Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 660. máls.

Þingskjal 1060  —  660. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum (áburðareftirlit, fóðureftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. a laganna:
     a.      Við bætist ný skilgreining á viðeigandi stað í stafrófsröð, svohljóðandi: Dreifing er hvers konar flutningur, framboð og afhending, þar með talið innflutningur, útflutningur og sala. Hér er einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu.
     b.      Í stað skilgreiningarinnar Markaðssetning fóðurs kemur ný skilgreining, svohljóðandi: Markaðssetning fóðurs, áburðar eða sáðvöru er að hafa umráð yfir fóðri, áburði eða sáðvöru með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða vöruna til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Matvælastofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum.
    Framsal skv. 2. mgr. getur líka tekið til ákvarðana um þvingunarúrræði og viðurlög skv. 9. gr. og 9. gr. a – 9. gr. e og gjaldtöku fyrir eftirlitið skv. 8. gr.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd framsals á eftirliti.

3. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Fóðurfyrirtæki sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur, framleiða lyfjablandað fóður eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun og skulu þau sækja um starfsleyfi áður en starfsemi hefst.

4. gr

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtæki sem skráir vöru hjá Matvælastofnun er ábyrgt fyrir því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu og ber að veita allar nauðsynlegar upplýsingar vegna vörulýsingarinnar.

5. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    7. gr. h laganna orðast svo:
    Fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við sýnatöku, rannsóknir og greiningu á fóðri skulu tilkynna Matvælastofnun ef í fóðri eða umhverfissýnum, sem tekin eru í eða við fóður- eða matvælafyrirtæki, greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.

7. gr

    Á eftir 7. gr. j laganna kemur nýr kafli, IV. kafli, Reglur um áburð, með fimm nýjum greinum, 7. gr. k – 7. gr. o, svohljóðandi, og breytast önnur kaflanúmer samkvæmt því:

    a. (7. gr. k.)
    Áburðarfyrirtæki skal leggja fram vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar. Vottorð þetta skal lagt fram árlega til staðfestingar á niðurstöðum mælinga á þeim áburðartegundum sem eru markaðssettar.
    Hámark kadmíuminnihalds í áburði skal ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur.

    b. (7. gr. l.)
    Verði breyting á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðar skal slík breyting tafarlaust tilkynnt Matvælastofnun sem tekur ákvörðun um það hvort varan verði afskráð eða haldi skráningu sinni skv. 5. gr. og þá með hvað skilyrðum.
    Í þeim tilvikum þegar áburður hefur verið afskráður hefur Matvælastofnun heimild til að stöðva markaðssetningu áburðarins að nýju, eftir að varan er komin til landsins, þar til Matvælastofnun hefur staðfest með sýnatöku að varan sé í samræmi við skráða vörulýsingu, framlögð vottorð eða aðrar upplýsingar um vöruna.

    c. (7. gr. m.)
    Ef stjórnandi áburðarfyrirtækis álítur eða hefur ástæðu til að álíta að áburður, sem hann hefur flutt inn, framleitt, unnið eða dreift, sé ekki í samræmi við kröfur um efnainnihald, eiginleika áburðarins samkvæmt vörulýsingu eða öryggi, skal hann tafarlaust tilkynna það til Matvælastofnunar, gera ráðstafanir til úrbóta og taka umræddan áburð af markaðnum ef hann telst ekki öruggur til notkunar. Áburður telst ekki öruggur ef notkun hans getur haft áhrif á heilbrigði dýra eða plantna eða orðið þess valdandi að matjurtir eða dýraafurðir verða óhæfar til manneldis. Stjórnandinn skal, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem þegar hafa verið afhentar. Ef framleiðslueiningin, lotan eða vörusendingin stenst ekki fyrrgreindar kröfur skal farga áburðinum eða endursenda nema Matvælastofnun fallist á aðra lausn. Stjórnandi skal án tafar upplýsa notendur áburðarins á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að varan uppfyllti ekki kröfur, var tekin af markaðnum eða innkölluð.

    d. (7. gr. n.)
    Stjórnandi áburðarfyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar í fyrirtæki undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.

    e. (7. gr. o.)
    Áburðareftirlit skal m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat. Stjórnendur áburðarfyrirtækja skulu innleiða, koma á og viðhalda framleiðsluaðferðum sem byggjast á meginreglum um áhættugreiningu.

8. gr.

    8. gr. a laganna orðast svo:
    Ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða vegna framkvæmdar á lögum þessum, svo og vegna skráningar, og móttöku umsókna og tilkynninga. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem hlýst af útgáfu starfsleyfa og vottorða, skráningu og móttöku umsókna og tilkynninga og leyfisveitingum og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

9. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Einnig er Matvælastofnun heimilt að gefa fyrirmæli um afmengun fóðurs, áburðar eða sáðvöru, stöðva eða takmarka framleiðslu, afskrá vöruna, stöðva inn- og útflutning eða markaðssetningu og innkalla af markaði og leggja hald á slíka vöru þegar rökstuddur grunur er um að hún sé ekki í samræmi við vörulýsingu eða uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

10. gr.

