Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 602. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 943  —  602. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2011.


1. Inngangur.
    Helstu málefni til umfjöllunar í Norðurlandaráði árið 2011 voru utanríkismál, norðurslóðir, viðbrögð við árásum 22. júlí í Noregi, stjórnsýsluhindranir, makrílveiðar og mænuskaði.
    Norðurlandaráð uppfærði á árinu ESB-áætlun sína, sem og samstarfsáætlun við Dúmuna og Sambandsþingið í Rússlandi og héraðsþing í Norðvestur-Rússlandi. Ný ESB-áætlun miðar að því að auka tengsl Norðurlandaráðs við Evrópuþingið með því að fjalla um einstök mál sem eru efst á baugi í Evrópuþinginu og hafa þýðingu fyrir norrænt samstarf og að styrkja tengslin við norræna þingmenn Evrópuþingsins. Í umfjöllun ráðsins um nýja samstarfsáætlun við þingmenn í Norðvestur-Rússlandi var lögð áhersla á málefni hafsins, norðurskautsmál, menningarmál, lýðræði og baráttu gegn mansali. Norðurlandaráð samþykkti einnig tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um stefnumið varðandi samstarf við nágranna Norðurlanda í vestri: héruð í Kanada við Atlantshafið, ríki Bandaríkjanna við Atlantshafið, Írland og Skotland. Stefnumiðunum er ætlað að stuðla að frekari þróun núverandi samstarfs og styrkja nágrannatengsl. Þá frestaði Norðurlandaráð frekara samstarfi við þingfulltrúa stjórnarmeirihlutans í Hvíta-Rússlandi, en Norðurlandaráð hefur á undanförnum árum verið í samskiptum við stjórnmálahreyfingar í Hvíta-Rússlandi til að styðja lýðræðisþróun í landinu.
    Norðurlandaráð samþykkti nýja samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni norðurskautsins og tilmæli um aukið siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum. Helsta inntak samstarfsáætlunarinnar er að styðja við sjálfbæra þróun á svæðinu í samræmi við kröfur og óskir íbúa og umhverfislega sjálfbærni. Tilmælin um aukið siglingaöryggi fela m.a. í sér að norrænu ríkisstjórnirnar efli innan ramma Nuuk-samkomulags Norðurskautsráðsins norrænt samstarf um eftirlit með höfum á norðurskautssvæðinu og að í anda samkomulagsins verði stofnuð norræn viðbragðssveit á sjó á norðurslóðum sem í verði einingar úr landhelgisgæslu og björgunarsveitum landanna.
    Í kjölfar árásanna í Noregi 22. júlí voru opin norræn samfélög umfjöllunarefni leiðtogafundar Norðurlanda á Norðurlandaráðsþingi, með þátttöku forsætisráðherra Norðurlanda og leiðtoga Grænlands, Færeyja og Álandseyja. Mikil samstaða var meðal þátttakenda í umræðunni um að standa vörð um mikilvæg gildi í norrænum samfélögum á borð við lýðræði, gagnsæi, öryggi, frelsi og jafnrétti.
    Stjórnsýsluhindranir voru til umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs og á hliðarviðburði í tengslum við þingið. Fjallað var um hvaða stjórnsýsluhindranir hefði tekist að leysa og hvaða hindranir væri unnið með og samþykkt var endurskoðuð samstarfsáætlun Norðurlanda á löggjafarsviði, að tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar. Þá óskaði Norðurlandaráð ásamt Norrænu ráðherranefndinni og nefnd um afnám stjórnsýsluhindrana eftir því við norrænu þjóðþingin að stjórnsýsluhindranir yrðu samhliða á dagskrá þinganna á vorþingi 2012 og við því urðu forsetar þinganna.
    Norðurlandaráð samþykkti tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt átak til að leysa ágreining ESB, Noregs, Íslands og Færeyja um makrílveiðar. Í áliti með tilmælunum segir að lausn deilunnar sé aðkallandi verkefni sem beri að raða í forgang, að styrkja beri þá vísindalegu þekkingu sem nýtist við mat á stærð og útbreiðslu makrílstofnsins og að stuðla beri að nýtingarskipulagi sem auki sjálfbærni veiða í Norður-Atlantshafi og draga úr hættu á ágreiningi.
    Norðurlandaráð samþykkti einnig tilmæli um norrænt samstarf um mænuskaða á grundvelli tillögu sem upphaflega var lögð fram af Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Í tilmælunum beinir ráðið þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að fela nefnd sérfróðra vísindamanna og lækna að safna upplýsingum og taka saman, í formi skýrslu, yfirlit yfir norrænar og aðrar rannsóknir og meðferðir við mænuskaða, að gera tillögur um úrbætur á rannsóknum og meðferðum á mænuskaða, að gera rannsókn á þátttöku fólks með mænuskaða á vinnumarkaði og að vinna að norrænni gæðaskrá um mænuskaða.
    Danir fóru með formennsku í Norðurlandaráði árið 2011. Henrik Dam Kristensen var forseti ráðsins 1. janúar til 15. september, þegar þingkosningar fóru fram í Danmörku, og varaforseti 1. janúar til 15. september var Marion Pedersen. Eftir þingkosningarnar var Bertel Haarder forseti Norðurlandaráðs 7. október til 31. desember og Maja Panduro varaforseti á sama tímabili.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð hefur á undanförnum árum komið saman til þingfundar einu sinni á ári og rætt og ályktað um norræn málefni, en frá árinu 2012 verður það gert tvisvar á ári, að vori og hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna ríkjanna fjögurra, ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Þá heldur Norðurlandaráð einnig stuttan þingfund að vori sem er einfaldari í sniðum. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Á byrjun árs 2011 skipuðu Íslandsdeild Helgi Hjörvar, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Álfheiður Ingadóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Guðmundur Steingrímsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Ný Íslandsdeild var kosin á þingfundi 10. júní. Hana skipuðu Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns – framboðs. Varamenn voru Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Guðmundur Steingrímsson, þingflokki Framsóknarflokks, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á fundi Íslandsdeildar 24. júní var Helgi Hjörvar kjörinn formaður og Álfheiður Ingadóttir kjörin varaformaður.
    Ný Íslandsdeild var kosin á þingfundi 1. október. Hana skipuðu Helgi Hjörvar, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Álfheiður Ingadóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Lúðvík Geirsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns – framboðs, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Björn Valur Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2011 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2011 á 62. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Reykjavík 2.–4. nóvember 2010. Eftir kosningarnar var nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2011 sem hér segir: Helgi Hjörvar sat áfram í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir var áfram formaður velferðarnefndar og varð formaður kjörnefndar, Álfheiður Ingadóttir sat áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Bjarni Benediktsson sat áfram í efnahags- og viðskiptanefnd og eftirlitsnefnd, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sat áfram í velferðarnefnd og Ásmundur Einar Daðason sat áfram í menningar- og menntamálanefnd og kjörnefnd. Eftir nýskipan Íslandsdeildar 10. júní tók Árni Þór Sigurðsson sæti Ásmundar Einars Daðasonar í menningar- og menntamálanefnd og kjörnefnd. Eftir nýskipan Íslandsdeildar 1. október tók Lúðvík Geirsson sæti Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í velferðarnefnd og Illugi Gunnarsson sæti Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í menningar- og menntamálanefnd. Álfheiður Ingadóttir fór úr umhverfis- og náttúruauðlindanefnd í forsætisnefnd 1. nóvember og Árni Þór Sigurðsson úr menningar- og menntamálanefnd í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd 1. nóvember.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Siv Friðleifsdóttir sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir átti sæti í stjórn eftirlitsnefndar Norræna fjárfestingarbankans og Helgi Hjörvar sat í fjárlagahópi forsætisnefndar. Helgi Hjörvar var fulltrúi Norðurlandaráðs á ráðstefnu þingmanna um Norðlægu víddina 22.–23. febrúar í Tromsø, á málþingi ungra stjórnmálamanna frá Norðurlöndum og Norðvestur-Rússlandi 21.–23. mars í Arkhangelsk, í hringborðsumræðum þingmanna frá Norðurlöndum og Norðvestur-Rússlandi 27.–30. apríl í Murmansk, og á þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins 28.–30. ágúst í Helsinki. Álfheiður Ingadóttir var fulltrúi Norðurlandaráðs á ráðstefnu um kjarnorkuúrgang og kjarnorkuöryggi í Sellafield 12.–13. apríl í Lofoten. Siv Friðleifsdóttir var fulltrúi Norðurlandaráðs á ráðstefnu þingmanna um Norðlægu víddina 22.–23. febrúar í Tromsø, í heimsókn Norðurlandaráðs til héraðsþings Pskov 16.–20. maí, á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins 7.–9. júní í Þórshöfn, á ráðstefnunni „Menning fyrir lífið“ 6.–7. október í Málmey, á ráðstefnu norræns tengslanets um áfengis- og fíkniefnamál 21.–23. október í Vilnius, og á Eystrasaltsþingi 24.–25. nóvember í Tallinn.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði átta sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingi Norðurlandaráðs og fjallað um einstök mál til meðferðar í nefndum og starfshópum Norðurlandaráðs.
    Í janúar og febrúar fjallaði Íslandsdeild um makríldeilu Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins, um tillögu um mænuskaða og um beiðni Vestnorræna ráðsins um að hætta notkun orðsins sjálfstjórnarsvæði í opinberum textum norræns samstarfs, og gaf umsögn um þingsályktunartillögu um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.
    Í júní var Helgi Hjörvar kosinn formaður og Álfheiður Ingadóttir varaformaður og fjallað um fréttamannastyrki Norðurlandaráðs 2011. Eftirtaldir hlutu styrk: Atli Þór Fanndal, Bogi Ágústsson, Elsa Björk Sverrisdóttir, Guðrún Helga Sigurðardóttir, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Þröstur Haraldsson og Þórður Snær Júlíusson.
    Í ágúst fjallaði Íslandsdeild um starfsemi Norrænu eldfjallamiðstöðvarinnar og Norræna hússins. Gestir fundarins voru Rikke Pedersen, skrifstofustjóri Norrænu eldfjallamiðstöðvarinnar, og Max Dager, forstjóri Norræna hússins.
