Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 272. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1033  —  272. mál.




Frumvarp til laga



um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

(Eftir 2. umræðu, 21. mars.)


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Hlutverk og markmið.

    Farsýslan er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra.
    Farsýslan fer með stjórnsýslu samgöngumála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir. Stofnunin annast stjórnsýslu og eftirlit er lýtur að:
     1.      flugmálum,
     2.      hafnamálum og málum sem varða sjóvarnir,
     3.      siglingamálum,
     4.      umferðarmálum,
     5.      vegamálum.
    Farsýslan skal með starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Þá skal stofnunin stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið.
    Stofnunin annast framkvæmd laga á þeim sviðum sem undir hana heyra, sbr. 2. mgr., samkvæmt nánari fyrirmælum þeirra laga.

2. gr.
Skipulag stofnunar o.fl.

    Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn og staðfestir skipurit hennar.
    Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.
    Forstjóri ræður annað starfsfólk til stofnunarinnar.
    Farsýslan skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína.

3. gr.
Samvinna og samráð.

    Farsýslan skal hafa samvinnu og samráð við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar.
    Ráðherra getur sett á stofn fagráð með fulltrúum stofnunarinnar, hagsmunaaðila og annarra aðila í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta á fagsviðum stofnunarinnar.

II. KAFLI
Verkefni.
4. gr.
Almennt.

    Farsýslan skal vera ráðgefandi fyrir ráðherra, veita honum aðstoð við undirbúning að setningu laga og reglugerða á starfssviði sínu og aðstoða við stefnumótun og ákvarðanatöku í samgöngumálum.
    Stofnunin setur reglur um gerð og búnað ökutækja, skipa og loftfara, svo og um hæfi stjórnenda þeirra, og annast framkvæmd þeirra.
    Stofnunin ákveður kröfur um öryggi samgöngumannvirkja ásamt því að kveða á um skipulag umferðar- og leiðsögukerfa í lofti og á láði og legi.
    Farsýslan tekur þátt í gerð samgönguáætlunar.
    Farsýslan skal annast fræðslu og upplýsingamiðlun um samgöngumál eftir því sem við á.
    Stofnunin annast rekstur tölvu- og upplýsingakerfa er lúta að starfsemi stofnunarinnar.
    Stofnunin tekur afstöðu til tillagna sem berast frá þeim opinberu aðilum sem annast rannsókn samgönguslysa.
    Stofnunin heldur slysaskrá á sviði samgangna.
    Farsýslan skal annast önnur verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt ákvörðun ráðherra.

5. gr.
Eftirlit með samgöngumannvirkjum.

    Farsýslan hefur eftirlit með að fylgt sé kröfum um öryggi samgöngumannvirkja og öryggisstjórnun við rekstur þeirra.
    Stofnunin annast öryggisúttekt á samgöngumannvirkjum.

6. gr.
Eftirlitsskyld starfsemi, rannsóknarheimildir o.fl.

