Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 732. máls.

Þingskjal 1170  —  732. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, með síðari breytingum (prófnefnd endurskoðenda, varðveisla vinnuskjala, tímabundin niðurfelling réttinda endurskoðenda, afturköllun starfsleyfis endurskoðunarfyrirtækja, samvinna við erlenda eftirlitsaðila o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    6. tölul. 1. gr. laganna orðast svo: Alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar: Alþjóðlegir staðlar um endurskoðun (ISA) og tengdar yfirlýsingar og staðlar, að því marki sem þeir tengjast endurskoðun.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Endurskoðendaráð skv. 14. gr.“ í 1. mgr. kemur: Ráðherra.
     b.      Í stað orðsins „endurskoðendaráðs“ í 3. og 5. mgr. kemur: prófnefndar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Endurmenntunin skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á þriggja ára tímabili. Endurmenntunartímabil skal vera það sama fyrir alla endurskoðendur. Endurmenntunartímabil endurskoðanda sem fær löggildingu í fyrsta sinn hefst 1. janúar árið eftir að löggilding er veitt.
     b.      Orðið „hverju“ fyrra sinni í 3. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Orðin „sem teknir hafa verið upp í íslenskan rétt“ í 9. gr. laganna falla brott.

5. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
    Endurskoðandi skal varðveita vinnuskjöl vegna endurskoðunar á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá áritunardegi endurskoðunar.

6. gr.

    Við 4. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Félagið getur jafnframt lagt á endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtæki sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlit sem beinist að störfum þeirra.

7. gr.

    Við 4. tölul. 13. gr. laganna bætist: og endurskoðunarfyrirtækja.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fylgjast“ í 2. mgr. kemur: hafa eftirlit.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að endurskoðandi gæti að fyrirmælum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Endurskoðendaráð hefur heimild til samvinnu við eftirlitsaðila í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum félaga sem eru með skráða skrifstofu utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefa út verðbréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

9. gr.

    Við 17. gr. laganna bætast fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Nú lætur endurskoðandi ekki skipast við áminningu skv. 2. mgr. eða hann vanrækir alvarlega skyldur sínar að mati endurskoðendaráðs eða hefur ítrekað verið áminntur vegna brota sinna, án þess að starfsemi hans teljist komin í gott horf, hefur ráðið heimild til að fella réttindi hans til endurskoðunarstarfa niður tímabundið. Áður en til þess kemur skal það gefa honum kost á að koma að sjónarmiðum sínum sé þess kostur.
    Telji endurskoðendaráð að endurskoðandi, sem ráðið hefur tímabundið fellt niður réttindi hjá, hafi bætt að fullu úr því sem ábótavant var í rekstri hans eða vinnubrögðum og var tilefni niðurfellingar getur ráðið afturkallað niðurfellinguna.
    Tímabundin niðurfelling réttinda getur ekki verið lengur en til tólf vikna.
    Nú veitir endurskoðendaráð endurskoðanda áminningu eða fellir niður réttindi hans tímabundið og skal þá ráðið tilkynna ráðuneytinu það þegar í stað.
    Endurskoðendaráð getur skotið máli endurskoðanda, sem réttindi til endurskoðunarstarfa hafa tímabundið verið felld niður hjá, til ráðherra. Getur ráðið m.a. gert kröfu um að ráðherra mæli fyrir um ótímabundna niðurfellingu réttinda. Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. helst niðurfelling réttinda endurskoðanda meðan mál er til meðferðar hjá ráðherra.

10. gr.

    Í stað 2. málsl. 7. mgr. 18. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Endurskoðendaráð skal birta úrlausnir sínar eða útdrætti úr þeim opinberlega. Gæta skal nafnleyndar.

11. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skulu veita endurskoðendaráði upplýsingar sem ráðið óskar eftir í tengslum við verkefni sem endurskoðendaráði eru falin í lögunum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar samkvæmt þessari grein.

12. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Endurskoðendaráð skal hafa eftirlit með því að reglulegt gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. Félag löggiltra endurskoðenda skal í samráði við endurskoðendaráð annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, sbr. 4. tölul. 13. gr. Heimilt er að leggja gjald á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlit sem beinist að störfum þeirra.

13. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna kemur ný grein, 26. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra getur afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja:
     1.      hafi fyrirtækið fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga,
     2.      fullnægi fyrirtækið ekki ákvæðum 3. gr. og 4. mgr. 4. gr.,
     3.      að tillögu endurskoðendaráðs, sbr. 25. gr.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal fyrirtækinu veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við.
    Afturköllun á starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.

14. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur sett reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga, þar á meðal um alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA) og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit (ISQC) sem gefnir eru út af Alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC).

15. gr.

    Við 32. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig eru innleidd ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og ákvæði ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknu þriðju löndum, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 og 32/2012.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er samið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008.
    Þann 31. ágúst 2010 skipaði efnahags- og viðskiptaráðherra nefnd um málefni endurskoðenda. Óskaði var eftir því að endurskoðendaráð og Félag löggiltra endurskoðenda tilnefndu tvo nefndarmenn. Tveir nefndarmenn voru skipaðir af ráðherra án tilnefningar. Nefndina skipuðu Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, formaður, Einar Guðbjartsson, lektor við HÍ, Bjarnveig Eiríksdóttir, formaður endurskoðendaráðs, tilnefnd af ráðinu, og Lárus Finnbogason, endurskoðandi, tilnefndur af FLE. Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að nefndinni sé ætlað að fara heildstætt yfir lög og reglur sem gilda um endurskoðendur. Nefndinni var falið að kynna sér lagaumhverfi endurskoðenda í helstu nágrannaríkjum, umræðu á Evrópuvettvangi og líklega þróun fram undan. Þá var áréttað að í starfi sínu skyldi nefndin hafa til hliðsjónar þau atriði sem betur hefðu mátt fara í aðdraganda hruns viðskiptabankanna og komu m.a. fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi atriði sem lúta að endurskoðendum. Þá var nefndinni sérstaklega falið að skoða skylduaðild endurskoðenda að Félagi löggiltra endurskoðenda. Nefndin skilaði skýrslu til ráðherra í byrjun árs 2011 með tillögum að breytingum á lögum um endurskoðendur og lögum um ársreikninga. Vinna nefndarinnar fólst einkum í öflun upplýsinga, úrvinnslu gagna og skýrslugerð. Aflað var skriflegra upplýsinga frá innlendum og erlendum aðilum, en auk þess kallaði nefndin nokkra aðila á fund sinn til frekari upplýsingaöflunar. Nefndin hélt tvo fundi 12. október 2010 með hagsmunaaðilum. Á fyrri fundinn voru boðaðir fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Á seinni fundinn voru boðaðir fulltrúar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tveir fundir voru haldnir með hagsmunaaðilum 26. október 2010. Á fyrri fundinn voru boðaðir fulltrúar Félags löggiltra endurskoðenda og endurskoðendafyrirtækja. Á seinni fundinn voru boðaðir fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Félags fjárfesta. Þann 9. nóvember 2010 boðaði nefndin til sín fulltrúa frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Landssamtökum lífeyrissjóða og 7. desember 2010 boðaði nefndin til sín Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóra og saksóknara hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
    Hluti af tillögum nefndarinnar lýtur að breytingum á stjórnsýslu og eftirliti með endurskoðendum sem og sameiningu verkefna hjá hinu opinbera varðandi umsjón með skráningu og öflun upplýsinga sem tengjast fyrirtækjum í landinu og eru á verkefnasviði ráðuneytisins, svo sem ársreikningaskrá, fyrirtækjaskrá og skráningu sem tengist endurskoðendum. Þar sem endurskipulagning Stjórnarráðsins stendur fyrir dyrum voru þessar tillögur nefndarinnar ekki teknar til skoðunar nú. Aðrar tillögur nefndarinnar kalla á breytingar á öðrum lögum en lögum um endurskoðendur.
    Ráðuneytinu hafa einnig borist ábendingar endurskoðendaráðs um atriði sem valdið hafa ráðinu vandkvæðum við framkvæmd þess eftirlits sem því er falið í lögunum.

