Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 562. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 875  —  562. mál.
Tillaga til þingsályktunarum aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun.

Flm.: Mörður Árnason, Helgi Hjörvar, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Siv Friðleifsdóttir,
Árni Þór Sigurðsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Álfheiður Ingadóttir, Lúðvík Geirsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að setja á fót starfshóp sem athugi þróun og regluverk í póstverslun hér og erlendis og geri tillögur um lagabreytingar og aðrar ráðstafanir til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Í starfshópnum verði meðal annars starfsmenn úr fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti, og fulltrúar sem samtök kaupmanna, flutningsfyrirtækja og neytenda skipi. Starfshópurinn ljúki skýrslu um störf sín og tillögum um úrbætur fyrir 1. september 2012.

Greinargerð.

    Íslendingar hafa fyrr og síðar stundað með ýmsum hætti það sem nú er kallað póstverslun, þ.e. bein viðskipti við kaupmenn eða framleiðendur fjarri heimili neytandans, innlendis eða erlendis. Mjög dró þó úr póstverslun á síðari hluta 20. aldar af ýmsum ástæðum, þar á meðal vegna bættra samgangna og aukinna verslunarumsvifa. Á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur áhugi á póstverslun aukist að nýju, einkum við erlend fyrirtæki, ekki síst eftir tilkomu netsins sem skapar ótrúlega möguleika í þessum efnum.
    Á mörgum sviðum ber laga- og regluverk kringum póstverslun svip liðinna tíma, meðal annars í gjalda- og skattamálum, sem hefur hindrað eðlilega framþróun. Flókin og seinleg stjórnsýsla veldur hér einnig miklu, eins og þeir kannast vel við sem hafa þurft að sækja vörur eða aðrar sendingar á tollskrifstofur.
    Undanfarin missiri og mánuði hefur áhugi vaxið á þessum málum í viðskiptalífinu og meðal forustumanna neytenda. Ian Watson, lektor við Bifrastarháskóla, hefur að undanförnu unnið að sögulegri rannsókn um neysluskatta á innflutta vöru. Meðal annars fyrir tilstilli hans kom til landsins nú í janúar Richard Pomp, lögfræðiprófessor við fylkisháskólann í Connecticut í Bandaríkjunum, hélt hér erindi um „póstverslun á nýrri öld“ og hitti talsmenn neytenda og fyrirtækja á vegum Íslensk-bandaríska verslunarráðsins (IABF), Neytendasamtakanna og sendiráðs Bandaríkjanna. Niðurstöður hans voru þær að póstverslun væri vanþróuð á Íslandi. Reglur sem hindra netviðskipti komi niður á hagsmunum neytenda en veiti íslenskum verslunarfyrirtækjum aðeins skammgóðan vermi, því neytendur finni aðrar leiðir, löglegar, svo sem verslunarflugferðirnar frægu, eða ólöglegar, svo sem skipulegar sendingar „gjafa“ frá útlöndum.
    Flutningsmenn þessarar ályktunartillögu telja kominn tíma til að hafist verði handa um úrbætur á þessu sviði og leggja til að skipaður verði starfshópur til að fara yfir málið.

