Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 421. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1056  —  421. mál.
Svarefnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Lilju Mósesdóttur um innstæður.


    Við vinnslu svars við fyrirspurn þessari var leitað upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu og Tryggingarsjóði innstæðueigenda. Byggist eftirfarandi á upplýsingum frá þeim.

     1.      Hver var upphæð innstæðna almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem ríkisstjórn Íslands skuldbatt sig með yfirlýsingu 6. október 2008 til þess að tryggja að fullu í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum bönkum og sparisjóðum.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárhæðir innstæðna á þeirri dagsetningu sem miðað er við í fyrirspurninni en innstæður innlenda aðila í lok september 2008 voru 1.415 milljarðar kr. og 1.557 milljarðar kr. í lok október 2008. 1 Ekki reyndist unnt að sundurgreina fyrirliggjandi gögn eftir þeirri skiptingu sem beðið er um en í eftirfarandi svörum er leitast við að gefa eins góða mynd og mögulegt er. Innstæður heimila námu 662 milljörðum kr. í lok september 2008 og 717 milljörðum kr. í lok október 2008. Að meðtöldum innstæðum erlendra aðila voru innstæður samtals 1.647 milljarðar kr. í lok október 2008. Ætla má að innstæður erlendra aðila fram að hruni bankanna hafi að meginhluta til verið í útibúum utan Íslands og innstæður innlendra aðila hafi nær eingöngu verið í útibúum hér á landi auk lítils hluta innstæðna erlendra aðila.

     2.      Hvaða aðilar aðrir sem umrædd yfirlýsing tók ekki til fengu innstæður sínar tryggðar að fullu og hver var upphæð þeirra innstæðna?
    Umræddri yfirlýsingu var ekki ætlað að ná til innstæðna í útibúum utan Íslands. Eins og fram kemur í svarinu hér á undan má ætla að meginhluti þeirrar fjárhæðar sem tilgreind er sem innstæður erlendra aðila hafi fram að hruni bankanna verið í útibúum utan Íslands en sú fjárhæð nam 1.710 milljörðum kr. í lok september 2008. Til samanburðar voru innstæður erlendra aðila í lok október 2008 (eftir hrun bankanna) u.þ.b. 90 milljarðar kr. en þær innstæður eru væntanlega innstæður erlendra aðila í útibúum hér á landi. Fram hefur komið í opinberri umfjöllun að eignir þrotabúa gömlu bankanna muni duga til að standa undir a.m.k. höfuðstól innstæðna sem voru í útibúum utan Íslands við fall bankanna.

     3.      Hver var fjöldi eigenda innstæðna sem tryggðar voru að fullu og hvernig skiptust þeir á milli einstakra banka og sparisjóða?
    Fjöldi innlendra aðila er 580 þúsund, bæði einstaklingar og lögaðilar, hjá stóru viðskiptabönkunum. Hjá öðrum innlánsstofnunum eru innlendir aðilar rúmlega 210 þúsund. 2

     4.      Hvernig skiptist upphæð innstæðna sem tryggðar voru að fullu á milli einstaklinga, lífeyrissjóða, ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja?
    Heildarfjárhæð innstæðna innlendra einstaklinga nam um 530 milljörðum kr. og innstæðna innlendra lögaðila um 770 milljörðum kr. 3 Samkvæmt Hagtölum Seðlabanka Íslands áttu lífeyrissjóðir 85,1 milljarða kr. í sjóðum og innstæðum í lok september 2008 en ætla má að meginhluti þeirrar fjárhæðar hafi verið í innstæðum hjá íslenskum innlánsstofnunum. Nánari sundurliðun sem óskað er eftir í fyrirspurninni liggur ekki fyrir. 4

     5.      Hver var upphæð tryggðra innstæðna við fall fjármálakerfisins umfram þá lágmarkstryggingu sem kveðið var á um í 10. gr. laga nr. 98/1999? Hvernig skiptist sú upphæð eftir einstaklingum, lífeyrissjóðum, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum?
    