    9. gr. d laganna orðast svo:
    Ákvarðanir Matvælastofnunar má kæra til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

11. gr.

    Í stað 9. gr. e laganna koma fimm nýjar greinar sem verða 9. gr. e – 9. gr. i, svohljóðandi:

    a.     (9. gr. e.)
    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:
     a.      tilkynningarskyldu eða starfsleyfisskyldu skv. 4. gr. eða skilyrðum sem Matvælastofnun hefur sett skv. 2. mgr. 4. gr.,
     b.      skráningarskyldu vörunnar og ábyrgð á því að efnainnihald og eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu skv. 5. gr.,
     c.      banni við notkun dýrapróteins úr aukaafurðum úr dýrum í fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru upp til manneldis skv. 7. gr. b,
     d.      banni við markaðssetningu fóðurs og áburðar sem ekki uppfyllir kröfur um öryggi skv. 7. gr. a og 7. gr. m,
     e.      skyldu til innköllunar fóðurs og áburðar og tilkynningarskyldu stjórnenda skv. 7. gr. e og 7. gr. m,
     f.      tilkynningarskyldu vegna greininga á örverum í fóðri og umhverfissýnum sem varða tilkynningarskylda matarsjúkdóma skv. 7. gr. h.
    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

    b.     (9. gr. f.)
    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn sakamáls að undangenginni kæru Matvælastofnunar til lögreglu.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Matvælastofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Matvælastofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Matvælastofnun á hvaða stigi málsins sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til opinberrar rannsóknar. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Matvælastofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Matvælastofnunar um að kæra mál til lögreglu.
    Matvælastofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Matvælastofnun er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Matvælastofnun í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Matvælastofnunar sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Matvælastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.

    c.     (9. gr. g.)
    Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn:
     a.      tilkynningar- eða starfsleyfisskyldu skv. 4. gr. eða skilyrðum sem Matvælastofnun hefur sett skv. 2. mgr. 4. gr.,
     b.      tilkynningar- og skráningarskyldu vörunnar og ábyrgð á því að efnainnihald og eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu skv. 5. gr.,
     c.      banni við markaðssetningu fóðurs og áburðar sem ekki uppfyllir kröfur um öryggi skv. 7. gr. a og 7. gr. m,
     d.      banni við notkun dýrapróteins úr aukaafurðum úr dýrum í fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru upp til manneldis skv. 7. gr. b,
     e.      skyldu til innköllunar fóðurs og áburðar og tilkynningarskyldu stjórnenda skv. 7. gr. e og 7. gr. m,
     f.      skyldu til að rekja feril dýrafóðurs skv. 7. gr. f,
     g.      tilkynningarskyldu vegna greininga á örverum í fóðri og umhverfissýnum sem varða tilkynningarskylda matarsjúkdóma skv. 7. gr. h,
     h.      tilkynningarskyldu vegna innflutnings frá þriðju ríkjum skv. 7. gr. i,
     i.      skyldu til að leggja fram vottorð um kadmíuminnihald eða markaðssetningu áburðar sem inniheldur áburð með hærra kadmíuminnihald en leyfilegt er skv. 7. gr. k,
     j.      tilkynningarskyldu vegna innflutnings áburðar skv. 7. gr. m,
     k.      ákvæðum varðandi kröfur um starfsemi fóður- og áburðarfyrirtækja skv. 7. gr. d og 7. gr. n.
    Ráðherra getur í reglugerð ákveðið fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
    Hafi fjárhæð sekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun sekta m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins og hvort hægt hafi verið að koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast af broti. Skal fjárhæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þó innan þess ramma sem ákveðinn er í 4. mgr.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 25.000 kr. til 25.000.000 kr.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga hennar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga hennar. Ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla.
    Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.

    d.     (9. gr. h.)
    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Matvælastofnunar á grundvelli þeirra er Matvælastofnun heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Matvælastofnun setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

    e.     (9. gr. i.)
    Heimild Matvælastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Matvælastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum. Annars vegar er lagt til að við lögin bætist nýr kafli sem fjallar um ábyrgð stjórnenda áburðarfyrirtækja og áburðareftirlit og hins vegar ýmis ákvæði sem gilda eiga um fóður, áburð og sáðvöru og reynslan hefur sýnt að þörf er á vegna eftirlits með þessum vörum. Þannig er lagt til í frumvarpinu að lögfest verði ný ákvæði en jafnframt lagt til að núverandi lagaákvæði verði gerð ítarlegri eða þau skýrð nánar til þess að taka af öll tvímæli um túlkun þeirra. Frumvarpið er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í samráði við Matvælastofnun.

