Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1012  —  549. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um starfsmannastefnu ráðuneytis
og undirstofnana varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.


    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     1.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess gripið til viðeigandi ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa og þá hvaða?
     3.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks?
     4.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun?
     5.      Hversu margir fatlaðir starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess og hversu hátt hlutfall er það af starfsmannafjölda þeirra?

    Við undirbúning svara við fyrirspurninni var aflað upplýsinga hjá undirstofnunum ráðuneytisins um hvernig þessum málum væri háttað hjá þeim. Þau svör sem fylgja hér á eftir vísa til ráðuneytisins og stofnana (A- og B-hluta stofnanir) sem eru Byggðastofnun, Ferðamálastofa, ÍSOR, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Orkustofnun.
    1. Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki markað sérstaka stefnu um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks. Ráðuneytið fylgir starfsmannastefnu Stjórnarráðsins þar sem tiltekið er að gætt skuli jafnræðis í ráðningarferlinu í samræmi við gildandi lög og reglur.
    2. Ekki hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum vegna þessa. Í svörum stofnana kom fram að við ráðningar er fylgt móttökuáætlun og í þeim tilvikum þar sem fatlaðir eru í starfi hefur sú aðstoð verið útfærð á þann veg að gætt sé að því að þjálfun og liðveisla taki mið af þörfum þess starfsmanns sem er ráðinn til starfa.
    3. Engin kynning hefur farið fram á vegum ráðuneytisins á þeim ákvæðum sem vísað er til.
    4. Engin kynning hefur farið fram á vegum ráðuneytisins á þeim breyttu áherslum sem vísað er til.
    5. Hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess starfa þrír fatlaðir einstaklingar, eða um 1,7%.