Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 561. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 874  —  561. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2011.

1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2011 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr, með tilliti til markmiða sambandsins, sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna umræðu um hvernig styrkja megi lýðræðislegar endurbætur í verðandi lýðræðisríkjum, m.a. í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum, og fór fram utandagskrárumræða um efnið á vorþingi sambandsins í Panama í apríl. Í ályktun sambandsins um málið var m.a. lögð áhersla á það að öll lýðræðisríki ættu að byggjast á viðurkenndum gildum og siðareglum, þar með talið mannréttindum, jafnrétti kynjanna, gagnsæi og ábyrgð og virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Jafnframt fór fram umræða um aðstæður íbúa Sómalíu sem búa við hungursneyð og viðleitni aðildarríkja IPU til aðstoðar. Þar lýstu þingmenn yfir miklum áhyggjum af ástandinu og stuðningi við Sómalíu. Var m.a. hvatt til eflingar alþjóðlegs þingmannasamstarfs með það að markmiði að stuðla að aukinni aðstoð til að draga úr þjáningum og hungri í Sómalíu og á horni Afríku.
    Þá ber að nefna umræðu um hlutverk þinga við að tryggja sjálfbæra þróun með stjórnun á náttúruauðlindum, landbúnaðarvörum og lýðfræðilegum breytingum sem var áberandi á árinu auk umræðu um gagnsæi og traust varðandi fjárframlög til stjórnmálaflokka og kosningaherferðir. Jafnframt var áhersla lögð á umræðu um tillögur að framtíðaráætlun IPU fyrir 2012–2017 og framtíðarsýn sambandsins. Framtíðaráætlunin var samþykkt samhljóða á haustþingi sambandins í Bern í október og er það í fyrsta sinn sem slík áætlun er samþykkt. Í áætluninni er lögð áhersla á rannsóknir, siðareglur, tæknilega aðstoð, jafnrétti kynjanna og mannréttindi og endurspeglar áætlunin sambandið, verkefni þess og framtíðarsýn.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2011 má nefna eflingu góðra stjórnhátta sem leið að friði og öryggi, með tilvísun í þann lærdóm sem draga má af nýlegum atburðum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, dreifingu valds, ekki eingöngu auðæfa, og aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi með áherslu á konur og börn. Enn fremur var rætt um þingræðislegt traust og hvernig standa megi undir væntingum kjósenda á vorþingi IPU.
    Að venju kynnti nefnd um mannréttindi þingmanna skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Mál Birgittu Jónsdóttur þingmanns, um rannsókn bandarískra yfirvalda og dómsmál gegn henni, var til umræðu hjá nefndinni á árinu og ályktun á grundvelli máls hennar samþykkt á ráðsfundi haustþings.
    Þá ber að nefna mikilvægt starf IPU til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2011 má nefna svæðisbundna málstofu um réttindi barna í Mið- og Austur- Evrópu, Rússlandi og Úkraínu og svæðisbundna málstofu fyrir þing í Asíu um forvarnir og viðbrögð við ofbeldi gegn konum og stúlkum. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2011 var m.a. gefin út handbók um þátttöku barna í þjóðþingum.

2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 159 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga níu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, stórt þing að vori er haldið í einu af aðildarríkjum sambandsins og minna þing er haldið í Genf að hausti, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir því um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef ekki eru fulltrúar beggja kynja í sendinefndinni fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur sautján manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Mið- Austurlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, m.a. ef um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar.
    Í byrjun árs skipuðu Íslandsdeildina Þuríður Backman, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Einar K. Guðfinnsson, varaformaður, þingflokki sjálfstæðismanna, og Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Oddný Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Ólöf Nordal, þingflokki sjálfstæðismanna.
    Breytingar urðu á skipan Íslandsdeildar og var tilkynnt um þær á þingfundi 1. október. Þá tók Oddný Harðardóttir sæti aðalmanns og Sigmundur Ernir Rúnarsson sæti varamanns. Á fundi Íslandsdeildar 13. október var Oddný Harðardóttir kosin varaformaður Íslandsdeildar. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt sex fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt virk í starfi IPU á árinu 2011 og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Finnar í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Helsinki 30. mars og sá síðari í Turku 23. september 2011.
    Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, sótti fundinn í Helsinki auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Katri Komi, formaður finnsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum. Fyrsta mál á dagskrá var kynning Krister Örnfjäder, norræns fulltrúa í framkvæmdastjórn IPU, á áhersluatriðum framkvæmdastjórnarinnar og því sem helst var til umræðu á fundi stjórnarinnar í febrúar 2011. Tillögur að framtíðaráætlun IPU fyrir 2012–2017 voru aðalumræðuefni fundarins. Örnfjäder sagði tillögu um að breyta IPU í alþjóðastofnun komna út af borðinu og tóku nefndarmenn undir með Örnfjäder að það væri jákvætt þar sem mörgum spurningum væri enn ósvarað varðandi tillöguna og efasemdir væru um að hún væri sambandinu til góða, ekki síst þar sem breytingin mundi hafa í för með sér miklar skipulagsbreytingar á skrifstofu IPU og aukinn kostnað sem ekki er ásættanlegur. Voru nefndarmenn sammála um að IPU ætti að einbeita sér að þeim sviðum þar sem sérþekking sambandsins er mest og forðast að taka að sér verkefni sem stuðla að tvíverknaði.
    Á fundi framkvæmdastjórnarinnar hafði Örnfjäder lagt til að ef fjölga þyrfti fundum framkvæmdastjórnarinnar frekar væri vert að skoða það að nota internetið og fjarfundabúnað til að auka ekki kostnað við fundahöld. Örnfjäder sagði margar tillögur hafa komið fram um framtíðarverkefni IPU en gagnrýndi að kostnaðurinn við verkefnin kæmi of seint inn í ákvörðunarferlið og sagði að brýnt væri að gera breytingu þar á. Þuríður Backman spurði Örnfjäder hvort yfirsýn og eftirfylgni væri með verkefnum IPU. Hann svaraði því neitandi og sagði að fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar hefðu eins og staðan væri ekki aðgang að upplýsingum sem veittu þeim yfirsýn yfir verkefnin né væri þeim fylgt eftir svo sýnilegt væri. Voru nefndarmenn sammála um að brýnt væri að bætt yrði úr því í framtíðaráætlun sambandsins og eftirfylgni og yfirsýn tryggð.
    Þá fræddi Örnfjäder nefndarmenn um helstu niðurstöður fundar stjórnarnefndar Tólfplús- hópsins. Fulltrúar hópsins í framkvæmdastjórn hafa lagt áherslu á að IPU geti ekki beitt sér á öllum sviðum og mikilvægt sé að forgangsraða verkefnum betur og horfa í því sambandi til sérþekkingar sambandsins. Á vorþingi IPU í Genf í október 2010 var tekin ákvörðun um að komið yrði á fót sérstökum vinnuhópi sem skoðaði fjárframlög aðildarríkjanna til IPU. Örnfjäder var valinn fulltrúi Tólfplús-hópsins í vinnuhópnum og síðan formaður vinnuhópsins á fundi framkvæmdastjórnarinnar. Mörg aðildarríki hafa sent inn kvörtun vegna hárra árgjalda og verður það m.a. skoðað á fundum vinnuhópsins. Eins og staðan er stendur Tólfplús-hópurinn undir 60% fjárhagsáætlunar IPU og greiðir Japan hlutfallslega mest af aðildarríkjunum og hefur ekki hug á að gera það lengur. IPU hefur notað mælikvarða Sameinuðu þjóðanna varðandi framlög aðildarríkjanna en hefur samt sem áður ekki uppfært hann síðan 2006 þótt mælikvarði Sameinuðu þjóðanna breytist árlega. Þá var rætt um málefni Norður-Afríku og hvernig IPU eigi að taka á aðild ríkja á svæðinu þar sem ekki eru starfandi þing í kjölfar uppreisna.
    Enn fremur var rætt um næstu kosningar til forseta IPU sem fyrirhugaðar voru á haustþinginu 2011 og hugsanlegan frambjóðanda Tólfplús-hópsins. Örnfjäder sagði nafn Katri Komi, formanns finnsku landseildarinnar og fyrrverandi fulltrúa Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU, oft hafa borið á góma þegar rætt hefði verið um nýtt forsetaefni og óskaði eftir því að hún gæfi kost á sér í embættið. Katri Komi þakkaði traustið en svaraði því til að það væri hefð fyrir því að forsetar IPU skiptist óreglulega á milli landfræðihópanna og þar sem þarsíðasti forseti IPU hefði verið frá Ítalíu væri ekki líklegt að fulltrúi í Tólfplús-landfræðihópnum næði kjöri að þessu sinni. Hún væri því ekki tilbúin til að gefa kost á sér á þessum tímapunkti auk þess sem þingkosningar færu fram í Finnlandi 17. apríl og ekki öruggt að hún næði endurkjöri.
    Þá var rætt um þrönga fjárhagsstöðu IPU þar sem skuldbindingar varðandi lífeyrisgreiðslur og laun hafa m.a. hækkað. Fyrir um fimm árum var óskað eftir auknum frjálsum fjárframlögum til sambandsins en þau hafa ekki skilað sér í þeim mæli sem vonast var eftir. Svíþjóð og nokkur önnur ríki hafa lagt frjáls fjárframlög til ákveðinna verkefna. Einnig var rætt um kosningaeftirlit og hvort IPU ætti að leggja áherslu á það í starfsemi sinni. Almennt töldu nefndarmenn að IPU ætti ekki að einbeita sér að því að svo stöddu þar sem aðrar stofnanir væru nú þegar búnar að sérhæfa sig í eftirlitinu og ekki væri rétt að stuðla að tvíverknaði.
