fyrir. Þá lýsti Þorgerður áhyggjum af væntanlegri breytingu á reglum um innstæðutryggingar banka á EES sem gera ráð fyrir að lágmarkstrygging hækki úr 20.000 í 100.000 evrur.
    Þá var tekin til umfjöllunar skýrsla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Evrópuþingmannsins Paul Rübig um stefnu ESB á sviði upplýsingatækni og EES. Sigmundur Davíð flutti framsögu og fjallaði um hvernig aukin notkun og þróun upplýsingatækni gæti haft áhrif til góðs við margvíslegan vanda sem samfélög Evrópu eiga við að glíma svo sem loftslagsbreytingar og umhverfisvá, fjölgun eldri borgara og aukin útgjöld til heilbrigðismála, og þörf á þróun skilvirkari almannaþjónustu. Stefnan væri viðbrögð við áskorunum á sjö sviðum sem eru eftirfarandi: skortur á einum samhæfðum markaði á sviði upplýsingatækni; skortur á samhæfingu upplýsingatæknikerfa í álfunni; aukin tíðni tölvuglæpa og hætta á minnkandi trausti á upplýsingatækni þeim samfara; skortur á fjárfestingum í kerfum; lág framlög til rannsókna og þróunar; skortur á tölvulæsi; og glötuð tækifæri til að fást við félagsleg vandamál með upplýsingatækni.
    Þá var tekin fyrir skýrsla Harald T. Nesvik og Zuzana Brzobohata um þróunarstyrki EFTA og Noregs til fátækari ríkja ESB. Styrkirnir nema alls 3,1 milljarði evra á tímabilinu 2004– 2014 og eru framlag EFTA-ríkjanna til að stuðla að félagslegum jöfnuði á EES-svæðinu. Fjórðungi upphæðarinnar hefur verið varið í verkefni á sviði umhverfismála en styrkir hafa einnig runnið til verkefna á sviði varðveislu menningarminja, stúdentaskipta, innanríkismála, stefnumótunar á heilbrigðissviði og til stuðnings frjálsum félagasamtökum.
    Loks var fjallað um skýrslu Nikolai Astrup og Anna Hedh um evrópskt kerfi um skilagjald á drykkjarvöruumbúðum til að tryggja endurvinnslu á þeim.
    Í lok fundar samþykkti þingmannanefndin þrjár ályktanir, um stefnu ESB á sviði upplýsingatækni og EES, þróunarstyrki EFTA og Noregs, og skilagjaldakerfi fyrir drykkjarvöruumbúðir.

