Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 551. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1064  —  551. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um starfsmannastefnu ráðuneytis og undirstofnana varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.

     1.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Um skyldur ríkis og sveitarfélaga til að veita fötluðu fólki forgang til starfs þegar hæfni þess er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja er fjallað í 32. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Í 29. gr. sömu laga er fjallað um skyldur vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði til að bjóða fötluðu fólki aðstoð við að rækja störf sín. Slík aðstoð getur verið í formi liðveislu eða þjálfunar.
    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 59/1992 tekur skilgreiningin á fötluðu fólki til þeirra sem þurfa stuðning og þjónustu vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar. Í því felst að til fatlaðra geta talist m.a. eftirfarandi hópar fólks:
     1.      Hreyfihamlaðir einstaklingar sem eru ekki færir um gang, t.d. vegna mænuskaða eða af öðrum ástæðum.
     2.      Einstaklingar sem hafa skerta starfsgetu vegna skaða eða missis á útlimum.
     3.      Einstaklingar með skerta sjón.
     4.      Einstaklingar sem ekki geta fært sér prentað letur í nyt vegna staf- og lesblindu.
     5.      Einstaklingar með skerta heyrn.
     6.      Einstaklingar með þroskaröskun.
     7.      Einstaklingar með geðröskun.
    Leitað var svars við spurningunni hjá stofnunum ráðuneytisins og bárust svör frá 48 stofnunum. Þar kemur almennt fram að gerðar hafi verið ráðstafanir í húsnæðismálum og aðgengi sem séu til þess fallnar að auðvelda ferðir hreyfihamlaðs fólks um húsnæðið. Hjá sumum stofnunum hafa aðgengismál fyrir gesti og starfsfólk verið undirbúin í samráði við Öryrkjabandalag Íslands og slík stefna verið skilgreind í stjórnskipulagi, starfsmannastefnu og jafnréttisáætlun. Í jafnréttisstefnu sumra stofnana kemur fram að framfylgja skuli jafnræðisreglu á þann hátt að taka skuli sérstakt tillit til fatlaðra starfsmanna og að ekki skuli mismuna starfsfólki eftir aldri, kynferði, fötlun, þjóðerni, trúar- eða stjórnmálaskoðunum. Hjá Háskóla Íslands er starfandi sérstakt ráð um málefni fatlaðra sem starfar á grundvelli 12. gr. reglna nr. 481/2010. Ráðuneytið og stofnanir þess hafa að öðru leyti ekki markað sér stefnu um hvernig auðvelda megi ráðningu einstaklinga með skerta starfsgetu vegna skaða eða missis á útlimum, einstaklinga með skerta sjón, einstaklinga með skerta heyrn, einstaklinga með þroskaröskun eða einstaklinga með geðröskun.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess gripið til viðeigandi ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa og þá hvaða?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur ráðuneytið og undirstofnanir þess gert ráðstafanir til að gera húsnæði og aðkomu aðgengileg fyrir hreyfihamlaða gesti og starfsmenn. Ýmsar af stofnunum ráðuneytisins hafa sérstaklega leitast við að ráða fatlað fólk til starfa og má í því sambandi nefna Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Þjóðminjasafn Íslands: Þjóðminjasafnið hefur í samstarfi við Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra leitast við að ráða fatlaða starfsmenn til starfa.

     3.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks?
    Samkvæmt D-lið 3. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2011, fer fjármálaráðuneytið með stefnumótun og fræðslu í mannauðsmálum stofnana ríkisins. Fjármálaráðuneytið stendur fyrir fræðslu og þjálfun forstöðumanna stofnana ríkisins og heldur m.a. úti svonefndum stjórnendavef fyrir forstöðumenn og aðra stjórnendur í ríkisrekstri. Til slíkrar fræðslu heyrir m.a. fræðsla um skyldur hins opinbera sem vinnuveitanda samkvæmt lögum um jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og lögum málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Að því leyti sem ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks falla innan laganna nr. 59/1992 má gera ráð fyrir að fræðsla um slíkar ráðstafanir falli þar undir. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur í árangursstjórnunarsamningum við stofnanir ráðuneytisins lagt áherslu á skyldu stofnana til að setja sér jafnréttisstefnu og falla málefni fatlaðra starfsmanna þar undir.