II. Meginefni frumvarpsins.
    
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að koma til móts við hluta tillagna framangreindrar nefndar sem og ábendingar endurskoðendaráðs.
    Gert er ráð fyrir að prófnefnd endurskoðenda sem hingað til hefur heyrt undir endurskoðendaráð færist beint undir ráðuneytið. Er þessi breyting í samræmi við reglur sem gilda um aðrar prófnefndir á vegum ráðuneytisins. Þannig mun ráðherra skipa í prófnefndina í stað endurskoðendaráðs. Jafnframt er lögð til sú breyting að prófnefnd geri tillögu til ráðherra um reglugerð um próf og fjárhæð prófgjald.
    Lögð er til breyting á endurmenntunartímabili endurskoðenda þannig að í stað þess að hver endurskoðandi hafi sérstakt endurmenntunartímabil, eins og nú er, verði aðeins eitt endurmenntunartímabil fyrir alla endurskoðendur. Þeir endurskoðendur sem fá réttindi innan tímabilsins skila endurmenntunareiningum í hlutfalli við þann tíma sem viðkomandi hefur haft réttindi. Gera verður breytingar á reglugerð um endurmenntun endurskoðenda til samræmis við þessa tillögu.
    Lagt er til að endurskoðendaráð verði falið að hafa eftirlit með því að endurskoðendur gæti að fyrirmælum laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Gerð er tillaga um að endurskoðendaráði verði heimilað að fella niður réttindi endurskoðanda til endurskoðunarstarfa tímabundið í 12 vikur ef endurskoðandi lætur ekki skipast við áminningu eða hann vanrækir alvarlega skyldur sínar að mati endurskoðendaráðs eða hefur ítrekað verið áminntur vegna brota sinna, án þess að starfsemi hans teljist komin í gott horf. Þannig getur endurskoðendaráð fellt niður í 12 vikur réttindi endurskoðanda sem t.d. sinnir endurskoðunarverkefnum án þess að vera með gilda starfsábyrgðartryggingu.
    Lagt er til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð um alþjóðlega endurskoðunarstaðla en í lögunum er heimild ráðherra bundin við alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem samþykktir hafa verið af sameiginlegu EES-nefndinni. Þær breytingar hafa orðið að ekki er nú gert ráð fyrir að endurskoðunarstaðlarnir verði samþykktir með þeim hætti sem gert var ráð fyrir við setningu laganna. Þessi breyting gerir það að verkum að hægt er að birta endurskoðunarstaðlana sem fylgiskjal með reglugerð í Stjórnartíðindum þegar þeir hafa verið þýddir. Þá er lögð til breyting á skilgreiningu alþjóðlegra endurskoðunarstaðla í 1. gr. laganna til samræmis.
    Gerð er tillaga um að ráðherra geti afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja þegar fyrirtæki hafa fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga, þau fullnægja ekki ákvæðum laganna um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða eftir tillögu endurskoðendaráðs. Telja verður æskilegt að ráðherra hafi umrædda heimild ef endurskoðunarfyrirtæki uppfyllir ekki lengur skilyrði laganna fyrir starfsleyfisveitingu.
    Lagðar eru til breytingar til innleiðingar á tveimur ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar. Ákvörðun 2010/485/ESB miðar að því að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og lögbærra yfirvalda Ástralíu og Bandaríkjanna hvað varðar eftirlit með endurskoðendum. Ákvörðun 2011/30/ESB kveður á um jafngildi opinberra eftirlitskerfa, gæðatryggingakerfa og rannsóknar- og viðurlagakerfa aðildarríkjanna annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar. Með breytingunni verður endurskoðendaráði veitt heimild til að gera samning við eftirlitsaðila í tilteknum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um samvinnu við eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

III. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.
    Lagðar eru til breytingar til innleiðingar á tveimur ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar. Ákvörðun 2010/485/ESB miðar að því að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og lögbærra yfirvalda Ástralíu og Bandaríkjanna hvað varðar eftirlit með endurskoðendum. Ákvörðun 2011/30/ESB kveður á um jafngildi opinberra eftirlitskerfa, gæðatryggingakerfa og rannsóknar- og viðurlagakerfa aðildarríkjanna annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar. Með breytingunni verður endurskoðendaráði veitt heimild til að gera samning við eftirlitsaðila í tilteknum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um samvinnu við eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

IV. Samráð.
    
Eins og fram hefur komið skipaði efnahags- og viðskiptaráðherra nefnd til að endurskoða lög um endurskoðendur. Tveir nefndarmenn voru skipaðir af ráðherra án tilnefningar, einn nefndarmaður var tilnefndur af endurskoðendaráði og einn nefndarmaður var tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda. Nefndin fékk á fund sinn eftirtalda hagsmunaaðila, Fjármálaeftirlitið, Seðlabanka Íslands, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, fulltrúa frá Félagi löggiltra endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, SA, Félag fjárfesta, SFF og Landssamtök lífeyrissjóða. Auk þess fékk nefndin á sinn fund Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóra og saksóknara hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Eins og fram hefur komið skilaði nefndin skýrslu til ráðherra í byrjun árs 2011.
    Við samningu frumvarpsins hafði ráðuneytið samráð við Sigurð Þórðarson, endurskoðendaráð og Félagi löggiltra endurskoðenda. Komu aðilar með gagnlegar ábendingar um efnisatriði frumvarpsins.

V. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það stuðla að betra og skilvirkara eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Endurskoðendaráði eru með frumvarpinu veittar auknar heimildir, m.a. til að kalla eftir gögnum vegna framkvæmdar eftirlits með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lögð er til breyting á skilgreiningu laganna á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum en í núgildandi lögum eru alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar skilgreindir sem alþjóðlegir staðlar um endurskoðun (ISA) og tengdar yfirlýsingar og staðlar, að því marki sem þeir tengjast endurskoðun, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt í samræmi við 26. gr. tilskipunar 2006/43/EB og teknir hafa verið upp í íslenskan rétt. Í 26. gr. tilskipunar 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga kemur fram að aðildarríkin skuli krefjast þess að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki annist lögboðna endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem framkvæmdastjórnin samþykki í samræmi við málsmeðferð sem um getur í tilskipuninni. Einnig segir í ákvæðinu að aðildarríkjunum sé heimilt að beita innlendum endurskoðunarstaðli svo fremi að framkvæmdastjórnin hafi ekki samþykkt alþjóðlegan endurskoðunarstaðal sem nær yfir sama efni. Þá kemur fram að birta skuli samþykkta alþjóðlega endurskoðunarstaðla í heild sinni í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á öllum opinberum tungumálum bandalagsins. Í bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 79/2008 kemur fram að þar til alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar hafa verið teknir upp í íslenskan rétt skuli endurskoðun skv. 9. gr. fara eftir góðri endurskoðunarvenju. Þá segir að með góðri endurskoðunarvenju sé átt við „að endurskoðað sé með viðurkenndum aðferðum í samræmi við leiðbeinandi reglur um endurskoðun (ISA) út gefnar af alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) sem Félag löggiltra endurskoðenda er aðili að“. Þar sem alþjóðlegu endurskoðunarstaðlarnir hafa ekki verið teknir upp með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í tilskipun 2006/43/EB og birtir í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eins og kveðið er á um í 26. gr. tilskipunarinnar er í gildi bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 79/2008.
    Lagt er til að gerðar verði breytingar á þeim ákvæðum laga nr. 79/2008 þar sem vísað er til alþjóðlegra endurskoðunarstaðla þannig að ekki verði vísað til þess að staðlarnir verði sérstaklega innleiddir í íslenskan rétt í samræmi við það ferli sem lýst er í 31. gr. núgildandi laga. Þess í stað verði ráðherra veitt heimild til að birta með reglugerð alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem gefnir eru út af Alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC).