    Farið var yfir helstu umræðuefni vorþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna voru fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kosningasvindli og hvernig tryggja mætti sanngjörn valdaskipti, sjálfbær nýting náttúruauðlinda og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara og gagnsæi og traust stjórnmálaflokka. Enn fremur skyldi fara fram almenn umræða um þingræðislega ábyrgð og það að standa undir væntingum almennings. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun. Lögð hafði verið fram ein tillaga að neyðarályktun, um ástandið í Japan í kjölfar jarðskjálftanna og flóðbylgjunnar sem reið yfir landið. Þá þótti líklegt að tillaga um ástandið í Norður-Afríku yrði lögð fram og jafnvel fleiri tillögur á vorþinginu í Bangkok.
    Þuríður Backman sagði nefndarmönnum frá máli Birgittu Jónsdóttur og rannsókn og dómsmáli bandarískra yfirvalda sem óskað hafa eftir upplýsingum af Twitter-samskiptasíðu Birgittu. Þá greindi Þuríður frá áhuga mannréttindanefndar IPU á málinu sem hafði tekið ákvörðun um að fjalla sérstaklega um það á fundi nefndarinnar í Panama. Nefndin hugðist fjalla um málið út frá tjáningarfrelsi sem hornsteini lýðræðis. Enn fremur lagði Þuríður til að IPU fjallaði um málefni staðgöngumæðra í nánustu framtíð. Tóku nefndarmenn vel í þá hugmynd og var rætt um að sala á líffærum frá þróunarlöndum ætti jafnvel heima undir sama hatti.
    Einar K. Guðfinnsson, varaformaður Íslandsdeildar, sótti fundinn í Turku auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Maria Lohela, nýr formaður finnsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum. Fyrsta mál á dagskrá var kynning Kristers Örnfjäder, norræns fulltrúa í framkvæmdastjórn IPU, á áhersluatriðum framkvæmdastjórnarinnar og því sem helst var til umræðu á fundi stjórnarinnar sem haldinn var í Genf 8.–9. september 2011 og á fundi stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins sem haldinn var 11.–12. september. Tillögur að framtíðaráætlun IPU fyrir 2012–2017 og drög að fjárhagsáætlun IPU fyrir árið 2012 voru aðalumræðuefni fundanna. Drög að framtíðaráætluninni voru send til landsdeilda IPU og rædd innan landfræðihópanna. Einar K. Guðfinnsson sagði gagnlegt fyrir sambandið að setja niður framtíðaráætlun en mikilvægt væri að hún væri framkvæmanleg og færi ekki fram úr fjárhagsramma sambandsins. Hann spurði Örnfjäder hvert áætlunin stefndi og hver væru næstu skref. Örnfjäder vildi meina að IPU hefði þörf fyrir framtíðaráætlun og horft væri til fjárhagsáætlunar við gerð hennar. Vinna við áætlunina hófst í byrjun árs 2010 og útkoman er sextán blaðsíðna skjal með áætlun fyrir næstu fimm ár. Örnfjäder sagði framkvæmd áætlunarinnar eins og hún er í dag kalla eftir miklum fjármunum.
    Rætt var um að í ljósi þröngrar fjárhagsstöðu IPU þar sem skuldbindingar varðandi lífeyrisgreiðslur og laun hafa m.a. hækkað væri mikilvægt að óskað væri eftir auknum frjálsum fjárframlögum til sambandsins en þau hafa ekki skilað sér í þeim mæli sem vonast var eftir. Örnfjäder kallaði eftir auknum aðgerðum í stað umræðna og sagði að í ljósi niðurskurðar í fjárhagsáætlun IPU væri enn mikilvægara að frjálsu fjárframlögin ykjust. Nefndarmenn voru sammála um að með niðurskurði fjármagns til IPU yrði sambandið að takmarka starfsemi sína við meginforgangsverkefni sambandsins, eins og lýðræði og jafnrétti kynjanna.
