Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 664. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1070  —  664. mál.
Tillaga til þingsályktunarum afsökunarbeiðni og greiðslu skaðabóta til iðkenda Falun Gong.

Flm.: Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall, Skúli Helgason, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Björn Valur Gíslason, Þráinn Bertelsson, Valgerður Bjarnadóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að biðja afsökunar á aðgerðum íslenskra stjórnvalda þá iðkendur Falun Gong sem var meinuð landganga og meinað að nýta tjáningarfrelsi sitt á Íslandi í júní 2002 í tengslum við opinbera heimsókn Jiang Zemin, þáverandi leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína. Ríkisstjórninni verði falið að koma afsökunarbeiðninni á framfæri.
    Þá ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að þeir einstaklingar sem vistaðir voru gegn vilja sínum í Njarðvíkurskóla, var vísað frá landinu eða meinað að nota gilda flugmiða í flugvélar Icelandair víða um heim umrædda daga fái viðhlítandi bætur.

Greinargerð.


    Einhver mikilvægasti hæfileikinn í samskiptum fólks er sá að kunna að biðjast afsökunar. Í júní 2002 voru brotin mannréttindi af hálfu íslenskra stjórnvalda á hópi einstaklinga með slíkum hætti að full ástæða er til þess að biðja alla hlutaðeigandi einstaklinga afdráttarlaust og formlega afsökunar, þótt seint sé. Slík afsökunarbeiðni felur ekki einungis í sér nauðsynlegt uppgjör við einstaklinga og fortíðina heldur er hún einnig til þess fallin að fyrirbyggja að slíkir atburðir endurtaki sig. Ekki síst í því augnamiði, með framtíðina í huga, er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.

Málavextir.
    Í júní 2002 kom forseti Kína, Jiang Zemin, í opinbera heimsókn til Íslands. Skömmu fyrir heimsóknina tóku ráðherrar í þáverandi ríkisstjórn Íslands þá ákvörðun að banna fólki sem átti það sameiginlegt að iðka sjálfsræktarkerfið Falun Gong að koma frjálst ferða sinna til landsins sömu daga og heimsókn forsetans stæði yfir. Iðkendur Falun Gong höfðu áður mótmælt mannréttindabrotum Kínverja á iðkendum við ýmis tilefni og til stóð af hálfu margra iðkenda að mótmæla hér á landi í tilefni af heimsókn forsetans.
    Banninu var framfylgt af lögreglu í Reykjavík og Keflavík með aðstoð Icelandair og fjölmargra íslenskra sendiráða víða um heim. Lagalegar forsendur bannsins gagnvart þessu fólki voru sagðar þær að tryggja þyrfti allsherjarreglu og öryggi þjóðarinnar.
    Fljótlega kom í ljós að í því ferli að vinsa úr grunaða Falun Gong iðkendur notuðu íslensk stjórnvöld vafasaman nafnalista, sem Persónuvernd úrskurðaði ári síðar að hefði brotið gegn íslenskum lögum. 1 Listinn var sendur ásamt fyrirskipun dómsmálaráðherra til Icelandair og sendiráða víða um heim með eftirfarandi orðum undirrituðum af ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins:

    Dómsmálaráðuneytið hefur heimildir til að gefa Flugleiðum ströng fyrirmæli um að neita þekktum eða grunuðum meðlimum Falun Gong-hreyfingarinnar landgöngu til Íslands á ákveðnu tímabili í samræmi við lista sem þér hafið þegar fengið. 2

    Í framhaldinu var fjölda fólks neitað um að koma hingað til lands. Sumir fengu ekki vegabréfsáritanir, áritanir annarra voru dregnar til baka og fjölda fólks með gilda farmiða og vegabréf var neitað um að komast um borð í flugvélar Icelandair á öllum helstu flugvöllum Evrópu og Bandaríkjanna á þeirri forsendu að nafn viðkomandi væri á lista yfir Falun Gong iðkendur. Talið er að yfir 200 iðkendur hafi orðið fyrir barðinu á banninu á einn eða annan hátt.
    Þó nokkrir komust til landsins þrátt fyrir bannið og mættu þar aðgerðum íslenskra stjórnvalda. Þremur var gert að snúa til baka á Keflavíkurflugvelli og halda aftur til Bandaríkjanna. Einnig voru 75 einstaklingar vistaðir gegn vilja sínum í Njarðvíkurskóla. Þessir iðkendur neituðu að snúa til baka og kröfðust málefnalegra raka. Þeim var að lokum hleypt inn í landið eftir 36 stunda varðhald og eftir að hafa undirritað eftirfarandi yfirlýsingu:

„YFIRLÝSING TIL ÍSLENSKU LÖGREGLUNNAR.
    Við undirrituð, fulltrúar Falun Gong iðkenda sem eru á Íslandi í júní 2002, lýsum því hér með yfir fyrir hönd hópsins að allir iðkendur munu fylgjast með og fara eftir öllum skilyrðum og leiðbeiningum sem lögregluyfirvöld kunna að setja þegar opinber heimsókn leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína á sér stað. Við lýsum því einnig yfir að hópurinn mun fylgja íslenskum lögum og reglum og ekki trufla dagskrá heimsóknarinnar. Í því felst að hópurinn mun virða öll sérstök öryggissvæði sem lögreglan ákveður og tilnefna af sinni hálfu manneskju sem hefur samskipti við lögreglu.
    Við munum kynna þessa yfirlýsingu öllum Falun Gogn iðkendum sem eru á Íslandi.
    Reykjavík, 11. júní 2002,
    John Nania, Joel Chipkar, Peder Giertsen, Zhi-ping Kolonch.“ 3

    Sjálfu varðhaldinu var þó ekki formlega aflétt í tilviki þessara 75 einstaklinga fyrr en Jiang Zemin var farinn af landi brott nokkrum dögum síðar.

Alvarleiki brotanna og „svarti listinn“.
    Eins og áður segir var miðlun dómsmálaráðuneytis á lista með nöfnum iðkenda Falun Gong til Flugleiða hf. og sendiráða Íslands erlendis, úrskurðuð óheimil af Persónuvernd um ári eftir að listinn var notaður. Þessi listi fékk fljótlega nafngiftina ,,svarti listinn“. Tilvist þess lista var ásamt fleiri gögnum gerð opinber eftir þrýsting. Sérstaklega var það talið auka á alvarleika málsins að engir listar yfir nöfn þeirra sem leggja stund á Falun Gong eru til í heiminum enda er engin félagaskráning í Falun Gong. Margir Falun Gong iðkendur stunda iðkun sína einungis innan friðhelgi heimilisins. Samt sem áður voru slíkir iðkendur meginuppistaða listans. Þeim sem var neitað um að komast um borð í íslenskar vélar með tilvísun í listann brá því skiljanlega mjög. Fyrir lá að upplýsinganna gat einungis hafa verið aflað með víðfemum persónunjósnum í fjölmörgum ríkjum.
    Mannréttindalögfræðingurinn dr. Herman Salton hefur greint ítarlega ýmsar lagalegar hliðar atburðanna á Íslandi 2002. Niðurstöður þeirrar greiningar hefur hann í framhaldinu fengið birtar í mannréttindatímaritum á liðnum árum. Dr. Salton var búsettur á Íslandi og starfaði hjá Mannréttindastofu Íslands sumarið 2002 þegar umræddir atburðir áttu sér stað. Hann kom aftur til landsins í upphafi árs 2011 til að kynna bók sína Arctic host, Icy visit sem fjallar eingöngu um umrætt mál. Í lögfræðigrein sem birtist í norsku mannréttindatímariti árið 2007 segir Herman Salton í lokaorðum lögfræðilegrar úttektar sinnar á atburðunum:

     Með því að neita hópi fólks einungis á grunni lífsviðhorfa; með því að hafa undir höndum viðkvæmar persónulegar upplýsingar sem eru notaðar til að hindra réttindi þeirra; og með því að dreifa þessum skjölum með það að markmiði að hindra fólk í að koma til landsins, þá virðast íslensk stjórnvöld ekki hafa gert sér grein fyrir alvarleika gjörða sinna. Svarti listinn og leyndin í kringum hann er þegar allt kemur til alls skýrt dæmi um hinar alvarlegu afleiðingar þess að taka á óábyrgan hátt við og dreifa viðkvæmum upplýsingum sem geta skert grundvallarréttindi sem snúa að lífsskoðunum, einkalífi og jafnræði. 4
    