Um 2. gr.

    Prófnefnd endurskoðenda hefur hingað til heyrt undir endurskoðendaráð og var skipað í prófnefndina af ráðinu. Lagt er til að prófnefndin færist beint undir ráðuneytið og að ráðherra skipi í nefndina. Þessi breyting er í samræmi við reglur sem gilda um aðrar prófnefndir á vegum ráðuneytisins. Þannig mun ráðherra skipa í prófnefndina í stað endurskoðendaráðs. Prófnefnd mun jafnframt gera tillögu til ráðherra um reglugerð um próf og fjárhæð prófgjald. Bæði endurskoðendaráð og FLE voru fylgjandi þessari breytingu.

Um 3. gr.

    Lögð er til breyting á endurmenntunartímabili endurskoðenda þannig að í stað þess að hver endurskoðandi hafi sérstakt endurmenntunartímabil, eins og nú er, sé aðeins eitt endurmenntunartímabil fyrir alla endurskoðendur. Núverandi fyrirkomulag hefur valdið vandkvæðum við eftirlit með því að endurskoðendur uppfylli ákvæði laganna og reglugerðar um endurmenntun. Því er lagt til að allir endurskoðendur verði að uppfylla endurmenntunarkröfur innan sama þriggja ára tímabilsins. Þeir endurskoðendur sem fá réttindi innan tímabilsins skila endurmenntunareiningum í hlutfalli við þann tíma sem viðkomandi hefur haft réttindi á því tímabili. Gera verður breytingar á reglugerð um endurmenntun endurskoðenda til samræmis við þessa tillögu.

Um 4. gr.

    Lögð er til breyting á 9. gr. laganna til samræmis við önnur ákvæði þar sem vísað er til innleiðingar alþjóðlegra endurskoðunarstaðla sem samþykktir hafa verið af sameiginlegu EES-nefndinni. Nánar er fjallað um þessa breytingu í skýringum við 1. gr.

Um 5. gr.

    Lagt er til að endurskoðendum verði gert að varðveita vinnuskjöl vegna endurskoðunar á tryggan og öruggan hátt í sjö ár frá áritunardegi endurskoðunar.

Um 6. gr.

    Í 4. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um heimild Félags löggiltra endurskoðenda til að innheimta gjald hjá félagsmönnum til að standa straum af kostnaði við störf sem þeim eru falin með lögum. Nær þessi heimild einnig til innheimtu gjalds vegna gæðaeftirlits. Rétt þykir að kveðið verði með skýrum hætti á um að félaginu sé heimilt að innheimta sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlit hjá þeim aðila sem gæðaeftirlitið beinist að. Þannig greiði endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki fyrir gæðaeftirlit sem framkvæmt er hjá viðkomandi endurskoðanda eða fyrirtæki.

Um 7. gr.

    Lagðar eru til breytingar á greininni þar sem skýrt er tekið fram að Félag löggiltra endurskoðenda skuli annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja. Er þessi breyting í samræmi við ákvæði 15. gr. núgildandi laga þar sem endurskoðendaráði er sérstaklega falið að fylgjast með að reglulegt gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram, sem og ákvæði 22. gr. núgildandi laga þar sem segir að endurskoðunarfyrirtækjum og endurskoðendum sem þar starfa og sjálfstætt starfandi endurskoðendum sé skylt að sæta gæðaeftirliti.

