Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 710. máls.

Þingskjal 1143  —  710. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)



1. gr.

    Í stað orðanna „notar orku“ í 1. gr. laganna kemur: tengist orkunotkun.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „nota orku“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: tengjast orkunotkun.
     b.      Í stað orðanna „notar orku“ í síðari málslið 1. mgr. kemur: tengist orkunotkun.
     c.      Orðin „notar orku og“ í 3. mgr. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna.
     a.      a-liður orðast svo: Vara sem tengist orkunotkun: Vara sem, þegar henni hefur verið komið á markað og/eða hún tekin í notkun, nýtir eða tengist orkunotkun (rafmagni, jarðefnaeldsneyti eða endurnýjanlegum orkugjafa) til að virka sem skyldi eða vara til flutnings og mælingar á slíkri orku, þ.m.t. hlutir, sem nýta orku eða tengjast orkunotkun og ætlunin er að setja í vöru sem tengist orkunotkun og fellur undir lög þessi, sem eru settir á markað og/eða teknir í notkun sem stakir hlutir fyrir notendur og unnt er að meta sérstaklega að því er varðar vistvænleika.
     b.      Í stað orðanna „nota orku“ í b-lið kemur: tengjast orkunotkun.

4. gr.

    Fyrirsögn 5. gr. laganna orðast svo: EB-samræmisyfirlýsingar.

5. gr.

    Í stað orðanna „notar orku“ í 9. gr. laganna kemur: tengist orkunotkun.

6. gr.

    Fyrirsögn 10. gr. laganna orðast svo: Framkvæmd og eftirlit.

7. gr.

    Í stað 11. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar sem orðast svo, ásamt fyrirsögnum, og breytist greinatala samkvæmt því:

    a. (11. gr.)

Markaðseftirlit Neytendastofu.

    Neytendastofa skal fara með markaðseftirlit í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim
    Um skyldur framleiðenda og dreifingaraðila, þ.m.t. skyldur til að tilkynna tafarlaust um innköllun vöru af markaði, eftirlit, málsmeðferð og stjórnsýsluúrræði Neytendastofu, fer að öðru leyti eftir V. kafla laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við getur átt.

    b. (12. gr.)

Viðurlög.

    Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim og ákvörðunum eftirlitsaðila. Slíkar sektir geta numið allt að 10 millj. kr. og skulu renna í ríkissjóð.
    Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum getur Neytendastofa ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist að greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.
    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um heimildir Neytendastofu til að beita úrræðum eftir ákvæðum laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

    c. (13. gr.)

Áfrýjun ákvarðana Neytendastofu.

    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda.
    Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.
    Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum.
    Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar.
    Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.

8. gr.

    Í stað orðanna „notar orku“ í 12. gr. laganna, sem verður 14. gr., kemur: tengist orkunotkun.

9. gr.

    13. gr. laganna, sem verður 15. gr., orðast svo:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009 um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur (endurútgefin) eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2011, sem birt var 6. október 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54/2011, ásamt frekari tilskipunum sem innleiddar verða með reglugerðum samkvæmt heimild í lögum þessum.

10. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu í samstarfi við Neytendastofu sem fer með markaðseftirlit og framkvæmd laganna nái frumvarpið fram að ganga. Meginmarkmið frumvarpsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi er það að innleiða með tilhlýðilegum hætti tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009, um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur (endurútgefin). Gildandi lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/32/EB en henni hefur verið breytt í veigamiklum atriðum, aðallega hvað varðar gildissvið, en tilskipun 2009/125/EB tekur til allra orkutengdra vara í stað þess að ná eingöngu til vara sem nota orku. Margar orkutengdar vörur búa yfir miklum möguleikum til umbóta hvað varðar að draga úr umhverfisáhrifum og ná fram orkusparnaði með betri hönnun. Eitt af meginmarkmiðum tilskipunarinnar er að stuðla að því að hönnun á vörum sem tengjast orkunotkun verði með þeim hætti að viðkomandi vara nýti orkuna sem best og dragi þannig úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið. Undir tilskipunina og efni frumvarpsins falla ekki einvörðungu vörur sem nota, framleiða, flytja eða mæla orku heldur gætu ákveðnar orkutengdar vörur fallið þar undir, þar með talið vörur sem notaðar eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eins og gluggar, einangrunarefni eða tilteknar vörur sem ætlaðar eru fyrir vatnsnotkun, t.d. sturtuhausar eða kranar. Enn fremur er tilskipuninni ætlað að tryggja samræmdar reglur og frjálst flæði slíkra vara á innri markaði Evrópusambandsins. Þannig er ráðgert að vörur tengdar orkunotkun sem uppfylla kröfur varðandi visthönnun skuli merktar með CE-merkinu og þeim fylgi viðeigandi upplýsingar til þess að unnt sé að setja þær á innri markað og tryggja frjálsan flutning þeirra.
    Lagasetningin er nauðsynleg til þess að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-rétti um samræmda löggjöf á EES-svæðinu og til að koma í veg fyrir að heimilt verði að flytja til landsins vörur sem tengjast orkunotkun og uppfylla ekki kröfur annars staðar á EES-svæðinu. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á efniskröfum um orkunýtingu vara sem nota orku. Samkvæmt gildandi lögum getur iðnaðarráðherra sett reglugerðir um orkunýtni einstakra vara sem nota orku en nái frumvarpið óbreytt fram að ganga hefur ráðherra einnig heimild til að setja slíkar reglugerðir fyrir vörur sem tengjast notkun á orku, svo sem vörur sem notaðar eru í byggingarstarfsemi.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi mikil áhrif á íslenska framleiðendur þar sem framleiðsla fárra innlendra framleiðenda fellur undir ákvæði frumvarpsins en það getur haft áhrif á innflytjendur vara sem tengjast orkunotkun þegar varan kemur í fyrsta skipti inn á EES-svæðið. Aftur á móti hefur frumvarpið áhrif á neytendur þar sem það leggur ákveðnar kröfur á framleiðendur um orkunýtni sinna framleiðsluvara og upplýsingaskyldu um orkunotkun viðkomandi vöru.
    Í annan stað er með frumvarpinu stefnt að því að auka og skilgreina betur valdheimildir Neytendastofu vegna brota á lögum um visthönnun vöru sem notar orku. Markmið þeirra breytinga er að tryggja að ákvæði þessara laga varðandi stjórnsýsluúrræði Neytendastofu séu þau sömu og stofnunin hefur samkvæmt öðrum lögum sem hún framfylgir. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að mál er varða brot gegn ákvæðum laganna skuli framsend til lögreglu sem getur lagt sektir á viðkomandi. Við undirbúning þessa frumvarps hefur Neytendastofa bent á að mun eðlilegra sé að vegna brota á lögum þessum sé málsmeðferð sams konar og þegar um er að ræða brot á öðrum lögum sem Neytendastofu er falið almennt eftirlit með og að þar gildi einnig sambærileg ákvæði um málsmeðferð og viðurlög. Ákvarðanir Neytendastofu er unnt að kæra með stjórnsýslukæru til sérstakrar áfrýjunarnefndar, en það þykir hagkvæmara m.a. vegna fjölda mála sem Neytendastofa tekur ákvarðanir um, að fela það slíkri nefnd fremur en að ákvarðanir sæti endurskoðun hjá ráðuneyti eða ráðherra.
    Eins og áður sagði er með frumvarpinu verið að færa gildissvið gildandi laga út þannig að framvegis taki ákvæði þeirra ekki einvörðungu til vistvænnar hönnunar á vöru sem notar orku heldur einnig vöru sem tengist orkunotkun. Ljóst er að ákvæði laga um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun eiga jafnt við innlenda framleiðendur sem aðra framleiðendur sem framleiða og setja vörur á innri markaðinn í Evrópu. Innflytjendur og dreifingaraðilar verða einnig að tryggja að vörur sem þeir selja og markaðssetja séu í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða og staðla sem kunna að gilda um framleiðslu vörunnar hverju sinni. Á heimasíðu Neytendastofu er að finna sameiginleg vefsvæði fyrir öll EES-ríki þar sem eru ítarlegar upplýsingar á íslensku um lög, tilskipanir og framleiðsluferla sem gilda um vörur fyrir innri markaðinn, þar með talið um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Mikilvægt er að jafnt framleiðendur sem innflytjendur kynni sér ávallt gildandi reglur sem gilda um framleiðslu á þeim vörum sem ákvæði laganna taka til. Jafnframt ber seljendum að tryggja að neytendur fái ávallt þær upplýsingar sem kveðið er á um í gilandi lögum varðandi orkumerkingar o.fl.
    Eins og áður sagði felur frumvarpið ekki í sér efnisbreytingar á gildandi reglum um visthönnun vöru heldur veitir það ráðherra víðtækari heimildir en samkvæmt núgildandi lögum til að setja reglugerðir um kröfur varðandi hönnun á orkutengdum vörum. Þar af leiðandi er ekki ljóst hvort Neytendastofa komi til með að hafa aukinn kostnað vegna eftirlits samkvæmt lögunum en það ræðst af umfangi þeirra reglugerða sem iðnaðarráðherra kann að gefa út á grundvelli laganna nái frumvarpið fram að ganga. Þegar fram líða stundir getur því þurft að auka fjárframlag til Neytendastofu vegna markaðseftirlits með vörum sem undir lögin falla.
    Við gerð frumvarpsins var haft náið samstarf við Neytendastofu en jafnframt var haft samráð við innanríkisráðuneytið auk þess sem frumvarpið var sett á vef iðnaðarráðuneytisins til kynningar en engar athugasemdir bárust.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á greininni þannig að hún nái einnig til vara sem tengjast orkunotkun í stað þess að ná aðeins til þeirra sem nota orku.