    Á fundi stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins í París höfðu nefndarmenn sammælst um að niðurskurður í fjárhagsáætlun IPU væri nauðsynlegur og að drög fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 væru ásættanleg. Þá sagði Örnfjäder að ekki væri lengur rætt um þá tillögu að breyta IPU í alþjóðastofnun. Varðandi nýstofnaða undirnefnd um fjármál IPU benti hann á mikilvægi þess að sérþekking varðandi fjármál sambandsins væri innan framkvæmdastjórnarinnar. Styrking svissneska frankans gagnvart flestum gjaldmiðlum að undanförnu hefur valdið hækkun árgjalda aðildarríkjanna. Rætt var um leiðir til að koma í veg fyrir þennan óstöðugleika og var ein hugmyndin að koma á fót svokallaðri „gjaldmiðlakörfu“ við innheimtu árgjalda. Sum aðildarríkin, eins og t.d. Holland, hafa tilkynnt að ef árgjaldið hækki hjá þeim muni þau ekki greiða mismuninn.
    Rætt var um upplýsingastefnu IPU og hvernig mögulegt væri að vekja frekari athygli á sambandinu og málefnum þess. Fram kom að fáir vissu um tilvist IPU og því væri þörf á breyttri stefnu varðandi ímynd og markaðssetningu sambandsins. Maria Lohela lagði til að norrænu samráðsfundirnir væru notaðir sem vettvangur til að koma með hugmyndir að leiðum til að koma skilaboðum IPU áleiðis til almennings. Rætt var um að norrænu ríkin gætu jafnvel sent frá sér sameiginlegar tilkynningar eða skýrslur varðandi það sem efst er á baugi hjá IPU. Katri Komi, varaformaður finnsku landsdeildarinnar, benti í því sambandi á að varast skyldi tvíverknað og minnti nefndarmenn á að fyrir nokkrum árum hefði því verið hafnað að auglýsingastofan Saatchi & Saatchi gerði skýrslu fyrir hópinn vegna kostnaðar. Voru nefndarmenn sammála um að IPU ætti að einbeita sér að sviðum þar sem sérþekking sambandsins er mest og forðast að taka að sér verkefni sem stuðla að tvíverknaði.
    Þá var rætt um tvær lausar stöður fyrir fulltrúa Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórninni sem kosið skyldi um á haustþinginu í Bern. Tímabili Robert del Picchia frá Frakkalandi, sem jafnframt er formaður Tólfplús-hópsins, og Doris Stump frá Sviss lýkur í Bern. Joseph Winkler frá Þýskalandi hafði tilkynnt um framboð sitt en ekki var ljóst með aðra frambjóðendur að svo stöddu. Þá hafði Monica Green frá Svíþjóð tilkynnt um framboð sitt til nefndar um málefni Mið-Austurlanda. Enn fremur var rætt um næstu kosningar til forseta IPU sem fara áttu fram á haustþinginu í Bern en tveir frambjóðendur voru til embættisins, Abdelwahad Radi frá Marokkó og Nurhayati Ali Assegaf frá Indónesíu. Senda átti starfsferilsskrá og kynningarefni frambjóðendanna til nefndarmanna. Farið var yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Þá var rætt um að málefni staðgöngumæðra, sem Þuríður Backman, formaður Íslandsdeildar, hugðist leggja fram sem nýtt umræðuefni á vorþinginu 2012, gæti átt heima sem sérstakt viðfangsefni skýrslu þriðju nefndar um aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
    Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna fundaði í tengslum við þingið í Bern. Katri Komi, fulltrúi í ráðgjafanefnd nefndar um málefni Sameinuðu þjóðanna, fræddi nefndarmenn um helstu mál á dagskrá og áhersluatriði. Ráðgjafanefndin fór í gagnlega sendiför til Ghana og Sierra Leoni í júní 2011 í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og var skýrsla um verkefnið væntanleg. Katri sagði miður hversu slök þátttaka hefði verið á fundum nefndarinnar og óskaði eftir tillögum að breytingum á fyrirkomulagi fundanna sem stuðlað gæti að auknum áhuga nefndarmanna. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun en eingöngu hefur verið lögð fram ein tillaga, um neyðarástandið í Sómalíu.
    Enn fremur vakti Einar máls á dagsetningum vorþinga IPU en síðustu ár hafa þau verið haldin dagana fyrir páska og síðasti fundardagur verið skírdagur. Einar benti á að rökin fyrir þessum dagsetningum hefði verið að þær hentuðu bandarískum þingmönnum en þeir hefðu ekki sótt þingin síðustu missiri og óljóst hvort þeir mundu aftur gerast aðildarríki að IPU. Ákveðið var að ræða málið frekar á haustþinginu í Bern þar sem almenn óánægja var með dagsetningar og leggja til nýjar fyrir vorþingið 2013. Varðandi umræðuefni nefnda fyrir árið 2012 sem lögð verða fram á vorþinginu í Kampala tilkynnti Wickholm frá Noregi að hann mundi leggja til að rætt yrði um loftslagsbreytingar út frá endurnýtanlegri orku og hreinni notkun jarðefnaeldsneytis.
