Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1006  —  552. mál.
Svarsjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar
um starfsmannastefnu ráðuneytis og undirstofnana
varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.

     1.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Hvorki ráðuneytið né undirstofnanir þess hafa markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hins vegar segir í svari Fiskistofu, að í jafnréttisstefnu stofnunarinnar komi skýrt fram að þess skuli ávallt gætt að umsækjandi, sem metinn er hæfastur til að gegna starfi, sé ráðinn án tillits til kynferðis, fötlunar, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, stjórnmálaskoðana, kynhneigðar eða annarra persónubundinna atriða.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess gripið til viðeigandi ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa og þá hvaða?
    Hvorki ráðuneytið né undirstofnanir þess hafa gripið til sérstakra ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa.

     3.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks?
    Hvorki forstöðumönnum ráðuneytisins né forstöðumönnum undirstofnana hefur verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.

     4.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun?
    Hvorki forstöðumönnum ráðuneytisins né forstöðumönnum undirstofnana þess hafa verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun.

     5.      Hversu margir fatlaðir starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess og hversu hátt hlutfall er það af starfsmannafjölda þeirra?
    Enginn fatlaður starfsmaður starfar hjá ráðuneytinu, en hjá Fiskistofu starfar einn fatlaður starfsmaður og er það 1,33% af starfsmannafjölda stofnunarinnar. Hjá Hafrannsóknastofnuninni starfa tveir fatlaðir starfsmenn og eru þeir 1,25% af starfsmannafjölda þeirrar stofnunar.
    Undirstofnanir ráðuneytisins sem leitað var til eru: Fiskistofa, Hafrannsóknastofnunin, Veiðimálastofnun og Matvælastofnun (MAST).