Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 954  —  479. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um ræktun erfðabreyttra plantna.


     1.      Hvaða ráðstafanir voru gerðar til að takmarka hættu á útbreiðslu erfðabreyttra plantna ef svo færi að gróðrarstöð Barra á Fljótsdalshéraði yrði fyrir skemmdum, t.d. vegna veðurs? Hvaða skilyrði þess efnis voru í starfsleyfi stöðvarinnar?
    Samkvæmt áhættumati Umhverfisstofnunar fellur ræktun á erfðabreyttu byggi í lægsta áhættuflokk fyrir ræktun erfðabreyttra plantna. Í því felst að hverfandi líkur eru taldar á því að ræktun þess í gróðurhúsi hafi áhrif á náttúru eða heilsu manna. Áratugareynsla af slíkri ræktun, án þekktra neikvæðra áhrifa, styður það mat Umhverfisstofnunar. Sú matsniðurstaða er ein af forsendum fyrir því að Umhverfisstofnun gaf leyfi fyrir ræktun á erfðabreyttu byggi í gróðrarstöð Barra hf., eftir að sérstakrar ráðstafanir höfðu verið gerðar til að draga úr vindálagi og til að styrkja það.
    Gróðurhúsið er stálgrindarhús á steinsteypusökkli með plastplötum sem eru festar með álborðum. Við veðurskaða hafa plötur losnað, en byggingin hefur að öðru leyti verið stöðug. Því gerði Umhverfisstofnun þá kröfu að áður en leyfi væri veitt væri vindþol byggingarinnar aukið þannig að litlar líkur væru á að hún yrði aftur fyrir vindskaða (sjá neðar varðandi ákvæði starfsleyfis). Niðurstaðan var sú að lokið var að gera við húsið með aukastyrkingum fyrir plastplötur og að setja upp vindbrjót gegn aðalvindátt sem gæti valdið skaða. Eigandi gróðurhússins stóð fyrir þeirri vinnu í samráði við verkfræðistofuna Verkís. Eftir viðgerð og styrkingar var talið að gróðurhúsið þyldi 43 m/s vindálag, en samkvæmt íslenskum þjóðarviðauka við evrópska þolhönnunarstaðla er 36 m/s vindþol viðmiðunargildi. Vindbrjóturinn hefur það hlutverk að draga úr vindstyrk, sem gæti farið yfir 43 m/s vindmörkin ef hans nyti ekki við, en samkvæmt mælingum hafði mestur vindhraði mælst 45 m/s yfir gróðurhúsinu við veðurskaða á því um hávetur.
    Í 2.5 gr. í útgefnu starfsleyfi segir: „Rekstraraðili skal sjá til þess að gróðurhúsið sé ávallt heilt. Rekstraraðili þarf að leggja fram áætlun við veðurskaða á gróðurhúsinu, þar sem farið er yfir fyrstu viðbrögð, viðgerðir og viðgerðarefni sem þarf að vera til staðar. … Ofangreindar ráðstafanir þarf að uppfylla áður en ræktun erfðabreytts byggs getur hafist, og eiga síðan að vera hluti af sérstakri áætlun um takmörkun á útbreiðslu erfðabreyttra lífvera, sem skal endurskoða reglulega sbr. gr. 2.4.“
    Samsvarandi texti er í áætlun um takmörkun á útbreiðslu erfðabreyttra lífvera, sem var skilað inn til Umhverfisstofnunar áður en starfsleyfið var gefið út:
    „9. Gróðurhúsið hefur fyrir nokkru lent í skaða sökum vindstrengs úr ákveðinni átt án þess að plöntur í húsinu hafi færst úr stað. Skaðinn var tilkominn vegna þess að frágangi á nokkrum plötum á ytra byrði gróðurhússins var ábótavant frá smíði hússins. Gróðurhúsið er fullviðgert með nýjum plötum og styrkingu þegar þessi áætlun er lögð fram. Enn fremur hefur verið útbúinn viðamikill vindbrjótur í nágrenni við gróðurhúsið til að draga úr vindstyrk úr stormvindátt. UST hefur þegar verið upplýst um þessar fyrirbyggjandi aðgerðir.
    10. Ef, þrátt fyrir viðgerðir, styrkingar og vindbrjót, að vindskaði myndi rjúfa þekju gróðurhússins, væri götum lokað undireins með, aukagróðurhúsaplastplötum sem eru til staðar og ef það dugir ekki til er hægt að loka með krossviðarplötum frá timburlager Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum sem hægt er að nálgast án fyrirvara. Fylgst er sérstaklega með ástandi gróðurhússins þegar mikil veður ganga yfir meðan vindbrjóturinn er að sanna sig. Ekki er ástæða til að ætla að plöntur færðust úr stað inn í húsinu við slíkan skaða, hvað þá að þær bærust út í umhverfið, mesta hættan væri að þær myndu drepast vegna hitalosts.“
    Í 4.4 gr. í starfsleyfi er gerð krafa um „áhættumat og viðbragðsáætlun“ og í 4.5 gr. er „tilkynning vegna mengunaróhappa“. Í samræmi við það liggur fyrir áhættumat í leyfisumsókn og í ofangreindri áætlun um takmörkun á dreifingu erfðabreyttra lífvera. Einnig liggur fyrir viðbragðsáætlun, þar sem gerð er grein fyrir fyrstu viðbrögðum við slysi, og tengiliðaupplýsingar varðandi tilkynningu vegna óhappa.

