Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 135. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1059  —  135. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100
23. desember 1952, með síðari breytingum (biðtími vegna refsinga o.fl.).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Fanneyju Óskarsdóttur frá innanríkisráðuneyti og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, ríkislögreglustjóranum, ríkissaksóknara, Samtökum kvenna af erlendum uppruna og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952. Frumvarpið var áður lagt fram á 139. löggjafarþingi en varð ekki útrætt (755. mál).
    Samkvæmt gildandi lögum er ráðherra heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun en í þeim tilvikum að skilyrði laganna um veitingu ríkisborgararéttar eru ekki uppfyllt getur umsækjandi öðlast ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi. Helsta breyting frumvarpsins lýtur að því að auka heimildir ráðherra til að veita íslenskan ríkisborgararétt (með stjórnvaldsákvörðun) þegar umsækjandi hefur sætt sektarrefsingum.
    Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting í þá veru að skipta sektarfjárhæðum í flokka eftir fjárhæð og getur umsækjandi öðlast ríkisborgararétt að liðnum ákveðnum tíma frá því að brot var framið en biðtími ræðst af því hversu há sektin er. Sem dæmi má nefna að hafi umsækjandi hlotið sekt sem nemur lægri fjárhæð en 50 þús. kr. er mælt fyrir um að biðtíminn sé enginn en samkvæmt gildandi lögum er biðtíminn í slíku tilviki eitt ár. Þá er mælt fyrir um að tvö ár þurfi að líða frá broti hafi umsækjandi þurft að sæta sekt að fjárhæð frá 101 þús. kr. til 200 þús. kr. Í gildandi lögum er í slíkum tilvikum mælt fyrir um þriggja ára biðtíma. Ákvæðið er sett upp í töflu sem eykur skýrleika greinarinnar.
    Einnig eru lagðar til fleiri breytingar á þeirri grein laganna er varðar umsækjendur sem hafa sætt sektum eða fangelsisrefsingu. Lögð er til breyting á biðtíma þegar umsækjandi hefur hlotið skilorðsbundinn dóm. Lagt er til að biðtími allra skilorðsbundinna dóma verði þrjú ár frá því að skilorðstími er liðinn en samkvæmt gildandi lögum getur biðtíminn orðið allt að 14 ár. Einnig er lögð til breyting á biðtíma þegar ákvörðun um refsingu er frestað skilorðsbundið. Lagt er til að biðtíminn í þeim tilvikum verði tvö ár frá því að skilorðstími er liðinn. Þá er gert ráð fyrir því að ráðherra verði veitt heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt þó svo að umsækjandi hafi framið fleiri en eitt brot svo fremi að hann hafi aðeins sætt sektarrefsingum og samanlögð fjárhæð sekta er lægri en 101 þús. kr. en þá þarf að líða eitt ár frá því að síðasta brot var framið.
    Til viðbótar við framangreint má nefna að lagt er til að lögfest verði regla sem hefur verið fylgt í framkvæmd, þ.e. að biðtími vegna sektar verði ekki virkur nema hún hafi verið greidd eða fullnustuð með öðrum hætti. Sömuleiðis er hnykkt á því í frumvarpinu að heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt byggist á því að önnur gögn sem varða umsækjanda uppfylli skilyrði laganna.
    Þá eru í 1. gr. lagðar til tvenns konar breytingar á 8. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að hnykkt verði á því í 2. tölul. 1. mgr. að umsækjandi í hjúskap sé raunverulega í samvistum við maka sinn. Hins vegar er lagt til að hluti af 3. tölul. sömu greinar falli brott til að greinin samræmist ákvæðum lögheimilislaga, sbr. 3. mgr. 7. gr. þeirra laga.
    Jafnframt er lagt til að tímabundið ákvæði til bráðabirgða við lögin verði endurvakið þannig að heimilt verði að endurveita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem hafa misst íslenskan ríkisborgararétt við það að sækja um annað ríkisfang. Það skilyrði er sett fyrir endurveitingu ríkisborgararéttar samkvæmt þessu ákvæði að fullnægjandi gögn hafi borist ráðuneytinu fyrir 1. júlí 2015. Nefndin leggur til að dagsetningunni verði breytt í 1. júlí 2016 til að gefa viðkomandi umsækjendum ögn rýmri tíma til að bregðast við.
    Í 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt er kveðið á um að eitt þeirra skilyrða sem umsækjandi þarf að uppfylla til að geta öðlast íslenskan ríkisborgararétt sé að hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem ráðherra setur í reglugerð. Í greininni er einnig mælt fyrir um að í reglugerðinni skuli mælt fyrir um undanþágur frá skilyrði um íslenskupróf fyrir þá sem telja verður ósanngjarnt að gera slíka kröfu til. Ákvæði þetta var lögfest með lögum nr. 81/2007 um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að þeim lögum kemur fram að rétt þyki að lögfesta ekki ákveðnar kröfur um íslenskupróf heldur veita ráðherra heimild til að útfæra þær í reglugerð í ljósi þeirrar reynslu sem muni fást af prófunum. Hvað varðar lögmæltan möguleika á undanþágu frá þessu skilyrði er tekið fram í athugasemdunum að undanþágur komi einkum til greina þegar um er að ræða umsækjendur sem hafa flust til landsins nokkuð eftir miðjan aldur auk þeirra sem búa við einhvers konar fötlun þannig að krafa um íslenskupróf teljist óraunhæf. Um íslenskuprófin hefur ráðherra sett reglugerð um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 1129/2008. Þar er í 2. gr. mælt fyrir um undanþágur frá skilyrði um að hafa staðist próf í íslensku í nokkrum tilvikum. Við umfjöllun um frumvarp sama efnis á 139. löggjafarþingi var hvatt til þess að framangreind reglugerð yrði endurskoðuð. Einnig var fjallað um íslenskuprófin við meðferð málsins í nefndinni nú. Vísað var til þess að tryggja þyrfti ólæsum einstaklingum lestrar- og íslenskukennslu. Einnig var bent á að þeir sem þekktu ekki latneskt letur og/eða germönsk tungumál ættu fremur í erfiðleikum með að standast prófin auk þess sem margir hverjir sem kæmu fullorðnir til landsins hefðu e.t.v. enga formlega menntun hlotið á ævinni. Vísað var til þess að bjóða þyrfti reglulega upp á námskeið sem miðist við getu viðkomandi umsækjenda til að læra nýtt tungumál. Þá var bent á að gagnlegt væri að fræða umsækjendur um íslenskt samfélag, lagaumhverfi, réttindi og skyldur o.fl. Nefndin bendir á meginreglu íslensks skólakerfis um einstaklingsmiðað nám og hvetur ráðherra til þess að skoða framangreind atriði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2015“ í 3. gr. komi: 1. júlí 2016.

    Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. mars 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Eygló Harðardóttir.


Birgitta Jónsdóttir.