    Í desember fjallaði Íslandsdeild um eftirfylgni þingmanna við tilmæli Norðurlandaráðs frá árunum 2011 og 2010.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að ellefu fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í henni. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við Norðurlandaráðsþingið. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur starfshópur á vegum nefndarinnar tók þá vinnu sérstaklega að sér árið 2011, líkt og á síðustu árum. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri. Forsætisnefnd fjallar um tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi fagnefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tilmæli fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Helgi Hjörvar og Álfheiður Ingadóttir sátu í forsætisnefnd á starfsárinu 2011. Nefndin fundaði sex sinnum á árinu. Helstu mál til umfjöllunar í nefndinni á árinu voru utanríkismál og samstarf við þingmannasamtök á nærsvæðum, norðurslóðir, stjórnsýsluhindranir innan Norðurlanda og endurbætur á innri starfsemi Norðurlandaráðs.
    Forsætisnefnd fjallaði í byrjun árs um samskipti Norðurlandaráðs við stjórnvöld í Hvíta- Rússlandi, í kjölfar forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi í lok árs 2010 þar sem stjórnarandstæðingar voru handteknir, þar á meðal nokkrir forsetaframbjóðendur. Norðurlandaráð hefur á undanförnum árum verið í samskiptum við stjórnmálahreyfingar í Hvíta-Rússlandi til að styðja lýðræðisþróun í landinu og hefur frá árinu 2007 skipulagt fjórar hringborðsumræður í samvinnu við Eystrasaltsþingið um ákveðin málefni, með þátttöku fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu. Hin harkalega framganga stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi í tengslum við forsetakosningarnar var bakslag fyrir markmið samskiptanna og forseti Norðurlandaráðs 2010, Helgi Hjörvar, hafði fordæmt handtökurnar opinberlega strax að afloknum forsetakosningunum. Forsætisnefnd ákvað að mælast til þess við norska Stórþingið að bjóða ekki fulltrúum stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi til þingmannaráðstefnu um Norðlægu víddina sem haldin var í Tromsø 21.–23. febrúar og fresta heimsókn stjórnmálamanna frá Hvíta-Rússlandi á vegum Norðurlandaráðs til Norðurlanda í mars.
    Forsætisnefnd fjallaði um samstarf Norðurlandaráðs við rússneska þingmenn og lagði drög að uppfærslu samstarfsáætlunar Norðurlandaráðs með þeim, en samstarf ráðsins við rússneska þingmenn hefur aukist til muna sl. 20 ár. Samstarfið fer fram á vettvangi þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins, þingmannanefnd ráðstefnu um norðurskautsmál, þingmannavettvangi Norðlægu víddarinnar og Barentsráðstefnu þingmanna, auk hringborðsumræðna ráðsins með þingmannasamtökum Norðvestur-Rússlands og gagnkvæmum heimsóknum. Fulltrúar Norðurlandaráðs hafa einnig sótt málþing ungra stjórnmálamanna á Norðurlöndum og Norðvestur-Rússlandi. Í umfjöllun forsætisnefndar var undirstrikað mikilvægi tengsla Norðurlandaráðs við rússneska þingmenn, með áherslu á málefni hafsins, norðurskautsmál, menningarmál, þróun lýðræðis og baráttu gegn mansali.
    Uppfærsla ESB-áætlunar Norðurlandaráðs var til umfjöllunar í forsætisnefnd og var sumarfundur nefndarinnar haldinn í Evrópuþinginu í Brussel í tengslum við það. Forsætisnefnd var sammála um að auka tengsl Norðurlandaráðs við Evrópuþingið með því að fjalla um einstök mál sem væru efst á baugi á Evrópuþinginu og hefðu þýðingu fyrir norrænt samstarf. Áhersla var lögð á að styrkja tengslin við norræna þingmenn Evrópuþingsins, meðal annars með því að stuðla að aukinni þátttöku þeirra á þingum Norðurlandaráðs. Gestir á fundi forsætisnefndar voru starfsmenn norrænna þjóðþinga í Brussel, þau Tuula Zetterman, fulltrúi sænska þingsins, Pia Nieminen, fulltrúi finnska þingsins, Thomas Søndergård, fulltrúi danska þingsins, og Per Nestande, fulltrúi norska þingsins, og sögðu þau frá störfum sínum við ráðgjöf til þingmanna þjóðþinga Norðurlanda varðandi mál tengd ESB til umræðu á þjóðþingunum.
    Til undirbúnings umfjöllun um samstarf Norðurlandaráðs við ESB átti forsætisnefnd upplýsinga- og samráðsfundi í Brussel dagana á undan fundinum. Á skrifstofu fastafulltrúa Danmerkur gagnvart ESB fjallaði Jeppe Tranholm-Mikkelsen sendiherra um helstu aðstæður og þætti varðandi formennskuáætlun Danmerkur í ESB á fyrra helmingi árs 2012. Í sendiráði Íslands gerðu Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður og formaður samninganefndar Íslands í aðildarviðræðum Íslands og ESB, og Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart ESB, grein fyrir stöðu aðildarviðræðnanna.
    Í Evrópuþinginu fundaði forsætisnefnd með sendinefnd Evrópuþingsins fyrir samskipti við Sviss, Noreg, sameiginlega þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins, og sameiginlega þingmannanefnd EES um Norðurlönd sem svæði í Evrópu, norðurskautsmál, Eystrasaltsáætlun ESB og Norðlægu víddina. Forsætisnefnd fundaði einnig í Evrópuþinginu með norrænum þingmönnum þess um norrænar áherslu í málum til umfjöllunar í þinginu og að lokum átti forsætisnefnd fund með Vesa Vihriälä, ráðgjafa Olli Rehns, framkvæmdastjóra efnahags- og gjaldeyrismála hjá ESB, um fjármálakreppuna í Evrópu.
    Forsætisnefnd ákvað í mars að Norðurlandaráð skyldi fylgja fordæmi Norrænu ráðherranefndarinnar og koma ekki til móts við beiðni Vestnorræna ráðsins um að hætta að nota hugtakið sjálfstjórnarsvæði yfir Færeyjar, Grænland og Álandseyjar í opinberum textum um norrænt samstarf. Við afgreiðslu ráðherranefndarinnar studdu Ísland, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar beiðnina um að nota frekar hugtökin lönd eða sjálfstjórnarlönd. Danmörk studdi beiðnina einnig en lagði um leið áherslu á að í því fælist ekki breytt afstaða til stöðu Færeyja og Grænlands innan danska ríkisins. Við afgreiðslu forsætisnefndar lýstu Helgi Hjörvar og danski þingmaðurinn Line Barfod sig andvíg niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar. Í kjölfarið af umfjöllun Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs hafa embættismenn hjá ráðherranefndinni og ráðinu farið að nota „Norðurlöndin og Grænland, Færeyjar og Álandseyjar“ í staðinn fyrir „Norðurlöndin og sjálfstjórnarsvæðin“.
    Í tengslum við fund forsætisnefndar í desember fór fram árlegur leiðtogafundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Reykjavík. Á dagskrá fundarins voru 20 ára afmæli endurheimts sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna, Hvíta-Rússland, sameiginlegar áherslur á vettvangi ESB, samstarfsáætlun 2012–2013 og eftirfylgni skýrslu Gade og Birkavs um samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Gestur fundarins var Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra. Ásamt honum heimsótti sendinefnd Eystrasaltsþingsins einnig Höfða þar sem Ísland viðurkenndi formlega sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna árið 1991.
    Forsætisnefnd samþykkti í september nefndarálit um stuðning við tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um nýja samstarfsáætlun um norðurskaut fyrir árin 2012–2014. Fyrsta samstarfsáætlunin um norðurskaut hófst 1996 og hefur síðan vaxið að umfangi og mikilvægi. Helsta áhersluatriði í nýju samstarfsáætluninni eru að styðja við sjálfbæra þróun á svæðinu í samræmi við kröfur og óskir íbúa norðurskautssvæðisins og umhverfislega sjálfbærni.
    Í september samþykkti forsætisnefnd einnig nefndarálit um stuðning við tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um stefnumið varðandi samstarf við nágranna Norðurlanda í vestri (Kanada). Með nágrönnum í vestri er átt við héruð í Kanada við Atlantshafið, ríki Bandaríkjanna við Atlantshafið, Írland og Skotland. Stefnumiðunum er ætlað að stuðla að frekari þróun núverandi samstarfs og styrkja nágrannatengsl.
    Forsætisnefnd beitti sér fyrir hönd Norðurlandaráðs ásamt Norrænu ráðherranefndinni og nefnd um afnám stjórnsýsluhindrana fyrir því að samhliða umræða um stjórnsýsluhindranir færi fram á vorþingi 2012 í norrænu þjóðþingunum. Vinnan gegn stjórnsýsluhindrunum miðar að því að auðvelda frjálsa för einstaklinga og viðskipta milli norrænna landa með því að uppræta kerfisbundnar hindranir í stjórnsýslu. Forsetar þjóðþinganna tóku jákvætt í beiðnina.
    Þá fjallaði forsætisnefnd ítarlega um skýrslu starfshóps embættismanna um breytingar á starfsreglum og starfsháttum Norðurlandaráðs. Meðal helstu nýjunga í nefndaráliti forsætisnefndar var að lagt var til að Norðurlandaráð héldi tvo þingfundi á ári, einn meginþingfund að hausti og annan styttri þingfund að vori, að einstaklingar og samtök gætu fengið áheyrn hjá fagnefndum ráðsins, að nefndir gætu haldið opna fundi, að málefni rannsókna flyttust frá menningar- og menntamálanefnd til efnahags- og viðskiptanefndar, að styrkja ætti alþjóðastarf Norðurlandaráðs á grundvelli málefna og að styrkja ætti samstarfið við ESB og þá sérstaklega Evrópuþingið um eftirfylgni einstakra mála, bæði af fagnefndum og forsætisnefnd.
    Á tímabilinu janúar til október 2011 samþykkti forsætisnefnd fern tilmæli af hálfu Norðurlandaráðs.
    Sjö tillögur forsætisnefndar voru samþykktar sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu. Það voru tilmæli um lækkun gjalda fyrir starfsfólk Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins (tilmæli 1/2011), fækkun skammdrægra vopna og þróun í átt að kjarnorkuvopnalausu svæði á norðurskautssvæðinu (tilmæli 2/2011), norrænt þing til að efla tengslanet um frið og lausn ágreiningsmála (tilmæli 3/2011), fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2012 (tilmæli 5/2011), nýja samstarfsáætlun um málefni Norðurskautsins (tilmæli 7/2011), áætlun um samstarf við nágranna Norðurlanda í vestri (Kanada) (tilmæli 8/2011) og þróun mælistiku fyrir verg lífsgæði þjóða (tilmæli 11/2011).
    Þá urðu þrjár tillögur forsætisnefndar að ákvörðunum um innri málefni. Þær voru um nýja starfshætti í Norðurlandaráði (ákvörðun 1/2011), áætlun um samstarf Norðurlandaráðs 2012– 2015 við Dúmuna og Sambandsþingið í Rússlandi og við héraðsþing í Norðvestur-Rússlandi (ákvörðun 2/2011) og ESB-áætlun Norðurlandaráðs (ákvörðun 3/2011).