A.     Eftirlit með áburði.
    Samkvæmt EES-samningnum fengu EFTA-ríkin heimild til að takmarka aðgang að mörkuðum sínum með tilvísun til hámarks kadmíums í tilbúnum áburði í samræmi við þau ákvæði landslaga sem voru í gildi daginn sem samningurinn tók gildi. Ákvæði um hámark kadmíums í tilbúnum áburði eru í reglugerð nr. 630/2007 en þar segir í 3. gr. um staðfestingu kadmíuminnihalds:

    „Magn af kadmíum í ólífrænum áburði, sem inniheldur fosfór, má ekki fara yfir 50 mg kadmíum (Cd) pr. kg fosfór (P) (eða 22 mg Cd pr. kg P 2O 5). Sama gildir um ólífrænan áburð í blöndum.
    Við skráningu skal leggja fram yfirlýsingu um kadmíuminnihald í ólífrænum áburði með fosfór. Í yfirlýsingu skal eftirfarandi koma fram:
     a.      Lýsing á viðkomandi áburði.
     b.      Staðfesting á að áburður innihaldi minna en 50 mg Cd pr. kg P (eða 22 mg Cd pr. kg P 2O 5).
     c.      Undirskrift frá framleiðanda eða þeim aðila sem ber ábyrgð á dreifingu og sölu á áburðinum.
    Yfirlýsing þessi skal fylgja á öllum heildsölustigum og hefur kaupandi rétt á að sjá hana.“

    Samkvæmt sbr. 5. gr. núgildandi laga nr. 22/1994 er allur áburður sem fluttur er til landsins skráður hjá Matvælastofnun, og jafngildir slík skráning leyfi til markaðssetningar hér á landi (söluleyfi). Aðeins áburður sem lýst er á fullnægjandi hátt fæst skráður hjá stofnuninni. Við skráningu skal fylgja yfirlýsing um að varan uppfylli tilteknar kröfur, m.a. íslenskar kröfur um kadmíuminnihald, sbr. reglugerð nr. 630/2007. Skráning áburðar, þ.e. söluleyfi, gildir þar til umræddur áburður er afskráður. Söluleyfi gildir þannig árum saman. Samkvæmt núverandi verklagi afskráir Matvælastofnun áburð ef hann fer yfir hámarksmörk og leggur um leið faglegt mat á það hvort tilefni sé til innköllunar. Samkvæmt verklaginu er áburður ekki endurskráður fyrr en niðurstöður rannsókna liggja fyrir sem sýna að áburðurinn sé í samræmi við lagaákvæði og vörulýsingar og þurfa slíkar rannsóknir að liggja fyrir áður en áburðurinn er afhentur kaupendum. Þetta verklag er nauðsynlegt svo að mengaður áburður komist ekki aftur í dreifingu. Áburðarfyrirtæki hafa hins vegar sett fram efasemdir um heimildir Matvælastofnunar til að krefjast sýnatöku og rannsóknar á áburði áður en honum er dreift til kaupenda eftir nýskráningu.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að lagaheimildir verði styrktar og þær gerðar skýrar og ótvíræðar hvað varðar heimildir Matvælastofnunar vegna eftirlits með áburði. Frumvarpið kveður á um eftirfarandi breytingar:
    Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli með fimm nýjum ákvæðum um áburð. Gert er ráð fyrir skýrri heimild fyrir Matvælastofnun til að krefja áburðarfyrirtæki um vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar.
    Lagt er til nýtt ákvæði sem gerir ráð fyrir skýrri heimild fyrir Matvælastofnun til að afskrá áburð vegna breytinga á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðarins.
    Kveðið er skýrt á um að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á tilkynningu til Matvælastofnunar ef áburður samræmist ekki kröfum um efnainnihald, eiginleika áburðarins samkvæmt vörulýsingu eða öryggi. Stjórnandinn skal gera ráðstafanir til úrbóta. Ef áburðurinn telst ekki öruggur til notkunar skal hann taka umræddan áburð af markaði. Samkvæmt ákvæðinu telst áburður ekki öruggur ef notkun hans getur haft áhrif á heilbrigði dýra eða plantna eða orðið þess valdandi að matjurtir eða dýraafurðir verða óhæfar til manneldis. Stjórnandinn skal jafnframt, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem hafa þegar verið afhentar. Samkvæmt ákvæðinu skal stjórnandi áburðarfyrirtækis án tafar upplýsa notendur áburðarins á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að varan uppfyllti ekki kröfur, var tekin af markaðnum eða innkölluð.
    Í frumvarpinu er áréttað að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar í fyrirtæki undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt. Ákvæðið kveður skýrt á um ábyrgð stjórnanda áburðarfyrirtækis sem skilgreindur er í 9. tölul. 2. gr. a. Stjórnanda ber jafnframt að sanna að hann hafi farið að lögum og stjórnvaldsreglum sem gilda um starfsemina. Þetta ákvæði er samhljóða 7. gr. d laganna sem gildir um fóður.
    Í frumvarpinu er það nýmæli að áburðareftirlit skuli m.a. byggjast á áhættugreiningu. Skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Byggt skal á meginreglum um áhættugreiningu sem skilgreind er í 3. tölul. 2. gr. a laganna.