Fundir þingmannanefndar og ráðherra EFTA og tengdir fundir í Genf og Brussel 14.–16. nóvember 2011.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður (Brussel-fundi), Magnús Orri Schram, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Skúli Helgason (Brussel-fundi) og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar. Í Genf fór fram fundur þingmanna og ráðherraráðs EFTA sem skipað er utanríkisviðskiptaráðherrum ríkjanna um fríverslunarmál en í Brussel átti þingmannanefndin fund með utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna um EES-mál. Í Brussel fór einnig fram fundur með sveitarstjórnarvettvangi EFTA og ráðstefna þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA um stöðu lítilla Evrópuríkja í yfirstandandi fjármálakreppu.
    Á sameiginlegum fundi þingmanna og ráðherraráðs EFTA í Genf var einkum fjallað um gerð fríverslunarsamninga EFTA, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Engin ríkjasamtök náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu. Á fundinum flutti Trond Giske, viðskiptaráðherra Noregs, framsögu um stöðu og horfur fríverslunarsamninga EFTA. Fríverslunarsamningur var undirritaður við Svartfjallaland sama dag og fundurinn fór fram auk þess sem viðræður voru formlega hafnar við Kosta Ríka, Hondúras og Panama. Mikilvægustu viðræður EFTA standa yfir við Indland og Rússland. Þróun viðræðna við Indland hefur verið hægari en búist var við. Hvað varðar viðræður við Rússland flækir það málið að Rússland er í tollabandalagi við Kasakstan og Hvíta-Rússland svo að EFTA á í viðræðum við ríkin þrjú sameiginlega. Aðild að WTO er forsenda samningagerðar og því er nýtt samkomulag um aðild Rússlands að stofnuninni afar mikilvægt en búist er við því að af formlegri aðild Rússa geti orðið um mitt ár 2012. Kasakstan og Hvíta-Rússland eru ekki aðilar að WTO en ein möguleg lausn á þeim vanda er að gerðir verði þrír aðskildir samningar við ríkin sem taki ekki gildi fyrir Kasakstan og Hvíta-Rússland fyrr en af aðild verður. Á fundinum spurði Þorgerður K. Gunnarsdóttir sérstaklega út í árangur fríverslunarsamninga og hvort til væri úttekt á því hvaða áhrif þeir hafi haft á viðskiptatengsl EFTA-ríkjanna við viðkomandi þjóðir. Í ljósi þess að elstu gildu fríverslunarsamningar EFTA eru um 20 ára væri athugandi að framkvæma slíka úttekt. Giske sagði árangur samninganna góðan og að jafnaði mætti sjá mikla aukningu viðskipta í kjölfar þeirra. Aukningin væri meiri en tollalækkanir einar og sér gætu skýrt og kæmu til af því að með samningum yrði viðskiptaumhverfið stöðugra og fyrirsjáanlegra og það væri líka mikilvægur þáttur fríverslunarsamninga. Að lokum var rætt um ákvæði um umhverfisvernd og vinnuvernd, sem kynnt voru á ráðherrafundi EFTA í júní 2010 og til stendur að hafa í fríverslunarsamningum samtakanna. Ákvæðin voru sett inn í fríverslunarsamning við Hong Kong sem undirritaður var í júní 2011 en enn eru samningaviðræður við Indland og Rússland ekki komnar svo langt að ákvæðin hafi verið kynnt og rædd.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA í Genf var m.a. farið yfir stjórnmálaþróun í aðildarríkjunum. Þorgerður K. Gunnarsdóttir gerði grein fyrir lokum efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið og tíðindum af landsfundum stjórnmálaflokkanna. Á fundinum var enn fremur fjallað um viðskipti sem lið í þróunarstarfi, m.a. með því að veita þróunarríkjum aðgang að mörkuðum efnaðri ríkja. Þá var farið ítarlega yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA við Indónesíu auk þess sem þingmannanefndin heimsótti höfuðstöðvar WTO og kynnti sér stöðu Doha-samningalotunnar.
    Á sameiginlegum fundi þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA í Brussel var einkum rætt um stöðu EES-samningsins. Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra Noregs flutti framsögu af hálfu ráðherranna og greindi frá því að á haustfundi þeirra hefði helst verið fjallað um viðbrögð ESB við yfirstandandi fjármálakreppu. Þá ræddi hann úttekt Noregs á EES-samstarfinu en niðurstaðna hennar var að vænta í desember 2011. ESB er einnig að vinna að úttekt á EES sem væntanleg er 2012. Árni Þór Sigurðsson spurði út í hugsanleg áhrif aukinnar samvinnu og samræmingar ESB-ríkja á sviði ríkisfjármála á EES. Þorgerður K. Gunnarsdóttir spurði hvernig unnið yrði úr niðurstöðum úttektar Norðmanna á EES og jafnframt út í umræðu í Noregi um hvort tvíhliða samningur við ESB, eins og Svisslendingar hafa gert, kynni að vera betri grundvöllur samstarfs við sambandið en nýleg skoðanakönnun í Noregi sýndi mikinn stuðning við það sjónarmið. Skúli Helgason spurði um afstöðu til hugmynda um tvískipt ESB sem ganga út á að evruríkin hraði og dýpki samstarf sitt til að bregðast við fjármálakreppunni á meðan hin aðildarríkin sitji eftir.
