Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 711. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1144  —  711. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Steingrímsson, Ólöf Nordal,
Kristján Þór Júlíusson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 4. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Framfærandi skv. 1. mgr. telst vera forsjáraðili barns, við sameiginlega forsjá skal umönnunarbótum skipt jafnt milli forsjáraðila, nema um annað sé samið. Þó og því aðeins að því gefnu að báðir forsjáraðilar uppfylli kröfur þær sem gerðar eru til bótaþega.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Mælt er fyrir um umönnunarbætur í 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Með umönnunargreiðslum er átt við fjárhagslega aðstoð til foreldra sem eiga börn sem glíma við fötlun eða alvarleg veikindi. Þetta er félagsleg aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður og tilfinnanlegur fyrir foreldra. Umönnunargreiðslur geta verið frá fæðingu barns til 18 ára aldurs. Sækja þarf sérstaklega um bæturnar með því að leggja fram sérstaka umsókn ásamt læknisvottorði til Tryggingastofnunar ríkisins sem metur þörf á aðstoð skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007. Eitt af skilyrðum fyrir umönnunarbótum samkvæmt heimasíðu Tryggingastofnunar er að umsækjandi eigi sama lögheimili og sá sem annast hann. Forsjá getur verið sameiginleg með börnum og í slíkum tilfellum telja flutningsmenn eðlilegt að umönnunarbótum sé skipt jafnt milli forsjáraðila ef umönnun er á beggja höndum og aðilar uppfylli mat Tryggingastofnunar ríkisins á þörf skv. 4. gr. laga nr. 99/2007.
    Með frumvarpi þessu er því lögð til sú breyting frá núgildandi reglum að umönnunarbætur sem heimilt er að inna af hendi samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, til framfæranda fatlaðra og langveikra barna verði skipt milli forsjáraðila ef um sameiginlega forsjá er að ræða, nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Gert er ráð fyrir að ef að forsjáraðilar, sem hafa sameiginlega forsjá og hafa sammælst um að bótum verði ekki skipt, leggi fram undirritaðan samning þess efnis samhliða umsókn til Tryggingastofnunar um umönnunarbætur Breytingin er hugsuð til að tryggja að báðir aðilum sem fari með sameiginlega forsjá fatlaðra og langveikra barna, eigi rétt á umönnunarbótum. Það kemur skýrt fram í lögum um félagslega aðstoð að umönnunarbætur greiðist þegar andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun og gæslu. Flutningsmenn telja því rétt að ef forsjáraðilar eru í þeirri stöðu, þ.e. að um tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun og gæslu er að ræða verði bótunum skipt jafnt milli aðila. Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæðinu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Það er álit flutningsmanna að mikilvægt sé að tryggja réttláta skiptingu umönnunarbóta þegar það á við.