Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 61. máls. Ferill 138. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1076  —  61. mál og 138. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvörp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

Frá atvinnuveganefnd.


    Með nefndaráliti þessu fjallar nefndin um tvö þingmál, sbr. 1. mgr. 30. gr. þingskapalaga, 61. mál, matvæli (tímabundið starfsleyfi), og 138. mál, matvæli (takmörkun á gildissviði laganna, reglugerðarheimild, EES-reglur).
    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson og Baldur P. Erlingsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Svövu Svanborgu Steinarsdóttur frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Óskar Ísfeld Sigurðsson frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Viktor Pálsson og Sigurð Örn Hansson frá Matvælastofnun, Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins og Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Þá var Helga Hreinsdóttir frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands gestur nefndarinnar í gegnum síma. Umsagnir um málin bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Kvenfélagasambandi Íslands, Neytendasamtökunum, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Matvælastofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, Jónasi Guðmundssyni og Beint frá býli.
    Málin eru að stórum hluta samkynja. Þau fela bæði í sér stefnu í sömu átt, að heimila matvælaframleiðslu sem fer fram í góðgerðaskyni. Í þeim eru þó útfærðar mismunandi leiðir að þessu sama markmiði. Frumvarpið á þingskjali 61, 61. mál, felur í sér að nýrri málsgrein verði bætt við 9. gr. laganna þar sem heimilað verði að gefa út tímabundin starfsleyfi vegna tiltekins atburðar þegar um er að ræða góðgerðastarfsemi, stuðning við félagsstarf eða annan sambærilegan tilgang. Frumvarpið á þingskjali 138, 138. mál, felur hins vegar í sér breytingu á gildissviði laganna, þ.e. að þau taki ekki til einstaklinga og félagasamtaka sem matreiða og bjóða matvæli til neyslu án endurgjalds eða annars ávinnings við einstök tilefni eða sambærilegra aðila sem matreiða eða bjóða matvæli til sölu beint til neytenda í þágu góðgerðastarfsemi og stunda slíka starfsemi ekki að jafnaði og ekki í eigin hagnaðarskyni. Þar fyrir utan gerir síðarnefnda frumvarpið, 138. mál, ráð fyrir því að færa ráðherra heimild til að víkja frá einstökum ákvæðum laganna þegar um er að ræða framleiðendur sem afhenda frumframleiðsluvörur í litlu magni beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda og framleiðendur sem framleiða matvæli með aðferðum sem hefð er fyrir hérlendis.

Athugasemdir umsagnaraðila.
    Í grófum dráttum má flokka athugasemdir umsagnaraðila um málin í tvennt og má segja að flokkarnir endurspegli hvor annan að því leyti að þeir sem gera athugasemdir við annað málið mæla oft með samþykkt hins málsins. Annars vegar er um að ræða athugasemdir við 138. mál í þá átt að það frumvarp gangi gegn anda eða markmiðum laganna eða þeirra Evrópugerða sem þau byggjast á. Hins vegar athugasemdir við 61. mál þess efnis að sú leið sem þar er boðuð sé of flókin og umfangsmikil í framkvæmd til þess að hægt sé að telja hana raunhæfa út frá sjónarmiðum um skilvirkni og forsvaranlega meðferð opinbers fjár.
    Innan nefndarinnar fengu báðir flokkar athugasemda stuðning. Þannig töldu nefndarmenn að ef til vill væri of langt gengið að ætlast til þess t.d. að kvenfélög sem hygðust halda einfaldan kökubasar sæktu um starfsleyfi sem aftur hefði í för með sér eftirlitsskyldu af hálfu heilbrigðiseftirlits. Aftur á móti kynni almenn breyting á gildissviði laganna í þá átt að þeir sem afhentu matvæli í góðgerðaskyni yrðu undanþegnir ákvæðum laganna að vera of opin og því hætta á því að slíkt yrði misnotað og þar með komið í veg fyrir að markmið laganna næðust.

Umræður innan nefndarinnar.
    Nefndin ræddi ýmis sjónarmið í tengslum við meðferð málanna. Meðal annars var rætt um hve beint samband framleiðanda við neytanda væri í þeim tilfellum þegar matvæli eru afhent út af heimilum eða aðstöðu félagasamtaka. Þá var rætt um hve rík áhættutaka neytenda væri í tengslum við neyslu matvæla sem væru framleidd undir slíkum kringumstæðum og hlutverk skaðabótareglna í því samhengi. Að auki var rætt hve auðvelt væri að rekja feril slíkra matvæla til neytenda, umfang dreifingar þeirra og hvort um staðbundið fyrirbæri væri að ræða, þ.e. hve litlar líkur væru á að slík matvæli rötuðu út fyrir íslenskan matvælamarkað.
    Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur koma fram atriði sem nefndin ræddi sérstaklega. Þar var bent á að misræmi væri á milli skilgreiningar laganna á matvælafyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem fjallað væri um í Evrópugerðum sem lágu þeim til grundvallar. Þannig væri skilgreining laganna víðtækari, næði til fleiri aðila, enda næðu Evrópugerðirnar aðeins til fyrirtækja sem hefðu ákveðna samfellu og tiltekið skipulag. Leggur Heilbrigðiseftirlitið til að gerðar verði breytingar á 138. máli þannig að samræmi Evrópugerðanna og laganna verði aukið. Að auki var vakin athygli á að málum væri komið fyrir með svipuðum hætti í danskri löggjöf en þar hafi hugtökin samfella og skipulag verið skýrð sérstaklega með útgáfu leiðbeininga.