Fjárhæð umfram lágmarkstryggingu reiknast vera um 320 milljarðar kr. hjá innlendum einstaklingum og um 730 milljarðar kr. hjá innlendum lögaðilum. 5 Nánari sundurliðun sem óskað er eftir í fyrirspurninni liggur ekki fyrir.

     6.      Hver var fjöldi innstæðueigenda sem við fall fjármálakerfisins áttu tryggðar innstæður umfram lágmarkstryggingu? Svar óskast sundurliðað eftir einstaklingum, lífeyrissjóðum, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum.
    Um 42 þúsund innlendir einstaklingar áttu innstæður umfram lágmarkstryggingu og tæplega 10 þúsund innlendir lögaðilar. 6 Nánari sundurliðun sem óskað er eftir í fyrirspurninni liggur ekki fyrir.

     7.      Hversu margir sem lágmarkstrygging náði ekki til nutu aukins forgangs á grundvelli 6. gr. neyðarlaganna og hversu háa upphæð fengu þeir viðurkennda? Svar óskast sundurliðað eftir einstaklingum, lífeyrissjóðum, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum.
    Sé gert ráð fyrir að innstæðueigendur í bæði útibúum hér á landi og útibúum utan Íslands hafi notið forgangs á grundvelli 6. gr. neyðarlaganna þá reiknast fjöldi aðila sem áttu innstæður umfram lágmarkstryggingu vera samtals um 183 þúsund. Nánari sundurliðun sem óskað er eftir í fyrirspurninni liggur ekki fyrir.

     8.      Hversu háa upphæð má ætla að innstæðueigendur hefðu fengið án neyðarlaga í hverjum banka fyrir sig að teknu tilliti til skuldajöfnunar?
    Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn ráðuneytisins um þetta efni kemur fram að FME telji vandkvæðum bundið að svara fyrirspurninni eins og hún er sett fram. Einn skilningur er sá að óskað sé upplýsinga um mismun heildarinnlána og heildarkrafna í hverju og einu fjármálafyrirtæki eftir skuldajöfnun. Ógerningur er að finna mismuninn með tilliti til skuldajöfnunar, annars vegar þar sem öll skilyrði skuldajöfnunar þurfa að vera fyrir hendi og hins vegar þurfa að liggja fyrir upplýsingar um innlán og kröfur sundurgreint eftir kennitölum.
Fylgiskjal I.


Hagtölur Seðlabanka Íslands. 7Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu.


Neðanmálsgrein: 1
    1     Sjá nánar fylgiskjal I, Hagtölur Seðlabanka Íslands.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Í fylgiskjali II má sjá tölur, annars vegar fyrir stóru viðskiptabankana þrjá og hins vegar aðrar innlánsstofnanir, sundurliðaðar á innlenda aðila (e. residents) og erlenda aðila (e. non-residents), sem og eftir einstaklingum og lögaðilum. Fylgiskjal II byggist á upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið aflaði á árinu 2008 og miðast að hluta til við lok júní 2008 og að hluta til við 15. september 2008. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar má ætla að innlendir aðilar samkvæmt fylgiskjali II, auk lítils hluta erlendra aðila, hafi verið í útibúum hér á landi og að meginhluti erlendra aðila samkvæmt fylgiskjali II hafi verið í útibúum utan Íslands. Hafa þarf framangreint í huga varðandi svör við öllum liðum fyrirspurnarinnar.
Neðanmálsgrein: 3
    3     Sjá nánar fylgiskjal II.
Neðanmálsgrein: 4
    4     Munurinn á tölunum hér og í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er að tölur í fylgiskjölunum miðast ekki við sömu dagsetningu, sbr. nánari útskýringar í fylgiskjölunum.
Neðanmálsgrein: 5
    5     Sjá fylgiskjal II.
Neðanmálsgrein: 6
    6     Sama heimild.
Neðanmálsgrein: 7
    7     Upplýsingar í „Hagtölum“ á heimasíðu Seðlabanka Íslands eru ekki sýndar sundurgreindar á einstakar lánastofnanir.