Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 663. máls.

Þingskjal 1069  —  663. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun
og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra sem í hlut á, í samræmi við löggjöf og reglur um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, er heimilt að gefa út reglugerðir með samsvarandi hætti og segir í 2. mgr. fyrir þær starfsstéttir sem undir hann heyra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Við framkvæmd laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, hefur komið í ljós að reglugerðarheimild fyrir ráðherra í 2. mgr. 9. gr. laganna nýtist einungis fyrir mennta- og menningarmálaráðherra en ekki fyrir ráðherra sem fara með aðra málaflokka þar sem reynir á útgáfu leyfis eða löggildingar til ákveðinna starfa. Hefur þessi ágalli laganna verið leystur með því að mennta- og menningarmálaráðherra hefur birt reglugerðir um starfsréttindi heilbrigðisstétta og iðnaðarmanna. Eðlilegra er talið að útgáfa reglugerða á þessum sviðum sé hjá viðkomandi ráðherrum, í samræmi við skiptingu stjórnarmálefna í forsetaúrskurði. Samkvæmt núgildandi skipan er þar um að ræða velferðarráðherra og iðnaðarráðherra. Reglugerðarheimild sú sem hér er lögð fram er með öllu sambærileg reglugerðarheimild sem er að finna í 2. mgr. 9. gr. laganna.
    Um gjaldtöku fyrir mat á umsóknum um viðurkenningu menntunar og hæfis er þegar mælt fyrir í 3. mgr. 8. gr. laganna og ekki talið að þörf sé á að breyta því ákvæði.
    Við gerð þessa frumvarps var haft samráð við velferðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðurkenningu
á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fagráðherra verði gert heimilt að birta reglugerð um viðurkenningar starfsréttinda þeirra starfsstétta sem undir viðkomandi ráðherra heyra en samkvæmt gildandi lögum hefur ráðherra menntamála einn þessa heimild.
    Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.