    Støre kvað ljóst að ríkisfjármál væru utan EES-samstarfsins og því mundi aukið samstarf á því sviði innan ESB ekki hafa bein áhrif á EES. Hins vegar mundu EES/EFTA-ríkin skoða hvaða áhrif slíkt samstarf gæti hugsanlega haft á samkeppnishæfni þeirra ef af því yrði. Þá sagði Støre niðurstöður úttektarinnar á EES verða birtar opinberlega en ríkisstjórnin mundi síðan leggja hvítbók fyrir Stórþingið með mati sínu á úttektinni og mögulegum tillögum til breytinga á grundvelli hennar. Loks kvað Støre skiljanlegt að hugmyndir væri uppi um dýpri samvinnu evruríkjanna innan ESB en slík umræða gæti þó valdið óöryggi og tortryggni innan sambandsins. Sú umræða hefði ekki bein áhrif á EES.
    Þá átti þingmannanefnd EFTA fund með sveitarstjórnarvettvangi EFTA sem stofnað var til á síðasta ári þar sem nefndin og vettvangurinn kynntu starfsemi sína. Þingmannanefndin fór yfir síðustu skýrslur og ályktanir sem gerðar hafa verið um þróunarstyrki EFTA og Noregs, skilagjaldakerfi fyrir drykkjarvöruumbúðir, málefni norðurslóða og stefnu ESB á sviði upplýsingatækni og fóru Árni Þór Sigurðsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yfir tvö síðastnefndu málefnin.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var fjallað um fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir starfsárið 2012 en framkvæmdastjórnin hefur það hlutverk að fjalla um áætlunina og skila áliti sínu. Fyrir hönd Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sátu Árni Þór Sigurðsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir fundinn. Þau kváðust ekki geta stutt áætlaða 5,61% hækkun á framlögum til ESA og bentu á að slík hækkun væri úr takti við þann niðurskurð og hagræðingarkröfur sem nú er uppi víða um Evrópu. Gerðu þau fyrirvara við álit framkvæmdastjórnarinnar um fjárhagsáætlunina þar sem fram kom að í ljósi niðurskurðar á Íslandi og áætlaðra framlaga Íslands til ESA samkvæmt fjárlagafrumvarpinu gæti Íslandsdeildin ekki stutt hækkunina.
    Þingmannanefnd EFTA og ráðgjafanefnd EFTA, sem skipuð er aðilum vinnumarkaðarins, efna til sameiginlegrar ráðstefnu á tveggja ára fresti. Að þessu sinni fjallaði ráðstefnan um stöðu smærri ríkja Evrópu í fjármálakreppunni. Í fyrri hluta ráðstefnunnar var fjallað um áhrif yfirstandandi fjármálakreppu á hagkerfi Evrópuríkja og viðbrögð ESB við henni. Í síðari hlutanum var fjallað um áhrifin á smærri ríki og sérstaklega horft til Íslands, Noregs og Sviss. Einn framsögumanna á ráðstefnunni var Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri. Hann sagði lærdóminn af viðbrögðum við kreppunni á Íslandi og kreppu á Norðurlöndum í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar þann að vel væri hægt að ná ríkisútgjöldum niður um sem næmi 10% af VLF á 3–4 árum ef pólitískur vilji væri fyrir hendi. Þetta væri mikilvægt að hafa í huga þegar horft væri til Ítalíu og fleiri ESB-ríkja sem nú standa frammi fyrir kröfu um mikinn niðurskurð á ríkisútgjöldum. Øygard minnti á þau viðbrögð Finnlands í kreppunni á tíunda áratugnum að auka framlög til þróunar, rannsókna og nýsköpunar sem hefði reynst mjög vel. Engin skilgreind hagvaxtarstefna væri á Íslandi en landið stæði vel að vígi með fisk, ál og ferðamannaiðnað en óvissa um eignarhald á fjöldamörgum íslenskum fyrirtækjum hindraði fjárfestingar auk þess sem erlendir fjárfestar virtust ekki velkomnir á Íslandi.

6. Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2011.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2010, samþykkt í Longyearbyen 13. apríl 2011.
          Ályktun um norðurslóðir, samþykkt í Longyearbyen 13. apríl 2011.
          Ályktun um stefnu ESB á sviði upplýsingatækni og EES, samþykkt í Strassborg 26. október 2011.
          Ályktun um þróunarstyrki EFTA og Noregs, samþykkt í Strassborg 26. október 2011.
          Ályktun um skilagjaldakerfi fyrir drykkjarvöruumbúðir, samþykkt í Strassborg 26. október 2011.

Alþingi, 22. febrúar 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


formaður.


Skúli Helgason,


varaformaður.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.