Menningar- og menntamálanefnd.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Ásmundur Einar Daðason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Illugi Gunnarsson sátu í menningar- og menntamálanefnd árið 2011. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu málefni til umfjöllunar í menningar- og menntamálanefnd á árinu 2011 voru mat á skipulagsbreytingum í norrænu menningarsamstarfi, frumkvæði á sviði rannsókna, menntunar og menningar, nýir net- og sjónvarpsmiðlar, þar á meðal almenningssjónvarpsstöðvar, og sköpun og frumkvöðlastarfsemi.
    Í janúar fjallaði menningar- og menntamálanefnd um nýja PISA-könnun. Gestir fundarins, fræðimennirnir Heidi Harju-Luukkainen frá Finnlandi og Marit Kjærnsli frá Noregi, fóru yfir niðurstöður og breytingar síðustu ára. Nefndin ákvað að fjalla nánar um hvernig aðrar Norðurlandaþjóðir gætu nálgast árangur Finna. Finnski menntamálaráðherrann Hanna Virkkunen var einnig gestur á fundi nefndarinnar í janúar og ræddi PISA, kennaramenntun í Finnlandi og sjálfstæði kennara í starfi.
    Þrjár tillögur menningar- og menntamálanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Tilmælin voru um: að Kulturkontakt Nord verði sameinað Norrænu stofnuninni í Finnlandi (tilmæli 24/2011), næsta þrep Nordplus-áætlunarinnar (tilmæli 25/2011) og hreyfanleika á Norðurlöndum (tilmæli 26/2011).

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, skipulag innviða, samgöngur og upplýsingatækni.
    Bjarni Benediktsson sat í efnahags- og viðskiptanefnd á starfsárinu 2011. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Meðal helstu málefna til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd voru atvinnuleysi ungs fólks, sameiginleg norræn framleiðsla á endurnýjanlegri orku og umhverfisvernd og öryggi sjósiglinga á norðurslóðum.
    Þrjár tillögur efnahags- og viðskiptanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Þær voru um norrænar aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks (tilmæli 10/2011), norrænt flutningskerfi fyrir raforku og verðsveiflur (tilmæli 22/2011) og orkunýtni. endurnýjanlega orku og orkurannsóknir (tilmæli 23/2011).

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd annast málefni er varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Álfheiður Ingadóttir og Árni Þór Sigurðsson sátu í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd á árinu 2011. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Meðal helstu málefna sem umhverfis- og náttúruauðlindanefnd lagði áherslu á árið 2011 voru makríldeila Íslands, Færeyja, Noregs og ESB, loftslagsbreytingar, siglingar og umhverfismál á norðurslóðum, og endurnýjanleg orka.
    Makrílveiðar í Norður-Atlantshafi voru til umfjöllunar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, vegna árangurslausra viðræðna Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja, sem öll gera tilkall til veiðikvóta á makríl. Nefndin fékk á sinn fund Kjartan Hoydal, framkvæmdastjóra Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) til að kynna málið og einnig var dreift minnisblöðum um það frá sjávarútvegsráðuneytinu í Færeyjum og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu á Íslandi. Nefndin sendi frá sér yfirlýsingu í janúar til ríkisstjórna norrænu ríkjanna, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB, til að hvetja aðila málsins til að setjast að samningaborði og finna lausn sem tryggði sjálfbæra nýtingu makrílstofnsins. Harðar umræður urðu um orðalag yfirlýsingarinnar, sér í lagi milli fulltrúa Noregs og Íslands í nefndinni. Í september afgreiddi umhverfis- og náttúruauðlindanefnd tillögu um að Norræna ráðherranefndin stuðlaði að lausn ágreiningsins um makrílveiðar. Tillagan lagði áherslu á að lausn deilunnar væri aðkallandi verkefni sem bæri að setja í forgang, að styrkja bæri þá vísindalegu þekkingu sem nýttist við mat á stærð og útbreiðslu makrílstofnsins og að stuðla bæri að nýtingarskipulagi sem yki sjálfbærni veiða í Norður-Atlantshafi og drægi úr hættu á ágreiningi.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd afgreiddi einnig úr nefnd í september sameiginlega tillögu nefndarinnar og efnahags- og viðskiptanefndar um umhverfisvernd og aukið öryggi til sjós á norðurslóðum.
    Norðurlandaráð samþykkti á árinu 2011 sem tilmæli sjö tillögur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Tilmælin voru um norrænt samstarf um að efla Ríó +20 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (tilmæli 4/2011), aukið siglingaöryggi og umhverfisvernd á heimskautasvæðum (tilmæli 18/2011), norræna stefnu í loftslagsstarfi (tilmæli 19/2011), norræna stefnu í hnattrænu loftslagsstarfi (tilmæli 20/2011) og norrænt átak til að leysa deilur um makrílveiðar (tilmæli 21/2011).