    Ísland átti að taka við formennsku í norræna samráðshópnum eftir haustþingið í Bern og var tekin ákvörðun um að næsti norræni undirbúningsfundur yrði haldi í Reykjavík í mars 2011 til undirbúnings vorþingi í Kampala 31. mars – 5. apríl 2012.

124. þing IPU í Panama 15.–20. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Þuríður Backman, formaður, Einar K. Guðfinnsson, varaformaður, og Sigmundur Ernir Rúnarsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru gagnsæi og traust stjórnmálaflokka, sjálfbær nýting náttúruauðlinda og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kosningasvindli. Þá fór fram almenn umræða um þingræðislegt traust og hvernig standa megi undir væntingum kjósenda. Enn fremur tók utandagskrárumræðuefni ráðstefnunnar á því hvernig styrkja mætti lýðræðislegar endurbætur í verðandi lýðræðisríkjum, m.a. í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. 615 þingmenn frá 119 ríkjum sóttu þingið, þar af 35 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð, en þar er farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt er. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu niðurstöður funda stjórnarinnar og gafst fundargestum kostur á að spyrja út í starf hennar. Á fundum stjórnarinnar hafði verið lögð sérstök áhersla á stefnu IPU fyrir árin 2012–2017 og lögðu fulltrúar Tólfplús-hópsins fram tillgögur að breytingum á drögum stefnunnar. Í framhaldinu kynnti framkvæmdastjóri IPU ný drög að stefnunni þar sem flestar tillögur Tólfplús-fulltrúanna voru teknar til greina þó að þeir væru sammála um að enn vantaði nokkur mikilvæg atriði í stefnuna, m.a. forgangsröðun á níu meginmarkmiðum hennar og sundurliðun fjárhagsáætlunar.     Þá kynnti Krister Örnfjäder (Svíþjóð) niðurstöður fyrsta fundar vinnuhóps um mælikvarða fyrir framlög aðildarríkjanna til IPU. Hann sagði fulltrúa sjö aðildarríkja hafa tekið þátt í fundinum auk fjögurra fulltrúa Tólfplús-hópsins og að enn væri langt í land með að hópurinn kæmist að samkomulagi um málið. Rætt hafi verið að þrátt fyrir að upphaflegi mælikvarðinn hafi verið byggður á kvarða Sameinuðu þjóðanna, þ.e. á efnahagslegri stöðu aðildarríkjanna, sé nauðsynlegt að breyta honum í ljósi þess að aðildarríki IPU séu færri auk þess sem Bandaríkin eigi ekki aðild að IPU. Jafnframt sagði Doris Stump (Sviss) fundargestum frá niðurstöðum árlegs kvennafundar IPU sem haldinn var 15. apríl í Panama. Á fundinum var kynnt skýrsla Sameinuðu þjóðanna um hindranir í vegi þingkvenna. Þuríður Backman tók þátt í fundinu ásamt um 100 þingmönnum. Næsti kvennafundur verður haldinn á vorþingi samtakanna 2012.
    Við setningu 124. þings IPU flutti forseti þingsins í Panama, José Muñoz Molina, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Forseti Panama, Ricardo Martinelli, setti þingið en aðrir sem tóku til máls við setninguna voru Joseph Deiss, forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, og Theo-Ben Gurirab, forseti IPU. Theo-Ben líkti lýðræðinu við þrjóskt og óútreiknanlegt dýr sem þarfnast mikillar umönnunar og eftirlits. Hann sagði ekkert spennandi við virðingu fyrir lýðræðisstofnunum en lagði áherslu á að með þeim væri hægt að leysa mörg vandamál sem steðja að í heiminum. Þá hélt Michelle Bachelet, varaframkvæmdastjóri stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, SÞ-konur, erindi á þinginu. Hún sagði virðingu fyrir réttindum kvenna og jafnrétti kynjanna vera forsendu framfara fyrir allt mannkyn. Þingmenn hefðu mikilvægu hlutverki að gegna við eflingu kynjajafnréttis sem löggjafar, eftirlitsaðilar með aðgerðum ríksstjórna og fulltrúar fólksins. Bachelet lýsti stöðu kvenna í stjórnmálum í ljósi jákvæðra breytinga sem hafa átt sér stað í ákveðnum ríkjum, m.a. með hjálp aðgerða sem hafa tryggt lágmarksfjölda kvenna í stefnumótunarstöðum. Hún sagði þó enn langt í land með að jafnrétti væri náð og betur mætti ef duga skyldi. Jafnframt ávarpaði Juan Carlos Varela, varaforseti og utanríkisráðherra Panama, þingið. Hann sagðist hreykinn af þeim miklu lýðræðislegu framförum sem hafa átt sér í Panama síðustu tvo áratugina síðan einræði var afnumið í landinu. Panamabúar væru stoltir af þeim framförum sem hefðu átt sér stað í landinu og rík áhersla væri á frjálsar, heiðarlegar og gagnsæjar kosningar.
