Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 475. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 894  —  475. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar
um niðurfellingar af íbúðalánum.


     1.      Hversu háar fjárhæðir hafa bankar og lífeyrissjóðir fellt niður af íbúðalánum heimilanna og hversu margir einstaklingar eiga í hlut?
    Neðangreindar upplýsingar eru sóttar til Samtaka fjármálafyrirtækja, SFF. Tölurnar sýna stöðuna í lok desember 2011 (bráðabirgðatölur) hjá viðskiptabönkunum, MP banka, Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.
    Samtals hafa verið færðar niður 196.429 m.kr. samkvæmt skuldaúrræðum og endurútreikningum gengistryggðra lána.
    Upplýsingarnar í töflu 1 sýna fjölda heimila sem hafa fengið niðurfærslu af íbúðalánum samkvæmt skuldaúrræðum.

Tafla 1.
Fjöldi einstaklinga og fjárhæðir niðurfærslu íbúðalána samkvæmt skuldaúrræðum.

Skuldaúrræði Fjöldi heimila/einstaklinga
samþykkt
Fjárhæð niðurfærslu
í m.kr.
110% leiðin, alls 11.737 43.666
Þar af bankar 8.919 36.500
Þar af Íbúðalánasjóður 2.745 6.968
Þar af lífeyrissjóðir* 73 198
Sértæk skuldaaðlögun, alls 824 6.213
* Upplýsingar frá lífeyrissjóðunum miðast við september 2011.

     2.      Hversu há fjárhæð stafar af leiðréttingu gengistryggra lána í samræmi við dóm Hæstaréttar?
    Upplýsingar um fjárhæð vegna leiðréttinga gengistryggðra lána heimila í samræmi við dóma Hæstaréttar koma fram í töflu 2 og byggjast á svörum frá Samtökum fjármálafyrirtækja, SFF. Tölurnar sýna stöðuna í lok desember 2011 (bráðabirgðatölur).

Tafla 2.
Fjöldi heimila. Fjárhæð vegna leiðréttinga gengistryggðra lána heimilanna.

Endurútreikningi lokið Fjöldi heimila/einstaklinga
Fjárhæð niðurfærslu í m.kr.
Íbúðalán 7.778 108.050
Bifreiðaviðskipti 41.801 38.500
Alls 49.579 146.550
    Athygli er vakin á því að ekki er hægt að leggja saman fjölda heimila eftir úrræðum og leiðréttingu gengistryggðra lána til að fá heildarfjöldann þar sem eitt og sama heimili getur hafa fengið niðurfærslu samkvæmt fleiri en einu úrræði og/eða endurrútreikning á gengistryggðu láni.