    Íslensk stjórnvöld leituðust við að halda því leyndu hvaðan listinn yfir hina óæskilegu kom. Upphaflega voru stjórnvöld alls ekki tilbúin til að viðurkenna tilvist listans. Slíkur málflutningur gat þó ekki lengi staðist nánari skoðun. Til dæmis var fjölmörgum iðkendum sýndur listinn á flugvöllum víða um heim og nafn sitt á honum. Þá var gerð tilraun til þess að tengja listann við Interpol. Sú staðhæfing var hins vegar dregin til baka eftir að Interpol hafnaði því alfarið og svaraði því til að Interpol geymdi einungis nöfn dæmdra glæpamanna. Í framhaldinu var því haldið fram að listinn hefði komið frá landi sem væri aðili að Interpol, en það land hefur ekki enn fundist. 5
    Allt er þetta ágætlega rakið í bók Saltons. Í samtölum iðkenda við íslensk stjórnvöld síðar var látið í veðri vaka að stjórnvöld hefðu verið vöruð við Falun Gong iðkendum. Ýjað var að því að upplýsingar hefðu komið frá þýskum lögregluyfirvöldum, en Jiang Zemin hafði verið í opinberri heimsókn í Þýskalandi áður en hann kom til Íslands. Í því samhengi var haft samband við þýsk lögregluyfirvöld sem sögðu ,,algerlega óhugsandi“ að þau hefðu gefið upp einhver slík nöfn til annarra landa. Þýska lögreglan héldi einungis skrá yfir glæpamenn og enginn Falun Gong iðkandi væri á sakaskrá í Þýskalandi. Sömu sögu sagði þýska þjóðaröryggislögreglan. 6
    Ljóst er að mjög margt bendir til þess að uppruna listans megi rekja til kínverskra yfirvalda. Sú niðurstaða er rökstudd í bók Saltons. Margt bendir því til þess að íslensk yfirvöld hafi beygt sig undir ákaflega lágkúruleg vinnubrögð af hálfu yfirvalda annars ríkis, eins og persónunjósnir og gerð slíks lista er óneitanlega dæmi um. Meðferð listans af hálfu íslenskra stjórnvalda stríðir gegn ýmsum grundvallarmannréttindum sem kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins. Sú aðgerð að mismuna fólki með tilliti til lífsskoðana telst jafnframt alvarlega ámælisverð með tilliti til fjölda alþjóðlegra sáttmála og samninga sem Íslendingar eru aðilar að. 7
    