B.     Önnur ákvæði frumvarpsins.
    
Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði nokkrar aðrar breytingar á lögum nr. 22/1994. Hér er um að ræða ný lagaákvæði sem reynsla hefur sýnt að þörf er á við fóður-, áburðar- eða sáðvörueftirlit, sbr. 2., 4. og 11. gr. frumvarpsins. Jafnframt er um að ræða lagaákvæði sem reynsla hefur sýnt að gera þarf ítarlegri eða skýrari, sbr. 3., 6., 8., 9. og 10. gr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Matvælastofnun sé heimilt að framselja ákveðin verkefni sem nú eru á verksviði Matvælastofnunar til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Sambærilegt ákvæði um framsal er í lögum nr. 93/1995, um matvæli, þar sem um er að ræða gagnkvæmt framsal á eftirlitsverkefnum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna og Matvælastofnunar.
    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um að þau fóðurfyrirtæki sem framleiða lyfjablandað fóður skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Núverandi starfsemi hérlendra fóðurfyrirtækja hefur ekki falið í sér þess háttar starfsemi en þó er nauðsynlegt að gera ráð fyrir að slík starfsemi verði stunduð hérlendis.
    Í 5. gr. laganna er fjallað um skráningu fóður-, áburðar- og sáðvöru en slíka vöru er óheimilt að flytja til landsins án tilkynningar og skráningar hjá Matvælastofnun. Matvælastofnun staðfestir skráningu ef efnainnihaldi og eiginleikum vörunnar er lýst á fullnægjandi hátt. Frumvarpið gerir ráð fyrir því í 4. gr. að við 5. gr. laganna bætist ein ný málsgrein þar sem áréttuð er ábyrgð fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu skv. 1. mgr. 5. gr. laganna. Jafnframt er kveðið skýrt á um upplýsingaskyldu fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis vegna skráningar vörunnar.
    Lagt er til að fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við sýnatöku, rannsóknir og greiningu á fóðri tilkynni Matvælastofnun ef í umhverfissýnum, sem tekin eru í eða við fóðurfyrirtæki, greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum. Í gildandi ákvæði laganna er einungis kveðið á um fóðursýni en ekki umhverfissýni.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á efnisákvæðum 2. mgr. 9. gr. laganna um þvingunarúrræði Matvælastofnunar. Í ákvæðinu er sérstaklega fjallað um heimildir Matvælastofnunar til að afskrá vöru, stöðva inn- og útflutning vöru og innkalla vöru af markaði svo dæmi séu tekin. Ákvæðið er þannig gert skýrara og tekin af öll tvímæli um heimildir Matvælastofnunar og gildissvið ákvæðisins. Frumvarpið fellir brott 2. mgr. 6. gr. laganna en efni ákvæðisins er fellt undir 2. mgr. 9. gr. Markmið með brottfalli ákvæðisins er að samræma efnisákvæði laganna um þvingunarúrræði.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að Matvælastofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brjóta gegn tilteknum bannákvæðum laganna eða ákvörðunum teknum samkvæmt þeim. Slík ákvæði eru nú í ýmsum lögum og því eðlilegt að Matvælastofnun fái slíkar heimildir með sama hætti og aðrir eftirlitsaðilar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ákvæði um refsiviðurlög verð gerð skýrari og samræmd sambærilegum ákvæðum í öðrum lögum. Þannig eru tiltekin brot gegn ákvæðum laganna lýst refsiverð og er sú háttsemi tilgreind sérstaklega. Gert er ráð fyrir því að aðeins alvarlegustu brot á lögunum verði gerð refsiverð.

C.     Áhrif frumvarpsins.
Ákvæði um áburð.
    
Ákvæði frumvarpsins um áburð hafa það annars vegar að markmiði að gera ákvæði laganna skýrari og ótvíræðari og hins vegar lögbinda ný lagaákvæði sem kveða á um skyldu framleiðanda eða dreifingaraðila áburðar til framlagningar vottorða vegna kadmíums í áburði, skyldu til tilkynningar til Matvælastofnunar, heimild Matvælastofnunar til að afskrá áburð og skyldu til þess að stöðva markaðssetningu áburðar. Jafnframt er áréttað í frumvarpinu að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um framleiðslu þess á hverjum tíma og að stjórnandinn beri sönnunarbyrðina fyrir því að svo sé. Gert er ráð fyrir því að þessar lagabreytingar skýri núverandi réttarstöðu og eyði óvissu um túlkun. Þannig muni breytingarnar að einhverju leyti spara kostnað og tíma bæði eftirlitsþola og eftirlitsaðila. Gert ráð fyrir að þetta áburðareftirlit Matvælastofnunar verði með sama hætti og áður.

