Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 735. máls.

Þingskjal 1173  —  735. mál.Frumvarp til laga

um atvinnutengda starfsendurhæfingu
og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
I. KAFLI
Gildissvið, markmið, skýringar og skyldutrygging.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um starfsendurhæfingarsjóði, framlög til þeirra og rétt einstaklinga til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa atvinnutengda starfsendurhæfingu sem skal vera einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfa saman eins og kostur er og leitast við að skilgreina og sinna hlutverkum sínum með þeim hætti að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

3. gr.
Atvinnutengd starfsendurhæfing.

    Í lögum þessum merkir atvinnutengd starfsendurhæfing ferli sem felur í sér ráðgjöf og úrræði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa til að auka starfsgetu þeirra og stuðla markvisst að endurkomu þeirra til vinnu að fullu eða hluta. Atvinnutengd starfsendurhæfing skal byggð á einstaklingsbundinni áætlun, sbr. b-lið 1. mgr. 10. gr., þar sem unnið er með styrkleika einstaklingsins samhliða því að lögð er áhersla á að draga úr áhrifum hindrana sem skerða starfsgetu hans.

4. gr.
Skyldutrygging og aðild að starfsendurhæfingarsjóði.

    Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem eru á aldrinum 16 til 70 ára, skal tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með greiðslu iðgjalds í starfsendurhæfingarsjóð, sbr. 5. gr., að uppfylltum skilyrðum laga þessara.
    Um aðild að starfsendurhæfingarsjóði fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs velur launamaður sér starfsendurhæfingarsjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Sá sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi velur sér starfsendurhæfingarsjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Ráðherra skal með reglugerð viðurkenna þann starfsendurhæfingarsjóð sem iðgjaldi skal skilað til sé ekki kveðið á um aðild að starfsendurhæfingarsjóði í kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti eða hann ekki valinn þegar það á við.
    Óheimilt er að neita einstaklingi um aðild að starfsendurhæfingarsjóði, svo sem á grundvelli heilsufars, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns, enda uppfylli hann skilyrði laga þessara um aðild að starfsendurhæfingarsjóði.

II. KAFLI
Framlög til starfsendurhæfingarsjóða.
5. gr.
Framlag atvinnurekenda.

    Öllum atvinnurekendum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi er skylt að greiða iðgjald vegna sjálfra sín og launamanna er starfa hjá þeim til starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. 2. mgr. 4. gr. Iðgjald atvinnurekanda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi til starfsendurhæfingarsjóðs skal vera 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Iðgjald skv. 1. mgr. skal greitt í hverjum mánuði til þess lífeyrissjóðs sem lífeyrisiðgjald vegna launamanns eða þess er stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er greitt til. Um gjalddaga og eindaga þess fer eftir reglum þeim sem gilda um skil lífeyrisiðgjalds til viðkomandi lífeyrissjóðs.
    Lífeyrissjóður skal skila innheimtu iðgjaldi skv. 1. mgr. til hlutaðeigandi starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að því er skilað til lífeyrissjóðs, sbr. 2. mgr., að frádreginni þóknun vegna umsýslunnar. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjaldið fellur í gjalddaga. Atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi skulu upplýsa lífeyrissjóðinn um til hvaða starfsendurhæfingarsjóðs iðgjaldi skuli skilað, ella skal iðgjaldinu skilað til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra viðurkennir að taki við iðgjöldum þegar sjóður er ekki valinn, sbr. 2. mgr. 4. gr.
    Lífeyrissjóður skal árlega innheimta vangreidd iðgjöld skv. 1. mgr. gegn greiðslu innheimtuþóknunar.
    Við ákvörðun þóknana skv. 3. og 4. mgr. skal tryggt að umsýsla og innheimta lífeyrissjóðsins hafi ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir lífeyrissjóðinn, sbr. 4. og 5. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ráðherra skal ákveða þóknun náist ekki samkomulag um hana milli hlutaðeigandi lífeyrissjóðs og starfsendurhæfingarsjóðs.

6. gr.
Framlag lífeyrissjóða.

    Lífeyrissjóður, sem veitir viðtöku iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skal inna af hendi sérstakt gjald til starfsendurhæfingarsjóðs vegna sjóðfélaga sem nemur sömu fjárhæð og greidd hefur verið til þess sama starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. mgr. 5. gr. vegna hlutaðeigandi sjóðfélaga.
    Lífeyrissjóður skal skila gjaldi skv. 1. mgr. til starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að atvinnurekandi eða sá sem stundar sjálfstæða starfsemi stendur skil á lífeyrisiðgjaldi til sjóðsins.