Allsherjarreglan og öryggi þjóðarinnar.
    En hvað með rökin sem notuð voru, um að allsherjarregla og öryggi ríkisins hafi verið í húfi? Ljóst er að iðkendur Falung Gong höfðu það að markmiði sínu með heimsókn til Íslands að mótmæla mannréttindabrotum á Falun Gong iðkendum í Kína. Stafaði Íslendingum eða kínverska forsetanum ógn af þeim mótmælum?
    Í áliti sínu um þetta mál komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að þó svo að stjórnvöld hafi haft fullnægjandi lagagrundvöll fyrir ákvörðun sinni um að meina þeim einstaklingum landgöngu sem þau töldu sig hafa réttmæta ástæðu til að ætla að væru aðeins að koma til landsins til að hafa í frammi mótmæli vegna komu Kínaforseta hefði stjórnvöld að öllu leyti skort lagalega heimild til að fela einkafyrirtæki að framfylgja fyrirskipunum byggðum á þeirri mismunun sem þarna var á ferð. 8 Í áðurnefndri bók sinni Arctic host, Icy visit rökstyður dr. Salton jafnframt að engar haldbærar lagalegar forsendur hafi verið fyrir þeirri frelsissviptingu sem íslensk stjórnvöld fyrirskipuðu, þ.m.t. beitingu svarta listans, vistun fólks í allt að 36 klst. í Njarvíkurskóla og frávísun fjölda annarra með gilda farmiða frá flugi með Icelandair.
    Dr. Salton telur einnig að beiting allsherjarreglu í umræddu tilviki hafi alls ekki átt rétt á sér í ljósi fjölda annarra atriða og staðreynda. Þar vegur einna þyngst að Falun Gong iðkendur eru þekktir fyrir friðsamlega framkomu og auðvelt hafi verið fyrir íslensk stjórnvöld að afla sér þeirra upplýsinga, hafi þau haft áhyggjur af væntanlegum mótmælum. Ekki hafi verið til eitt einasta skráð tilfelli um ofbeldi af hálfu iðkenda Falun Gong.
    Þess má jafnframt geta að ýmsir atburðir gerðust á Íslandi á árinu 2002 þar sem beiting allsherjarreglu var ekki talin nauðsynleg. Hugsanlega hefði verið tilefni til þess ef yfirvöld hefðu verið á þeim buxunum á annað borð. Hingað kom t.d. hópur meðlima Hells Angels, auk þess sem Nato-fundur var haldinn í Háskólabíói fyrr á árinu. Þar átti íslensk lögregla ekki í vandræðum með að taka á móti tugum ráðherra og ráðamanna frá helstu NATO-ríkjum, auk nokkur hundruð mótmælenda.
    Eitt af helstu umkvörtunarefnunum á sínum tíma, t.d. í kvörtun til umboðsmanns Alþingis og í undirbúningi málsóknar, sem hætt var við, var að aðgerðir íslenskra stjórnvalda sýndu iðkuninni sjálfri, eða því sem Falun Gong stendur fyrir, algjöra vanvirðingu með því að gera ráð fyrir að allir sem iðkuðu Falun Gong væru hættulegir lögum, reglu og friði í landinu. Salton er tíðrætt um þetta atriði í greinargerðum sínum og bók um atburðina og þá í samhengi við alþjóðalög. Eindregið er kveðið á um það í slíkum lögum, sem og evrópskum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, að ríki geti ekki beitt sér gegn fólki vegna tiltekinna lífsskoðana sem það aðhyllist. Slíkt telst alvarlegt brot.