    Farsýslan skal hafa eftirlit með því að starfsemi, umferð og flutningar sem henni er að lögum falið að hafa eftirlit með, séu í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um viðkomandi starfsemi gilda.
    Farsýslunni er við athugun á rekstri og starfsemi eftirlitsskyldra aðila heimill aðgangur að starfsstöðvum eftirlitsskylds aðila og öðrum stöðum sem nauðsynlegt er til að sinna eftirliti að mati stofnunarinnar. Farsýslunni er einnig heimill aðgangur að ökutæki, loftfari, skipi og öðru samgöngutæki, sem og búnaði þeirra og farmi til vettvangsathugana, úttekta og skoðana sem stofnunin telur nauðsynlegar í þágu eftirlits. Stofnunin getur einnig lagt hald á þau gögn og muni sem hún telur nauðsyn á í þágu eftirlits.
    Farsýslunni er heimilt að fyrirskipa stöðvun og kyrrsetningu ökutækja, loftfara, skipa og annarra samgöngutækja eins og nauðsyn kann að vera á í þágu eftirlits og að gera allar nauðsynlegar athuganir á þeim, búnaði þeirra og farmi. Farsýslan getur látið færa samgöngutæki til athugunar á þann stað sem henta þykir hverju sinni í þágu eftirlits.
    Eftirlitsskyldum aðila er skylt að fara eftir fyrirmælum Farsýslunnar um eftirlit og veita upplýsingar og aðgang að þeim gögnum í vörslu hans sem Farsýslan gerir kröfu um í þágu eftirlits.
    Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita Farsýslunni upplýsingar um starfsemi sína og aðgang að þeim gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina og Farsýslan telur nauðsyn á að fá aðgang að.
    Eftirlitsskyldur aðili skal án fyrirvara geta sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði leyfisveitingar og, ef með þarf, gangast undir þau próf sem Farsýslunni er heimilt að krefjast að gengist sé undir.
    Farsýslunni er heimilt að leita aðstoðar lögreglu við eftirlit og öflun nauðsynlegra upplýsinga í þágu eftirlits. Stofnunin getur krafist upplýsinga og gagna frá öðru stjórnvaldi, óháð þagnarskyldu þess, ef slíkt er nauðsynlegt til að unnt sé að sinna lögbundnu eftirliti.
    Um eftirlitsheimildir Farsýslunnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum þeirra laga sem um viðkomandi starfsemi gilda, svo og annarra laga eftir því sem við á.

7. gr.
Verkefni tengd samgöngum á landi.

    Farsýslan skal m.a.:
     1.      annast skráningu ökutækja í ökutækjaskrá,
     2.      annast eftirlit með ökutækjum, ástandi þeirra og skráningu, stærð og þyngd, hleðslu og frágangi farms,
     3.      annast eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna,
     4.      annast ökupróf, veita leyfi til að starfrækja ökuskóla og hafa umsjón með ökunámi og eftirlit með ökukennslu,
     5.      veita leyfi til að annast skoðun ökutækja og hafa eftirlit með þeirri starfsemi,
     6.      annast skráningu umferðarslysa,
     7.      annast útgáfu leyfa vegna ökugerða og hafa eftirlit með þeim,
     8.      veita undanþágur frá ákvæðum laga um stærð og þyngd ökutækja, að fengnu samþykki Vegagerðarinnar,
     9.      veita rekstrar- og atvinnuleyfi til fólks- og farmflutninga á landi,
     10.      annast eftirlit með framkvæmd samninga um ríkisstyrktar almenningssamgöngur.

8. gr.
Verkefni tengd loftferðum.

    Farsýslan skal m.a.:
     1.      skrá loftför í íslenska loftfaraskrá,
     2.      veita leyfi til hvers konar reksturs sem skilgreindur er í loftferðalögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, eins og flugreksturs, reksturs viðhaldsstöðva, flugskóla, skóla fyrir flugleiðsöguþjónustu og flugvéltækna, flugleiðsöguþjónustu, reksturs flugvalla og flugstöðva, sem og að hafa samfellt eftirlit með þessari starfsemi,
     3.      gefa út heimildir í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar og hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem grundvallast á þessum heimildum,
     4.      gefa út skírteini til einstaklinga í samræmi við lög og reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar og tryggja framkvæmd prófa,
     5.      kveða á um skipulag loftrýmis og flugleiðsögu eða gera tillögu um slíkt til ráðherra,
     6.      annast eftirlit með framkvæmd flugverndar í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði flugverndar,
     7.      gæta hagsmuna almennings með því m.a. að:
       a.      stuðla að vernd neytenda í viðskiptum þeirra við flugrekendur og aðra leyfisskylda aðila svo og aðila sem selja flugferðir til og frá Íslandi með erlendum flugrekendum,
       b.      stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og krefjast gagnsæis gjaldskráa og skilmála fyrir notkun flugsamgangna,
       c.      tryggja réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra sem ferðast með flugi.
    Með gögn og aðrar upplýsingar, sem Farsýslan aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál. Það sama gildir um gögn sem rekstrarleyfishafar afhenda stofnuninni og varða rekstrarleyfi þeirra.

9. gr.
Verkefni tengd siglingum.

    Farsýslan skal m.a.:
     1.      annast eftirlit með skipum, þar á meðal mælingu þeirra og skráningu,
     2.      annast mál er varða varnir gegn mengun sjávar að því leyti sem slíkt varðar skip og búnað þeirra, samkvæmt reglum sem umhverfisráðherra setur,
     3.      fylgjast með rannsókn sjóslysa og veita aðstoð við rannsókn þeirra og rita umsögn um sjópróf til ríkissaksóknara,
     4.      annast mál er varða siglinga- og sjómannalög að því leyti sem þau tengjast skipum, skráningu þeirra og búnaði, siglingaöryggi og öðrum málum sem ráðuneytið kann að fela stofnuninni varðandi siglingar og áhafnir skipa,
     5.      annast málefni er varða siglingavernd,
     6.      gefa út skírteini til einstaklinga og veita heimildir til hvers konar reksturs sem skilgreindur er í sérlögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra,
     7.      annast stjórnsýsluverkefni hafnalaga, laga um sjóvarnir, laga um vitamál og laga um vaktstöð siglinga.

10. gr.
Alþjóðlegt samstarf.

    Farsýslan tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi og mótun alþjóðareglna á starfssviði sínu eftir því sem kveðið er á um í lögum, alþjóðasamningum eða með ákvörðun ríkisstjórnar. Stofnunin skal m.a.:
     1.      annast undirbúning samninga við erlend ríki og alþjóðastofnanir og eftir atvikum gerð slíkra samninga,
     2.      vinna að innleiðingu og framfylgd alþjóðasamninga og EES-gerða,
     3.      hafa eftirlit með að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningum og annast undirbúning og þátttöku í alþjóðlegum úttektum.

11. gr.
Rannsóknir og þróunarstarf.

    Farsýslan tekur þátt í og annast rannsóknir, greiningu og þróun á starfssviði sínu.
    Ráðherra skal setja reglugerð um hlutverk Farsýslunnar á sviði rannsókna, greiningar og þróunar.

III. KAFLI
Gjaldtaka o.fl.
12. gr.
Gjaldtaka.

    Leggja skal á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Farsýslunnar, að fjárhæð 500 kr. og greiðist það við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki. Ráðherra setur reglur um innheimtu gjaldsins og um skil þess í ríkissjóð.
    Gjald fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteina og hljóðsstigs- og mengunarvottorða skal innheimta miðað við hámarksflugtaksmassa loftfars:
     1.      Fyrir loftför allt að 2.700 kílógrömmum skal greiða 16.117 kr. og að auki 11,00 kr. fyrir hvert kílógramm.
     2.      Fyrir loftför frá 2.701 til 5.700 kílógrömmum skal greiða 24.034 kr. og að auki 9,20 kr. fyrir hvert kílógramm.
     3.      Fyrir loftför frá 5.701 til 50.000 kílógrömmum skal greiða 113.100 kr. og að auki 9,90 kr. fyrir hvert kílógramm.
     4.      Fyrir loftför yfir 50.000 kílógrömmum skal greiða 565.502 kr. og að auki 5,70 kr. fyrir hvert kílógramm.
    Heimilt skal að endurgreiða hlutfallslega gjald vegna fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis ef skráning loftfars varir skemur en 12 mánuði.
    Gjald fyrir útgáfu tímabundins lofthæfisskírteinis sem gilda skal skemur en 30 daga skal vera 3/12 af gjaldi fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis.
    Nú er loftfar skráð erlendis fært á flugrekandaskírteini íslensks flugrekanda og skal þá greiða fyrir útgáfu lofthæfisskírteinis eins og um fyrstu útgáfu þess sé að ræða.

13. gr.
Þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá.

    Farsýslunni er heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna:
     1.      útgáfu skírteina/korta og heimilda einstaklinga, breytinga, endurnýjunar og endurútgáfu, mats og vottunar á gögnum er fylgja umsókn; einnig skal heimilt að innheimta gjald fyrir tiltekin skírteini og heimildir á grundvelli tímagjalds,
     2.      útgáfu starfsleyfa, heimilda og skírteina/korta lögaðila, breytinga á leyfum og skírteinum, endurnýjunar og endurútgáfu heimilda, útgáfu skírteina og undanþágna slíkrar útgáfu, mats og vottunar á gögnum er fylgja umsókn fyrir hverja klukkustund sem matið tekur; einnig skal heimilt að innheimta gjald fyrir tiltekin starfsleyfi, skírteini, undanþágur og heimildir á grundvelli tímagjalds; heimilt skal að krefja umsækjanda um fyrirframgreiðslu vegna yfirferðar gagna og samskipta meðan á mats- og vottunarferli stendur og fyrir tímabundna innlögn skírteina skal greiða gjald,
     3.      skráningar, afskráningar og breytingar á eigenda- og umráðaskiptum loftfars, ökutækis, skips og vegna útgáfu skipsskjala,
     4.      skoðana á skipum og búnaði þeirra, eftirlits með viðgerðum og nýsmíði og breytinga þeirra,
     5.      skráningar og skoðunar köfunarbúnaðar og próftöku til köfunarréttinda,
     6.      flugverndar, siglingaverndar, staðfestingar áhættumats og verndaráætlunar og námskeiða fyrir hafnargæslumenn og verndarfulltrúa,
     7.      eftirlits með skráðum loftförum, skipum og sjálfvirkum tilkynningarskyldukerfum skipa,
     8.      eftirlits með handhafa heimilda, starfsleyfa og skírteina/korta útgefinna af Farsýslunni,
     9.      próftöku, hæfni- og akstursmats, þ.e. til framkvæmdar prófa, skriflegra og/eða verklegra, eða yfirferðar og eftirlits með próftöku og hæfni/akstursmati, mats og vottunar á gögnum er fylgja umsókn um námskeiðahald fyrir hverja klukkustund sem matið tekur,
     10.      skráningarmerkja og skoðunarmiða,
     11.      heimilda sem tengjast einstökum atburðum og afgreiðslum, svo sem flugsýningum, flugkeppnum, fallhlífarstökki, lágflugi, listflugi, flugeldasýningum, yfirflugi með takmarkað lofthæfisskírteini og yfirferð vátryggingaskilmála vegna loftferða,
     12.      ökunámsbóka,
     13.      samhæfingar eða samstarfs við erlend stjórnvöld í þágu eftirlitsskylds aðila, þ.m.t. vegna samningagerðar, yfirferðar samninga og framsals eftirlits, samkvæmt gjaldi á hverja unna klukkustund,
     14.      sölu á sérhæfðri þjónustu vegna lögmæltra verkefna á starfssviði stofnunarinnar, þ.m.t. sérstakrar þjónustu sem óskað er vegna vottunar, viðurkenningar, prófunar eða veitingar heimilda, samkvæmt gjaldi á hverja unna klukkustund,
     15.      útgáfu vottorðs til staðfestingar á lofthæfi skal greiða samkvæmt tímagjaldi, sbr. 2. mgr. 14. gr.,
     16.      verkefna sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.
    Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, framleiðslu, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskiptabúnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu samgangna auk ferða og uppihalds, útlagðs kostnaðar, svo sem við ferðir, uppihald og aðkeypta sérfræðiþjónustu í þágu eftirlitsskylds aðila. Fjárhæð gjalda tekur mið af þeim kostnaði sem almennt hlýst af eftirliti og þjónustu.
    Gjaldskráin skal staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Sé óskað eftir þjónustu utan hefðbundins skrifstofutíma skal greiða fyrir vinnu starfsmanns samkvæmt útseldum taxta með álagi samkvæmt gjaldskrá Farsýslunnar.

    14. gr.
    Tekjur.

    Farsýslunni er heimilt að hafa tekjur af sérhæfðri þjónustu og verksamningum svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum.
    Gjaldtaka skv. 1. mgr. skal ákveðin í viðmiðunargjaldskrá sem Farsýslan setur.
    Þann hluta starfsemi Farsýslunnar sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins og skal endurgjald taka mið af markaðsverði. Sala á þjónustu skal byggjast á samningum.
    Ráðherra staðfestir gjaldskrá samkvæmt þessari grein.

15. gr.
Aðfararhæfi gjaldtöku.

    Gjöld Farsýslunnar skv. 13. gr. eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Framsal eftirlits o.fl.

    Farsýslan getur með samningi, að undangengnu samþykki ráðherra, falið öðrum stjórnvöldum, viðurkenndu flokkunarfélagi, skoðunarstofum eða öðrum aðilum einstaka þætti eftirlits samkvæmt lögum þessum.
    Farsýslunni er heimilt, með samþykki ráðherra, að kaupa og fara með hlut ríkisins í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum. Jafnframt er stofnuninni heimilt að bjóða fram sérþekkingu á alþjóðamarkaði og afla tekna með útflutningi sérfræðiþekkingar sem hún býr yfir.

17. gr.
Þvingunarúrræði.

    Heimilt er Farsýslunni að fella úr gildi og afturkalla því til staðfestingar leyfi, heimildir, viðurkenningar eða skírteini, sem veitt hafa verið, ef hún telur að viðkomandi aðili fullnægi ekki lengur skilyrðum sem kveðið er á um í leyfi, heimild, viðurkenningu eða skírteini eða að hann hafi brotið í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglna sem um starfsemina eða réttindin gilda. Sama gildir ef aðili telst ófær um að sinna þeirri starfsemi sem leyfið, heimildin, viðurkenningin eða skírteinið nær til. Svipting og afturköllun geta verið bundin við tiltekna hluta leyfisins, heimildarinnar, viðurkenningarinnar eða skírteinisins.
    Um þvingunarúrræði Farsýslunnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum sérlaga sem stofnunin starfar eftir, svo og annarra laga eftir því sem við á.

18. gr.
Kæruheimild o.fl.

    Ákvarðanir Farsýslunnar sæta kæru til ráðherra í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
    Telji notandi samgönguþjónustu eða aðrir að leyfisskyldur aðili brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum sem stofnunin starfar eftir, reglum settum samkvæmt þeim eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í leyfi getur hlutaðeigandi beint kvörtun til stofnunarinnar sem skal láta málið til sín taka ef við á.
    Starfsmenn Farsýslunnar mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra.

19. gr.
Þagnarskylda og veiting upplýsinga.

    Starfsmenn Farsýslunnar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um rekstur eða viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga þegar þeir starfa á vegum Farsýslunnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.
    Farsýslunni er heimilt að safna saman, vinna úr og birta tölfræðilegar upplýsingar um samgöngumál og skulu þeir sem reka leyfisbundna starfsemi skyldir til að láta í té slíkar upplýsingar ef eftir er leitað.
    Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja og eftirlitsaðilum á vegum viðurkenndra alþjóðasamtaka, sem Ísland er aðili að, upplýsingar sé það liður í samstarfi ríkja um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja eftirlitinu.

20. gr.
Gildistaka og brottfallin lög.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2013.
    Frá 1. janúar 2013 falla úr gildi lög nr. 6/1996, um Siglingastofnun Íslands, og lög nr. 100/ 2006, um Flugmálastjórn Íslands. Einnig falla þá úr gildi ákvæði 111.–115. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.

Ákvæði til bráðabirgða.


     1.      Starfsmönnum stofnana sem sinnt hafa þeim verkefnum sem munu heyra undir Farsýsluna samkvæmt lögum þessum og eru í starfi við gildistöku laga þessara skal boðið starf hjá hinni nýju stofnun. Um réttarvernd starfsmanna til starfa hjá Farsýslunni fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/ 2002, eins og við á hverju sinni. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessum tölulið.
     2.      Þrátt fyrir 1. tölul. þessa ákvæðis verða störf forstöðumanna þeirra stofnana sem sameinast í Farsýsluna lögð niður þegar lög þessi koma til framkvæmda. Ráðherra er heimilt að taka ákvörðun um að flytja forstöðumann úr hópi núverandi forstöðumanna samgöngustofnananna í embætti forstjóra Farsýslunnar skv. 36. gr. laga nr. 70/1996. Þeim forstöðumönnum sem ekki hljóta áframhaldandi skipun skulu boðin störf í Farsýslunni eða Vegagerðinni.