     4.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun?
    Ráðuneytið hefur á undanförnum árum átt í reglulegum samskiptum við stofnanir sínar þar sem breytileiki hugtaksins fötlun hefur verið til umfjöllunar auk stöðugs endurmats á samspili milli fatlaðra og viðhorfstengdra tálma og umhverfishindrana sem kunna að standa í vegi fyrir þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Eins og rakið er hér að framan í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur verið lögð á það áhersla við val á húsnæði fyrir stofnanir ráðuneytisins, hvort sem um hefur verið að ræða endurbætur á eldra húsnæði eða nýbyggingu, að veita aðgengismálum gesta, þjónustuþega og starfsmanna nauðsynlegan forgang. Ráðherrar menntamála hafa um árabil unnið ötullega að uppbyggingu samfélags án aðgreiningar þar sem stefnt er að því að fatlaðir nemendur stundi eftir því sem kostur er nám á sömu forsendum og ófatlaðir nemendur. Í þessu sambandi má vísa til 17. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, en þar kemur fram að nemendur með sérþarfir (en þannig er fjallað um fatlaða nemendur í lögunum) eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Um þjónustu sem slíkir nemendur eiga rétt á er nánar fjallað í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010. Um réttindi barna með sérþarfir í leikskólum er fjallað í 12. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, og reglugerð nr. 655/2009. Um réttindi nemenda með sérþarfir í framhaldsskólum er fjallað í 34. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og reglugerð nr. 230/2012. Í reglugerðunum nr. 585/2010 og nr. 230/2012 er vitnað í samning Sameinuðu þjóðanna um nemendur með sérþarfir í grunn- og framhaldsskólum. Í frumvarpi ráðherra sem nú er til meðferðar á Alþingi (þingskjal 714, 468. mál) er lagt til að tekin verði upp ný málsgrein í lög um háskóla, nr. 63/2006, um rétt fatlaðra nemenda og nemenda með tilfinningalega eða félagslega örðugleika til stuðnings í námi. Með ákvæðinu teljast leidd í landslög ákvæði 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en skv. 5. mgr. 24. gr. samningsins skulu aðildarríki hans tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi og að það fái aðgang að starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Framangreint er til vitnis um stefnu ráðherra í málefnum fatlaðs fólks og stöðugar endurbætur á því sviði.

     5.      Hversu margir fatlaðir starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess og hversu hátt hlutfall er það af starfsmannafjölda þeirra?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er það afar breiður hópur fólks sem fellur undir skilgreiningu 2. gr. laga nr. 59/1992, þ.e. einstaklingar með hreyfihömlun, skaða á útlimum, skerta sjón, skrif- og lestrarhömlun, heyrnarskerðingu, þroskaröskun og geðröskun. Framangreindum hópi fatlaðra má svo skipta í fólk með sýnilega fötlun og fólk með fötlun af öðrum toga. Ákveðin vandkvæði eru á að svara þessari spurningu með fullri vissu sökum þess að ráðuneytið og stofnanir þess telja sér óheimilt á grundvelli laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, að halda skrá um framangreind atriði í starfsmannaskrá. Slíkar upplýsingar kunna að liggja fyrir hjá einstökum yfirmönnum en um þær ríkir slíkur trúnaður að þær eru ekki aðgengilegar á miðlægan hátt.
    Með hliðsjón af framansögðu verður því aðeins veitt svar um þann hóp fatlaðra starfsmanna sem hafa sýnilega fötlun eins og hreyfihömlun. Af þeim stofnunum sem veittu svar um fjölda fatlaðra starfsmanna voru tilgreindir 19 fatlaðir starfsmenn eða 3,6% af þeim sem þar störfuðu. Aðrar stofnanir eins og Háskóli Íslands treystu sér ekki til að veita slíkar upplýsingar þar sem upplýsingar um fötlun starfsmanna, hvort sem um er að ræða sýnilega fötlun eða annars konar fötlun, eru ekki skráðar í starfsmannaskrá skólans.