Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 59. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 934 —  59. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 23/2006,
um upplýsingarétt um umhverfismál,
með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Frumvarpinu var vísað til nefndar á milli 2. og 3. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einnig barst umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það atriði sem hlaut mesta umfjöllun í nefndinni að þessu sinni var frumkvæðisskylda stjórnvalda í umhverfismálum.
    Meiri hlutinn vill benda á frumvarp til upplýsingalaga sem nú liggur fyrir Alþingi (þskj. 442, 366. mál), en með því er stefnt að því að efla og styrkja upplýsingarétt almennings og að sama skapi felast í ákvæðum frumvarpsins tillögur um auknar skyldur stjórnvalda, sbr. ákvæði 13. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til m.a. að stjórnvöld skuli leitast við að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf aðgengileg með rafrænum hætti.
    Það er skilningur meiri hlutans að með frumvarpi þessu og þeim breytingum sem lagðar voru til á því við 2. umræðu sé ekki verið að leggja til nýja almenna meginreglu á sviði umhverfisréttar um að skylda stjórnvöld til að birta opinberlega að eigin frumkvæði lista yfir öll mál eða málsskjöl sem þau hafa undir höndum. Frumkvæðisskylda stjórnvalda á einvörðungu við þegar ástæða er til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Meiri hlutinn vill einnig árétta að með ákvæðum frumvarpsins er skerpt á upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings í samræmi við Árósasamninginn, sbr. lög nr. 131/2011, og túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Við afgreiðslu málsins voru þær breytingartillögur sem gerðar voru kallaðar til 3. umræðu og því voru ekki greidd atkvæði um þær. Af þeim sökum eru þær lagðar fram hér óbreyttar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 1. gr.
       a.      B-liður orðist svo: treysta rétt fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín á grundvelli upplýsinga.
       b.      D-liður orðist svo: tryggja rétt almennings til þess að fá upplýsingar um umhverfismál.
       c.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: kveða á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar um umhverfismál, sbr. 10. gr.
     2.      A-liður 2. gr. falli brott.
     3.      3. gr. orðist svo:
                 Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. er stjórnvöldum ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Ráðherra er heimilt að afmarka nánar í reglugerð hvað teljist skaðleg eða hættuleg frávik.

    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi nefndarinnar, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 6. mars 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


formaður.


Ólína Þorvarðardóttir,


framsögumaður.


Þuríður Backman.



Mörður Árnason.


Atli Gíslason.


Róbert Marshall.