Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 897  —  576. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010,
með síðari breytingum.

Frá velferðarnefnd.

1. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Aðilar sem hafa leyfi til að stunda starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög skulu standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama á við um fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað, enda stundi það eða hafi stundað starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Í 5. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 er kveðið á um að aðilar sem hafa leyfi til að stunda starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög skuli standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds. Í desember 2011 voru sett sérstök lög um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011. Í 1. gr. þeirra er kveðið á um það hvaða aðilar skuli standa straum af kostnaði við rekstur embættisins. Samkvæmt ákvæðinu eru það sömu aðilar og tilgreindir eru í lögum nr. 100/2010 en að auki skulu fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki greiða gjald sem standi undir rekstrinum óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað, enda stundi það eða hafi stundað starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
    Hin nýrri sérlög ganga framar hinum eldri og hefur misræmi milli ákvæðanna ekki áhrif á framkvæmd álagningar gjaldsins skv. lögum nr. 166/2011. Til að tryggja samræmi og skýrleika laga er þó hér lögð til breyting á 5. gr. laga um umboðsmann skuldara til samræmis við 1. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara þar sem er svo að finna nánari ákvæði um gjaldskylda aðila og álagningu gjaldsins.