     2.      Hver hafa viðbrögð starfsmanna Barra og Umhverfisstofnunar verið til að forðast umhverfismengun af ræktun erfðabreytts byggs í kjölfar fokskemmda sem urðu á gróðurhúsi Barra í ofsaveðri aðfaranótt 10. janúar sl.?
    
Í samræmi við viðbragðsáætlun tilkynnti starfsmaður Barra Umhverfisstofnun um veðurskaða á gróðurhúsinu að morgni 10. janúar sl. Aðstæðum var lýst (11 plötur höfðu losnað, 9 á einum stað og 2 á öðrum) og tilkynnt að viðgerðarstarf væri í gangi með hjálp björgunarsveita. Í ræktun hafi verið óþroskað bygg í bökkum sem ekki virtist hafa fokið út í umhverfið. Samkvæmt upplýsingum starfsmanns var vindskaðinn á gróðurhúsinu þess eðlis að ekki var til staðar gegnumtrekkur sem hefði hugsanlega getað tekið með sér plöntur.
    Starfsmaður Umhverfisstofnunar fór á vettvang daginn eftir, ásamt starfsmanni heilbrigðisnefndar Austurlands til að fara yfir stöðuna og staðreyna fyrirliggjandi upplýsingar. Samkvæmt skýrslu þeirra var búið að „loka gatinu á norðurhlið hússins til bráðabirgða með krossvið og plasti, þetta gat var á þeim hluta hússins sem plöntubakkar voru á gólfinu. … Plöntubakkar með byggi virtust ekki hafa færst neitt úr stað inni í gróðurhúsinu – en hitadúkur í loftinu hafði lamið á stráunum á stórum kafla og brotið þau niður. Ekki virtist um að ræða fullþroskað bygg sem byrjað væri að mynda ax, heldur fremur lágvaxin græn strá. Ekki sáust ummerki um að strá af byggi hafi fokið út úr gróðurhúsinu þó erfitt sé að fullyrða um að slíkt hafi ekki gerst.“
    17. janúar sl. tilkynnti starfsmaður Barra að lokið væri fullnaðarviðgerð á gróðurhúsinu eftir foktjónið, með sama efni og gróðurhúsið er byggt úr. Unnið er að tillögu um ráðstafanir til að styrkja gróðurhúsið enn frekar, t.d. með boltuðum þverböndum sem mundu útiloka að plastplötur fykju úr stað, ef álfestingar gæfu sig. Einnig hefur Barri í bígerð að bæta við vindbrjóta sem næðu til þeirrar vindáttar (vestan/suðvestan) sem olli umræddum skaða.
    Þegar tillögur um ráðstafanir til að sporna gegn vindskemmdum á gróðurhúsinu hafa verið lagðar fyrir Umhverfisstofnun mun stofnunin fara yfir þær og meta hvort tilefni er til frekari ráðstafana eða hvort ráðstafanir teljast fullnægjandi.
    Samkvæmt 2.4 gr. starfsleyfis er gerð krafa um áætlun um takmörkun á útbreiðslu erfðabreyttra lífvera fyrir gróðrarstöðina Barra. Í áætluninni er tilgreint að rekstraraðili skuli hafa virkt eftirlit „með næsta nágrenni gróðurhússins yfir vaxtartímann til að ganga úr skugga um að erfðabreytt bygg sé ekki að finna utan gróðurhússins.“ Slíkt eftirlit ber að skrá í vinnudagbók fyrir starfsemina, skv. 3.1 gr. starfsleyfis. Samkvæmt eftirlitsáætlun Umhverfisstofnunar fer starfsmaður stofnunarinnar í eftirlit í gróðrarstöðina Barra í ágúst nk., í samræmi við 4.6 gr. starfsleyfis um eftirlit. Þá verður meðal annars farið yfir nánasta umhverfi gróðrarstöðvarinnar Barra og athugað hvort bygg vaxi þar, en fyrr eru ekki aðstæður fyrir slíkt mat.

     3.      Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að takmarka hættu á útbreiðslu erfðabreyttra plantna ef svo færi að gróðrarstöðvar sem hafa leyfi til ræktunar þeirra yrðu fyrir skemmdum? Hvaða skilyrði þess efnis eru í starfsleyfi viðkomandi stöðva og hafa þau verið endurskoðuð í ljósi skemmdanna sem urðu á gróðrarstöð Barra?
    
Nú eru í tengslum við öll útgefin starfsleyfi fyrir gróðrarstöðvar/gróðurhús gerðar tvenns konar áætlanir, viðbragðsáætlun og áætlun um takmörkun á útbreiðslu erfðabreyttra lífvera. Í þessum áætlunum er farið yfir viðbrögð við slysum, þar með talið skemmdarverkum. Þrátt fyrir að fyrrgreindar áætlanir séu ekki tilteknar í leyfi Grænu smiðjunnar, sem er elsta leyfið af þessu tagi og var gefið út áður en núverandi verklag var tekið upp (leyfið vísar í staðinn á viðeigandi reglugerð), eru þær til staðar og endurskoðaðar eftir þörfum. Leyfi Grænu smiðjunnar rennur út 2017. Umhverfisstofnun hefur til athugunar að endurskoða leyfið og gefa út nýtt í samræmi við nýrri leyfi fyrir samsvarandi starfsemi.
    Við mat á leyfisumsóknum fyrir starfsemi í gróðurhúsum hefur Umhverfisstofnun meðal annars litið til þess hvort viðkomandi gróðurhús hafi lent í alvarlegum vindskaða. Gróðrarstöðin Barri hafði áður orðið fyrir slíkum skemmdum og var því gerð krafa um úrbætur áður en leyfi var veitt, líkt og fram kemur hér að framan. Umhverfisstofnun stefnir að því á þessu ári að hefja að yfirfara veitt leyfi fyrir starfsemi í gróðurhúsum með það fyrir augum fara fram á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn mögulegum vindskaða. Í því sambandi verður farið yfir veðurskaðasögu gróðurhúsanna, skjólvarnir, vindþol verður metið og haft samráð við Veðurstofu Íslands við skoðun veðurgagna. Umhverfisstofnun mun fara fram á endurskoðun leyfis ef sú athugun gefur tilefni til þess, í samræmi við 5. gr. laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.
    Í 2.5 gr. í starfsleyfi gróðrarstöðvarinnar Barra hf. var fyrst bætt við eftirfarandi skilyrði: „Rekstraraðili skal sjá til þess að gróðurhúsið sé ávallt heilt. Rekstraraðili þarf að leggja fram áætlun við veðurskaða á gróðurhúsinu, þar sem farið er yfir fyrstu viðbrögð, viðgerðir og viðgerðarefni sem þarf að vera til staðar. … Ofangreindar ráðstafanir þarf að uppfylla áður en ræktun erfðabreytts byggs getur hafist, og eiga síðan að vera hluti af sérstakri áætlun um takmörkun á útbreiðslu erfðabreyttra lífvera, sem skal endurskoða reglulega sbr. gr. 2.4.“ Sams konar ákvæði er einnig í nýju leyfi sem var veitt fyrir ræktun í gróðurhúsi að Reykjum, Ölfusi.