7. gr.
Framlag ríkisins.

    Hluti af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald skal renna til starfsendurhæfingarsjóða, sbr. 3. gr. laga um tryggingagjald.
    Framlagið skal greitt í október hvert ár og skiptast milli starfsendurhæfingarsjóða á grundvelli hlutdeildar hvers sjóðs í heildarframlögum skv. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. til starfsendurhæfingarsjóða á næstliðnu almanaksári.

III. KAFLI
Starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.
8. gr.
Tryggingavernd.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum er:
     1.      Sá sem iðgjald er greitt fyrir til starfsendurhæfingarsjóðs skv. 5. gr. og telst hann tryggður í allt að tólf mánuði eftir að síðasta greiðsla barst starfsendurhæfingarsjóði eða lengur ef ástæða þess að hann hefur ekki getað tekið þátt á vinnumarkaði að fullu er í eðlilegu samhengi við þann heilsubrest sem varð til þess að hann hætti störfum.
     2.      Sá sem fær greiðslur frá sjúkrasjóði eða fjölskyldu- og styrktarsjóði stéttarfélags, Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði, tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, tekjutengdar greiðslur samkvæmt lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum eða er fjarverandi frá eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi vegna veikinda.
     3.      Sá sem nýtur tryggingaverndar á grundvelli samnings starfsendurhæfingarsjóðs við ráðherra, sbr. 9. gr.
    Sá sem telst tryggður skv. 1. mgr. skal jafnframt uppfylla skilyrði skv. 11. gr. til að eiga rétt til þjónustu starfsendurhæfingarsjóða.

9. gr.
Samningur við ráðherra.

    Þeir sem hyggjast standa að stofnun og rekstri starfsendurhæfingarsjóðs skulu gera samning við ráðherra um þjónustu sjóðsins, sbr. 10. gr., við einstaklinga utan vinnumarkaðar, þar á meðal þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar og þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og eftir atvikum aðra þá sem eiga ekki rétt til þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 8. gr., að uppfylltum skilyrðum 11. gr. Kostnaður vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar þessara einstaklinga greiðist ekki sérstaklega en telst felast í framlagi úr ríkissjóði skv. 7. gr.
    Samningar skv. 1. mgr. skulu almennt vera ótímabundnir. Í þeim skal meðal annars kveðið á um eftirlit ráðherra með þjónustu sjóðsins skv. 23. gr., skil á fjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um mat á árangri. Árlega skal fara yfir framgang samningsins og möguleika til þróunar en endurskoða skal samninginn reglulega.

10. gr.
Þjónusta á vegum starfsendurhæfingarsjóða.

    Starfsendurhæfingarsjóður skal:
     a.      Skipuleggja, hafa umsjón með og fjármagna þjónustu ráðgjafa í atvinnutengdri starfsendurhæfingu sem aðstoða þá sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr.
     b.      Móta og fjármagna gerð sérstakra einstaklingsbundinna áætlana um atvinnutengda starfsendurhæfingu fyrir þá sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr.
     c.      Fjármagna viðeigandi úrræði, aðgerðir og verkefni á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar fyrir þá sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr., samkvæmt einstaklingsbundnum áætlunum eftir því sem við á hverju sinni.
     d.      Veita atvinnurekendum og stjórnendum nauðsynlega fræðslu og stuðning með það að markmiði að stuðla að endurkomu einstaklinga til starfa eða auka möguleika þeirra til þátttöku í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa.
    Þegar tryggður einstaklingur skv. 8. gr. hefur þörf fyrir þjónustu sem veitt er innan annarra þjónustukerfa á vegum ríkis og sveitarfélaga til að ná árangri við að bæta starfsgetu sína skulu ráðgjafar starfsendurhæfingarsjóða leita eftir samstarfi við hlutaðeigandi þjónustuaðila í samráði við viðkomandi einstakling.
    Starfsendurhæfingarsjóði er jafnframt heimilt að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu, einn og sér eða í samstarfi við aðra aðila.

11. gr.
Skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóða.

    Skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs er að einstaklingur búi við heilsubrest sem hindrar fulla þátttöku hans á vinnumarkaði og að hann stefni að endurkomu á vinnumarkað eða að auka þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða má. Enn fremur er það skilyrði að einstaklingurinn hafi þörf fyrir þjónustuna, hún sé til þess fallin að auðvelda honum að fara aftur til vinnu og líkleg til árangurs á þeim tíma sem hún er veitt. Þá er það skilyrði að einstaklingurinn hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu og fylgja þeirri áætlun sem þar er sett fram.
    Starfsendurhæfingarsjóður metur hvort skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.
    Starfsendurhæfingarsjóði er heimilt að binda þjónustu við einstakling skv. 10. gr. við það skilyrði að hann skuldbindi sig til virkrar þátttöku í atvinnutengdri starfsendurhæfingu, þar með talið með því að lýsa sig reiðubúinn til þátttöku í atvinnutengdri starfsendurhæfingu sem getur að hluta farið fram í vinnuumhverfi, með starfskynningum, vinnuprófunum, þátttöku í sjálfboðaverkefnum eða reynsluráðningu á vinnumarkaði.

12. gr.
Meðferð persónuupplýsinga.

    Upplýsingaskrár starfsendurhæfingarsjóða þar sem fram koma upplýsingar um þá sem njóta þjónustu sjóðanna skulu varðveittar með öruggum hætti þannig að upplýsingarnar glatist ekki. Starfsmenn sem starfa á vegum starfsendurhæfingarsjóða og koma að ráðgjöf og gerð einstaklingsbundinna áætlana og þurfa af þeirri ástæðu á upplýsingum um hlutaðeigandi að halda skulu hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum í upplýsingaskrá þess sjóðs sem þeir starfa hjá. Hið sama á við um fagaðila sem starfa á vegum sjóðsins og eru bundnir trúnaðarskyldu samkvæmt öðrum lögum. Að öðru leyti er aðgangur að upplýsingaskrá starfsendurhæfingarsjóðs óheimill.
    Sé rekstri starfsendurhæfingarsjóðs hætt skal flytja upplýsingarnar sem skráðar eru skv. 1. mgr. til embættis landlæknis.
    Sá sem nýtur þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs á rétt til aðgangs að upplýsingum um sjálfan sig, hvort sem er í heild eða að hluta, og til að fá afrit af þeim ef hann óskar þess.
    Að öðru leyti gilda lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

IV. KAFLI
Stofnun, starfsemi og stjórn starfsendurhæfingarsjóða.
13. gr.
Viðurkenning ráðherra.

    Starfsendurhæfingarsjóður skal starfa sem sjálfseignarstofnun sem stofnuð er af félögum á vegum einstaklinga eða samtaka á vinnumarkaði. Sjóðurinn skal að jafnaði taka reglulega við greiðslum skv. 5. gr. vegna að lágmarki 10.000 launamanna og/eða þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
    Þeir sem hyggjast standa að stofnun og rekstri starfsendurhæfingarsjóðs skulu tilkynna fyrirhugaðan rekstur til ráðherra. Ráðherra veitir starfsendurhæfingarsjóði viðurkenningu að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Að fyrir liggi samþykktir (skipulagsskrá) í samræmi við 14. gr.
     2.      Að fyrir liggi innkaupastefna fyrir sjóðinn í samræmi við 18. gr.
     3.      Að fyrir liggi samningur við ráðherra skv. 9. gr.
    Óheimilt er að hefja rekstur starfsendurhæfingarsjóðs fyrr en viðurkenning ráðherra samkvæmt 2. mgr. liggur fyrir og skráning sjálfseignarstofnunar hefur formlega tekið gildi.
    Starfsendurhæfingarsjóðum er einum heimilt auk þess sem þeim er skylt að nota í heiti sínu orðið „starfsendurhæfingarsjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum eða til nánari skýringa á starfsemi sinni.

14. gr.
Samþykktir (skipulagsskrá).

    Starfsendurhæfingarsjóður skal í samþykktum (skipulagsskrá) skilgreina starfssvið sitt með viðeigandi hætti þannig að fram komi hverjir eigi aðild að sjóðnum á grundvelli iðgjalda skv. 5. gr., og hverjir eigi rétt á þjónustu sjóðsins á grundvelli 2. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr., sbr. einnig samning við ráðherra skv. 9. gr.
    Auk þeirra atriða sem um getur í 1. mgr. skal eftirtalið koma fram í samþykktum (skipulagsskrá) starfsendurhæfingarsjóðs:
     1.      Heiti, heimili og aðalstarfsstöð sjóðsins.
     2.      Markmið, verkefni og hlutverk sjóðsins.
     3.      Stofnendur sjóðsins og framlagsfé þeirra.
     4.      Stofnfé sjóðsins.
     5.      Hvort sjóðurinn skuli taka við öðrum fjármunum en reiðufé í tengslum við stofnunina.
     6.      Almenn skilyrði um aðild að sjóðnum og um brottfall aðildar.
     7.      Hvernig boða skuli til ársfundar, hvaða mál skuli þar lögð fram, hverjir eigi þar atkvæðisrétt og hvernig atkvæðisréttur er ákveðinn.
     8.      Hlutverk stjórnar, fjöldi stjórnarmanna og varamanna þeirra, stjórnartími þessara aðila, svo og hvernig vali þeirra og endurskoðanda skuli háttað, sbr. 16. gr.
     9.      Hlutverk og skipan að minnsta kosti 20 manna fulltrúaráðs sem kemur árlega saman. Kveða skal á um val og starfstíma fulltrúaráðsins ásamt hlutverki eða starfssviði þess. Fulltrúaráðið skal meðal annars velja í stjórn í samræmi við ákvæði samþykkta (skipulagsskrá), fylgjast með rekstri sjóðsins og hafa eftirlit með því hvernig stjórn og framkvæmdastjóri ráða málum hans, þar með töldum fjármálum, og setja sjóðnum nauðsynlegar starfsreglur.
     10.      Hvernig ráðstafa skuli rekstrarafgangi eða bregðast við ef tap verður á rekstri starfsendurhæfingarsjóðsins.
     11.      Framkvæmd reglubundinnar úttektar skv. 2. mgr. 15. gr. á fjárhag, skuldbindingum og starfsemi sjóðsins.
     12.      Rétt þeirra sem eru tryggðir skv. 8. gr. til þjónustu og hver séu nánari skilyrði réttar til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar skv. 11. gr. Þá skal kveðið á um framkvæmd þjónustunnar.
     13.      Hvernig staðið skuli að breytingu á samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins.
     14.      Upplýsingaskylda sjóðsins við þá sem teljast tryggðir skv. 8. gr.
     15.      Hver sé bær til að taka ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðs.
    Allar breytingar á samþykktum (skipulagsskrá) starfsendurhæfingarsjóðs skal tilkynna ráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur viðurkennt þær, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. Enn fremur skulu samþykktir (skipulagsskrá) vera þeim sem teljast tryggðir skv. 8. gr. aðgengilegar.

15. gr.
Framlög standi undir þjónustu, úttekt á fjárhag og varasjóður.

    Framlög til starfsendurhæfingarsjóðs skv. 5.–7. gr. skulu standa undir þeirri þjónustu sem sjóðnum er skylt að veita samkvæmt lögum þessum, samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins og samningi við ráðherra skv. 9. gr. Sjóðurinn skal ábyrgjast skuldbindingar sínar með framlögum skv. 5.–7. gr. og skulu samþykktirnar (skipulagsskráin) miðast við að sjóðurinn geti staðið við þær. Greiðendur skv. 5.–7. gr. bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en framlögum sínum.
    Starfsendurhæfingarsjóður skal á þriggja ára fresti láta fara fram úttekt á fjárhag, skuldbindingum og starfsemi sjóðsins til þess að tryggt sé að þjónusta sjóðsins rúmist innan framlaga til hans.
    Starfsendurhæfingarsjóður skal halda nauðsynlegan varasjóð til að mæta sveiflum í rekstri sjóðsins.
    Starfsendurhæfingarsjóði er óheimilt að taka lán nema til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins. Starfsendurhæfingarsjóði er þó heimilt að nýta almenna greiðslufresti vegna kaupa á þjónustu eða taka skammtímalán til þess að jafna fjárstreymi.
    Óheimilt er að greiða fé úr starfsendurhæfingarsjóði til þeirra sem að honum standa sem arð eða hvers konar ígildi arðs. Enn fremur er óheimilt að ákvarða þeim sem að starfsendurhæfingarsjóði standa sérstök réttindi úr sjóðnum umfram aðra sem aðild eiga að viðkomandi sjóði.

16. gr.
Stjórn, stjórnarmenn og framkvæmdastjóri.

