Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 569. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 886  —  569. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta,
nr. 98/1999, með síðari breytingum.


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Í stað ártalsins „2011“ tvívegis í ákvæði til bráðabirgða I kemur: 2012.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 1. mgr. 6. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er mælt fyrir um að viðskiptabankar og sparisjóðir skuli eigi síðar en 1. mars ár hvert greiða Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta gjald sem nemi 0,15% tryggðra innstæðna þeirra á næstliðnu ári. Í 2. mgr. 7. gr. laganna er sambærilegt ákvæði er varðar aðildarfyrirtæki, þ.e. fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðra sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf, en þeim ber fyrir sama tíma að greiða gjald til sjóðsins sem nemur samtals 20 millj. kr.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að greiðslu gjaldsins verði frestað um þrjá mánuði á árinu 2012, þ.e. til 1. júní 2012. Sambærileg breyting var gerð með lögum nr. 15/2011 vegna ársins 2011.
    Ástæða frestunarinnar er sú að vorið 2011 var gerð tímabundin breyting á ákvæðum laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Með breytingunni var mælt fyrir um að innlánsstofnanir skyldu greiða gjald vegna ársins 2011 til sjálfstæðrar deildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þá voru um leið gerðar nokkrar aðrar tímabundnar breytingar á lögunum, m.a. á skilgreiningu á innstæðu, auk þess sem þeim aðilum sem ekki njóta tryggingaverndar samkvæmt lögunum var fjölgað. Á næstu vikum er stefnt að framlagningu frumvarps þar sem lagt er til að umrædd bráðabirgðaákvæði verði lögfest með varanlegum hætti. Því er nauðsynlegt að gera breytingu á lögunum til þess að fresta greiðslum til Tryggingasjóðs vegna ársins 2012, að öðrum kosti mundu greiðslur fjármálafyrirtækja renna til eldri deildar sjóðsins.