Velferðarnefnd.
    Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu- og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, málefnum barna og unglinga og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Siv Friðleifsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Lúðvík Geirsson sátu í velferðarnefnd á starfsárinu 2011. Siv Friðleifsdóttir var jafnframt formaður nefndarinnar. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Velferðarnefnd lagði á árinu 2011 megináherslu á hvernig koma mætti í veg fyrir myndun fátækrahverfa á Norðurlöndum.
    Í janúar afgreiddi velferðarnefnd úr nefnd tillögu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um auknar rannsóknir vegna mænuskaða. Tillagan fjallaði um að fela nefnd sérfróðra vísindamanna og lækna að safna upplýsingum og taka saman, í formi skýrslu, yfirlit yfir norrænar og aðrar rannsóknir og meðferðir við mænuskaða, og gera tillögur um úrbætur um rannsóknir og meðferðir á mænuskaða. Einnig bætti nefndin við tillöguna að gera ætti rannsókn á þátttöku fólks með mænuskaða á vinnumarkaði og að vinna ætti að norrænni gæðaskrá um mænuskaða.
    Velferðarnefnd fjallaði í mars um myndun fátækrahverfa á Norðurlöndum og fundaði af því tilefni með sænska innflytjendamálaráðherranum Erik Ullenhag og heimsótti Rinkeby- hverfið þar sem félagsleg staða íbúa er hvað verst í Stokkhólmi. Ullenhag lagði áherslu á að föst vinna og bætt sænskukunnátta skiptu mestu máli til að fólk gæti brotist út úr erfiðri félagslegri stöðu og tryggja mætti betri aðlögun flóttamanna og innflytjenda.
    Í júní fjallaði velferðarnefnd frekar um málið og heimsótti Gellerupparken í Árósum, Mjølnerparken í Kaupmannahöfn og Rosengård í Málmey. Í Gellerupparken hittu fulltrúar velferðarnefndar Rabih Azad-Ahmad, aðstoðarborgarstjóra, og Torben Overgaard, framkvæmdastjóra húsaleigufélagsins Brabrand Boligforening. Muhammed Aslam, fulltrúi í borgarráði Kaupmannahafnar, kynnti fulltrúunum Mjølnerparken og Eva Ahlgren borgarhlutastjóri kynnti nefndarmönnum Rosengård. Hún sagði m.a. að það væri ungt fólk, og sér í lagi drengir, sem sköpuðu mesta vandann í hverfinu. Nemendur í skólum í Rosengård skila slakasta námsárangri í Svíþjóð og aðeins helmingur þeirra sem kláruðu grunnskólann á síðasta ári náðu lágmarkseinkunn til að komast í framhaldsskóla.
    Fjórar tillögur velferðarnefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu 2011. Tilmælin voru um hvernig megi sporna gegn gettómyndun í íbúðarhverfum á Norðurlöndum (tilmæli 9/2011), norrænt samstarf um mænuskaða (RMS) (tilmæli 14/2011), endurskoðun áætlunarinnar „Ný norræn matargerðarlist – matur fyrir marga“ (tilmæli 15/2011) og þingmannatillaga um sóun á mat (tilmæli 16/2011).

Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Enginn fulltrúi Íslandsdeildar sat í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2011. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Borgara- og neytendanefnd lagði á árinu 2011 megináherslu á stjórnarskrárleg málefni, sjálfstjórn, fólksflutninga og gagnkvæma aðlögun.
    Í janúar voru stjórnarskrárleg málefni og landsdómar í Finnlandi og Íslandi til umfjöllunar á fundi nefndarinnar. Á fundinum var sérstaklega fjallað um landsdóm í Finnlandi í tengslum við mál Matti Vanhanen, fyrrverandi forsætisráðherra, sem grunaður var um vanhæfi fyrir að þiggja framlög til kosningabaráttu frá stofnun sem þáði ríkisstyrki en Vanhanen var einnig stjórnarformaður hennar. Gestur fundarins af þessu tilefni var Markku Suksi, prófessor við Åbo-háskóla, sem kynnti landsdómsferlið í Finnlandi og málavöxtu Vanhanen-málsins.
    Í mars hélt borgara- og neytendanefnd áfram umfjöllun sinni um landsdóma í Finnlandi og á Íslandi. Kynnt var í nefndinni minnisblað Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, um lagalega ráðherraábyrgð á Íslandi.
    Í september samþykkti borgara- og neytendanefnd nefndarálit um stuðning við tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um uppfærða samstarfsáætlun norræna lagasamstarfsins. Í samstarfsáætluninni, sem er á ábyrgð norrænnar ráðherranefndar um lagasamstarf sem í sitja ráðherrar dómsmála, er meðal annars tekið fram að lagafrumvörp skuli þegar það á við innihalda greinargerð um sambærilega löggjöf annars staðar á Norðurlöndum og að styðja skuli við og þróa enn frekar óformlegt samstarf embættismanna um að skiptast á reynslu og spara vinnu í tengslum við innleiðingu ESB-/EES-gerða.
    Fjórar af tillögum borgara- og neytendanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs árið 2011. Tilmælin voru um endurskoðaða samstarfsáætlun á löggjafarsviði (tilmæli 6/2011), One Health – fjölónæmi hjá mönnum og dýrum (tilmæli 12/2011), One Health í formennskuáætlun Dana í ESB 2012 (tilmæli 13/2011), og endurskipulagningu NIKK og breytingu stofnunarinnar í samstarfsvettvang (tilmæli 17/2011).

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Bjarni Benediktsson var fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2011. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Helstu umfjöllunarefni eftirlitsnefndar á árinu 2011 var eftirfylgni tilmæla Norðurlandaráðs af hálfu fulltrúa þess, í norrænu þjóðþingunum og hjá Norrænu ráðherranefndinni.

5. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun og kvikmyndaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þúsund danskar krónur.
    Verðlaunin fyrir árið 2011 voru afhent við hátíðlega athöfn í Konunglegu tónlistarakademíunni í Kaupmannahöfn 2. nóvember í tengslum við 63. þing Norðurlandaráðs.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk. Verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Gyrðir Elíasson hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Dómnefnd bókmenntaverðlaunanna lýsti verkinu í rökstuðningi sínum þannig: „Stílhreint og framúrskarandi skáldverk sem lýsir innri og ytri átökum og kallast á við heimsbókmenntirnar.“
    Gyrðir sagði í þakkarræðu sinni m.a.: „Ég held ég geti sagt með nokkurri vissu að í bernsku minni hafi það verið nokkrar skandínavískar skáldkonur sem vöktu með mér hálfdulda löngun til að skrifa. Selma Lagerlöf, Tove Jansson, Anne-Cath Vestly, Maria Gripe, Astrid Lindgren og Sigrid Undset. Mögulega ásamt hinum óþekktu höfundum Íslendingasagna, og þá sérstaklega Grettissögu, sem varð mér hugleiknari en aðrar sögur vegna þess að ég ólst upp í Skagafirði þar sem Grettissaga gerist að stórum hluta. Það voru þó kannski íslenskar þjóðsögur umfram allt sem kveiktu í mér. Nokkru síðar kom Knut Hamsun til skjalanna, og kynni mín af honum hafa líklega ráðið úrslitaáhrifum um þá stefnu sem ég tók.“ Enn fremur sagði Gyrðir: „Samlíf við land og náttúru, fólk og dýr, er jafnmikilvægt og sú menntun sem borgarsamfélög nútímans bjóða upp á, og reyndar byggir öll sönn menntun á þessu, þegar grannt er skoðað, enn þann dag í dag. Þegar sú stund rennur upp að borgarsamfélögin hafa að fullu gleymt uppruna sínum, er voðinn vís. Undir allri steinsteypunni er ennþá mold. Ég vona að heimur tækni og svokallaðra framfara muni aldrei yfirskyggja til fulls það lífsmagn sem skáldskapurinn býr yfir, lífsmagn sem er skylt sjálfri jörðinni.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Þema tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2011 var: „Tónlistarmaður (hljóðfæraleikari eða söngvari), sem hefur stuðlað að nýsköpun í tónlist þar sem spuni er lykilatriði og sköpun viðkomandi er mikilvæg fyrir form, hljóm og samhengi í tónlistarlegri tjáningu. Hinn tilnefndi skal hafa vakið athygli í norrænu eða alþjóðlegu tónlistarlífi á síðasta ári (2010).“
    Það var sænski saxófónleikarinn og tónskáldið Mats Gustafsson sem hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2011. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Mats Gustafsson hefur í rúma tvo áratugi verið eitt af stóru nöfnunum á sviði spunatónlistar. Með nýskapandi saxófónleik leitar hann stöðugt út fyrir ramma þeirra skilgreininga sem við notum til að flokka þá tónlist sem við höfum ekki heyrt áður. Óháð því hvort hann vinnur í framúrstefnuheimi Peter Brötzmann, Chicago Tentet, eða í pönktríóinu The Thing er Mats til staðar í afdráttarlausri túlkun, algjörri nærveru, með eftirtektarverða orku og mikla tilfinningu fyrir meðleikurum sínum. Mats endurnýjar ekki eingöngu tjáningarform saxófónsins, hann enduruppgötvar það og skapar nýjan tónlistarheim milli tónanna og bak við hávaðann.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar. Þema náttúru- og umhverfisverðlaunanna 2011 var sjálfbær ferðaþjónusta.
    Norræna hótelkeðjan Scandic Hotels hlaut náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2011. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Scandic hefur verið í fararbroddi frá árinu 1994 í að draga úr umhverfisáhrifum af eigin starfsemi og margir hafa fetað í fótspor fyrirtækisins við að vinna að sjálfbærri þróun jafnt innan hótelreksturs og í samfélaginu í heild. Scandic hefur sýnt hugrekki með því að gera kröfur til birgja og býður einnig hótelgestum sínum að taka þátt í að vinna að umhverfisvænum markmiðum eins og til að mynda með því að spara þvotta og flokka úrgang. Þar sem fyrirtækið rekur 147 hótel á öllum Norðurlöndum er hópur viðskiptavina stór.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi sínu árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Pernilla August kvikmyndaleikstjóri, Lolita Ray meðhandritshöfundur, og framleiðendurnir Helena Danielsson og Ralf Karlsson hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir kvikmyndina Svínastíuna (Svinalängorna). Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Svínastían er harkalegt og margslungið drama, hrátt og fíngert í senn, myrkt en um leið þrungið birtu. Pernille August hefur, ásamt félögum sínum, næmt auga fyrir smáatriðum og tilbrigðum og tekst að láta hið flókna sýnast auðvelt. Leikurinn er stórkostlegur, og síðast en ekki síst þá er Svínastían nokkuð afar sjaldgæft: persónuleg og frumleg leikgerð af metsölubók.“

6. Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda þrisvar sinnum árið 2011, í janúar, mars og september. Á fundunum voru unnar þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir þingfund Norðurlandaráðs eða fyrir forsætisnefnd milli þinga. Í tengslum við nefndafundina eru oft haldnir stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem tekin eru fyrir efni sem tengjast verksviðum nefnda, auk þess sem ein nefnd eða fleiri standa oft í samstarfi fyrir málstofum um mál til umfjöllunar í einstökum nefndum.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Esbo.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs fóru fram í Esbo í Finnlandi 25.–26. janúar. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar formaður, Álfheiður Ingadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir. Helstu mál á dagskrá voru makrílveiðar í Norður- Atlantshafi, tillaga Íslandsdeildar um mænuskaða, stjórnmálaþróun í Hvíta-Rússlandi, málstofa um norðurslóðir, stjórnarskrárleg málefni og landsdómar í Finnlandi og á Íslandi, ný PISA-könnun og formennskuáætlun Dana í Norðurlandaráði 2011.
    Formennskuáætlun Dana í Norðurlandaráði árið 2011 var kynnt á sameiginlegum fundi allra þingmanna af forseta Norðurlandaráðs, Henrik Dam Kristensen. Meginatriði áætlunarinnar voru þrjú, hraðari ákvarðanataka í norrænu samstarfi, samstaða Norðurlanda í Evrópusamstarfi og sameiginleg stefna um norðurskautið.
    Þá héldu umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd sameiginlega málstofu um norðurslóðir og áskoranir vegna umhverfisslysa og björgunarmála. Gestir fundarins voru Ole Kristian Bjerkemo frá norsku landhelgisgæslunni, sem sat í starfshópi Norðurskautsráðsins um umhverfisslys (EPPR), og Timo Viitanen frá finnska innanríkisráðuneytinu, sem sat í vinnuhópi Norðurskautsráðsins (SAR), um að undirbúa alþjóðlega samþykkt um samvinnu um björgun á norðurslóðum.

Marsfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Marsfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Stokkhólmi 30.–31. mars. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar formaður, Siv Friðleifsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Helstu mál á dagskrá voru Sambandsríkið Norðurlönd, endurskoðun landbúnaðarstefnu ESB, landsdómar og stjórnarskrárleg málefni, hugtak yfir Færeyjar, Grænland og Álandseyjar í norrænu samstarfi, myndun fátækrahverfa og atvinnuleysi ungs fólks.
    Efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og náttúruauðlindanefnd fjölluðu á sameiginlegum fundi um endurskoðun landbúnaðarstefnu ESB fyrir tímabilið 2013–2019 og möguleg samnorræn sjónarmið Norðurlandaráðs um hana. Skiptar skoðanir voru um hvort málið ætti heima innan ráðsins eða væri málefni einstakra ríkja. Meiri hluti var fyrir því að halda umfjölluninni áfram og komast að niðurstöðu um sameiginlegar áherslur.
    Þá héldu menningar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og velferðarnefnd sameiginlegan fund um atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndum. Á fundinum kom m.a. fram að næstum útilokað er fyrir ófaglært ungt fólk að fá atvinnu og að ungt fólk á Íslandi og í Finnlandi er lengur að ljúka námi en ungt fólk annars staðar á Norðurlöndum. Gestir fundarins voru Tone Mørck, framkvæmdastjóri Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar, Lisbeth Lundahl prófessor og Jonas Olofsson verkefnastjóri hjá háskólanum í Umeå og Samuel Strömgren, verkefnastjóri YOU-verkefnisins í Västerås.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Ósló.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Ósló 20.–21. september. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar formaður, Álfheiður Ingadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir. Helstu mál á dagskrá voru norðurskaut, samstarf við nágranna í vestri, fjármál norrænna flokkahópa, makrílveiðar, lagasamstarf, viðbrögð við árásunum í Noregi 22. júlí og kjör formanna norrænna flokkahópa.
    Á sameiginlegum fundi ráðsins skýrði Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, fulltrúum Norðurlandaráðs frá viðbrögðum norsku ríkisstjórnarinnar við árásunum í Noregi 22. júlí. Hann sagði að viðbragðskerfi norskra yfirvalda og frjálsra félagasamtaka hafi á margan hátt reynst vel en bætti við að einnig væri ástæða til sjálfsgagnrýni. Þörf væri á að meta viðbragðsáætlanir í samstarfi við norræn grannríki og evrópskar stofnanir með því markmiði að læra, bæta og efla enn frekar viðbúnað við hryðjuverkum.
    Álfheiður Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir voru kjörnar formenn flokkahóps vinstri sósíalista og grænna annars vegar og flokkahóps miðjumanna hins vegar á fundi flokkahópanna í Ósló. Fyrir var Helgi Hjörvar formaður flokkahóps jafnaðarmanna.

