Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 633. máls.
Prentað upp.

Þingskjal 1013  —  633. mál.
Nýtt fylgiskjal I.
Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995,
með síðari breytingum (hesthús).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    Á eftir orðunum „tengd eru landbúnaði“ í a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: hesthús.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Sveitarstjórn er heimilt að lækka álagningu fasteignaskatts á árinu 2012 á hesthús þannig að álagningarhlutfall þeirra eigna sé það sama og annarra fasteigna skv. a-lið 3. mgr. 3. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu.
    Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er kveðið á um að stofn til álagningar fasteignaskatts skuli vera fasteignamat eignanna og í 3. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að álagningarprósenta fasteignaskatts sé mismunandi eftir flokkun húsnæðis. Er um þrjá flokka að ræða, þ.e.:
     a.      Allt að 0,5% af fasteignamati:
                  Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.
     b.      1,32% af fasteignamati ásamt lóðarréttindum:
                  Sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn.
     c.      Allt að 1,32% af fasteignamati, ásamt lóðarréttindum:
                  Allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.
    Eins og sést af framangreindri upptalningu eru hesthús ekki tilgreind sérstaklega í ákvæðinu og hefur framkvæmd sveitarfélaga varðandi skatthlutfall á slíkum eignum ekki verið einhlít.
    Umræða um í hvaða flokk húsnæðis skv. 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga hesthús skuli falla er ekki ný af nálinni. Landssamband hestamanna hefur um nokkurt skeið talið þörf á að skýrt sé kveðið á um þetta atriði í lögum. Landssambandið upplýsti samgönguráðuneytið um samskipti sín við Samband íslenskra sveitarfélaga um þessi atriði á árunum 2008 og 2009 og sjónarmið landssambandsins þar að lútandi. Var það mat landssambandsins að lög um tekjustofna sveitarfélag væru óskýr um það hvort hesthús utan bújarða skyldu við álagningu fasteignaskatts vera flokkuð undir a- eða c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Erindi landssambandsins var sent til umfjöllunar í tekjustofnanefnd sem starfaði á árinu 2010. Í kjölfarið lagði nefndin til að við heildarendurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga yrði hugað að þessum atriðum og m.a. leitast við að eyða óvissu um það í hvaða flokk skv. 3. mgr. 3. gr. laganna fasteignir féllu. Nefndin tók í sjálfu sér ekki afstöðu til þess í hvaða flokk skv. 3. mgr. 3. gr. laganna hesthús utan bújarða ættu að falla en taldi engu síður að slíkt þyrfti að vera skýrt í lögum.
    Hinn 12. janúar 2011 kvað yfirfasteignamatsnefnd upp úrskurð í máli nr. 23/2010 þar sem kæruefnið var hvort hesthús á deiliskipulögðu hesthúsasvæði í þéttbýli skyldu við álagningu fasteignaskatts vera flokkuð undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, eða c-lið sama ákvæðis. Niðurstaðan var sú að fella slíkar byggingar undir fyrrgreindan c-lið.
    Í kjölfar úrskurðarins ákvað Reykjavíkurborg að breyta framkvæmd sinni á þann veg að ekki var lengur miðað við að um álagningu fasteignaskatts á hesthús færi skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, eins áður hafði verið, heldur c-lið sama ákvæðis. Breytingin vakti hörð viðbrögð eigenda hesthúsa í Reykjavík, enda um umtalsverða skattahækkun að ræða fyrir eigendur eignanna. Af þessu tilefni ritaði Reykjavíkurborg Alþingi bréf þar sem gerð var grein fyrir þeirri skoðun borgarinnar að eðlilegra væri að hesthús væru með skýrum hætti flokkuð skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga eins og verklag borgarinnar hafði verið um árabil.
    Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að jafnræðis sé gætt, innan sama sveitarfélags, við álagningu fasteignaskatts á hesthús samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga án tillits til staðsetningar eignanna, auk þess sem tryggt sé að stofn til álagningar fasteignaskatts á hesthús sé sá sami á landinu öllu.
    Því er lagt til í frumvarpinu að álagningarhlutfall fasteignaskatts á hesthús, án tillits til staðsetningar þeirra, sé það sama og þeirra fasteigna sem taldar eru upp í a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.
    Bráðabirgðaákvæði frumvarpsins kveður á um heimild til þeirra sveitarfélaga sem lagt hafa á fasteignaskatt á árinu 2012 að lækka álagningu hvað hesthús varðar þannig að álagningarhlutfall þeirra eigna verði það sama og annarra fasteigna skv. a-lið 3. mgr. 3. gr.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það leiða til tekjulækkunar fyrir sveitarfélög sé miðað við að öll sveitarfélög sem á yfirstandandi ári hafa lagt fasteignaskatt á hesthús utan bújarða skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga miði álagningarhlutfall sitt nú við a-lið sama ákvæðis. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga gæti þessi tekjulækkun numið um 55 millj. kr. og munar þar mestu um áhrif breytingarinnar hjá Reykjavíkurborg.