Ákvæði um fóður.
    
Í 2. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði um framsal fóðureftirlits. Þannig er gert ráð fyrir að Matvælastofnun sé heimilt að framselja ákveðin verkefni vegna fóðureftirlits sem nú eru á verksviði Matvælastofnunar til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Ef af slíku framsali verður gildir gjaldskrá Matvælastofnunar vegna slíkra framseldra verkefna þannig að enginn kostnaður á að falla á heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna vegna þessa. Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um að þau fóðurfyrirtæki sem framleiða lyfjablandað fóður skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á rekstur núverandi fóðurfyrirtækja þar sem þessi starfsemi er ekki stunduð hérlendis en til þess getur komið í framtíðinni. Skv. 6. gr. frumvarpsins er lögð skylda á aðila til að taka umhverfissýni auk fóðursýna vegna eftirlits með tilkynningarskyldum sjúkdómum samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga. Þessi skylda til sýnatöku gæti haft kostnað í för með sér fyrir fóðurfyrirtæki. Einhver fóðurfyrirtæki hafa tekið umhverfissýni og því mun þessi breyting á lögunum ekki leiða til aukins kostnaðar fyrir þau.

Ákvæði um fóður, áburð og sáðvöru.
    Önnur ákvæði frumvarpsins gilda almennt um fóður, áburð eða sáðvöru. Í 4. gr. frumvarpsins er áréttuð ábyrgð fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu og í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um stjórnsýslusektir og refsiviðurlög vegna brota á lögunum. Þessi ákvæði gera eftirlit samkvæmt lögunum skilvirkara en fela ekki í sér aukinn kostnað eftirlitsaðila. Sama á við um 9. gr. frumvarpsins sem breytir 2. mgr. 9. gr. laganna um þvingunarúrræði Matvælastofnunar. Í 8. og 10. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á núverandi lagaákvæðum en reynslan hefur sýnt að þessi ákvæði má gera ítarlegri og þannig skýrari. Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði ef 8. og 10 gr. frumvarpsins verða að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið er lagt til að hugtakið „dreifing“ verði skilgreint í lögunum með samsvarandi hætti og í lögum nr. 93/1995, um matvæli. Hugtakið kemur fyrir í nokkrum ákvæðum laga nr. 22/1994, svo sem í 7 gr. d, 7 gr. e og 7 gr. f og í skilgreiningu hugtaksins „markaðssetning fóðurs“.
    Hugtakið „markaðssetning fóðurs“ er skilgreint í 7. tölul. 2. gr. a laganna. Lagt er til í b- lið að gildissvið skilgreiningarinnar ná einnig til áburðar og sáðvöru. Hugtakið er notað fyrir áburð og sáðvöru auk fóðurs í 7. gr. og 2. mgr. 9. gr.

Um 2. gr.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Matvælastofnun sé heimilt að framselja ákveðin verkefni sem nú eru á verksviði Matvælastofnunar til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Slíkt framsal getur falið í sér ákvörðun um þvingunarúrræði og gjaldtöku fyrir eftirlitið. Sambærilegt ákvæði er að finna í 3. og 4. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Sem dæmi um verkefni sem hægt væri að framselja til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna er eftirlit með afurðum og afgangsefnum sem t.d. bakarí og brugghús afhenda sem fóður, en heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna hafa eftirlit með slíkum fyrirtækjum lögum samkvæmt.

Um 3. gr.

    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007 var tilskipun ráðsins 90/167/ EBE, um skilyrði sem hafa áhrif á blöndun, markaðssetningu og notkun lyfjablandaðs fóðurs í bandalaginu, tekin upp í EES-samninginn 1. maí 2010. Tilskipun þessi er innleidd í íslenskan rétt með lyfjalögum en velferðarráðuneytið fer með lyfjaeftirlit í landinu. Matvælastofnun fer hins vegar með eftirlit með því að fóður uppfylli kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Þetta eftirlit Matvælastofnunar nær einnig til lyfjablandaðs fóðurs. Í samræmi við ákvæði í tilskipuninni er því nauðsynlegt að kveða skýrt á um starfsleyfisskyldu þeirra fóðurfyrirtækja sem framleiða lyfjablandað fóður.

Um 4. gr.