7. Sextugasta og þriðja þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Sextugasta og þriðja þing Norðurlandaráðs var haldið í Kaupmannahöfn 1.–3. nóvember. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í þinginu Helgi Hjörvar formaður, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Illugi Gunnarsson, Lúðvík Geirsson og Siv Friðleifsdóttir.
    Helstu mál á dagskrá Norðurlandaráðsþingsins voru leiðtogafundur Norðurlanda, norræn utanríkismálaumræða, deila Noregs, Íslands, Færeyja og ESB um makrílveiðar, rannsóknir á mænuskaða, stjórnsýsluhindranir og lagasamstarf á Norðurlöndum og eftirfylgni yfirlýsingarinnar um norræna tungumálastefnu, auk veitingar verðlauna Norðurlandaráðs og kjörs forseta og varaforseta Norðurlandaráðs fyrir árið 2012.
    Leiðtogafundur Norðurlanda, með þátttöku forsætisráðherra Norðurlanda og leiðtoga Grænlands, Færeyja og Álandseyja, var fyrst á dagskrá. Fjallað var um hin opnu norrænu samfélög, að nokkru leyti í ljósi árásanna í Noregi 22. júlí. Mikil samstaða var meðal þátttakenda í umræðunni um að standa vörð um mikilvæg gildi í norrænum samfélögum á borð við lýðræði, gagnsæi, öryggi, frelsi og jafnrétti.
    Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, þakkaði öðrum Norðurlandaþjóðum stuðninginn eftir árásirnar og sagði að norræna svarið við slíkum árásum væri meira lýðræði og opnari samfélög, en þó aldrei einfeldni. Hann sagði að meginverkefni norrænna samfélaga að þessu leyti væru fólgin í að styðja við málfrelsi, og aðlögun og þátttöku í samfélaginu.
    Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að bent hefði verið á að misjöfn skipting aukinna tekna og lífsgæða valdi aukinni spennu innan samfélaga, og að það væri áhyggjuefni hvernig gjá væri að myndast í hinum vestræna heimi milli fjármálageirans og almennings og sumpart milli stjórnmálamanna og almennings. Einnig sagði hún að mæta þyrfti ógn af hópum á Norðurlöndum með sterk tengsl við alþjóðlega glæpastarfsemi en tryggja jafnframt hið opna samfélag á lögmætum grunni.
    Helgi Hjörvar, formaður flokkahóps jafnaðarmanna, sagði að á síðustu árum hefði orðið vart aukins ójafnaðar í okkar heimshluta, samfara stjórnlausum vexti alþjóðlega fjármálakerfisins, og að beina þyrfti augum aftur að verkefnum sem snúa að því að auka jöfnuð í norrænum samfélögum, ekki síst í því að sýna ungu fólki þá virðingu að þau hafi öll tækifæri og hlutverk á vinnumarkaði.
    Siv Friðleifsdóttir, formaður flokkahóps miðjumanna, sagði að áskorun norrænna samfélaga fælist meðal annars í því að svara hvernig hægt væri að tryggja þátttöku fólks í samfélögunum í stað þess að fólki fyndist það standa utan fyrir samfélagið, sem og að svara hvaða leið væri fær til að stuðla að því að stjórnmálaumræðan væri ekki með því móti að almenningur missti traust á stjórnmálamönnum.
    Álfheiður Ingadóttir, formaður flokkahóps vinstri sósíalista og grænna, sagði að fordómar, græðgi og ójöfnuður hefði aukist í norrænum samfélögum á síðustu árum. Eina leiðin til að mæta öfgum og hatri væri að vinna gegn fordómum gegn minnihlutahópum, að vinna gegn félagslegum undirboðum og myndun fátækrahverfa, og að tryggja að allir hefðu sömu möguleika án tillits til kynferðis, aldurs, trúar, uppruna og kynhneigðar.
    Norræna utanríkismálaumræðan, með þátttöku norrænu utanríkisráðherranna, helgaðist meðal annars af áherslum á samstarf um norðurskaut, samstarf við nágranna í vestri, samstarf norrænna sendiráða, Sameinuðu þjóðirnar, Palestínu, og stafrænt öryggi.
    Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, var talsmaður norrænu utanríkisráðherranna. Hann fór yfir helstu mál til umfjöllunar hjá ráðherrunum og helstu áfanga á árinu, þar á meðal samstöðuyfirlýsingu norrænu ráðherranna í samræmi við tillögu 13 í Stoltenberg- skýrslunni, ákvörðun um að styrkja Norðurskautsráðið og undirskrift Nuuk-samkomulagsins um leit og björgun á norðurslóðum.
    Tillaga Norrænu ráðherranefndarinnar um nýja samstarfsáætlun um norðurskaut fyrir árin 2012–2014 var samþykkt. Helsta inntak samstarfsáætlunarinnar er að styðja sjálfbæra þróun á svæðinu í samræmi við kröfur og óskir íbúa og umhverfislega sjálfbærni. Áhersla verður lögð á byggðaþróun, að viðhalda umhverfi norðurskautsins og líffræðilegum fjölbreytileika, að dreifa upplýsingum um loftslagsbreytingar, að styðja við sjálfbæra atvinnustarfsemi og að styðja við menntun og frjáls félagasamtök íbúa.
    Katrín Jakobsdóttir, samstarfsráðherra, hafði framsögu um tillöguna fyrir hönd ráðherranefndarinnar. Hún sagði að áætlunin fæli í sér verkefni og pólitískar aðgerðir til að styðja við sjálfbæra þróun á norðurslóðum með velferð íbúa í forgrunni.
    Helgi Hjörvar, talsmaður Norðurlandaráðs í umræðunni, sagði ráðið sammála áherslu samstarfsáætlunarinnar á íbúa norðurskautssvæðisins. Hann benti á að Grænlendingar væru fyrirmynd annarra inúíta í samstarfi á norðurslóðum, en samstarfsvettvangur inúíta á Grænlandi, í Kanada, Alaska og Kamtsjatka er Heimskautsráð inúíta (Inuit Circumpolar Conference – ICC). Helgi fjallaði einnig um umferð farþegaskipa á norðurslóðum, annars vegar um að aðeins væri tímaspursmál hvenær slys yrði og hins vegar um að taka þyrfti til pólitískrar umræðu losun þeirra á koldíoxíði (CO 2) út í umhverfið, sem við núverandi aðstæður kæmu engin gjöld fyrir.
    Einnig var samþykkt tillaga Norrænu ráðherranefndarinnar um stefnumið varðandi samstarf við nágranna Norðurlanda í vestri. Með nágrönnum í vestri er átt við héruð í Kanada við Atlantshafið, ríki Bandaríkjanna við Atlantshafið, Írland og Skotland. Stefnumiðunum er ætlað að stuðla að frekari þróun núverandi samstarfs og að styrkja tengslin við nágrannana. Samstarfið skal byggjast á sameiginlegum áskorunum og hagsmunum sem fylgja fámennum dreifbýliskjörnum á stórum landsvæðum, löngum vegalengdum, köldu loftslagi, auðlindum hafsins og auknum siglingum um norðurskaut.
    Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, fjallaði í utanríkismálaumræðunni um myndun norræns tengslanets um stafrænt öryggi, umfjöllun utanríkisráðherranna um aukið samstarf norrænna sendiráða og aukið samstarf Norðurlanda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Sænski þingmaðurinn Jan Lindholm fór í andsvar við ræðu Støre og spurði um afstöðu Noregs til stöðu Palestínu, en á fréttamannafundi norrænu utanríkisráðherranna fyrr um daginn höfðu þeir lýst yfir áhyggjum af harðnandi samskiptum milli Ísraels og Palestínu vegna samþykktar aðildar Palestínu að UNESCO. Á fréttamannafundinum kom fram að Norðurlöndin hefðu ekki mótað sameiginlega afstöðu til málsins en gerlegt væri að móta slíka afstöðu. Støre svaraði því til að hann skynjaði samstöðu meðal norrænu utanríkisráðherranna um meginþætti tveggja ríkja lausnar.
    Árni Þór Sigurðsson spurði Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur, hvort útlit væri fyrir að danska ríkisstjórnin mundi fylgja fordæmi íslensku ríkisstjórnarinnar og leggja fram þingsályktunartillögu um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Søvndal svaraði að það væri nauðsynlegt að í lausn málsins fælist viðurkenning á rétti Palestínumanna til sjálfstæðs og sjálfbærs ríkis en að næstu skref Dana yrðu að fylgjast áfram með samningaviðræðum kvartettsins svokallaða við deiluaðila.
    Umræður um umhverfismál snerust meðal annars um makrílveiðar og siglingar á norðurslóðum. Samþykkt var tillaga umhverfis- og náttúruauðlindanefndar um að Norræna ráðherranefndin stuðli að lausn ágreinings ESB, Noregs, Íslands og Færeyja um makrílveiðar. Tillagan fól í sér að lausn deilunnar sé aðkallandi verkefni sem beri að raða í forgang, að styrkja beri þá vísindalegu þekkingu sem nýtist við mat á stærð og útbreiðslu makrílstofnsins og að stuðla beri að nýtingarskipulagi sem auki sjálfbærni veiða í Norður-Atlantshafi og draga úr hættu á ágreiningi.
    Í framsöguræðu Cecilie Tenfjord-Toftby fyrir hönd umhverfis- og nátttúruauðlindanefndar kom fram að fiskveiðikvótar deiluaðilanna væru nú 45% hærri en vísindaleg ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) gerði ráð fyrir, þetta væri ofveiði sem allir deiluaðilar töpuðu á og skapaði hættu á að makrílstofninn mundi þurrkast út.
    Álfheiður Ingadóttir lýsti yfir stuðningi Íslandsdeildar við tillöguna. Hún benti á að deilan snerti Danmörku sem veiddi stóran hluta af kvótum ESB. Hún benti enn fremur á að um fjórðungur makrílstofnsins hefði verið innan íslenskrar lögsögu á fæðutímabili árið 2010 og aukið þyngd sína um 60%. Þá sagði Álfheiður að íslensk stjórnvöld legðu áherslu á að ná samkomulagi til að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja sjálfbærar veiðar.
    Þá voru samþykkt tilmæli til norrænu ríkisstjórnanna um að þær efli innan ramma Nuuk- samkomulags Norðurskautsráðsins norrænt samstarf um eftirlit með höfum á norðurskautssvæðinu og að í anda samkomulagsins verði stofnuð norræn viðbragðssveit á sjó á norðurslóðum, sem í verði einingar úr landhelgisgæslu og björgunarsveitum landanna. Einnig að ríkisstjórnirnar samræmi betur aðgerðir innan landanna og milli Norðurlanda við vinnu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) við gerð bindandi reglna um smíði, búnað og rekstur skipa sem sigla um norðurskaut (Polar Code) þannig að löndin geti talað einum rómi, að um leið og reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar liggi fyrir verði þær fléttaðar inn í reglugerðir í löndunum, og að ríkisstjórnirnar beiti sér fyrir að sú krafa verði gerð til stórra farþegaskipa að þau hafi samflot á tilteknum siglingaleiðum í norðurskautshöfum þar sem talið er að það auki siglingaöryggi. Síðan, að lokum, að ríkisstjórnirnar líti til reynslu af Kaupmannahafnarsamkomulaginu við gerð og samþykkt á breiðum alþjóðasamningi til að sporna gegn mengun í norðurskautshöfum og að þær geri úttekt á því hvernig norrænu löndin geti fjármagnað aukinn kostnað við eftirlit og viðbúnað þar.
    Í umfjöllun um velferðarmál var meðal annars samþykkt tillaga velferðarnefndar um mænuskaða sem upphaflega var lögð fram af Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Efni tillögunnar var að fela nefnd sérfróðra vísindamanna og lækna að safna upplýsingum og gera yfirlit yfir norrænar og aðrar rannsóknir og meðferðir á mænuskaða, í formi skýrslu, að gera tillögur um úrbætur á rannsóknum og meðferðum á mænuskaða, að gera rannsókn á þátttöku fólks með mænuskaða á vinnumarkaði og að vinna að norrænni gæðaskrá um mænuskaða.
    Í framsöguræðu formanns velferðarnefndar, Sivjar Friðleifsdóttur, kom fram að þörf væri að gera betur í málefnum mænuskaðaðra og minntist hún brautryðjendastarfs Auðar Guðjónsdóttur, stjórnarformanns Mænuskaðastofnunar Íslands, á þessu sviði sem og mikilvægs starfs Jóhanns Péturs Sveinssonar, fyrrverandi formanns Sjálfsbjargar. Vegna umfjöllunar Norðurlandaráðsþings um mænuskaðatillöguna afhentu Auður Guðjónsdóttir og Siv Friðleifsdóttir forseta Norðurlandaráðs, Bertel Haarder, bænaskjal með undirskriftum 8.500 kvenna til stuðnings tillögunni.
    Stjórnsýsluhindranir og vinna gegn þeim var til umfjöllunar á Norðurlandaráðsþinginu, auk þess sem þær komu við sögu í óundirbúnum fyrirspurnatíma norrænu samstarfsráðherranna og á málþingi í tengslum við þingið. Vinnan gegn stjórnsýsluhindrunum miðar að því að auðvelda frjálsa för einstaklinga og viðskipta milli norrænna landa með því að uppræta kerfisbundnar hindranir í stjórnsýslu. Samstarfsráðherrarnir gáfu þinginu skýrslu um fjölda hindrana sem rutt hefði verið úr vegi síðasta árið og hvaða hindranir unnið væri við að fjarlægja. Hindranir sem rutt hafði verið úr vegi voru þrettán talsins, þar á meðal sú hindrun að nemendum sem sóttu um nám í sænskum háskólum væri raðað í mismunandi hópa eftir því hvort aðgangseinkunnir þeirra væru sænskar eða útlenskar.
    Í óundirbúnum fyrirspurnatíma norrænu samstarfsráðherranna spurði Siv Friðleifsdóttir sænska samstarfsráðherrann, Ewa Björling, í hvaða farvegi mál íslenskra námsmanna í Svíþjóð væru sem hefði verið neitað um félagslegar bætur þar, sem á Íslandi væri talið brot á norrænum samningum. Björling svaraði að frá og með áramótum 2011–2012 giltu sömu reglur fyrir alla á Norðurlöndum þar eð reglugerð ESB á þessu sviði hefði verið aðlöguð EES. Hún vildi hins vegar ekki leggja mat á hvernig sænska ríkið mundi bregðast við gagnvart þeim íslensku námsmönnum sem teldu að á sér hefði veri brotið fyrir þann tíma.
    Upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd hélt einnig málþing um stjórnsýsluhindranir í tengslum við Norðurlandaráðsþingið. Helgi Hjörvar, sem tók þátt í málþinginu fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna, sagði að ef til vill væri tímabært að koma á fót sérstökum norrænum umboðsmanni vegna stjórnsýsluhindrana, sem almennir borgarar gætu leitað til þegar þeir teldu á sér brotið varðandi norræna samninga.
    Auk þess var samþykkt tillaga Norrænu ráðherranefndarinnar um uppfærða samstarfsáætlun norræna lagasamstarfsins. Í samstarfsáætluninni, sem er á ábyrgð norrænnar ráðherranefndar um lagasamstarf, og í sitja ráðherrar dómsmála, er meðal annars tekið fram að lagafrumvörp skuli þegar það á við innihalda greinargerð um sambærilega löggjöf annars staðar á Norðurlöndum og að styðja skuli við og þróa enn frekar óformlegt samstarf embættismanna um að skiptast á reynslu og spara vinnu í tengslum við innleiðingu ESB-/EES-gerða.
    Í umfjöllun um menningarmál var meðal annars á dagskrá skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar um eftirfylgni norrænu yfirlýsingarinnar um tungumálastefnu frá árinu 2006. Christine Edda Antorini, barna- og kennslumálaráðherra Danmerkur, mælti fyrir skýrslunni. Hún minnti meðal annars á að eitt af markmiðunum með norrænni tungumálastefnu væri að allir Norðurlandabúar geti fyrst og fremst átt samskipti hver við annan á skandinavísku tungumáli, þ.e. dönsku, sænsku og norsku. Antorini greindi meðal annars frá því að skandinavísku tungumálin hefðu fengið aukinn sess í kennslu í mörgum Norðurlöndum á síðustu árum. Í Finnlandi hefði til að mynda verið hafin nokkur verkefni til þess að gera sænsku meira spennandi fyrir unga finnskumælandi Finna.
    Árni Þór Sigurðsson sagði mikilvægt að ekki væri gefinn afsláttur við eftirfylgni yfirlýsingarinnar, að þingmenn fylgdust vel með starfi ríkisstjórnanna á þessu sviði og að stöðugt væri leitað nýrra leiða til að auka tungumálaskilning, sérstaklega hjá ungu fólki. Hann fagnaði jafnframt áherslu Norðmanna á tungumál í formennskuáætlun þeirra í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2012.
    Verðlaun Norðurlandaráðs voru afhent í Konunglegu tónlistarakademíunni í tengslum við Norðurlandaráðsþingið og hlaut Gyrðir Elíasson bókmenntaverðlaun ráðsins.
    Finnar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2012. Kimmo Sasi var í lok Norðurlandaráðsþingsins kjörinn forseti Norðurlandaráðs árið 2012 og Silvia Modig varaforseti. Í þakkarræðu sagði Sasi að Norðurlöndin ættu að standa vörð um velferðarkerfi sín, bæta þau með því að læra hvert af öðru og að í sameiningu gætu þau gert velferðarlausnir að útflutningsvöru. Hann sagði einnig að þrátt fyrir góða vinnu nefndar um stjórnsýsluhindranir, upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd og annarrar tvíhliða landamæraþjónustu þá hefðu þingmenn, með þingmenn í Norðurlandaráði fremsta í flokki, það hlutverk að fjalla um stjórnsýsluhindranir og sjá til þess að við undirbúning lagafrumvarpa heima fyrir sé höfð hliðsjón af löggjöf nágrannalandanna. Sasi lagði einnig áherslu á aukna pólitíska þýðingu norðurskautsins og sagði af því tilefni að Norðurlöndin hefðu þýðingarmiklu hlutverki að gegna í Norðurskautsráðinu og ættu að stuðla að því að það yrði sjálfstæð alþjóðastofnun með eigin fjárhag og að samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um norðurskaut, með íbúa þess í fyrirrúmi, væri góður grundvöllur fyrir Norðurlönd að nýta sér tækifæri vegna breytinga á norðurslóðum.
    Þingfundir Norðurlandaráðs 2012 verða í Reykjavík 23. mars og í Helsinki 30. október – 1. nóvember. Árið 2012 er afmælisár í norrænu samstarfi, en þá verða liðin 50 ár frá undirritun Helsinkisáttmálans og 60 ár frá fyrsta þingi Norðurlandaráðs.