    Meðal verkefna starfshópsins verði að öðlast yfirsýn um sögu póstverslunar á Íslandi síðustu áratugi með samanburði við stöðu og þróun í grannlöndum, að meta líklega þróunarhneigð í póstverslun á næstunni og gera grein fyrir áhrifum aukinnar póstverslunar á stöðu neytenda annars vegar og stöðu íslenskra kaupmanna og þjónustufyrirtækja hins vegar.
    Starfshópnum er meðal annars ætlað að kanna sérstaklega:
          Hvort leyfa eigi erlendum fyrirtækjum sem selja vörur í pósti til Íslands að skrá sig á íslenska virðisaukaskattsskrá og í íslenska tollkerfinu, innheimta aðflutningsgjöld frá viðskiptavinum, og að skila þeim til ríkisins. Þetta mætti útfæra á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í lögum um rafbækur o.fl. (nr. 121/2011, lög um breytingu á lögum nr. 50/ 1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum) sem Alþingi samþykkti í september síðastliðnum. Slíkar sendingar yrðu merktar og þyrfti ekki að tollafgreiða þær við komu til landsins. Við þetta gæti kostnaður neytenda minnkað og virðisaukaskattur skilað sér betur í ríkissjóð.
          Hvort rétt sé að fella niður aðflutningsgjöld þegar upphæðir eru svo litlar að það borgar sig ekki að innheimta þau (sbr. fyrirspurn Marðar Árnasonar til innanríkisráðherra um póstverslun, þskj. 170, 168. mál á 140. löggjafarþingi). Þetta á við bæði um venjulegur sendingar og svokallaðar hraðsendingar.
          Hvernig best sé að leysa vanda um skattgreiðslu af erlendum blöðum og tímaritum í áskrift (sbr. svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um virðisaukaskatt af erlendum blöðum og tímaritum, þskj. 464, 154. mál á 140. löggjafarþingi). Sárafáir greiða nú virðisaukaskatt af erlendum blöðum og tímaritum samkvæmt reglugerð nr. 336/1993. Á að herða eftirlit með þessum skattskilum? Er ef til vill skynsamlegt að afnema virðisaukaskatt af áskrift að öllum innlendum og erlendum blöðum og tímaritum? Er stætt á því að undanþiggja eingöngu áskrift að erlendum blöðum og tímaritum sem send eru í pósti?
          Hvernig unnt sé að einfalda tímafrekt og kostnaðarsamt ferli sem neytendur þurfa að fara í gegnum við að senda vöru sem var keypt í pósti frá útlöndum (eða neytandi keypti sjálfur í útlöndum) aftur til útlanda vegna skila eða viðgerðar.
          Hvort ráðlegt sé að setja í lög að flytjendur, þar á meðal hraðflutningafyrirtæki, verði að birta gjaldskrá um umsýslugjöld vegna tollafgreiðslu. Dæmi eru um flytjendur sem nú hafa ekki slíka skrá. Einn af kostum við slíka breytingu væri að þá gæti kaupandi reiknað út og borið saman kostnað við að fá ákveðna vöru heim með ýmsum flutningsaðferðum eða í gegnum ýmsa flytjendur.
          Hvort afnema eigi heimild hraðflutningafyrirtækja í 3. tölul. 43. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 til að innheimta „áætluð aðflutningsgjöld“ (750 kr.) á öllum sendingum að verðmæti undir 2.000 kr. Viðtakendur ættu þá kost á að greiða raunveruleg aðflutningsgjöld miðað við verðmæti sendingar og fengju þennan kostnað ef til vill felldan niður ef hann er svo lítill að það borgar sig ekki að innheimta hann, sbr. að ofan.
          Hvort ástæða sé til að endurskoða skilgreiningu orðsins „hraðsending“ í 11. tölul. 1. gr tollalaga, nr. 88/2005, að minnsta kosti hvað varðar aðflutningsgjöld. Með tilliti til þeirra er ef til vill eðlilegra að skilgreina hraðsendingu sem sendingu sem berst til viðtakanda á skömmum tíma en að miða við tiltekinn flokk flytjenda, sbr. einnig almennan málskilning.
          Hvort ástæða sé til að jafna stöðu almennra neytenda og virðisaukaskattsskyldra lögaðila þannig að fyrirtæki geti einnig nýtt sér einfaldari og kostnaðarminni tollafgreiðslu við pantanir á smásendingum frá útlöndum? Nú er hin ódýra smásendingaskýrsla (E-3) einungis ætluð almennum neytendum. Lögaðilar þurfa að skila venjulegri tollskýrslu (E-1) fyrir vörur sem eru fluttar inn í atvinnuskyni og borga talsvert meira fyrir tollafgreiðsluna. Rétt er að íhuga hvort þetta er sanngjarnt eða skynsamlegt þar sem um rekstrarvöru er að ræða og lögaðilinn því í sömu stöðu og almennur neytandi.
          Hvort regluverk um póstverslun innan lands sé fullnægjandi, og hvernig mætti bæta aðstöðu innlendra kaupenda og seljenda. Full ástæða er til að fara yfir grundvöll póstverslunar innan lands, sérstaklega í ljósi þeirra möguleika sem netið hefur fært neytendum og fyrirtækjum í dreifbýli þar sem staðarverslun hefur víða farið halloka á síðustu árum.