Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 679. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1093  —  679. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu,
með síðari breytingum (eftirlit með heilbrigðisþjónustu).

Frá meiri hluta velferðarnefndar (ÁI, JRG, LGeir, GStein, MN, RR, SkH, EyH).


1. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Ekki skal varðveita persónugreinanleg gögn og upplýsingar, sem aflað hefur verið á grundvelli þessarar málsgreinar, lengur en nauðsynlegt er vegna eftirlitsins. Ákvæði 8. gr. um varanlegar heilbrigðisskrár á landsvísu eiga ekki við um upplýsingar sem aflað er á grundvelli þessarar greinar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið laga um landlækni og lýðheilsu er skv. 1. gr. laganna „að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma“. Til þess að ná þessu markmiði er landlækni falið að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Í 7. gr. laganna er kveðið á um rétt hans til að krefja heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir um nauðsynlegar upplýsingar og gögn til þess að sinna þessu eftirlitshlutverki. Nýleg dæmi eru um að læknar hafi talið vafa leika á um heimildir sínar til að afhenda landlækni persónugreinanlegar upplýsingar, þar sem það sé ekki sérstaklega tiltekið í ákvæði 7. gr. Heilbrigðisyfirvöld telja ótvírætt að læknum beri skylda til að afhenda landlækni þau gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu, þ.m.t. persónuupplýsingar. Ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum og heilbrigðisstarfsmönnum hafa verið í lögum um árabil. Í læknalögum hafa ætíð verið ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum og um skyldu þeirra til að afhenda honum upplýsingar. Landlæknir hefur þannig frá upphafi haft slíkar heimildir og eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um landlækni, nr. 41/2007, er afmörkun á eftirlitshlutverki hans óbreytt þótt það hafi verið nánar útfært þar. Víða í lögum er gert ráð fyrir því að embætti landlæknis fái í hendur persónugreinanlegar upplýsingar til vinnslu eða varðveislu. Hefur embættið sett sér upplýsingaöryggisstefnu um meðferð slíkra upplýsinga. Stefnan lýsir áherslum landlæknis varðandi upplýsingavernd og örugga meðferð upplýsinga í starfsemi embættisins. Hún er útfærð í skjalfestum verkferlum og verklagsreglum sem kynntar hafa verið Persónuvernd og eru í samræmi við viðurkenndan upplýsingaöryggisstaðal. Með hliðsjón af þeim brýnu almannahagsmunum sem í húfi geta verið verður ekki við það unað að nokkur vafi leiki á um rétt landlæknis til að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga, þ.m.t. persónugreinanlegra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru til þess að hann geti sinnt þeirri skyldu sinni að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Heimildir landlæknis í lögum til að afla upplýsinga vegna eftirlits hafa því frá upphafi verið svo rúmar að skylda lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til að verða við kröfu landlæknis um afhendingu upplýsinga og gagna sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu hefur verið talin taka til afhendingar persónugreinanlegra upplýsinga án þess að samþykkis hins skráða þurfi að afla. Hér er lagt til að í ákvæði um skyldu til að afhenda landlækni gögn og upplýsingar verði kveðið nánar á um meðferð persónugreinanlegra upplýsinga sem aflað er vegna eftirlitsins, þannig að skorður eru settar við varanlegri varðveislu þeirra. Breytingunni er ætlað að tryggja að þegar landlæknir telur nauðsynlegt að afla persónugreinanlegra upplýsinga vegna eftirlitsskyldu, hvort sem um er að ræða reglubundið eftirlit eða aðgerðir af sérstöku tilefni, þá séu upplýsingarnar varðveittar á persónugreinanlegu formi aðeins meðan það er nauðsynlegt vegna eftirlitsins. Varðveisla persónugreinanlegra upplýsinga standi því aldrei lengur en nauðsyn ber til og aldrei lengur en það eftirlitsverkefni stendur sem var tilefni öflunar upplýsinganna. Almennt mundi eftirlitsverkefni standa yfir í afmarkaðan tíma sem talinn verði í mánuðum fremur en árum.
    Um upplýsingar sem varðveittar eru til frambúðar í varanlegum skrám er fjallað í 8. gr. laganna og er þar ekki gert ráð fyrir að nein tímatakmörk séu á því hversu lengi má varðveita upplýsingar í skránum. Þar er á hinn bóginn gerður mikilvægur greinarmunur á þeim skrám sem tæmandi eru taldar í 2. mgr. og hafa að geyma persónugreinanlegar upplýsingar og öðrum skrám sem lýst er í 1. mgr. og aðeins skulu hafa að geyma ópersónugreinanlegar upplýsingar. Síðari málsliðnum sem lagt er til að bætt verði við 1. mgr. 7. gr. er ætlað að taka af allan vafa um að munur er á meðferð upplýsinga sem aflað er vegna eftirlits skv. 7. gr. annars vegar og upplýsinga sem færðar eru í varanlegar skrár á landsvísu skv. 8. gr. hins vegar. Þannig er það skilyrði færslu persónugreinanlegra upplýsinga til varanlegrar varðveislu í heilbrigðisskrá að upplýsingarnar eigi efnislega heima í einhverri þeirra skráa sem tilteknar eru í 2. mgr. 8. gr. Það er á hinn bóginn eina skilyrði öflunar persónugreinanlegra upplýsinga á grundvelli 1. mgr. 7. gr. að landlæknir telji þær nauðsynlegar til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þær upplýsingar gætu efnis síns vegna jafnframt ýmist átt heima í skrám á grundvelli 1. mgr. 8. gr. eða í skrám á grundvelli 2. mgr. 8. gr., en sú efnislega aðgreining hefur enga þýðingu við öflun upplýsinga vegna eftirlits á grundvelli 1. mgr. 7. gr. Sem fyrr segir er með frumvarpinu lagt til að skorður verði settar við því hversu lengi landlæknir geymi upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits í persónugreinanlegu formi. Það er enn til marks um eðlismun þeirra upplýsinga sem aflað er á grundvelli 7. gr. annars vegar og upplýsinga sem færðar eru í skrár á grundvelli 8. gr. hins vegar, en eðli málsins samkvæmt eiga tímaskorður ekki við um varanlegar skrár.
    Í 1. mgr. er lagt til að ekki verði heimilt að varðveita upplýsingar sem aflað er vegna sértæks eftirlits í persónugreinanlegu formi lengur en nauðsynlegt er vegna vinnslu í þágu eftirlitsins. Eftir að vinnslu er lokið skulu þær því annaðhvort gerðar ópersónugreinanlegar eða þeim eytt. Persónugreinanlegar upplýsingar sem landlæknir aflar eru almennt dulkóðaðar og öll skoðun upplýsinga er aðgangsstýrð og rekjanleg samkvæmt innra öryggiskerfi landlæknis og þannig tryggt að aðgangur sé takmarkaður við þá sem nauðsynlega þurfa slíkan aðgang vegna starfa sinna. Þá er lagt til að undirstrikað verði að mismunandi reglur gildi annars vegar um varanlegar heilbrigðisskrár skv. 8. gr. og hins vegar upplýsingar sem aflað er á grundvelli 7. gr. vegna eftirlits.