     4.      Telur ráðherra að lög og reglugerðir tryggi með nægilegum hætti að húsakynni, svo sem gróðurhús, standist kröfur um meðferð erfðabreyttra plantna?
    
Gróðurhús eru háð byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. Eru þannig gerðar kröfur um almenna byggingarstaðla með hliðsjón af íslenskum aðstæðum. Til viðbótar eru gerðar kröfur um afmörkunarráðstafanir, viðbragðsáætlun og áætlun um takmörkun á útbreiðslu erfðabreyttra lífvera. Við meðferð umsókna um notkun erfðabreyttra lífvera er áhætta ávallt metin með tilliti til þess um hvers konar lífverur er að ræða og þess umhverfis sem notkun lífverunnar mun fara fram í. Telja má að þessar ráðstafanir tryggi í aðalatriðum ábyrga meðferð erfðabreyttra plantna.
    Það hversu miklar kröfur þarf að gera til gróðurhúsa er byggt á því hvaða áhættuflokk erfðabreytta plantna fellur í, en fyrir það eru útfærðir þrír mismunandi afmörkunarflokkar, samkvæmt reglugerð nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera (sjá viðauka 2). Fyrir lægsta afmörkunarflokkinn, flokk 1, skal samkvæmt reglugerðinni tryggja að sem minnst af lífverum berist út. Fyrir hærri afmörkunarflokkana skulu „engar lífverur berast út“. Við mögulega leyfisveitingu þarf Umhverfisstofnun að skoða hvort viðkomandi gróðurhús geti uppfyllt skilyrði þess afmörkunarflokks sem erfðabreytta plantan fellur í. Til þessa hefur eingöngu verið sótt um og veitt leyfi fyrir ræktun erfðabreyttra plantna af lægsta áhættu-/afmörkunarflokki í gróðurhúsum á Íslandi og hafa almennir byggingarstaðlar nægt til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Ef sótt væri um leyfi fyrir hærri afmörkunarflokka mundi Umhverfisstofnun gera þá kröfu sem reglugerðin leggur til, þ.e. að engar lífverur berist út, sem gæti hugsanlega verið umfram þá byggingarstaðla sem þarf að uppfylla fyrir byggingarleyfi.

     5.      Telji ráðherra að bæta verði öryggi í ræktun og meðferð erfðabreyttra plantna, mun ráðherra þá beita sér fyrir breytingum á löggjöf og/eða reglugerðum og hvaða breytingar væru þá helstar?
    
Kröfur um öryggi í ræktun og meðferð erfðabreyttra lífvera voru auknar verulega með lögum nr. 83/2010, sem breyttu lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Með þessari lagabreytingu voru leidd í lög ákvæði um ítarlegri málsmeðferð en verið hafði við leyfisveitingar vegna afmarkaðrar notkunar, sleppingar eða dreifingar, þar með talið ræktunar og markaðssetningar erfðabreyttra lífvera í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins. Þessi ákvæði voru svo útfærð nánar í reglugerð nr. 728/2011 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Samkvæmt þeim þarf með umsókn um leyfi til ræktunar meðal annars að leggja fram ítarlegt mat á umhverfisáhættu ræktunarinnar og upplýsingar um fyrirhugaðar öryggisráðstafanir.
    Þessu til viðbótar er nú í umhverfisráðuneytinu unnið að fullgildingu Kartagena bókunarinnar um líföryggi við samninginn um líffræðilega fjölbreytni. Ákvæði bókunarinnar hafa að hluta til verið innleidd hér á landi með fyrrnefndri lagabreytingu. Til að ljúka innleiðingu þarf að bæta við lög um erfðabreyttar lífverur ákvæðum um inn- og útflutning erfðabreyttra lífvera. Frumvarp sem inniheldur slík ákvæði er nú í smíðum í ráðuneytinu. Það mun meðal annars kveða á um skyldu þess er flytur erfðabreyttar lífverur á milli landa til að fá samþykki móttökuríkis áður en flutningurinn á sér stað.

     6.      Hefur orðið misbrestur á að farið sé að lögum, reglugerðum og tilmælum við ræktun erfðabreyttra plantna hér á landi?
    