Um 8. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar í 2. mgr. þannig að í stað þess að fram komi að endurskoðendaráð skuli sérstaklega „fylgjast“ með komi að endurskoðendaráð skuli sérstaklega „hafa eftirlit“ með. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.
    Lagt er til að endurskoðendaráð hafi sérstaklega eftirlit með því að endurskoðendur fari að ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, en í g-lið 1. mgr. 2. gr. þeirra laga er sérstaklega tekið fram að endurskoðendur falli undir lögin.
    Lagðar eru til breytingar til innleiðingar á tveimur ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar. Ákvörðun 2010/485/ESB miðar að því að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum og lögbærra yfirvalda Ástralíu og Bandaríkjanna hvað varðar eftirlit með endurskoðendum. Ákvörðun 2011/30/ESB kveður á um jafngildi opinberra eftirlitskerfa, gæðatryggingakerfa og rannsóknar- og viðurlagakerfa aðildarríkjanna annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar. Með breytingunni verður endurskoðendaráði veitt heimild til samvinnu og gerð samstarfssamninga við eftirlitsaðila í tilteknum ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins um upplýsingaskipti og eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Um 9. gr.

    Gerð er tillaga um að endurskoðendaráði verði heimilað að fella niður réttindi endurskoðanda til endurskoðunarstarfa tímabundið í 12 vikur ef endurskoðandi lætur ekki skipast við áminningu eða hann vanrækir alvarlega skyldur sínar að mati endurskoðendaráðs eða hefur ítrekað verið áminntur vegna brota sinna, án þess að starfsemi hans teljist komin í gott horf. Þannig getur endurskoðendaráð fellt niður í 12 vikur réttindi endurskoðanda, t.d. til að koma í veg fyrir að endurskoðandi sinni endurskoðunarverkefnum án þess að vera með gilda starfsábyrgðartryggingu. Sambærilega heimild er að finna í lögum um sölu fasteigna-, fyrirtækja og skipa þar sem eftirlitsnefnd Félags fasteignasala er heimilað að svipta fasteignasala löggildingu tímabundið í tilteknum tilvikum.

Um 10. gr.

    Lagt er til að gerðar verði breytingar á 7. mgr. 18. gr. núgildandi laga þannig að endurskoðendaráð skuli birta úrlausnir sínar eða útdrætti úr þeim opinberlega en þó þannig að gætt sé nafnleyndar. Úrlausnir ráðsins geta haft þýðingu og mikilvægt er að unnt sé að staðreyna afstöðu nefndarinnar til álitamála sem upp hafa komið.

Um 11. gr.

    Lagt er til að endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum verði skylt að veita endurskoðendaráði upplýsingar í tengslum við þau verkefni sem ráðinu eru falin með lögunum. Er hér átt við eftirlit skv. 15. gr. laganna, mál sem ráðið tekur til meðferðar að eigin frumkvæði skv. 16. gr. laganna og samvinnu við erlenda eftirlitsaðila skv. 15. gr. laganna.

Um 12. gr.

    Í 15. gr. núgildandi laga er endurskoðendaráði falið eftirlit með því að reglulegt gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram og í 13. gr. laganna er Félagi löggiltra endurskoðenda falið í samráði við endurskoðendaráð að annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda. Talið er rétt að gera þá breytingu á 22. gr. laganna að þar séu ítrekuð framangreind hlutverk endurskoðendaráðs og Félags löggiltra endurskoðenda hvað varðar gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja. Jafnframt er talið rétt að kveðið sé sérstaklega á um það í ákvæðinu að heimilt sé að leggja á endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki gjald til að standa straum af kostnaði við gæðaeftirlit sem beinist að störfum þeirra.

Um 13. gr.

    Gerð er tillaga um að ráðherra geti afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja hafi fyrirtæki fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga, þau fullnægja ekki ákvæðum laganna um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða að tillögu endurskoðendaráðs. Telja verður æskilegt að ráðherra hafi umrædda heimild til að afturkalla starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja, t.d. í þeim tilvikum þar sem fyrirtækin uppfylla ekki lengur skilyrði laganna fyrir starfsleyfisveitingu. Ráðherra hefur sambærilega heimild til niðurfellingar réttinda endurskoðenda.

Um 14. gr.

    Lagt er til að ráðherra verði m.a. heimilað að setja reglugerð um alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA) og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit (ISQC) sem gefnir eru út af Alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC), en í núgildandi lögum er heimild ráðherra bundin m.a. við alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem samþykktir hafa verið af sameiginlegu EES-nefndinni. Þær breytingar hafa orðið að ekki er nú gert ráð fyrir að endurskoðunarstaðlarnir verði samþykktir með þeim hætti sem gert var ráð fyrir við setningu laganna. Þessi breyting gerir það að verkum að ráðherra getur m.a. sett reglugerð um alþjóðlega endurskoðunarstaðla (ISA) og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit (ISQC) sem gefnir eru út af Alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) þegar þeir hafa verið þýddir.

Um 15. gr.

    Gerðar eru breytingar á greininni vegna innleiðingar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2010/485/ESB um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2011/30/ESB um jafngildi opinberra eftirlits-, gæðatryggingar-, rannsóknar- og viðurlagakerfa fyrir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki í tilteknum þriðju löndum og umbreytingartímabil vegna endurskoðunarstarfsemi endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja í Evrópusambandinu sem eru frá tilteknum þriðju löndum, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 og 32/2012.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, með síðari breytingum (prófnefnd endurskoðenda, varðveisla vinnuskjala, tímabundin niðurfelling réttinda endurskoðenda, afturköllun starfsleyfis endurskoðunarfyrirtækja, samvinna við erlenda eftirlitsaðila o.fl.).

    Með frumvarpi þessu er ætlunin að færa í lög ýmsar tillögur endurskoðunarnefndar um lögin og ábendingar endurskoðendaráðs er varða framkvæmd laganna. Þá felur frumvarpið í sér innleiðingu í lög á ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar nr. 2010/485/EB og nr. 2011/ 30/EB.
    Helstu breytingar sem í frumvarpinu felast eru eftirtaldar: Í fyrsta lagi er lagt til að prófnefnd endurskoðenda sem hingað til hefur heyrt undir endurskoðendaráð færist beint undir ráðuneytið. Er þessi breyting í samræmi við reglur sem gilda um aðrar prófnefndir á vegum ráðuneytisins. Í öðru lagi er lögð til breyting á endurmenntunartímabili endurskoðenda þannig að í stað þess að hver endurskoðandi hafi sitt endurmenntunartímabil eins og nú er verði aðeins eitt tímabil fyrir alla endurskoðendur. Í þriðja lagi er lagt til að endurskoðendaráði verði falið að hafa eftirlit með því að endurskoðendur gæti að fyrirmælum laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í fjórða lagi er lagt til að endurskoðendaráði verði í tilteknum tilvikum heimilað að fella tímabundið í 12 vikur niður réttindi endurskoðanda til endurskoðunarstarfa. Í fimmta lagi er lagt til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð um alþjóðlega endurskoðunarstaðla en í gildandi lögum er heimild ráðherra bundin við staðla sem samþykktir hafa verið af sameiginlegu EES-nefndinni. Í sjötta lagi er lagt til að ráðherra geti í tilteknum tilvikum afturkallað starfsleyfi endurskoðunarfyrirtækja. Í sjöunda lagi er lagt til að innleiddar verði tvær ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Annars vegar ákvörðun um bætta samvinnu yfirvalda í aðildarríkjunum og lögbærra yfirvalda Ástralíu og Bandaríkjanna hvað varðar eftirlit með endurskoðendum. Hins vegar ákvörðun um að jafngilda opinber eftirlitskerfi, gæðatryggingakerfi og rannsóknar- og viðurlagakerfi aðildarríkjanna annars vegar og tiltekinna þriðju ríkja hins vegar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki ástæða til að ætla að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.