Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 730. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1168  —  730. mál.
Tillaga til þingsályktunarum viðurkenningu á þjóðarmorði á Armenum.

Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Lilja Mósesdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að það viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–17 og virði minningu þeirra Armena sem urðu fórnarlömb þess glæps gegn mannkyni.

Greinargerð.


    Árið 2015 verða liðin 100 ár frá því að þjóðarmorðið á Armenum hófst. Þjóðarmorð eða hópmorð telst til eiginlegra alþjóðaglæpa og er kerfisbundin útrýming þjóðar eða þjóðarbrots. Það er skilgreint sem refsiverður verknaður framinn í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúarflokki, með því að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi, skaða þá líkamlega eða andlega, þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að eyðingu hópsins eða hluta hans, beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum eða flytja börn með valdi úr hópnum. Árið 1948 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að fordæma skyldi þjóðarmorð og að fyrir þau bæri að refsa.
    Árið 1915 hófu tyrknesk stjórnvöld aðgerðir sem miðuðu að því að fækka Armenum í Tyrklandi. Aðgerðirnar byggðust á fjöldamorðum á armensku þjóðinni en einnig því að hrekja Armena af því svæði þar sem Armenía var en heyrir í dag undir Tyrkland til þeirra svæða þar sem nú eru Sýrland og Írak. Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér pyntingar og aftökur, auk þess sem fólkið var rekið fótgangandi langar vegalengdir, um þúsund kílómetra, með þeim afleiðingum að margir létust eða örkumluðust á ferðalaginu. Ekki eru vitað með vissu hve margir týndu lífi en talið er að tala þeirra liggi á bilinu 600.000–1.500.000 manna.
    Þrátt fyrir að þessir atburðir uppfylli skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 á þjóðarmorði og hafi verið kallaðir fyrsta þjóðarmorð 20. aldar hafa yfirvöld í Armeníu átt erfitt með að hljóta viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á þessum voðaverkum sem slíkum. Vegur þar ef til vill þyngst að Tyrkir hafa ekki viðurkennt þau sem þjóðarmorð og að enn er viðvarandi ágreiningur á milli tyrknesku og armensku þjóðanna. Þá hefur þjóðarmorðið á Armenum fallið í skuggann af voðaverkum sem áttu sér stað síðar á 20. öld, þ.e. þjóðarmorði nasista á gyðingum sem að mörgu leyti hafa átt auðveldara að halda málstað sínum á lofti.
    Þó hafa um 20 þjóðir samþykkt ályktanir sem viðurkenna að þjóðarmorðin hafi átt sér stað. Það er skoðun flutningsmanna að tímabært sé að viðurkenna að um þjóðarmorð hafi verið að ræða og að slíkt beri að fordæma og því er þessi þingsályktunartillaga lögð fram.

Viðauki:
    Eftirfarandi stofnanir hafa þegar viðurkennt þjóðarmorð á Armenum:
          2. júlí 1985     Sameinuðu þjóðirnar birtu skýrslu þar sem fjöldamorðunum á Armenum er lýst sem þjóðarmorði
          8. júní 1987     Evrópuþingið
          24. apríl 1998     Evrópuráðið
          19. nóvember 2007     Þing Mercosur

    Þjóðríki sem þegar hafa viðurkennt þjóðarmorð á Armenum:
          20. apríl 1965     Úrúgvæ
          29. apríl 1982     Kýpur
          14. apríl 1995     Rússland
          25. apríl 1996     Grikkland
          11. maí 2000     Líbanon
          17. nóvember 2000     Ítalía
          29. janúar 2001     Frakkland
          16. desember 2003     Sviss
          31. mars 2004     Argentína
          21. apríl 2004     Kanada
          30. nóvember 2004     Slóvakía
          21. desember 2004     Holland
          19. apríl 2005     Pólland
          14. júlí 2005     Venesúela
          15. desember 2005     Litháen
          5. júní 2007     Síle
          11. mars 2010     Svíþjóð

    Önnur lönd og ríki sem hafa viðurkennt þjóðarmorðin á Armenum:
          10. nóvember 2000     Vatíkanið
          janúar 2010     Skotland
          janúar 2010     Norður-Írland
          27. janúar 2010     Wales
          26. febrúar 2010     Katalónía