Um Falun Gong og ofsóknir gegn iðkendum.
    Rétt er að setja þetta mál allt í samhengi við annað sem dunið hefur á Falun Gong iðkendum á undanförnum áratugum. Íslensk stjórnvöld gerðust því miður þátttakendur í víðtækum og langvarandi mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda í garð iðkenda Falun Gong sem þeir ætluðu sér einmitt að mótmæla hér á landi. Þessi mannréttindabrot standa enn yfir.
    Falun Gong er hugleiðslu- og sjálfræktarkerfi með djúpar rætur í andlegum kínverskum hefðum eins og búddisma og taóisma. Iðkun á Falun Gong er þó ekki hluti af búddisma eða skilgreind sem trúarbrögð þar sem hún byggist ekki á persónudýrkun, hefur engan skráðan hóp, kirkju, félagatal eða gjöld. Hver sem er getur iðkað Falun Gong frjáls og óháður án endurgjalds eða kvaða. Markmið Falun Gong er að finna innri visku og frið. Ástundun á Falun Gong felst í að rækta innri mann í samræmi við grundvallargildin sannleika, kærleika og þolinmæði. Þess má geta að stofnandi Falun Gong, Li Hongzhi, hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels.
    Árið 1999 sögðu fjölmiðlar frá því að Falun Gong væri það hugleiðslu- og sjálfsræktarkerfi sem nyti mestra vinsældra í Kína og fjölgun iðkenda var einsdæmi þar í landi eða jafnvel í mannkynssögunni. Aðeins sjö árum eftir að Falun Gong var kynnt, árið 1992, var talið að 70–100 milljónir legðu stund á hana í landinu. 9 Ofsóknir Kínastjórnar á hendur Falun Gong iðkendum hófust með fullum þunga sama ár, 1999. 10 Ástæðan er fyrst og fremst talin hafa verið ótti stjórnarinnar vegna gríðarlegs fjölda iðkenda, en fram að því hafði Falun Gong verið í hávegum haft í Kína, fengið fjölda verðlauna og viðurkenningar, meðal annars af hálfu kínverskra embættismanna við hátíðleg tækifæri. Sama ár og ofsóknirnar hófust var staðhæft opinberlega að Falun Gong iðkun hefði jákvæð áhrif á heilsu og samfélag. 11
    Á undanförnum áratug hafa skýrslur og yfirlýsingar fjölmargra stofnana, mannréttindasamtaka, mannréttindalögfræðinga og ríkisstjórna víða um heim vakið athygli á þeirri staðreynd að fólk sem iðkar Falun Gong í Kína hefur tugþúsundum saman verið fangelsað, sett í þrælkunarbúðir án dóms og laga og margt pyntað til dauða. Sameinuðu þjóðirnar, varaforseti Evrópuþingsins, fulltrúaþing Bandaríkjanna, Amnesty International, Human Rights Watch 12 o.fl. hafa fordæmt aðför Kínastjórnar að Falun Gong iðkendum þar í landi.
    Enn berast fregnir af ofsóknum. Þær eru meðal annars taldar fela í sér frelsissviptingu, þrælkunar- og pyntingabúðir, kynferðisglæpi, líffærastuld og morð. 13 Mörg þúsund manns eru talin hafa látið lífið vegna pyntinga eða við það að úr þeim eru fjarlægð líffæri sem eru síðan seld. Síðastnefnda staðhæfingin byggist á rannsókn kanadískra mannréttindalögfræðinga, David Matas og David Kilgour. Þeir voru meðal tilnefndra til friðarverðlauna Nóbels árið 2010 fyrir ítarlega rannsókn á líffærastuldi úr lifandi Falun Gong iðkendum í Kína. 14
    Dómsmál á hendur Jiang Zemin, fyrrverandi einræðisherra Kína, eru í ferli og hafa tveir dómsstólar, í Argentínu og á Spáni, nú þegar dæmt hann ásamt öðrum fyrrverandi háttsettum embættismönnum í Kína, fyrir glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð á Falun Gong iðkendum í Kína. Dómurinn í Argentínu, sem féll í desember 2009, byggist á sjálfstæðri rannsókn argentínska dómskerfisins. Spænski dómurinn, sem féll í nóvember 2009, byggist á tveggja ára rannsókn á glæpum Jiang Zemin og Kínastjórnar.
    Fjölmargar yfirlýsingar hafa verið birtar á undanförnum áratug í skýrslum alþjóðlegra mannréttindahópa, frá fyrrum samviskuföngum sem hafa setið í fangelsum ásamt Falun Gong iðkendum, kínverskum lögfræðingum og í skýrslum Bandaríkjaþings um glæpsamlega hegðun kínverskra stjórnvalda gagnvart iðkendum. Þrátt fyrir dóma og fordæmingar helstu mannréttinda- og friðarstofnana heims og ákall fjölda ráðamanna vestrænna lýðræðisríkja, Sameinuðu þjóðanna og mannréttindalögfræðinga um að ofsóknunum linni hafa þær haldið áfram.
    Ástæður þess að Falun Gong iðkendur frá fjölmörgum löndum freistuðu þess að nýta lýðræðslegan rétt sinn á Íslandi sumarið 2002 til að minna á mannréttindabrot gegn Falun Gong iðkendum í Kína voru því augljósar að mati margra helstu lýðræðis- og mannréttindastofnana heims og eru enn.

