Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 147. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 953  —  147. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Með frumvarpinu er lögð til heildstæð rammalöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn sem hefur það að markmiði að tryggja betur gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra. Frumvarpinu er því ekki eingöngu ætlað að kveða á um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna heldur einnig að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga. 2. minni hluti telur hér um mjög mikilvægt markmið að ræða.
    Í 13. gr. frumvarpsins er kveðið sérstaklega á um að læknar beri ábyrgð á læknisfræðilegri meðferð og greiningu sjúklinga sem til þeirra leita en með breytingartillögu 1. minni hluta er lagt til að sérákvæði um lækna verði fellt brott og eftir standi almennt ákvæði um ábyrgð allra heilbrigðisstarfsmanna á greiningu og meðferð sjúklinga. 2. minni hluti leggst alfarið gegn þeirri breytingu og bendir á að rík ástæða var fyrir því að bæta inn sérákvæði um ábyrgð lækna en slíkt ákvæði var í því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi (þingskjal 967, 575. mál 139. löggjafarþings). Ákvæði um ábyrgð lækna er ætlað tryggja öryggi sjúklinga. Læknisfræðileg greining og meðferð er oftast undanfari greiningar og meðferðar annarra heilbrigðisstarfsmanna og þar af leiðandi fylgir henni mikil ábyrgð enda er mest hætta á að eitthvað fari úrskeiðis í því ferli. 2. minni hluti telur breytingartillögu 1. minni hluta til þess fallna að veikja stöðu sjúklinga og skapa óvissu um hvaða heilbrigðisstarfsmaður beri ábyrgð á greiningu þeirra og meðferð.
    Mikilvægt er að skýrt sé kveðið á um ábyrgð lækna á læknisfræðilegri greiningu og meðferð. 2. minni hluti telur að verði sérákvæði þar að lútandi fellt brott úr frumvarpinu verði dregið úr lagalegri og faglegri ábyrgð lækna og að óvissa skapist um hvar ábyrgðin sé. Réttarstaða og öryggi sjúklinga veikist og markmið frumvarpsins um að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga nær þá ekki fram að ganga. 2. minni hluti telur því rétt að sérákvæði um lækna standi áfram í frumvarpinu en leggur til þá breytingu á orðalagi að læknisfræðileg greining komi á undan orðinu meðferð þar sem um eðlilegri orðaröð er að ræða enda er greining undanfari meðferðar. Þar fyrir utan tekur 2. minni hluti að mestu leyti undir þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti meiri hlutans.
    Annar minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    1. málsl. 3. mgr. 13. gr. orðist svo: Læknir ber ábyrgð á læknisfræðilegri greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita eða hann hefur umsjón með.

Alþingi, 8. mars 2012.Unnur Brá Konráðsdóttir,


frsm.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.