Niðurstaða nefndarinnar.
    Að mati nefndarinnar felur hin danska leið, sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur byggir sínar tillögur á, í sér haganlegt fyrirkomulag sem gagnast við útfærslu þess markmiðs sem frumvörpin stefna að. Að vísu verður ekki hjá því komist að líta til þess að íslenskur lagasetningarveruleiki er að nokkru annar en í Danmörku, m.a. með tilliti til þeirra krafna sem lögmætisregla stjórnsýsluréttarins gerir hér á landi.
    Niðurstaða nefndarinnar er að leggja til tvær meginbreytingar á öðru frumvarpinu, 138. máli. Þannig verði 2. gr. þess felld brott og efni 1. gr. breytt. Leggur nefndin til að síðarnefnda greinin kveði á um að nýrri málsgrein verði bætt við 2. gr. laganna sem í raun innihaldi meginefni 1. og 2. gr. frumvarpsins. Í greininni verði ráðherra heimilað að víkja frá einstökum ákvæðum laganna undir ákveðnum kringumstæðum. Í fyrsta lagi þegar aðilar framleiða og markaðssetja matvæli og starfsemi þeirra er ekki samfelld heldur tilfallandi, lýtur ekki sérstöku skipulagi og er ekki rekin í eigin hagnaðarskyni. Í öðru lagi þegar framleiðendur framleiða og markaðssetja frumframleiðsluvörur í litlu magni beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda. Í þriðja lagi þegar framleiðendur sem framleiða og markaðssetja vörur, sem unnar eru úr eigin frumframleiðslu, beint til neytenda, enda sé um takmarkaða, árstíðabundna eða tilfallandi starfsemi að ræða. Í fjórða lagi þegar framleiðendur framleiða matvæli með aðferðum sem hefð er fyrir hérlendis. Þá verði ráðherra fengin heimild til þess að setja reglugerð til nánari skýringar, m.a. á því um hvaða starfsemi er að ræða, hvað teljist staðbundin starfsemi, hvaða skilyrði slík starfsemi þurfi að uppfylla, opinbert eftirlit með starfseminni og hvaða reglur gildi um framleiðslu, markaðssetningu, hollustuhætti, merkingar, umbúðir, rekjanleika, geymslu og flutning slíkra matvæla.
    Um fráviksheimildirnar tekur nefndin eftirfarandi fram: Hvað fyrstu fráviksheimildina varðar og það skilyrði hennar að starfsemi sé ekki rekin í eigin hagnaðarskyni er átt við að heimildin eigi ekki við þegar fjárhagslegum ágóða sem hlýst af framleiðslu eða markaðssetningu matvæla er ráðstafað til eiganda eða eigenda starfseminnar nema þá aðeins að markmið eigendanna, samkvæmt samþykktum eða öðrum sambærilegum gögnum, sé að verja slíkum ágóða til almenningsheilla í víðum skilningi, t.d. til að fjármagna kaup á gjöfum til sjúkrahúsa og kaup á nauðsynjum fyrir þá sem minna mega sín eða til að fjármagna námskeiðahald eða ferðalög almennra félagsmanna í kvenfélögum, kórum eða íþróttafélögum. Hvað aðra fráviksheimildina varðar og vísun til frumframleiðsluvara er átt við framleiðslu eigin afurða sem eru óunnar. Hvað þriðju fráviksheimildina varðar og vísun til vara unninna úr eigin frumframleiðslu er átt við eigin afurðir, sem eru unnar, og þar undir falli m.a. vörur beint af býli, t.d. sala á sultu á býli eða bændamarkaði. Hvað fjórðu fráviksheimildina varðar og vísun til hefðar er átt við framleiðslu matvæla með hefðbundnum aðferðum svo sem hákarlaverkun.
    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarp á þingskjali 138 í 138. máli verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Einar K. Guðfinnsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. mars 2012.Kristján L. Möller,


form.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,


frsm.


Álfheiður Ingadóttir.Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Þór Saari.