    Almenn umræða fór fram um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum með áherslu á þingræðislegt traust og hvernig standa megi undir væntingum kjósenda. Níutíu sendinefndir tóku þátt í umræðunni og tók Þuríður Backman að sér að stýra hluta fundarins. Jafnframt tók Þuríður þátt í umræðunni og fjallaði um enduruppbygginguna á Íslandi eftir hrun efnahagskerfisins haustið 2008 með áherslu á væntingar þjóðarinnar og endurheimtingu trausts. Hún sagði m.a. nauðsynlegt við enduruppbyggingu ríkja eftir efnahagshrun eins og það sem átti sér stað á Íslandi að byggja á gildum lýðræðis, gagnsæis, virks eftirlits og heiðarleika. Aðeins þannig væri mögulegt að endurheimta traust þjóðarinnar. Tillögur um utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi. Lagðar voru fram fimm tillögur en tvær þeirra voru dregnar til baka og sendinefndir Indónesíu, Írans og Nýja-Sjálands tóku ákvörðun um að sameinast um eina tillögu sem fjallaði um það hvernig styrkja megi lýðræðislegar endurbætur í verðandi lýðræðisríkjum, m.a. í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Þingið samþykkti tillöguna sem utandagskrárumræðuefni og var það tekið til umræðu og ályktunar. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var samþykkt einróma.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Þuríður Backman tók þátt í störfum 1. nefndar, um frið og alþjóðleg öryggismál, en þar var rætt um hvernig koma megi á lagaramma sem hafi það markmið að koma í veg fyrir kosningasvindl, bæta eftirlit með kosningum og tryggja snurðulaus valdaskipti. Þá var tekin ákvörðun um að næsta umræðuefni nefndarinnar, sem rætt yrði á haustþingi 2011 og afgreitt með skýrslu og ályktun á vorþingi 2012, yrði efling og framkvæmd góðra stjórnhátta til að stuðla að friði og öryggi: Lærdómur frá nýlegum atburðum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.
    Einar K. Guðfinnsson tók þátt í störfum 2. nefndar, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, en þar var rætt og ályktað um hlutverk þinga við að tryggja sjálfbæra þróun með stjórnun á náttúruauðlindum, landbúnaðarvörum og lýðfræðilegum breytingum. Einar tók þátt í umræðum nefndarinnar og lagði áherslu á mikilvægi þess að þeim þjóðum sem búa yfir náttúruauðlindum takist að nýti þær á sem arðbærastan hátt með áherslu á sjálfbærni. Hann sagði staðreynd að hjá mörgum ríkjum hefði slíkt því miður ekki verið raunin og nauðsynlegt væri að taka á þeim vanda. Á Íslandi gegndi sjávarútvegur stóru hlutverki fyrir efnahag þjóðarinnar og árangursrík sjávarútvegsstefna Íslendinga væri skipulögð með sjálfbærni að leiðarljósi. Enn fremur sagðist Einar harma að ekki væri minnst á fiskveiðar og sjálfbæra nýtingu fiskistofna í annars vandaðri skýrslu nefndarinnar. Þá var tekin ákvörðun um að næsta umræðuefni nefndarinnar yrði endurdreifing valds, ekki eingöngu auðæfa: Eignarhald á dagskrá alþjóðamála.
    Sigmundur Ernir Rúnarsson tók þátt í störfun 3. nefndar, um lýðræði og mannréttindi, en hún fjallaði og ályktaði um gagnsæi og traust varðandi fjárframlög til stjórnmálaflokka og kosningaherferðir. Sigmundur tók þátt í umræðum nefndarinnar og sagði frá tilurð og framkvæmd stjórnmálaflokka á Íslandi. Næsta umræðuefni nefndarinnar verður aðgangur að heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi.
    Ráð IPU kom tvisvar sinnum saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Ráðið fagnaði samþykkt ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, nr. 65/123 um samvinnu milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU. Þá sendi forseti þingsins frá sér yfirlýsingu fyrir hönd IPU þar sem hann vottaði Japönum samúð í kjölfar náttúruhamfaranna í febrúar 2011. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Formaður nefndarinnar sagði nefndina hafa til skoðunar mál 374 löggjafa í 39 löndum. Að lokum fagnaði ráð IPU boði Ekvador um að halda 128. vorþing IPU í Quito í mars 2013. Þess má geta að 29,6% þingfulltrúa á 124. þinginu voru konur, 182 talsins.
