Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1030  —  640. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hólaskóla – Háskólann á Hólum.


    Með bréfi dags. 30. nóvember 2011 sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hólaskóla – Háskólann á Hólum til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa. Á fund nefndarinnar komu Sveinn Arason, Kristín Kalmansdóttir, Þórir Óskarsson og Bjarkey Rut Gunnlaugsdóttir frá Ríkisendurskoðun.
    Í skýrslunni er gerð grein fyrir úttekt Ríkisendurskoðunar á Hólaskóla á tímabilinu 2005– 2010 og í einhverjum tilfellum til ársins 2011 vegna áherslu á rekstrarlega stöðu.
    Hólaskóli er minnstur háskóla hér á landi og starfar samkvæmt lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, og lögum um háskóla, nr. 63/2006. Hann hefur sérhæft sig í framboði á námi í hestafræðum, fiskeldis- og fiskalíffræði og ferðamálafræði, sbr. ákvæði laga um búnaðarfræðslu. Talið er að sérhæfing hans, sérstaklega á sviði fiskeldis- og fiskalíffræði sé námi og rannsóknum í þeim greinum hér á landi mikilvæg. Skólinn hefur átt samstarf við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í hestafræðum og er aðili að samstarfsneti opinberra háskóla sem kann að skapa honum grundvöll til þess að starfa áfram sem sjálfstæður háskóli að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Þegar skólinn færðist frá landbúnaðarráðuneyti til mennta- og menningarmálaráðuneytis í ársbyrjun 2008 fylgdi honum rúmlega 238 millj. kr. aukafjárveiting en strax á árinu 2009 fékk skólinn 100 millj. kr. greiðslu umfram fjárheimildir úr ríkissjóði. Engu að síður nam uppsafnaður rekstrarhalli skólans 76 millj. kr. við árslok 2010. Ársreikning skólans árið 2008 áritaði Ríkisendurskoðun með fyrirvara og ársreikningar áranna 2009 og 2010 eru ekki áritaðir með áliti um að þeir gefi glögga mynd af stöðu skólans eins og venja er. Ríkisendurskoðun bendir einnig á að aðstaða, einkum til bóklegs náms, hamli því að skólinn geti tekið við öllu fleiri ársnemendum en nú er og því vandséð hvernig tryggja megi skólanum nægar tekjur til framtíðar.
    Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðuneytið leggi mat á hvort í því felist faglegur og fjárhagslegur ávinningur að sameina Hólaskóla öðrum háskóla. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og hvetur til þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið flýti þeirri vinnu eins og kostur er í ljósi þess að rekstrargrundvöllur skólans er ekki traustur.
    Nefndin vekur jafnframt athygli fjárlaganefndar á þeim athugasemdum sem Ríkisendurskoðun gerir vegna ársreikninga 2008, 2009 og 2010.

Alþingi, 15. mars 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Róbert Marshall.


Lúðvík Geirsson.



Magnús M. Norðdahl,


frsm.


Pétur H. Blöndal.


Margrét Tryggvadóttir.