Lokaorð – hvers vegna núna?
    Fjölmörgum Íslendingum misbauð meðferð stjórnvalda á Falun Gong iðkendum. Þúsundir landsmanna sýndu samstöðu með málstað þeirra með því að ganga um götur með borða eða með límt fyrir munn í mótmælaaðgerðum sem voru skipulagðar í kjölfar þessara viðburða. Mörg hundruð borgarar skrifuðu undir afsökunarbeiðni á íslensku og kínversku, þar á meðal sumir núverandi ráðherrar og þingmenn. Af þessum sökum hættu Falun Gong iðkendur við málsókn á hendur íslenska ríkinu sem var þó langt á veg komin haustið 2002. Í blaðaviðtölum sögðust þeir ekki hafa talið rétt að setja fram kæru á hendur íslenska ríkinu þar sem þeirri kæru væri á sama tíma beint gegn íslenskri þjóð sem hafði tekið þeim vel. Sterkur líkur eru þó á að dómsmál hefði fallið iðkendum í vil. Þess má t.d. geta að fjórir íslenskir mótmælendur, sem handteknir voru í u.þ.b. eina klukkustund við Geysi þegar þeir hugðust minna Jiang Zemin á mannréttindabrot gagnvart Falun Gong iðkendum og Tíbetum, unnu mál gegn íslenska ríkinu og fengu tæpar 100 þúsund íslenskar krónur í skaðabætur.
    Til vitnis um andúð margra Íslendinga á þessum aðgerðum má jafnframt nefna að hæstvirtur utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, baðst afsökunar á þessum aðgerðum í ræðustól Alþingis í óundirbúnum fyrirspurnatíma á 139. löggjafarþingi.
    Öll voru þessi viðbrögð mikilvæg og bera því vitni að mörgum Íslendingum var mjög í nöp við aðgerðir stjórnvalda gegn iðkendum Falun Gong. Ekki verður hins vegar séð að afsökunarbeiðni borgara eða afsökunarbeiðni utanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma teljist ígildi formlegrar afsökunarbeiðni af hálfu íslenskra yfirvalda. Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að þingið biðji umrædda iðkendur Falun Gong afsökunar á framangreindum aðgerðum og að ríkisstjórninni verði falið að koma þeirri afsökunarbeiðni á framfæri.
    Slík afsökunarbeiðni yrði þeim einstaklingum sem brotið var á án efa mikilvæg en Íslendingum þó ekki síður. Slík afsökunarbeiðni yrði ígildi viss uppgjörs af hálfu íslenskra stjórnvalda hvað varðar viðburði eins og þá sem hér hafa verið raktir. Ný gögn, eins og áðurnefnd bók Hermans Salton sem er tiltölulega nýkomin út, renna stoðum undir alvarleika málsins. Mjög mikilvægt er að slíkir atburðir endurtaki sig ekki hér á landi. Ef Alþingi biðst formlega afsökunar á þessum aðgerðum felst í því sú afstaða að slíkar aðgerðir séu að mati löggjafans algerlega óásættanlegar, í fortíð, nútíð og framtíð. Jafnframt mætti vel túlka afsökunarbeiðnina sem stuðning við málstað Falun Gong iðkenda, en í ljósi viðvarandi mannréttindabrota í þeirra garð er ljóst að ekki veitir af slíkum stuðningi. Full ástæða er til að fordæma mannréttindabrot kínverskra yfirvalda á iðkendum Falun Gong.
    Í síðari málsgrein tillögunnar er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að sjá til þess að þeir einstaklingar sem um ræðir fái viðhlítandi bætur, þ.e. að þeir fái greiddan útlagðan kostnað vegna fararinnar. Hér er í raun komin önnur ástæða fyrir framlagningu tillögunnar. Óljóst er hvort einstaklingunum var bætt tjón sitt. Frásagnir iðkendanna benda til að svo hafi ekki verið þrátt fyrir yfirlýsingar um það á sínum tíma að slíkt yrði gert. Ríkisstjórninni er því falið að sjá til þess eins og það er orðað í tillögunni, að bætur verði greiddar, án nokkurs vafa, hafi þær ekki verið greiddar. Hér er átt við sanngjarnar bætur vegna fjárhagslegs skaða sem viðkomandi aðilar kunna að hafa orðið fyrir vegna aðgerða stjórnvalda. Vissulega yrðu slíkar bætur ekki greiddar hafi aðilar þegar fengið bætur.
Neðanmálsgrein: 1
1     Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2002/76. Úrskurðarorð: „Miðlun dómsmálaráðuneytisins á upplýsingum um Xun Li, sem meðlims í Falun Gong, til Flugleiða hf. og sendiráða Íslands í Bandaríkjunum, Noregi, Danmörku, Bretlandi og Frakklandi, í því skyni að hindra komu hans til landsins, var óheimil.“
Neðanmálsgrein: 2
2     „The Ministry of Justice has been empowered to give Icelandair strict instructions to refuse carriage to Iceland during the above period to known or suspected members of the Falun Gong movement according to lists already submitted to you.“
Neðanmálsgrein: 3
3     DECLARATION TO THE ICELANDIC POLICE