Umhverfisstofnun er ekki kunnugt um að erfðabreyttar plöntur hafi verið ræktaðar í leyfisleysi á Íslandi til þessa. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með ræktun erfðabreyttra plantna á Íslandi og er farið reglulega í eftirlit, samkvæmt árvissri eftirlitsáætlun. Ekki hefur komið til eftirfylgnismáls vegna misbrests á lögum, reglugerðum og tilmælum við ræktun erfðabreyttra plantna á Íslandi til þessa.

     7.      Mun ráðherra beita sér fyrir skýrum alþjóðlegum reglum sem takmarki leyfi til ræktunar erfðabreyttra plantna við ákveðna fjarlægð frá lífrænt vottaðri starfsemi?
    
Ísland hefur vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu tekið upp reglur ESB er varða erfðabreyttar lífverur. Íslensk lög ganga þó lengra þar sem samkvæmt þeim er hægt að banna eða takmarka ræktun erfðabreyttra lífvera af siðferðilegum ástæðum en ekki eingöngu vegna áhrifa á heilbrigði eða umhverfi eins og ESB-reglur heimila. Framkvæmdastjórn ESB lagði til árið 2010 að einstökum aðildarríkjum ESB yrði heimilað að takmarka eða banna slíka ræktun innan eigin landamæra, ekki eingöngu vegna áhrifa á heilsu og umhverfi heldur einnig af félagsfræðilegum og efnahagslegum ástæðum. Málið hefur verið afar umdeilt innan Evrópusambandsins og mörg ríki gera kröfu um að geta bannað ræktun erfðabreyttra lífvera, að hluta eða öllu leyti, á sínu umráðasvæði. Málið hefur verði mjög umdeilt, sérstaklega innan ráðherraráðs ESB (umhverfisráðherrarnir) og er óútkljáð. Danmörk, sem nú ferð með formennsku innan sambandsins, stefnir að því að leggja fram tillögu til lausnar og verður hún væntanlega lögð fyrir næsta fund ráðherraráðsins (umhverfisráðherrar). Umhverfisráðherra fylgist náið með þróun þessara mála innan ESB þar sem niðurstaðan mun hafa áhrif á reglur á EES-svæðinu og þar með á íslenska löggjöf. Með hliðsjón af framangreindu sér ráðherra ekki ástæðu til að taka málið sérstaklega upp á alþjóðlegum vettvangi að sinni.

     8.      Mun ráðherra framlengja heimild til útiræktunar á erfðabreyttu byggi sem farið hefur fram í Gunnarsholti undanfarin ár?
    
Það er ekki í höndum ráðherra að veita slíka heimild heldur Umhverfisstofnunar. Núgildandi leyfi rennur út 2013. Ef sótt verður aftur um leyfi verður málsmeðferð þess í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

     9.      Mun ráðherra beita sér fyrir bættu vinnulagi hvað varðar kynningu á umsóknum um starfsleyfi um fyrir ræktun erfðabreyttra plantna svo tryggt sé að íbúar, fyrirtæki og sveitarstjórnir komi að umsögnum um leyfisveitingu?

    Ekki er mælt fyrir um almenna kynningu umsókna um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera. Kynningarkröfur umsókna um meðhöndlun erfðabreyttra lífvera voru til meðferðar á Alþingi fyrir skömmu án þess að kveðið væri í kjölfarið á um slíka kynningu. Hafa þarf vakandi auga með starfsemi á mörkum sveitarfélaga og ástæða kann að vera til þess að leita einnig umsagnar nágrannasveitarfélags í slíkum tilvikum. Afmörkuð notkun erfðabreyttra lífvera annarra en örvera er ekki byggð á evrópskum reglum þar sem áhersla hefur verið á kynningu á umsóknum um dreifingu erfðabreyttra lífvera. Afmörkuð notkun er samkvæmt eðli sínu meðhöndlun í lokuðum kerfum og getur því verið eðlilegt að umfangsminni málsmeðferð sé viðhöfð.
    Varðandi vinnulag má benda á að við málsmeðferð umsóknar ORF Líftækni hf. fyrir starfsemi með erfðabreytt bygg í gróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi var farið eftir kynningarkröfum samkvæmt reglugerð nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttar lífverur, annarra en örvera. Umfram þær kröfur var leitað umsagnar heilbrigðisnefndar Suðurlands og Sveitarfélagsins Ölfus.