         
125. þing IPU í Bern 19.–21. október.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Þuríður Backman, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru aðgengi að heilbrigðisþjónustu með áherslu á konur og börn, dreifing valds en ekki eingöngu auðs í heiminum og sá lærdómur sem draga má af atburðum síðustu mánaða í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Auk þess fór fram utandagskrárumræða um ástandið í Sómalíu. Þá var rætt um tillögur að framtíðaráætlun IPU fyrir 2012–2017 og framtíðarsýn sambandsins. Um 534 þingmenn frá 127 ríkjum sóttu þingið, þar af 36 þingforsetar.
     Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar, sem haldnir voru í Genf 8.–9. september, og funda stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins, sem haldnir voru 11.–12. september sl. Tillögur að framtíðaráætlun IPU fyrir 2012–2017 og drög að fjárhagsáætlun IPU fyrir árið 2012 voru aðalumræðuefni fundanna. Þá var Krister Örnfjäder, norrænn fulltrúi í framkvæmdastjórn IPU, valinn formaður undirnefndar um fjármál IPU sem skipuð er fulltrúum allra landfræðihópanna. Jafnframt var frambjóðendunum tveimur til embættis forseta IPU, þeim Abdelwahad Radi frá Marokkó og Nurhayati Ali Assegaf frá Indónesíu, boðið að kynna áhersluatriði sín fyrir nefndarmönnum Tólfplús-hópsins. Fram fór kosning um lausa stöðu Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU og hlaut þýski þingmaðurinn Josef Winkler kosningu. Tófplús-hópurinn á fjóra fulltrúa í stjórninni. Framkvæmdastjórnin hefur umsjón með rekstri samtakanna og er hún skipuð 17 fulltrúum sem kosnir eru til fjögurra ára.
    Við setningu 125. þingsins flutti forseti IPU, Theo-Ben Gurirab, ávarp og kynnti dagskrá þingsins. Hann sagði umræðuefni þingsins endurspegla það sem efst er á baugi í heiminum. Í ríkjum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda eiga sér stað afgerandi breytingar og löngun almennings eftir frelsi og lýðræði hefur kallað fram atburðarás sem hefði verið óhugsandi fyrir aðeins ári síðan. Hann bætti við að ólýðræðislegir stjórnhættir og kúgun gætu aldrei kallað fram frið og öryggi í ríkjum heims. Aðrir sem ávörpuðu þingið voru Micheline Calmy Rey, forseti Sviss, Jean René Germanier, forseti neðri deildar svissneska þingsins, Hansheiri Inderkum, forseti efri deildar svissneska þingsins, Alexander Tchäppät, borgarstjóri Bern, og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Ban Ki-moon minnti nefndarmenn á að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna hæfist á orðunum „við fólkið“ og sagði það vera ástæðu þess að hvert sem hann fari leiti hann uppi þingmenn. Þið eruð rödd fólksins, vona þeirra og vilja, bætti hann við. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins, einnig í stjórnmálum. Konur væru helmingur mannkyns og byggju yfir ónýttum hæfileikum sem bæri að virkja og veita brautargengi. Setningarathöfninni lauk með yfirlýsingu forseta Sviss sem bauð 1.300 þátttakendur frá 130 löndum velkomna á þingið með þeim orðum að sambandið hefði hlutverki að gegna við að leita að svörum eða lausnum við þeim áskorunum sem blasa við ríkjum alþjóðasamfélagsins í dag.
