Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 267. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1089  —  267. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann
og brottvísun af heimili, nr. 85/2011 (kæruheimild).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Barnaheillum, Mannréttindaskrifstofu Íslands og frá sýslumanninum í Borgarnesi.
    Með frumvarpinu er brugðist við nýlegum dómi Hæstaréttar í máli nr. 557/2011 sem var vísað frá Hæstarétti þar sem í lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili var hvorki að finna sérstaka heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara til æðra dóms né heldur hafi hinn kærði úrskurður fallið undir kæruheimildir 192. gr. laga um meðferð sakamála. Í frumvarpinu er því mælt fyrir um að við lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili bætist ákvæði þess efnis að kæra megi úrskurð dómara samkvæmt lögunum til æðra dómstigs og að við þá málsmeðferð gildi ákvæði laga um meðferð sakamála.
    Við umfjöllun um málið var lagt til að við frumvarpið bættist ákvæði þess efnis að kæra á úrskurði héraðsdóms frestaði ekki framkvæmd hans. Nefndin bendir á að í 2. mgr. 15. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili er kveðið á um að réttaráhrif úrskurðar héraðsdóms miðast við birtingu hans nema dómari ákveði annað. Þannig er heimild fyrir dómara til að ákveða að niðurstaða úrskurðar hans taki gildi síðar, t.d. á meðan málið er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Ef bætt yrði við ákvæði um að kæra úrskurðar héraðsdóms frestaði ekki framkvæmd hans ætti það ekki aðeins við í þeim tilfellum þegar héraðsdómur staðfestir ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann eða brottvísun af heimili heldur einnig ef héraðsdómur hafnar slíkri ákvörðun. Ef slíku ákvæði yrði bætt við gildandi lög yrðu réttaráhrif úrskurðar héraðsdóms um synjun nálgunarbanns eða brottvísunar af heimili strax virk og því gæti sá sem þegar hefur verið vísað brott af heimili samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra farið aftur inn á heimili þann tíma sem málið er í kærumeðferð fyrir æðri dómi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. mars 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


frsm.


Magnús Orri Schram.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Eygló Harðardóttir.


Birgitta Jónsdóttir.