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2012.
    Norðurlandaráð hefur rammaáætlun, „Norðurlönd í heiminum – heimurinn á Norðurlöndum“, til lengri tíma. Að auki gerir formennskuland ráðsins áætlun fyrir hvert ár í einu og fagnefndir gera einnig sínar starfsáætlanir fyrir hvert ár. Samkvæmt rammaáætlun ráðsins eru markmið þess að styrkja norrænu velferðina, að hafa áhrif á hnattvæðinguna, að auka hreyfanleika á Norðurlöndum, að bæta hafsumhverfi, að móta viðfangsefni Norðlægu víddarinnar og að stuðla að skilvirkara norrænu tungumálasamstarfi.
    Finnland fer með formennsku í Norðurlandaráði árið 2012. Formennskuáætlun Finna hefur þrjár megináherslur: stjórnsýsluhindranir, velferð og norðurslóðir.
    Finnar vilja vinna gegn stjórnsýsluhindrunum á fjóra vegu. Í fyrsta lagi að norrænir þingmenn og þá fulltrúar í Norðurlandaráði framar öðrum styðji og fylgist með að ráðuneyti og undirbúningur lagafrumvarpa hafi til hliðsjónar lög nágrannalanda á sama sviði. Í öðru lagi að Norðurlandaráði sé betur gerð grein fyrir hvaða aðgerða lönd hafa gripið til. Í þriðja lagi að stjórnmálamenn gefi embættismönnum skýr skilaboð sem leiði til nýrra starfshátta. Í fjórða lagi að við innleiðingu ESB-gerða verði athugað hvort þær leiða til nýrra stjórnsýsluhindrana.
    Helstu áskoranir velferðarkerfisins eru að mati Finna þrjár: samræming krafna um hagkvæmni og þjónustu, aukinn kostnaður við ellilífeyrisgreiðslur og meiri lífslíkur borgara.
    Finnar telja að Norðurlöndin hafi sérstöku hlutverki að gegna í þeirri þróun að norðurslóðir verða æ þýðingarmeira svæði pólitískt. Grundvöllur samstarfs Norðurlanda í málaflokknum sé samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Finnar benda á að meiri efnahagsleg virkni á svæðinu geri nýjar kröfur um góðar samgöngur og að hægt sé að ná samlegðaráhrifum milli samgöngusamstarfs Norrænu víddarinnar, Barentsráðstefnunnar, Norðurskautsráðsins, Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Formennskuáætlun Finna miðar að því að styrkja stöðu Norðurlandanna innan þessa samstarfssviðs á norðurslóðum og gert er ráð fyrir að halda ráðstefnu um samgöngumál á Barentssvæðinu á árinu.