Um 2.–5. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á eftirlitsákvæðum laganna og af þeirri ástæðu þykir fara betur á því að breyta heiti 10. gr. laganna eins og hér er lagt til.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að felld verði brott núverandi 11. gr. laganna og í stað hennar komi þrjár nýjar greinar. Ákvæðin eru svipuð og sett hafa verið í önnur sérlög þar sem Neytendastofu er falið eftirlitshlutverk sem eru sambærileg við þau sem kveðið er á um í frumvarpi þessu.
    Um a-lið.
    Lagt er til að Neytendastofu verði falið markaðseftirlit með lögunum. Í lögum nr. 134/ 1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, er að finna ítarleg ákvæði um stjórnsýsluúrræði stofnunarinnar gagnvart framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum. Rétt þykir að samræmis sé gætt varðandi valdheimildir og úrræði Neytendastofu vegna markaðseftirlits.
    Um b-lið.
    Lagt er til að Neytendastofu verði veittar sams konar viðurlagaheimildir og hún hefur samkvæmt IX. kafla laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Þannig er lagt til að Neytendastofa geti beitt stjórnvaldssektum þegar fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum laganna. Enn fremur er lagt til að Neytendastofa geti lagt dagsektir á aðila fari hann ekki að ákvörðun Neytendastofu. Líkt og gert er í a-lið er hér lagt til að þar sem þessum lögum sleppir skuli heimildir Neytendastofu til að beita úrræðum gilda eftir ákvæðum laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu þar sem við á. Að öðru leyti þarfnast ákvæði þetta ekki skýringa.
    Um c-lið.
    Í þessari grein er nánar kveðið á um með hvaða hætti megi skjóta ákvörðun Neytendastofu til æðra stjórnvalds og eftir atvikum til dómstóla. Í gildandi lögum er kveðið á um að stjórnvaldsákvörðunum Neytendastofu skuli áfrýjað til áfrýjunarnefndar neytendamála ef aðili vill ekki una ákvörðun stofnunarinnar. Hér þykir einnig eðlilegt að um áfrýjun og málskot til dómstóla gildi sömu reglur og eru í gildi í öðrum lögum sem Neytendastofa annast eftirlit með.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Í greininni er að finna tilvísun í tilskipun 125/2009/EB en skv. 2. mgr. 1. tölul. 23. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríki vísa í hana þegar innleiddar eru reglur á grundvelli tilskipunarinnar.

Um 10. gr.

    Með greininni er lagt til að heiti laganna verði breytt þannig að í stað þess að heiti þeirra verði lög um visthönnun vöru sem notar orku verði það lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Með hliðsjón af breytingunum sem í frumvarpinu felast sem kveða á um víðtækara gildissvið laganna þykir rétt að leggja til þessar breytingar á heiti þeirra til þess að það endurspegli betur innihald þeirra.

Um 11. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

    Breytingartillögur frumvarpsins eru að meginstofni af þrennum toga. Í fyrsta lagi er lagt til að nafni gildandi laga á þessu sviði verði breytt í lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar vegna innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB, um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur. Gildandi lög taka eingöngu til vara sem nota orku en með breytingunni munu lögin taka til allra orkutengdra vara, þar með talið íhlutavara í vörur sem nota orku. Þá veitir frumvarpið ráðherra víðtækari heimildir en hann hefur samkvæmt núgildandi lögum til að setja reglugerðir um kröfur varðandi hönnun á orkutengdum vörum. Í þriðja lagi eru skilgreindar betur valdheimildir Neytendastofu vegna eftirlits og brota á lögunum. Með þessum breytingum er verið að tryggja stofnuninni sömu stjórnsýsluúrræði vegna þessara laga og hún hefur samkvæmt öðrum lögum.
    Í frumvarpinu felast að öðru óbreyttu engin ný verkefni fyrir Neytendastofu. Hins vegar kveður frumvarpið á um auknar heimildir ráðherra til að setja reglugerðir er varða eftirlit með orkutengdum vörum sem kann að fela í sér auknar eftirlitsskyldur af hálfu Neytendastofu. Komi til þess verður að gera ráð fyrir að iðnaðarráðuneytið muni leitast við að forgangsraða til verkefnisins öðrum fjárheimildum innan síns útgjaldaramma. Lögfesting frumvarpsins ætti því ekki að hafa í för með sér teljandi aukningu í útgjöldum ríkissjóðs.