    Í 5. gr. laganna er fjallað um skráningu fóðurs, áburðar og sáðvöru en slíkar vörur er óheimilt að flytja til landsins án þess að tilkynna þær fyrst og láta skrá hjá Matvælastofnun sem staðfestir ef efnainnihaldi og eiginleikum vörunnar er lýst á fullnægjandi hátt. Lagt er til að við 5. gr. bætist ein ný málsgrein þar sem áréttuð er ábyrgð fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu skv. 1. mgr. 5. gr. laganna. Jafnframt er kveðið skýrt á um upplýsingaskyldu fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis sem ber að veita Matvælastofnun allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna efnainnihalds, eiginleika og annarra þátta sem skipta máli vegna lýsingar vörunnar.

Um 5. gr.

    Ákvæðið fellir brott 2. mgr. 6. gr. laganna sem segir: „Komi í ljós að vara uppfylli ekki uppgefnar vörulýsingar getur Matvælastofnun krafist stöðvunar á dreifingu og sölu vörunnar.“ Efnisákvæði 2. mgr. 9. gr. laganna sem breytt er með 9. gr. þessa frumvarps nær til sömu þvingunaraðgerða og eru tilgreindar í 2. mgr. 6. gr. og því er ekki þörf á ákvæðinu.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við sýnatöku, rannsóknir og greiningu á fóðri skuli tilkynna Matvælastofnun ef í fóðri eða umhverfissýnum, sem tekin eru í eða við fóður- eða matvælafyrirtæki, greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/ 1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum. Í gildandi 7. gr. h er einungis kveðið á um sýnatöku vegna fóðurs en ekki úr umhverfi. Í ljósi reynslu af sýnatöku vegna salmonelluörvera í fóðri þykir nauðsynlegt að gildissvið ákvæðisins nái einnig til sýna sem tekin eru í innra og ytra umhverfi fóður- og matvælafyrirtækja sem fóðri er dreift til.

Um 7. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli með fimm nýjum ákvæðum, 7. gr. k – 7. gr. o.
     Um a-lið (7. gr. k).
    Í ákvæðinu er kveðið á um skýrar heimildir fyrir Matvælastofnun til að krefja áburðarfyrirtæki um vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar. Ekki er þörf á að afskrá viðkomandi vöru enda skal vottorð þetta lagt fram árlega til staðfestingar á niðurstöðum mælinga á þeim áburðartegundum sem fluttar eru inn. Núverandi heimild Matvælastofnunar er í reglugerð nr. 630/2007. Jafnframt er skýrt kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerðarákvæði um hámark kadmíuminnihalds í áburði.
     Um b-lið (7. gr. l).
    Um er að ræða viðbót við lögin sem kveður á um tilkynningarskyldu áburðarfyrirtækis verði breyting á efnainnihaldi eða eiginleikum áburðar. Matvælastofnun getur síðan á grundvelli slíkrar tilkynningar tekið ákvörðun um það hvort varan verði afskráð eða haldi skráningu sinni skv. 5. gr. og þá með hvað skilyrðum. Ákvæðið gerir þannig ráð fyrir skýrri heimild fyrir Matvælastofnun til að afskrá áburð vegna breytinga á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðarins. Í þeim tilvikum þegar áburður hefur verið afskráður hefur Matvælastofnun heimild til að stöðva markaðssetningu áburðarins að nýju. Þetta má stofnunin gera enda þótt áburðurinn sé kominn til landsins. Slík stöðvun á markaðssetningu gildir þar til Matvælastofnun hefur staðfest með sýnatöku að varan sé í samræmi við skráða vörulýsingu, framlögð vottorð eða aðrar upplýsingar um vöruna. Ef greining sýnir að áburðurinn uppfyllir ekki skráða vörulýsingu, framlögð vottorð eða aðrar upplýsingar um vöruna ber að hafna skráningu vörunnar eða breyta skráningu eftir atvikum.
     Um c-lið (7. gr. m).
    Um er að ræða nýtt ákvæði um ábyrgð stjórnanda áburðarfyrirtækis sem er að nokkru leyti sambærilegt við 7. gr. e laganna en það ákvæði fjallar um ábyrgð stjórnanda fóðurfyrirtækis vegna fóðurs. Samkvæmt ákvæðinu ber stjórnandi áburðarfyrirtækis ábyrgð á tilkynningu til Matvælastofnunar ef áburður samræmist ekki kröfum um efnainnihald, eiginleika áburðarins samkvæmt vörulýsingu eða öryggi. Stjórnandinn skal gera ráðstafanir til úrbóta. Ef áburðurinn telst ekki öruggur til notkunar skal hann taka umræddan áburð af markaði. Samkvæmt ákvæðinu telst áburður ekki öruggur ef notkun hans getur haft áhrif á heilbrigði dýra eða plantna eða orðið þess valdandi að matjurtir eða dýraafurðir verða óhæfar til manneldis. Stjórnandinn skal jafnframt, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem hafa þegar verið afhentar. Ef framleiðslueiningin, lotan eða vörusendingin stenst ekki fyrrgreindar kröfur skal farga áburðinum eða endursenda nema Matvælastofnun fallist á aðra lausn. Samkvæmt ákvæðinu skal stjórnandi áburðarfyrirtækis án tafar upplýsa notendur áburðarins á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að varan uppfyllti ekki kröfur, var tekin af markaðnum eða innkölluð.
     Um d-lið (7. gr. n).
    Í þessu ákvæði er áréttað að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar í fyrirtæki undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt. Ákvæðið kveður skýrt á um ábyrgð stjórnanda áburðarfyrirtækis sem skilgreindur er í 9. tölul. 2. gr. a. Stjórnanda ber jafnframt að sanna að hann hafi farið að lögum og stjórnvaldsreglum sem gilda um starfsemina. Þetta ákvæði er samhljóða 7. gr. d laganna sem gildir um fóður.
     Um e-lið (7. gr. o).
    Í ákvæðinu kemur fram að áburðareftirlit skuli m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Byggt skal á meginreglum um áhættugreiningu sem skilgreind er í 3. tölul. 2. gr. a.
    Opinbert áburðareftirlit skal framkvæmt með viðeigandi aðferðum sem þróaðar hafa verið í þeim tilgangi, þ.m.t. kerfisbundinni vöktun og eftirliti, svo sem skoðunum, sannprófunum, úttektum og töku og prófun sýna.

Um 8. gr.

    Við ákvæðið er bætt heimild ráðherra til þess að setja gjaldskrá vegna raunkostnaðar vegna skráningar og móttöku tilkynninga sem berast Matvælastofnun en ákvæðið kveður einungis á um skráningu og móttöku umsókna sem berast stofnuninni. Samkvæmt íslenskum rétti þurfa lagaheimildir vegna gjaldtöku opinberra aðila að tilgreina með skýrum hætti þau verk eða gögn sem heimilt er að krefjast greiðslu fyrir úr hendi eftirlitsþola. Þar sem lögin setja þá skyldu á Matvælastofnun að afgreiða ýmiss konar tilkynningar er lagt til að gerð verði breyting á umræddu lagaákvæði þannig að stofnuninni verði heimilt að innheimta allt að raunkostnaði vegna slíkrar vinnu. Hér er sem fyrr gengið út frá því að kostnaður við eftirlit og umsýslu sé greiddur af hlutaðeigandi fyrirtækjum og einungis sé heimilt að innheimta raunkostnað sem hlýst af eftirliti eða umsýslu Matvælastofnunar.

Um 9. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna. Lagt er til að Matvælastofnun hafi ekki einungis heimild til að krefjast afmengunar fóðurs heldur einnig áburðar eða sáðvöru. Sérstaklega er kveðið á um það í ákvæðinu að Matvælastofnun geti krafist afskráningar fóðurs, áburðar eða sáðvöru þegar rökstuddur grunur er um að varan uppfylli ekki ákvæði í vörulýsingu eða ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Talið er rétt að árétta þá heimild Matvælastofnunar að afskrá vöru þegar hún uppfyllir ekki vörulýsingu. Matvælastofnun hefur slíka heimild skv. 5. gr. núgildandi laga sem segir að Matvælastofnun skuli aðeins skrá vörur er hefur verið lýst á fullnægjandi hátt.
    Frumvarpið fellir brott 2. mgr. 6. gr. sem er svohljóðandi: „Komi í ljós að vara uppfylli ekki uppgefnar vörulýsingar getur Matvælastofnun krafist stöðvunar á dreifingu og sölu vörunnar.“ Ákvæði 2. mgr. 6. gr. er fellt brott þar sem 2. mgr. 9. gr. gildir um stöðvun á dreifingu og sölu vöru ef hún uppfyllir ekki uppgefnar vörulýsingar enda er markaðssetningin meðal annars skilgreind sem dreifing vöru. Þrátt fyrir að inn- og útflutningur falli undir hugtakið dreifing er í ákvæðinu sérstaklega áréttað að Matvælastofnun geti stöðvað inn- og útflutning. Í ákvæðinu er jafnframt áréttað að Matvælastofnun hafi heimild til að innkalla fóður, áburð eða sáðvöru.

Um 10. gr.

    Lagt er til að núverandi orðalagi 9. gr. d í lögunum, sem kveður á um að við meðferð mála skv. 9. gr., 9. gr. a, 9. gr. b og 9. gr. c skuli fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttar, verði breytt í þá veru að ákvarðanir Matvælastofnunar megi kæra til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Hér er ekki gert ráð fyrir neinni efnislegri breytingu á ákvæðinu heldur einungis verið að skýra betur út hvað átt er við með ákvæðinu. Ákvæði 9. gr. d er samhljóða 30. gr. d laga nr. 93/1995, um matvæli, en ákvæðið í matvælalögunum var sett inn í lögin þegar sérstök úrskurðarnefnd vegna ágreinings um framkvæmd laganna var lögð niður.

Um 11. gr.

     Um a-lið (9. gr. e).
    Í ákvæðinu er lagt til að alvarlegustu brotin gegn ákvæðum laganna verði lýst refsiverð. Höfð var hliðsjón af 102. gr. laga nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, við útfærslu ákvæðisins.
    Í ákvæðinu er lagt til að brot gegn lögunum varði refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Þá er í 3. mgr. kveðið á um að heimilt sé að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laganna.
    Í 4. mgr. er lagt til að tilraun til brota og hlutdeild í brotum verði refsiverð.
     Um b-lið (9. gr. f).
    Í greininni er kveðið á um kæru til lögreglu og var höfð hliðsjón af 102. gr. laga nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, við útfærslu ákvæðisins. Lagt er til að brot gegn lögunum skuli aðeins sæta rannsókn sem sakamál að undangenginni kæru Matvælastofnunar til lögreglu.
    Varði meint brot á lögunum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Matvælastofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber stofnuninni að vísa þeim til lögreglu.
    Matvælastofnun er jafnframt heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast tilgreindum brotum. Þá er Matvælastofnun heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn brotanna. Sama á við um lögreglu og ákæruvald. Þeim er heimilt að láta stofnuninni í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast tilgreindum brotum. Loks er lagt til að telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar við stjórnsýsluviðurlög þá geti hann sent eða endursent málið til Matvælastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.
     Um c-lið (9. gr. g).
    Hér er kveðið á um heimildir Matvælastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn tilteknum ákvæðum laganna þar sem kveðið er á um tilkynningarskyldu, skyldu einstaklinga eða lögaðila til athafna eða um bönn. Við útfærslu ákvæðisins var m.a. höfð hliðsjón af 97. gr. laga nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi.
     Um d-lið (9. gr. h).
    Hér er kveðið á um heimild Matvælastofnunar til að ljúka máli með sátt, sé ekki um meiri háttar brot að ræða sem refsiviðurlög liggi við. Höfð var hliðsjón af 98. gr. laga nr. 56/2010 við útfærslu ákvæðisins.
     Um e-lið (9. gr. i).
    Höfð var hliðsjón af 100. gr. laga nr. 56/2010 við útfærslu ákvæðisins. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri,
áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum (áburðareftirlit, fóðureftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög).

    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu varða í fyrsta lagi framleiðslu og dreifingu á áburði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framleiðendum eða dreifingaraðilum áburðar verði skylt að leggja fram vottorð vegna kadmíums í áburði, tilkynna breytingar á efnainnihaldi til Matvælastofnunar og stöðva markaðssetningu áburðar ef hann telst ekki öruggur til notkunar. Jafnframt er í frumvarpinu ákvæði um að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um framleiðslu áburðar á hverjum tíma og að stjórnandinn beri sönnunarbyrðina fyrir því að svo sé. Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á áburðareftirlit Matvælastofnunar sem verður með sama hætti og áður.
    Í öðru lagi varða breytingarnar í frumvarpinu fóðureftirlit því lagt er til að Matvælastofnun verði heimilt að framselja ákveðin verkefni vegna fóðureftirlits sem nú eru á verksviði hennar til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Ef af slíku framsali verður mun gjaldskrá Matvælastofnunar vegna slíkra framseldra verkefna gilda þannig að allur kostnaður sem kynni að falla á heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna vegna þessa verður að fullu fjármagnaður. Í frumvarpinu er einnig kveðið skýrt á um að þau fóðurfyrirtæki sem framleiða lyfjablandað fóður skuli hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Eins og stendur er slík starfsemi ekki stunduð hérlendis en til þess gæti komið í framtíðinni. Þá er lögð skylda á aðila til að taka umhverfissýni auk fóðursýna vegna eftirlits með tilkynningarskyldum sjúkdómum samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga en mörg fóðurfyrirtæki eru nú þegar byrjuð að taka slík sýni.
    Í þriðja lagi eru lagðar til ýmsar breytingar er gilda um fóður, áburð eða sáðvöru. Til að mynda er áréttuð ábyrgð fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vörunnar séu í samræmi við skráða vörulýsingu. Einnig eru lögð til ýmis ákvæði um stjórnsýslusektir og refsiviðurlög vegna brota á lögunum en slíkar sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningar og innheimtu.
    Ákvæði frumvarpsins ættu að leiða til þess að í framtíðinni verði eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru skilvirkara en það er nú án þess að það auki kostnað eftirlitsaðila. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.