Alþingi, 29. febrúar 2012.



Helgi Hjörvar,


formaður.


Álfheiður Ingadóttir,


varaformaður.


Lúðvík Geirsson.



Árni Þór Sigurðsson.


Bjarni Benediktsson.


Illugi Gunnarsson.



Siv Friðleifsdóttir.






Fylgiskjal.


Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2011.


Tilmæli samþykkt af forsætisnefnd janúar – október 2011.
          Tilmæli 1/2011. Lækkun gjalda fyrir starfsfólk Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins (A 1522/presidiet).
          Tilmæli 2/2011. Fækkun skammdrægra vopna og þróun í átt að kjarnorkuvopnalausu svæði á norðurskautssvæðinu (A 1508/presidiet).
          Tilmæli 3/2011. Norrænt þing til að efla tengslanet um frið og lausn ágreiningsmála (A 1500/presidiet).
          Tilmæli 4/2011. Norrænt samstarf um að efla Ríó +20 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (A 1528/miljø).

Tilmæli samþykkt á 63. þingi Norðurlandaráðs.
          Tilmæli 5/2011. Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2012 (B 272/ presidiet).
          Tilmæli 6/2011. Endurskoðuð samstarfsáætlun á löggjafarsviði (B 269/medborger).
          Tilmæli 7/2011. Ný samstarfsáætlun um málefni Norðurskautsins (B 273/presidiet).
          Tilmæli 8/2011. Áætlun um samstarf við nágranna Norðurlanda í vestri (Kanada) (B 270/presidiet).
          Tilmæli 9/2011. Hvernig má sporna við gettómyndun í íbúðarhverfum á Norðurlöndum? (A 1543/velferd).
          Tilmæli 10/2011. Norrænar aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks (A 1510/næring).
          Tilmæli 11/2011. Þróun mælistiku fyrir verg lífsgæði þjóða (A 1521/presidiet).
          Tilmæli 12/2011. One Health – fjölónæmi hjá mönnum og dýrum (A 1523/medborger).
          Tilmæli 13/2011. One Health í formennskuáætlun Dana í ESB 2012 (A 1523/medborger).
          Tilmæli 14/2011. Norrænt samstarf um mænuskaða (RES) (A 1524/velferd).
          Tilmæli 15/2011. Endurskoðun áætlunarinnar „Ný norræn matargerðarlist – matur fyrir marga“ (A 1529/velfærd).
          Tilmæli 16/2011. Þingmannatillaga um sóun á mat (A 1530/velferd).
          Tilmæli 17/2011. Endurskipulagning NIKK og stofnuninni breytt í samstarfsvettvang (B 275/medborger).
          Tilmæli 18/2011. Aukið siglingaöryggi og umhverfisvernd á heimskautasvæðum (A 1539/miljø).
          Tilmæli 19/2011. Norræn stefna í loftslagsstarfi (A 1536/miljø).
          Tilmæli 20/2011. Norræn stefna í hnattrænu loftslagsstarfi (A 1537/miljø).
          Tilmæli 21/2011. Norrænt átak til að leysa deilur um makrílveiðar (A 1540/miljø).
          Tilmæli 22/2011. Norrænt flutningskerfi fyrir raforku og verðsveiflur (A 1541/næring).
          Tilmæli 23/2011. Orkunýtni. endurnýjanleg orka og orkurannsóknir (A 1542/næring).
          Tilmæli 24/2011. Kulturkontakt Nord verði lagt saman við Norrænu stofnunina í Finnlandi (B 274/kultur).
          Tilmæli 25/2011. Næsta þrep Nordplus-áætlunarinnar (B 271/kultur).
          Tilmæli 26/2011. Hreyfanleiki á Norðurlöndum (A 1527/kultur).

Ákvarðanir um innri málefni.
          Ákvörðun1/2011. Nýir starfshættir í Norðurlandaráði (A 1538/presidiet).
          Ákvörðun 2/2011. Áætlun um samstarf Norðurlandaráðs 2012–2015 við Dúmuna og Sambandsþingið í Rússlandi og við héraðsþing í Norðvestur-Rússlandi (A 1533/presidiet).
          Ákvörðun 3/2011. ESB-áætlun Norðurlandaráðs (A 1535/presidiet).