          We, the undersigned, representatives of Falun Gong practitioners situated in Iceland June 2002, hereby declare on behalf of the group, that all members will obey and observe all conditions and instructions set by the Icelandic Police Authorities relating to the State Visit in Iceland of the President of the People's Republic of China. We as well declare that the group will abide by Icelandic laws and regulations and not in an way disturb the program of the visit. That includes that the group will respect all special security areas decided by the police and designate to the Police specific contact persons for each location.
         We will present this declaration to all Falun Gong practitioners situated in Iceland.
        Reykjavik, 11th June 2002.
         John Nania, Joel Chipkar, Peder Giertsen, Zhi-ping Kolonch.
Neðanmálsgrein: 4
4     Salton, Herman: Iceland, Falun Gong and China: A legal overview of the 2002 events. Nordisk tidsskrift for menneskerettigheter (25.02.2007). Bls. 182: „By vetoing a group of people merely on the basis of their spiritual beliefs; by assembling a document with sensitive information that was then used to adversely impact their rights; and by distributing this document in order to prevent them from entering the country, the Icelandic government seems to have underestimated the gravity of its own actions. The blacklist and the veil of secrecy surrounding it ultimately stand as lucid examples of the serious consequences that a nonchalant possession and exchange of sensitive data can have in limiting the fundamental freedoms of religious liberty, privacy and non-discrimination.“
Neðanmálsgrein: 5
5     Salton, Herman: Arctic Host, Icy Visit, Lambert, 2011. Bls. 116.
Neðanmálsgrein: 6
6     Salton, Herman: Arctic Host, Icy Visit, Lambert, 2011. Bls. 116–117.
Neðanmálsgrein: 7
7     Salton, Herman: Arctic Host, Icy Visit, Lambert, 2011. Bls. 150.
Neðanmálsgrein: 8
8     Álit umboðsmanns Alþingis, mál nr. 3820/2003. Það var því niðurstaða umboðsmanns að sá lagagrundvöllur sem íslensk stjórnvöld hefðu vísað til í skýringum til hans hefði ekki veitt þeim fullnægjandi heimild til að taka þá almennu ákvörðun í júní 2002 að tilteknum einstaklingum á leið til landsins, sem töldust þekktir eða grunaðir meðlimir í Falun Gong, yrði fyrirfram meinuð hér landganga og að fela einkaréttarlegum aðila, Flugleiðum hf., að framkvæma þá ákvörðun í flughöfnum í Evrópu og Norður-Ameríku með því að meina þessum einstaklingum að stíga þar um borð í flugvélar félagsins.
Neðanmálsgrein: 9
9     Kilgour, David. www.david-kilgour.com/2010/Oct_21_2010_01.php
Neðanmálsgrein: 10
10     Leung, Beatrice. China and Falun Gong: Party and society relations in the modern era. Journal of Contemporary China, bls.761–784.
Neðanmálsgrein: 11
11     Perry, Benjamin. Canberra, 2001. The Past, Present and Future of Falun Gong, a lecture by Harold White Fellow, Benjamin Penny, at the National Library of Australia. www.nla.gov.au/grants/haroldwhite/ papers/bpenny.html
Neðanmálsgrein: 12
12     Nowak, Manfred. United Nations. Report of the Special Rapporteur on torture and other cruel, inhuman or degrading treatment or punishment: Mission to China. www.cecc.gov/pages/annualRpt/ annualRpt06/Religion.php
    Edward McMillan-Scott (Vice President, European Parliament). EU-China summit 2010: MEP calls for positive policies for the people of China. www.emcmillanscott.com/resources/EU-CHINA+ SUMMIT+pressrelease+061010.pdf
    House Resolution 605: Recognizing the continued persecution of Falun Gong practitioners in China ... www.govtrack.us/congress/bill.xpd?bill=hr111-605
    Amnesty International. China: The crackdown on Falun Gong and other so-called „heretical organizations. www.amnesty.org/en/library/info/ASA17/011/2000
    Human Rights Watch. China: Repression Against Falungong Unabated. www.hrw.org/en/news/ 2002/02/06/china-repression-against-falungong-unabated
Neðanmálsgrein: 13
13     Falun Dafa information center. Mechanics of Persecution. faluninfo.net/topic/7/
Neðanmálsgrein: 14
14     Santin, Aldo. Crusader up for Nobel Prize – Lawyer lauded for investigating abuses in China. www.winnipegfreepress.com/local/crusader-up-for-nobel-prize-84838397.html