Fylgiskjal I.


Innanríkisráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Kostnaðarmatið var lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við niðurstöðuna.
    Forsendur útreiknings eru þær að miðað er við að öll sveitarfélög sem á yfirstandandi ári hafa lagt fasteignaskatt á hesthús utan bújarða skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga miði álagningarhlutfall sitt nú við a-lið sama ákvæðis, þ.e. álagningarhlutfallið lækkar úr 1,32% í 0,5% af fasteignamati viðkomandi eigna.
    Miðað við álagningarstofn og þessar forsendur er áætlað að fasteignaskattur 2012, vegna hesthúsa utan bújarða, lækki úr 91,5 millj. kr. í 36,4 millj. kr.
    Breytingin hefur engin áhrif á útgjöld sveitarfélaga.
    Engar sérstakar athugasemdir hafa komið fram frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um útreikningana sem unnir voru á grundvelli gagna frá Þjóðskrá Íslands.
     Niðurstaða: Mat innanríkisráðuneytisins er að við álagningu fasteignaskatts árið 2012 muni frumvarpið hafa í för með sér tekjulækkun fyrir sveitarfélögin sem nemur um 55 millj. kr.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (hesthús).

         Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að jafnræðis sé gætt, innan sama sveitarfélags, við álagningu fasteignaskatts á hesthús samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga án tillits til staðsetningar eignanna. Lagt er til í frumvarpinu að álagningarhlutfall fasteignaskatts á hesthús verði það sama og þeirra fasteigna sem taldar eru upp í a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Í núverandi lögum eru hesthús ekki tilgreind sérstaklega.
    Þann 12. janúar 2011 kvað yfirfasteignamatsnefnd upp úrskurð í máli nr. 23/2010 þar sem kæruefnið var hvort hesthús á deiliskipulögðu hesthúsasvæði í þéttbýli skyldu við álagningu fasteignaskatts vera flokkuð undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, þar sem kveðið er á um 0,5% álagningarhlutfall af fasteignamati, eða c-lið sama ákvæðis, þar sem kveðið er á um 1,32% álagningarhlutfall. Samkvæmt lögunum er sveitarfélögum jafnframt heimilt að hækka þessi álagningarhlutföll um allt að 25%. Niðurstaða nefndarinnar var sú að fella slíkar byggingar undir fyrrgreindan c-lið.
    Framkvæmd sveitarfélaga við innheimtu á fasteignaskatti hesthúsa og skilgreining skatthlutfalls þeirra á grundvelli framangreindra töluliða hefur ekki verið einhlít og umræðan ekki ný af nálinni. Sem dæmi hefur Landssamband hestamanna um nokkurt skeið talið þörf á að skýrt sé kveðið á um þetta atriði í lögum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það leiða til tekjulækkunar fyrir þau sveitarfélög sem lagt hafa fasteignaskatt á hesthús utan bújarða skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Þau sveitarfélög sem hagað hafa álagningunni með þeim hætti eru hins vegar ekki mörg og má telja að breytingin muni ekki hafa teljandi áhrif á heildartekjur sveitarfélaga þó að hún komi misjafnlega niður hjá þeim. Lækkunin yrði varla meiri en um 10–20 m.kr. miðað við álagningu síðasta árs og að teknu tilliti til þess að eftir sem áður verður heimilt að leggja á 25% álag þannig að skatthlutfallið getur orðið 0,75% af fasteignamati.
    Verði frumvarpið lögfest verður ekki séð að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs.