Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 653. máls.

Þingskjal 1047  —  653. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld
(breytingar er varða framkvæmd o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 7. mgr. B-liðar 68. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé svo ástatt að einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skv. 1. gr. skal ákvarða því vaxtabætur hér á landi eftir þeim reglum sem gilda um hjón, enda liggi fyrir upplýsingar um tekjur beggja.

2. gr.

    Á eftir 1. málsl. a-liðar 5. tölul. 70. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar um er að ræða leigutekjur manns af íbúðarhúsnæði er heimilt að taka tillit til frádráttar skv. 3. mgr. 30. gr.

3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XL í lögunum kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skulu við endurreikning á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga utan atvinnurekstrar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 þar sem dæmt var að fjármálafyrirtæki gætu ekki krafist mismunar á óverðtryggðum seðlabankavöxtum og samningsvöxtum fyrir tímabil þar sem fullnaðarkvittun eða ígildi hennar lægi fyrir, breytingar á vöxtum sem ákvarðaðar eru af þessum sökum á árunum 2012 og 2013 ekki teljast til tekna.

4. gr.

    Á eftir „2.“ tvisvar sinnum í ákvæði til bráðabirgða L í lögunum kemur: og 3.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Við síðari málslið 2. mgr. 7. gr. laganna bætist: svo og sérhvern annan aðila sem hefur atvinnu af fjárvörslu, milligöngu eða innheimtu í verðbréfaviðskiptum eða annast innheimtu fyrir aðra.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.

6. gr.

    Á undan orðinu „skilagrein“ í 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: sundurliðuð.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Í stað orðanna „1. ágúst ár hvert og eindagi mánuði síðar“ í 6. mgr. 12. gr. laganna kemur: annars vegar 1. ágúst ár hvert hjá mönnum og eindagi mánuði síðar og hins vegar 1. nóvember ár hvert hjá lögaðilum og eindagi mánuði síðar.

8. gr.

    Í stað orðanna „1. ágúst“ í 16. gr. laganna kemur: 1. ágúst hjá mönnum og 1. nóvember hjá lögaðilum.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.
9. gr.

    2. málsl. 9. gr. laganna fellur brott.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta,
með síðari breytingum.

10. gr.

    2. málsl. 13. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 6. gr. öðlast gildi 1. janúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Tilefni lagasetningar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum sem eru af ólíkum toga en flestar varða framkvæmdaleg atriði.
    Tilefni frumvarps þessa er yfirferð fjármálaráðuneytisins yfir ákveðin atriði í skattalöggjöfinni sem talin er þörf á að skýra með gleggri hætti til að styrkja skattframkvæmd og auka réttaröryggi. Við samningu frumvarpsins var tekið mið af athugasemdum frá embætti ríkisskattstjóra þar sem komið var inn á tiltekin atriði sem embættið telur að betur megi fara í löggjöf um skattamál.
    
2. Meginefni frumvarpsins.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru ferns konar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæði vaxtabóta í þá veru að bætt er við ákvæði er kveður á um það að þegar einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skuli ákvarða því vaxtabætur hér á landi eftir þeim reglum sem gilda um hjón, enda liggi fyrir upplýsingar um tekjur beggja. Í öðru lagi er lögð til frádráttarheimild til handa þeim sem hafa tekjur af leigu á íbúðarhúsnæði og bera takmarkaða skattskyldu hér á landi til samræmis við þá sem hafa ótakmarkaða skattskyldu. Í þriðja lagi er um að ræða tillögu er varðar skýrari tilvísun til ákvæða laganna vegna fyrirframgreiðslu sérstaks fjársýsluskatts. Loks er með breytingum á ákvæði til bráðabirgða XL lagt til að endurreikningur á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga utan atvinnurekstrar, í kjölfar dóms Hæstaréttar, hafi engin skattaleg áhrif og leiði ekki til endurákvörðunar barna- og vaxtabóta.
    Sú breyting er lögð til á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, að skýrar verði kveðið á um skyldu milligönguaðila til að halda eftir staðgreiðslu.
    Að auki er lögð til sú breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, að gjalddaga gjaldsins verði breytt úr 1. ágúst í 1. nóvember í tilviki lögaðila, en það er í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur.
    Þá er lagt til að sú breyting verði gerð á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, að skylt verði að skila sundurliðuðum skilagreinum við skil á staðgreiðslu skatts frá og með 1. janúar 2013.
    Lögð er til sú breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að tilkynna erfingjum um lok yfirferðar á erfðafjárskattsskýrslu.
    Að lokum er lagt til að lög nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, verði gerð ótímabundin, ella falla þau úr gildi í lok þessa árs.

3. Samráð og mat á áhrifum.
    Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við embætti ríkisskattstjóra.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við samningu frumvarpsins, sem snertir bæði menn og lögaðila, var ekki haft faglegt samráð við önnur ráðuneyti þar sem löggjöf um skattamál fellur undir fjármálaráðuneytið og breytingartillögur þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru nær eingöngu framkvæmdalegs eðlis.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum, að undanskilinni þeirri tillögu að gera lög um umhverfis- og auðlindaskatta varanleg í samræmi við ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2012–2015. Áætlað er að kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti og skattur af seldri raforku og heitu vatni skili ríkissjóði 5,8 milljarða kr. tekjum í ár. Gera má ráð fyrir að með breytingu á ákvæði til bráðabirgða XL kunni ríkissjóður að verða af lækkun vaxtabóta sem að óbreyttum lögum yrðu ákvarðaðar. Upplýsingar um líklegar fjárhæðir liggja þó ekki fyrir. Afleiðing lagasetningarinnar á almannahagsmuni, hagsmunaaðila og stjórnsýslu ríkisins mun ekki verða teljanleg enda nær eingöngu um að ræða leiðréttingar og breytingar á ákvæðum um framkvæmd laganna. Ávinningurinn af samþykkt frumvarpsins verður því mun meiri en hugsanleg neikvæð áhrif þar sem reglur verða skýrari og gagnsærri sem er til hagsbóta fyrir skattaðila sem og skattyfirvöld.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Lagt er til að í þeim tilfellum sem einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skuli ákvarða því vaxtabætur hér á landi eftir þeim reglum sem gilda um hjón. Gert er ráð fyrir því að til að svo geti orðið verði að liggja fyrir upplýsingar um tekjur beggja. Sambærilegt ákvæði um barnabætur er nú þegar að finna í lögunum og eðlilegt að það taki einnig til vaxtabóta.

Um 2. gr.


    Ákvæði 70. gr. tekur til tekjuskatts aðila með takmarkaða skattskyldu. Skv. 5. tölul. ákvæðisins skulu menn og lögaðilar greiða 20% skatt af tekjum af fasteignum. Um er að ræða brúttóskattlagningu án nokkurs frádráttar. Mönnum sem bera hér á landi takmarkaða skattskyldu er því ekki heimilt að draga frá leigutekjum hér á landi leigugreiðslur erlendis. Mönnum sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu er hins vegar heimill framangreindur frádráttur, sbr. 3. mgr. 30. gr. laganna. Ekki verður séð að frádrátt þennan sé unnt að takmarka einungis við menn sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu þar sem þegar er búið að undanþiggja skattlagningu 30% leiguteknanna hjá bæði aðilum með ótakmarkaða skattskyldu og takmarkaða skattskyldu. Með tilliti til framangreinds og þeirra skuldbindinga sem byggjast á EES-samningnum er því lagt til að aðilum með takmarkaða skattskyldu verði heimilaður frádráttur til samræmis við þá sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu enda sé um tímabundna leigu að ræða. Frádráttarreglan leiga á móti leigu er sérafbrigði sem byggist ekki á því almenna lögmáli að kostnaður sé frádráttarbær, að því marki sem hann gengur til öflunar tekna, heldur miðast frádrátturinn við húsaleigutekjur manna utan rekstrar sem og reglan um að ekki skuli reikna tekjuskatt af 30% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis. Frádráttarreglan um leigu á móti leigu er þannig ekki takmörkuð við landamæri og nægjanlegt er að færa sönnur á leigugreiðslur hvar sem slíkar greiðslur eru inntar af hendi.

Um 3. gr.


    Með breytingum á ákvæði til bráðabirgða XL er lagt til að endurreikningur á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga utan atvinnurekstrar, í kjölfar dóms Hæstaréttar þar sem dæmt var að fjármálafyrirtæki gætu ekki krafist mismunar á óverðtryggðum seðlabankavöxtum og samningsvöxtum fyrir tímabil þar sem fullnaðarkvittun eða ígildi hennar lægi fyrir, hafi engin skattaleg áhrif. Jafnframt er lagt til að ekki komi til endurákvörðunar á barnabótum og vaxtabótum af þessum sökum nema skattaðili fari fram á endurákvörðun þeirra skv. 2. mgr. 101. gr.

Um 4. gr.


    Lagt er til að tilvísun ákvæðis til bráðabirgða L, um fyrirframgreiðslu sérstaks fjársýsluskatts, verði gerð ítarlegri en nú er en ekki er um efnisbreytingu á ákvæðinu að ræða. Breytingin felst í því að auk tilvísunar til 2. málsl. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003 verði vísað til 3. málsl. sama ákvæðis sem kveður á um skatthlutfall sérstaks fjársýsluskatts.

Um 5. gr.


    Það er meginregla og markmið laga um staðgreiðslu opinberra gjalda að þeir aðilar sem inna af hendi greiðslur eða hafa með höndum milligöngu um greiðslur sem skattskyldar eru í hendi móttakanda og falla undir gildissvið laganna annist afdrátt staðgreiðslu af þeim tekjum. Er þetta í samræmi við almennar skyldur launagreiðenda samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, en talið var á sínum tíma að upphaflegt ákvæði laganna um milligöngumenn tæki jafnframt til þeirra tekna sem síðar voru felldar undir lögin án þess að til sérstakrar lagabreytingar kæmi af því tilefni. Skv. 3. gr. staðgreiðslulaga taka lögin m.a. til þeirra sem annast milligöngu um greiðslur sem gjaldskyldar eru samkvæmt tekjuskattslögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í 7. gr. staðgreiðslulaga kemur fram að ef milligöngumaður annast launagreiðslur skuli hann gegna skyldum launagreiðanda samkvæmt lögunum. Með úrskurði yfirskattanefndar, nr. 138/2010, var úrskurður ríkisskattstjóra, þar sem úrskurðað var um staðgreiðsluskyldu milligönguaðila, felldur úr gildi á þeim forsendum að hugtakið „milligöngumaður“ hefði ekki fastmótaða merkingu í íslenskum rétti og að lögskýringargögn veittu takmarkaða leiðbeiningu um skýringu hugtaksins. Þá benti yfirskattanefnd á að við upptöku staðgreiðslu opinberra gjalda þann 1. janúar 1988 hafi ekki með skýrum hætti verið kveðið á um takmarkaða skattskyldu vegna söluhagnaðar hlutabréfa í lögum um tekjuskatt og ekkert þætti benda til að tilgangur löggjafans hafi verið að mæla fyrir um staðgreiðsluskyldu svo sem viðskiptabanka vegna milligöngu um hlutabréfaviðskipti. Með vísan til þessa er nauðsynlegt að gera breytingar á staðgreiðslulögunum á þann veg að ekki leiki vafi á að staðgreiðsluskyldan hvíli á milligönguaðilum við aðstæður sem þessar í samræmi við skilning skattyfirvalda.

Um 6. gr.


    Í 9. gr. laganna er tekið fram að skilaskyldir aðilar skuli skila skilagreinum um leið og greiðsla er innt af hendi. Skilaskyldir aðilar standa nú skil á innheimtum fjármagnstekjuskatti ásamt skilagreinum til ríkisskattstjóra fjórum sinnum á ári, sbr. 7. gr. laganna. Í byrjun hvers árs kallar ríkisskattstjóri eftir upplýsingum frá skilaskyldum aðilum til áritunar á skattframtöl einstaklinga. Afstemming hefur sóst seint og ekki verið nægjanlega auðrakin, m.a. þar sem algjörlega hefur skort sundurliðun á þeim afdrætti staðgreiðslu sem framkvæmd var og skilað á staðgreiðsluári í þeim samanburði á þeirri lokaniðurstöðu sem dregin er upp í árslok. Afstemmingu er ekki unnt að koma við þar sem sundurliðanir fylgja ekki þeim skilagreinum sem staðið er skil á með greiðslum eða skilagreinum á staðgreiðsluári. Er því lögð til sú breyting að í ákvæðinu verði tilgreint að skilaskyldum aðilum verði skylt að láta sundurliðanir fylgja skilagreinum frá og með 1. janúar 2013 þannig að unnt sé að rekja afdregna staðgreiðslu til þeirra sem eru greiðendur skattsins með nákvæmlega sama hætti og nú er um afdregna staðgreiðslu af launum, sbr. 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá mun breytingin auðvelda allt eftirlit innan ársins með skilaskyldum aðilum og afdreginni staðgreiðslu af fjármagnstekjum einstakra aðila.

Um 7. og 8. gr.


    Að liðnu staðgreiðsluári á endanleg álagning tryggingagjalds sér stað á þá gjaldstofna er undir það falla. Í lögunum er kveðið á um að gjalddagi sé 1. ágúst ár hvert og að dráttarvexti skuli reikna frá og með gjalddaga 1. ágúst ár hvert ef ekki er greitt fyrir eindaga. Lagt er til að dagsetningu gjalddaga tryggingagjalds vegna lögaðila verði breytt í 1. nóvember þar sem skattframkvæmdin hefur breyst frá því að lögin voru sett og kallar það því á breytta dagsetningu. Áður fyrr fór álagning á einstaklinga og lögaðila fram samtímis en í dag fer álagning einstaklinga fram í lok júlí og álagning lögaðila á sér stað í lok október.

Um 9. gr.


    Að lokinni ákvörðun erfðafjárskatts skal sýslumaður senda ríkisskattstjóra erfðafjárskýrslu til yfirferðar. Í flestum tilvikum er ekkert athugavert á ferðinni og allt með eðlilegum hætti. Í 2. málsl. 9. gr. laganna er ríkisskattstjóra gert skylt að gera erfingjum og eftir atvikum skiptastjóra viðvart um að hann hafi lokið yfirferðinni. Af þessu leiðir að ríkisskattstjóra er skylt að eyða bæði tíma og fjármunum í að senda hundruð bréfa um allt land, sem iðulega koma flatt upp á móttakanda, þ.e. erfingja, sem þegar hefur greitt sinn erfðafjárskatt. Bréfaskriftir þessar eru með öllu óþarfar og er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott.

Um 10. gr.


    2. málsl. 13. gr. laganna kveður á um það að lögin skuli falla úr gildi 31. desember 2012. Með ákvæði þessu er lagt til að lögin verði gerð varanleg og ákvæðið fellt brott. Sú tekjuöflun sem þessi skattlagning byggist á er nauðsynleg forsenda þess að takist að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun með tilheyrandi vaxtakostnaði.

Um 11. gr.


    Ákvæði 6. gr. frumvarpsins fjallar um skyldu skilaskyldra aðila til að skila sundurliðuðum skilagreinum vegna fjármagnstekna um leið og greiðsla er innt af hendi. Til að gefa embætti ríkisskattstjóra og skilaskyldum aðilum tíma til að laga tölvukerfi sín að breytingunni og þar sem greiðslutímabil skattsins er þrír mánuðir, þ.e. janúar–mars, apríl–júní, júlí–september og október–desember og gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar og eindagi 15 dögum síðar, þykir rétt að breytingin taki mið af því og ákvæðið öðlist gildi 1. janúar 2013. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (breytingar er varða framkvæmd o.fl.).

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum sem eru af ólíkum toga en varða flestar framkvæmdaleg atriði.
    Hvað varðar breytingar á lögum um tekjuskatt þá er í fyrsta lagi lagt til að í þeim tilfellum sem einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skuli ákvarða því vaxtabætur eftir þeim reglum sem gilda um hjón, enda liggja fyrir upplýsingar um tekjur beggja. Í öðru lagi er lagt til að mönnum með takmarkaða skattskyldu hér á landi verði heimilt að draga leigugreiðslur af íbúðarhúsnæði erlendis frá leigutekjum af íbúðarhúsnæði hér á landi áður en til skattlagningar leigutekna kemur. Í þriðja lagi er lagt til að í bráðabirgðaákvæði XL verði bætt nýjum málslið þess efnis, að við endurreikning á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga utan atvinnurekstrar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 þar sem dæmt var að fjármálafyrirtæki gætu ekki krafist mismunar á óverðtryggðum Seðlabankavöxtum og samningsvöxtum fyrir tímabil þar sem fullnaðarkvittun eða ígildi hennar lægi fyrir, skuli breytingar á vöxtum sem ákvarðaðar eru af þessum sökum á árunum 2012 og 2013 ekki teljast til tekna. Þessi breyting miðar að því að tryggja að endurreikningur vaxta af þessum lánum hafi ekki skattaleg áhrif og að ekki komi til endurákvörðunar barnabóta og vaxtabóta af þeim sökum. Í fjórða lagi er lagt til að tilvísun í bráðabirgðaákvæði L, um fyrirframgreiðslu sérstaks fjársýsluskatts, verði gerð ítarlegri en nú er. Hvað varðar breytingar á öðrum lögum þá er í fyrsta lagi lögð til breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda sem miðar að því að kveða skýrar á um skyldu milligönguaðila til að halda eftir staðgreiðslu. Í öðru lagi tillaga um breytingu á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur sem skyldar skilaskylda aðila til að sundurliða skilagreinar til skattyfirvalda þannig að rekja megi afdregna staðgreiðslu til þeirra sem eru greiðendur skattsins. Breytingunni er ætlað að auðvelda afstemmingu og skatteftirlit. Í þriðja lagi tillaga um að færa gjalddaga álagðs tryggingagjalds lögaðila frá 1. ágúst til 1. nóvember, til samræmis við það að skattálagning á lögaðila fer fram í október. Í fjórða lagi tillaga um að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að tilkynna erfingjum um lok yfirferðar á erfðafjárskýrslu. Í fimmta lagi er lagt til að lög um umhverfis- og auðlindaskatta verði ótímabundin, en að óbreyttu munu lögin falla úr gildi í árslok 2012.
    Að undanskilinni síðastnefndu tillögunni má gera ráð fyrir að breytingartillögur frumvarpsins muni einungis hafa óveruleg áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Í fjárlögum 2012 eru tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi á fljótandi jarðefnaeldsneyti og skatti af seldri raforku og heitu vatni áætlaðar 5,8 mia.kr. Að óbreyttu mun álagning þessara skatta falla niður í árslok 2012 þar sem lögin eru tímabundin en í frumvarpinu er lagt til að þau verði gerð varanleg sem er í samræmi við ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2012–2015. Þá má gera ráð fyrir að vegna breytingarinnar á bráðabirgðaákvæði XL verði ríkissjóður af lækkun vaxtabóta sem að óbreyttum lögum yrðu ákvarðaðar. Upplýsingar um líklegar fjárhæðir í því sambandi liggja þó ekki fyrir.