Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 719. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1157  —  719. mál.




Frumvarp til laga



um heiðurslaun listamanna.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar
(BjörgvS, SkH, JRG, ÞBack, ÞKG, RR).



1.     gr.

    Alþingi veitir árlega allt að 25 listamönnum heiðurslaun á fjárlögum.

2.      gr.

    Allsherjar- og menntamálanefnd leggur fram breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga ár hvert um þann hóp listamanna sem nýtur heiðurslauna.

3.      gr.

    Þeir einir geta notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa, skarað fram úr við listsköpun sína eða að störf þeirra að listum hafi skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi. Taka skal tillit til skiptingar í hópi heiðurslaunamanna eftir listgreinum og kynjum.
    Forseti Alþingis skal skipa nefnd þriggja manna, einum tilnefndum af mennta- og menningarmálaráðherra, einum af Bandalagi íslenskra listamanna og einum af samstarfsnefnd háskólastigsins. Allsherjar- og menntamálanefnd skal leita umsagnar nefndarinnar um þá listamenn sem til greina koma að njóti heiðurslauna Alþingis.

4.     gr.

    Heiðurslaun listamanna eru veitt listamanni að fullu til sjötíu ára aldurs og skulu vera þau sömu og starfslaun listamanna eru á hverjum tíma. Eftir sjötugt verði þau 80% af starfslaunum til samræmis við eftirlaunarétt sem aðrar stéttir vinna sér inn.

5.      gr.
         

    Ráðherra hefur heimild, samkvæmt ósk þess sem nýtur heiðurslauna, til að ákveða að listamaður geti afsalað sér heiðurslaunum tímabundið vegna annarra starfa en haldið sæti sínu á heiðurslaunalistanum.

6.      gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2012.

Greinargerð.


    Með frumvarpi meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er lagt til að lögfest verði ákveðin umgjörð um veitingu heiðurslauna listamanna.
    Hér er landi er öflugt menningarlíf og flóran fjölbreytt. Margir afburðalistamenn eru starfandi hér á landi sem og víðs vegar erlendis og á undanförnum árum hefur æ betur komið í ljós hversu miklu listin skilar samfélaginu.
    Alþingi hefur með sérstakri fjárveitingu í fjárlögum heiðrað þá listamenn sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Heiðurslaun listamanna voru veitt samkvæmt lögum um listamannalaun, nr. 29/1967, fram til 1991, þegar þau lög voru leyst af hólmi með nýjum lögum um listamannalaun, nr. 35/1991. Frá 1991 hefur Alþingi síðan samþykkt að veita heiðurslaun til eins árs í senn við umfjöllun um frumvarp til fjárlaga ár hvert. Þótt Alþingi hafi óskorað vald til að ákveða heiðurslaun listamanna hafa komið fram sjónarmið um setja beri reglur um undirbúning tillögugerðar af hálfu þeirrar þingnefndar sem gerir slíka tillögu. Frumvarp þetta byggist á þeirri venju sem hefur skapast um undirbúning og málsmeðferð heiðurslaunatillögu menntamálanefndar Alþingis (nú allsherjar- og menntamálanefnd). Á það við um forræði allsherjar- og menntamálanefndar á tillögugerðinni og að heiðurslaunaþegar njóti launa sinna til æviloka.
    Lagt er til í frumvarpinu að allt að 25 listamenn geti verið meðal þeirra sem njóta heiðurslauna listamanna á hverjum tíma. Eins og verið hefur er kveðið á um fjárveitingu til þess í fjárlögum.
    Þeir listamenn koma til greina samkvæmt tillögunni sem skarað hafa fram úr í listsköpun sinni. Einnig er gert ráð fyrir að listamönnum geti talist til tekna mikilsvert verk í þágu lista hér og erlendis. Hér getur til dæmis verið um að ræða listamenn sem hafa staðið framarlega í listfræðum, verið frumherjar í listgrein eða frumkvöðlar í stefnum og straumum eða mikilvirkir í alþjóðasamskiptum á listasviði.
    Mennta- og menningarmálamálaráðuneyti hefur greitt út fjárhæðina til listamanna samkvæmt því sem kveðið er á um í fjárlögum hverju sinni. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að sá sem nýtur heiðurslauna geti óskað eftir því að afsala sér greiðslum tímabundið en samt haldið sæti á lista yfir heiðurslistamenn.