    Þrjár tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, af Namibíu, Íran og Palestínu, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Þar sem tillögur Namibíu og Íran fjölluðu báðar um ástandið í Sómalíu dró Íran sína tillögu til baka. Tillaga Palestínu fjallaði um sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna og var hún einnig dregin til baka. Tillaga Namibíu var samþykkt einróma af þinginu. Yfirskrift tillögunnar var: Aðstæður íbúa Sómalíu sem búa við hungursneyð og viðleitni aðildarríkja IPU til aðstoðar. Í umræðum um neyðarályktunina lýstu þingmenn yfir miklum áhyggjum af ástandinu og stuðningi við Sómalíu. Í neyðarályktuninni voru allir þingmenn hvattir til að efla alþjóðlegt þingmannasamstarf með það að markmiði að stuðla að aukinni aðstoð til að draga úr þjáningum og hungri í Sómalíu og á horni Afríku. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Umræður um skýrslur fastanefndanna þriggja fóru fram sem pallborðsumræður þar sem efni skýrslnanna var kynnt af skýrsluhöfundum og sérfræðingum og í framhaldinu tóku þingmenn þátt í umræðum. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var umræðuefnið efling og iðkun góðra stjórnhátta sem leið að friði og öryggi: Sá lærdómur sem draga má af atburðum síðustu mánaða í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá framgangi vinnu nefndarinnar við undirbúning skýrslunnar sem flutt verður á vorþinginu í Úganda. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um málefnið dreifing valds en ekki eingöngu auðs í heiminum: Eignarhald á alþjóðlegu viðhorfi.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var fjallaði um aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi með áherslu á konur og börn. Skýrsluhöfundarnir tveir voru sammála um að undirliggjandi ástæður slæms heilsufars kvenna og barna væru m.a. ófullnægjandi og veik heilbrigðiskerfi, skortur á fjármagni og mannafla, sér í lagi þar sem fátækt er rótgróin, og félagslegur og fjárhagslegur ójöfnuður gagnvart konum og börnum sem kemur í veg fyrir aðgang að heilbrigðisþjónustu. Viss árangur hefði náðst við að fækka ótímabærum dauðsföllum barna og mæðra með alþjóðlegu átaki síðustu ára en engu að síður væri langt í að þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verði náð. Þuríður tók þátt í umræðum nefndarinnar og lagði til að bætt yrði við kafla í skýrsluna þar sem rætt yrði um málefni staðgöngumæðra. Hún sagði málefni staðgöngumæðra vekja upp margar spurningar sem snúa m.a. að siðferði, vísindum, lagasetningum, alþjóðavæðingu og ekki síst heilsufari kvenna. Mikilvægt væri að skoða hugtakið á breiðum grunni með sérstaka áherslu á þróunarlöndin. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna fundaði í tengslum við þingið og fjallaði m.a. um kjarnorkuafvopnun og þróun samstarfs milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 159. Samþykkt var fjárhagsáætlun fyrir 2012 og yfirlit yfir skipulagða fundi og framkvæmdir fyrir 2012–2014. Framkvæmdastjórn IPU lagði ríka áherslu á lækkun útgjalda sambandsins í ljósi bágrar fjárhagsstöðu margra aðildarríkja og var samþykkt að lækka útgöld frá 2011 um 7 % í fjárhagsáætlun fyrir árið 2012. Jafnframt lagði framkvæmdastjórnin til að rætt yrði um frekari lækkun útgjalda á vorþingi IPU 2012. Þá samþykkti ráðið samhljóða framtíðaráætlun IPU fyrir 2012–2017 og er það í fyrsta sinn sem slík áætlun er samþykkt. Í áætluninni er lögð áhersla á rannsóknir, siðareglur, tæknilega aðstoð, jafnrétti kynjanna og mannréttindi. Áætlunin endurspeglar sambandið, verkefni þess og framtíðarsýn. Enn fremur var Abdelwahad Radi frá Marokkó kosinn nýr forseti IPU til næstu þriggja ára. Valið stóð á milli hans og Nurhayati Ali Assegaf frá Indónesíu. Þingin í Miðbaugs-Gíneu og Níger fengu endurinngöngu í IPU og Tsjad var samþykkt sem nýtt aðildarríki. Þá var Líberíu og Kómoreyjum vikið úr samtökunum vegna vangoldinna þátttökugjalda í þrjú ár.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Mál Birgittu Jónsdóttur þingmanns hafði verið til umræðu hjá nefndinni síðan í febrúar 2011 og var hún boðuð til fundar með nefndinni þar sem málið hennar var skoðað sérstaklega. Ályktun á grundvelli máls Birgittu var samþykkt á ráðsfundi. Þess má geta að 158 þingfulltrúar á 125. þingi IPU voru konur (29%), sem er lakari árangur en náðist á 124. þingi (32%).

5. Ályktanir IPU árið 2011.
    Ályktanir 124. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Að koma á lagaramma sem hafi það markmið að koma í veg fyrir kosningasvindl, bæta eftirlit með kosningum og tryggja snurðulaus valdaskipti.
     2.      Hlutverk þjóðþinga við að tryggja sjálfbæra þróun með stjórnun á náttúruauðlindum, landbúnaðarvörum og lýðfræðilegum breytingum.
     3.      Gagnsæi og traust varðandi fjárframlög til stjórnmálaflokka og kosningaherferðir.
     4.      Styrking lýðræðislegra endurbóta í verðandi lýðræðisríkjum, þar með talið í Norður- Afríku og Mið-Austurlöndum.

    Yfirlýsing forseta Alþjóðaþingmannasambandsins á 124. þingi:
    Um náttúruhamfarirnar í Japan.

    Ályktun 125. þings IPU varðaði eftirfarandi efni:
    Aðstæður íbúa Sómalíu sem búa við hungursneyð og viðleitni aðildarríkja IPU til aðstoðar.

Alþingi, 21. febr. 2012.



Þuríður Backman,


formaður.


Árni Páll Árnason,


varaformaður.

Einar K. Guðfinnsson.