Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 932  —  513. mál.
Svarefnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ólafar Nordal
um samsetningu vísitölu neysluverðs.


     1.      Hefur komið til álita að taka það er snýr að húsnæðisverði út úr vísitölu neysluverðs? Hvaða rök standa gegn því að slík ákvörðun verði tekin?
    Vísitala neysluverðs er almennur mælikvarði sem mælir verðbreytingar á útgjöldum heimila. Vísitalan er því fyrst og fremst reiknuð til að mæla verðbólgu, þ.e. breytingar á almennu verðgildi eða kaupmætti peninga. Hagstofa Íslands reiknar út vísitölu neysluverðs og birtir hana bæði með og án húsnæðis. Þá eru birtar ýmsar undirvísitölur sem nýtast notendum við greiningu verðbólgunnar og undirliggjandi þátta hennar.
    Við útreikning vísitölunnar er tekið mið af alþjóðlegum leiðbeiningum og fyrirmælum og hefur Hagstofa Íslands frá árinu 1992 tekið virkan þátt í umfangsmiklu alþjóðlegu samstarfi um aðferðafræði neysluverðsvísitalna. Einn af mikilvægum þáttum við útreikning á vísitölu er að leggja til grundvallar alla þætti í framfærslukostnaði heimilanna og nota þær aðferðir sem helst er mælt með og bestar eru taldar.
    Á Íslandi búa um 80% heimila í eigin húsnæði og er því mikilvægt að taka tillit til þess við útreikninga á íslensku vísitölunni. Hagstofan leitast við að mæla notin af búsetunni í eigin húsnæði og eru þau í vísitölunni mæld með einföldu notendakostnaðarlíkani. Þar er tekið tillit til breytinga á markaðsverði húsnæðis og langtíma raunvöxtum. Þetta er í samræmi við alþjóðlega staðla sem liggja að baki útreikningum á neysluverðsvísitölum. Af þeirri ástæðu hefur ekki verið mælt með að taka húsnæði út úr vísitölu neysluverðs. Í nokkrum ríkjum, þar sem öflugir húsaleigumarkaðir eru fyrir hendi, er stuðst við leiguígildi til að reikna breytingar á kostnaði við búsetu í eigin húsnæði. Leigumarkaðurinn er hins vegar smár hér á landi, þar sem um 20% heimila eru í leiguhúsnæði, svo að ekki er unnt að beita slíkri aðferð á Íslandi. Að auki er samsetning leigumarkaðarins önnur en almennt háttar um eigið húsnæði.
    Hagstofa Íslands reiknar jafnframt út samræmda vísitölu neysluverðs sem birt er af Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, en í útreikningi á þeirri vísitölu er eigið húsnæði ekki tekið með. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú lagt fram tillögu að nýrri reglugerð um útreikning vísitölu fyrir eigið húsnæði. Samkvæmt henni er lagt til að markaðsverðsbreytingar á húsnæði verði notaðar við útreikninginn.

     2.      Hefur komið til álita, í ljósi mikilla verðbreytinga á undirliggjandi þáttum vísitölu neysluverðs, að endurskoða oftar samsetningu vísitölunnar og skoða í því tilliti breytt neyslumynstur, til að mynda vægi eldsneytis, sbr. minni akstur á vegum landsins?
    Vísitala neysluverðs er fastgrunnsvísitala sem er reiknuð á þann hátt að grunnútgjöldum heimila er haldið föstum yfir ákveðið tímabil. Er það í samræmi við alþjóðlegar aðferðir. Algengast er að útgjöld heimila endurspegli neysluna á að minnsta kosti eins árs tímabili og miðar ekkert ríki, svo vitað sé, við skemmra tímabil en það. Ekki stendur því til að endurskoða samsetningu vísitölunnar oftar.
    Fastgrunnsvísitalan byggist að meginhluta á upplýsingum úr útgjaldarannsókn Hagstofu Íslands sem gerð hefur verið árlega frá árinu 2000. Sú samsetning útgjalda sem vísitalan miðar við nú er frá mars 2011. Næstu grunnskipti verða í mars 2012 og mun þá útgjaldarannsókn 2008–2010 liggja til grundvallar. Til viðbótar henni notar Hagstofan aðrar nýrri heimildir til að ákvarða grunn fyrir vísitöluna, m.a. tölur um nýskráningar bifreiða, veltutölur í smásölu og innflutningstölur. Það hefur ekki síst verið mikilvægt síðustu ár þegar útgjöld til kaupa á nýjum bílum, flug- og pakkaferðum, húsgögnum, raftækjum o.fl. hafa tekið miklum breytingum. Má nefna að vægi bílakaupa í vísitölunni í mars 2009 hefði orðið 8,8% ef aðeins hefði verið notuð niðurstaða útgjaldarannsóknar en með því að nota einnig tölur um nýskráningar bifreiða fór vægið í 3,8%.

     3.      Hefur verið gerð rannsókn á því hvort tenging við neysluverðsvísitölu sé heppilegasti grunnur verðtryggingar eða hvort aðrar vísitölur gætu hentað betur?
    Haustið 2010 skipaði efnahags- og viðskiptaráðaráðherra nefnd með fulltrúum allra flokka á þingi og tveggja ráðuneyta. Hlutverk nefndarinnar var að kanna forsendur verðtryggingar, meta kosti og galla þess að dregið verði úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi og skoða hvaða leiðir væru hagfelldastar í því skyni. Nefndin skilaði skýrslu til ráðherra í maí 2011 og var í henni meðal annars fjallað um tengingu verðtryggingar við aðrar vísitölur en vísitölu neysluverðs.
    Í skýrslunni kemur fram að sjaldnast sé hægt að fullyrða að tenging verðtryggingar við eina vísitölu frekar en aðra skili lántakendum staðfastlega betri kjörum. Til dæmis hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað að jafnaði meira en vísitala neysluverðs með húsnæði frá árinu 2008. Þá hefði tenging verðtryggingar við launavísitölu, eins og m.a. hagfræðingurinn Joseph Stiglitz hefur talað fyrir, komið lántakendum illa fram til ársins 2008, þegar raunlaun tóku að lækka. Tenging við vísitölu fasteignaverðs hefði líka haft veruleg áhrif til hækkunar á húsnæðislán í eignaverðbólunni í aðdraganda hrunsins. Aðrar vísitölur til viðmiðunar geta því komið niður með mismunandi hætti eftir því hvernig árar í þjóðfélaginu, eins og bent er á í skýrslunni. Í þessu samhengi má þó nefna að í kjölfar efnahagsþrenginganna hefur lántakendum boðist að tengja verðtryggð lán sín við greiðslujöfnunarvísitölu með það að markmiði að lækka tímabundið afborganir uns raunlaun taka að hækka að nýju.