Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 936  —  376. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja
úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur, Jón Á. Tryggvason, Bjarna Amby Lárusson og Óskar Helga Albertsson frá ríkisskattstjóra, Kristján Andra Stefánsson, Högna Kristjánsson, Ástríði Jónsdóttur, Þorstein B. Björnsson og Ágúst Hjört frá utanríkisráðuneytinu, Önnu G. Björnsdóttur og Lúðvík E. Gústafsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Eirík Blöndal og Sigurbjart Pálsson frá Bændasamtökum Íslands og Ásbjörn Björnsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Þá hafa borist umsagnir frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, ríkisskattstjóra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða tillögu til þingsályktunar (þskj. 449, 373. mál) um samþykkt rammasamnings frá 8. júlí 2011 milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB. Markmið aðstoðarinnar er að auðvelda ríkjunum að uppfylla skilyrði aðildar með uppbyggingu stofnana, eflingu milliríkjasamstarfs og styrkingu efnahagslegrar og félagslegrar þróunar sem og byggðaþróunar. Fram hefur komið að innan nefndarinnar jafnt sem utan eru skoðanir ólíkar hvað þetta markmið varðar.
    Vegna áratugalangrar þátttöku á innri markaði sambandsins í gegnum aðildina að EES- samningnum er gert ráð fyrir að aðstoð við Ísland verði takmörkuð í samanburði við önnur umsóknarríki. Ekki verði þörf á að setja upp nýjar stofnanir til að stýra aðstoðinni heldur verði gerður sérstakur fjármögnunarsamningur yfirvalda um hvert verkefni fyrir sig sem styrkt verður af sjóðnum. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins afhentu nefndinni við meðferð málsins landsáætlun 2011 með yfirliti yfir þau verkefni sem stjórnvöld hafa samþykkt og standa aðallega í tengslum við umbætur í stjórnsýslunni. Gert er ráð fyrir að styrkirnir verði greiddir út frá og með árinu 2012 eftir framvindu styrktra verkefna og nemi samanlagt á tímabilinu 2011–2013 um 5 milljörðum kr.
    Með 12. gr. samningsins skuldbinda stjórnvöld sig til að undanþiggja IPA-styrki hvers kyns opinberum álögum og er frumvarpið lagt fram í þeim tilgangi. Er lagt til að aðilar, ESB-verktakar, sem ástunda vöru- og þjónustuviðskipti í beinum tengslum við samþykkt verkefni njóti sérstakra ívilnana. Undanþágurnar lúta einkum að niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna innflutnings á vörum og afnámi virðisaukaskatts vegna sölu á vöru og þjónustu. Auk þess er lagt til að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir hér á landi greiði hvorki tekjuskatt né útsvar og enn fremur að það sama eigi við um lögaðila sem ekki hafa staðfestu hér landi, þ.e. hafa ekki fasta starfsstöð eða fasta bækistöð hérlendis. Þrátt fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti gerir frumvarpið ráð fyrir að þeir aðilar sem eru skráðir á grunnskrá virðisaukaskatts njóti fulls innskattsréttar vegna kaupa á aðföngum og séu þeir ekki skráðir geti þeir sótt um endurgreiðslu. Loks eru í frumvarpinu veittar undanþágur frá stimpilgjaldi auk sérstakra ívilnana vegna tímabundinna búferlaflutninga hingað til lands.
    Við umræður í nefndinni komu fram áhyggjur af samkeppnisstöðu innlendra söluaðila samanborið við erlenda aðila, m.a. vegna þess að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að aðflutningsgjöld fáist endurgreidd vegna vörusölu hérlendis eins og í tilviki innflutnings. Af svipuðum meiði voru athugasemdir á þá leið að innlendum aðilum sem veita þjónustu sína í samkeppni við ESB-verktaka væri mismunað þar sem hinir fyrrnefndu ættu ekki rétt á niðurfellingu aðflutningsgjalda og virðisaukaskatts. Fram kom að þessi sjónarmið hefðu verið rædd við undirbúning frumvarpsins og að mat fjármálaráðuneytisins hefði verið að of viðurhlutamikið væri að ákvarða andlag endurgreiðslna í skattframkvæmd vegna vöru sem seld væri innan lands. Þá væru skilyrði þess að vera ESB-verktaki almenn og hlutlæg með tilliti til heimilisfesti eða fastrar starfsstöðvar umsækjanda.
    Fjármálaráðuneytið tók fram að íslenskar skattareglur væru ákvarðandi um það hvort aðilar væru heimilisfastir hér á landi eða með fasta starfsstöð og hvort þeir nytu undanþágu frá tekjuskattslögum og eftir atvikum lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Undanþágan tekur til einstaklinga sem ekki eru heimilisfastir hér á landi og lögaðila sem ekki hafa hér fasta starfsstöð. Sumir telja af þeim sökum og með hliðsjón af samkeppnisstöðu innlendra aðila að eðlilegt sé að skilyrða undanþáguna við að sýnt sé fram á að umræddir aðilar séu tekjuskattsskyldir í sínu heimaríki. Ráðuneytið áréttaði í þessu sambandi að með ákvæðinu væri ekki verið að fella niður skatta og gjöld sem lögð væru á eftir lögum annarra ríkja. Einnig taldi ráðuneytið að það væri erfiðleikum bundið fyrir skattyfirvöld hér á landi að ganga úr skugga um hvort viðkomandi aðilar stæðu réttilega skil á sköttum í sínum heimaríkjum. Loks var vísað til þess að 5. gr. hefur að geyma reglu sem gengur framar tvísköttunarsamningum sem Ísland er aðili að.
    Loks var undirstrikað mikilvægi þess að hugtök skattalaga væru skýr þar sem annars væri hætta á að þeim væri beitt með mismunandi hætti á sambærileg tilvik. Á móti var á það bent að það lægi í hlutarins eðli að skattyfirvöldum væri oft og tíðum eftirlátið að skýra ýmis hugtök í skattframkvæmd. Var sem dæmi nefnt mat á blandaðri starfsemi, þ.e. starfsemi sem er að hluta til virðisaukaskattsskyld og að hluta til ekki.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. mars 2012.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.Magnús M. Norðdahl.


Þuríður Backman.