Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 681. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1109  —  681. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórn fiskveiða.

Flm.: Valgeir Skagfjörð.


    Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um þau frumvörp sem lögð hafa verið fram um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Spurningin sem borin verði undir þjóðina í atkvæðagreiðslunni hljóði svo: „Hvaða fyrirkomulag vilt þú að haft verði við stjórn fiskveiða?“ Möguleg svör verði:
     a.      Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar (þskj. 1052, 657. mál 140. löggjafarþings).
     b.      Samkvæmt frumvarpi Hreyfingarinnar (þskj. 207, 202. mál 140. löggjafarþings).
     c.      Samkvæmt frumvarpi Péturs H. Blöndal (þskj. 589, 408. mál 140. löggjafarþings).
     d.      Ekkert framangreindra.

Greinargerð.


    Tillaga sama efnis var flutt á 139. löggjafarþingi.
    Þingsályktunartillaga þessi er sett fram vegna þeirra frumvarpa sem hafa verið lögð fyrir Alþingi um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og þeirrar stefnu Hreyfingarinnar að öll stærri mál eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eru eitt af þeim stóru og langvarandi deilumálum sem stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa setið uppi með og ekki getað leyst. Tillagan er einnig í beinu framhaldi af umræðu um þessi mál á vettvangi stjórnmálanna þar sem forsætisráðherra hefur ítrekað lýst vilja sínum til þess að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Frumvörpin eru um margt ólík og bjóða því upp á raunverulega valkosti en alvörulýðræði snýst einmitt um raunverulega valkosti. Frumvarp ríkisstjórnarinnar er sett fram sem málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Frumvarp Hreyfingarinnar tekur hins vegar mið af almennum sjónarmiðum og leitast við að samræma byggðasjónarmið, réttlætissjónarmið og hagkvæmnissjónarmið með fáum en markvissum tillögum. Frumvarp Péturs H. Blöndal virðist byggjast á ákveðinni markaðshugsjón og gerir ráð fyrir að aflaheimildir verði innkallaðar á löngum tíma.
    Í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna kemur fram að Alþingi er heimilt að vísa lagafrumvörpum til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga þessi gerir ráð fyrir að frumvörpin fari í hefðbundið umsagnarferli hjá viðkomandi fastanefnd Alþingis, að því loknu verði innsendar athugasemdir gerðar opinberar og þá séu málin tilbúin til kynningar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðslan býður upp á fjóra valkosti, frumvarp ríkisstjórnarinnar, frumvarp Hreyfingarinnar, frumvarp Péturs H. Blöndal og ekkert framangreindra frumvarpa.