    Stjórn starfsendurhæfingarsjóðs skal skipuð að lágmarki fimm stjórnarmönnum og jafnmörgum til vara. Stjórnin fer með yfirstjórn sjóðsins og ber ábyrgð á starfseminni í samræmi við lög þessi og samþykktir (skipulagsskrá) sjóðsins. Stjórnartími skal vera fjögur ár nema annað sé ákveðið í samþykktum (skipulagsskrá).
    Hlutverk stjórnar starfsendurhæfingarsjóðs er meðal annars að:
     1.      Móta stefnu sjóðsins.
     2.      Annast ráðningu framkvæmdastjóra, ákveða laun og ráðningarkjör hans samkvæmt sérstöku erindisbréfi.
     3.      Setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar, svo sem um rekstur, iðgjöld, þjónustuna sem starfsendurhæfingarsjóðurinn veitir og ráðstöfun fjármuna.
     4.      Fjalla um allar meiri háttar ákvarðanir varðandi starfsemi sjóðsins.
     5.      Sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með rekstri, bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins.
     6.      Móta innra eftirlit sjóðsins með samstarfsaðilum og skjalfesta eftirlitsferla.
     7.      Gera tillögur að breytingum á samþykktum (skipulagsskrá).
     8.      Boða til ársfundar fyrir lok júní ár hvert.
     9.      Gera tillögu til ársfundar um val á endurskoðanda.
     10.      Láta fara fram reglulega úttekt skv. 2. mgr. 15. gr. á fjárhag, skuldbindingum og starfsemi sjóðsins.
     11.      Semja ársreikning ásamt framkvæmdastjóra, sbr. 20. gr., sem og skýrslu stjórnar, sbr. 21. gr., fyrir hvert reikningsár.
     12.      Skera úr ágreiningsmálum er lúta að ákvörðunum um veitingu þjónustu sem teknar eru á grundvelli mats skv. 1. mgr. 11. gr.
    Halda skal gerðabók um það sem gerist á fundum stjórnar. Fundargerðir skal bera upp á fundum stjórnar og skulu stjórnarformaður og framkvæmdastjóri undirrita fundargerðirnar.
    Stjórnarmenn í stjórn starfsendurhæfingarsjóðs skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld. Um hæfi stjórnarmanna starfsendurhæfingarsjóðs til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.
    Fulltrúaráð ákveður þóknun stjórnarmanna.
    Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og þeim fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri einungis gert samkvæmt heimild frá stjórn sjóðsins.
    Stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í tengdum rekstri. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í rekstri þar sem viðkomandi og maki hans, barn hans eða nákomnir ættingjar hans hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Einstaklingur telst hafa ráðandi stöðu í þessu sambandi ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum á samtals 50% hlut eða meira í fyrirtæki.
    Um hæfi framkvæmdastjóra fer skv. 4. mgr. Framkvæmdastjóri getur ekki verið stjórnarformaður starfsendurhæfingarsjóðs.

17. gr.
Ársfundur.

    Allir þeir launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem eru tryggðir skv. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. skulu eiga rétt til fundarsetu á ársfundi með málfrelsi og tillögurétt hjá þeim starfsendurhæfingarsjóði sem iðgjald vegna þeirra skv. 5. gr. hefur verið greitt til. Atkvæðisréttur skal vera í samræmi við samþykktir (skipulagsskrá) hlutaðeigandi sjóðs, sbr. 14. gr.
    Ársfund skal halda fyrir lok júní ár hvert og skal hann boðaður með tryggilegum hætti í samræmi við samþykktir (skipulagsskrá) sjóðsins.
    Á ársfundi skal gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum og tillögum stjórnar til breytinga á samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins.

18. gr.
Innkaupastefna.

    Starfsendurhæfingarsjóður skal gæta hagkvæmni, jafnræðis og gagnsæis við innkaup á þjónustu. Hann skal áður en hann gengur til samninga um þjónustu gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður bréflega eða með rafrænni aðferð. Þá skal sjóðurinn tryggja að ekki sé greitt hærra verð fyrir þjónustuna en eðlilegt getur talist að virtum þeim kostnaðarþáttum sem liggja til grundvallar hverju sinni.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að gera samninga til skamms tíma um rannsóknir, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu, sbr. 3. mgr. 10. gr., án þess að samanburður skv. 1. mgr. fari fram.

19. gr.
Þagnarskylda.

    Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn sem starfa á vegum starfsendurhæfingarsjóðs, svo og endurskoðendur sjóðsins, skulu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar þeirra sem leita til starfsendurhæfingarsjóðsins, svo sem um ástand þeirra, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þagnarskylda skv. 1. mgr. nær ekki til atvika sem starfsmanni starfsendurhæfingarsjóðs ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lögum. Í þeim tilvikum ber starfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær stjórnvöld. Þagnarskyldan helst að öðru leyti.
    Einstaklingur sem nýtur þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs getur með samþykki sínu veitt starfsmanni starfsendurhæfingarsjóðs heimild til að miðla upplýsingum um sig til annarra aðila.

V. KAFLI
Ársreikningur, skýrsla stjórnar og endurskoðun.
20. gr.
Ársreikningur.

    Stjórn starfsendurhæfingarsjóðs og framkvæmdastjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Skýrsla stjórnar skv. 21. gr. ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár starfsendurhæfingarsjóðs er almanaksárið.
    Ársreikningur skal undirritaður af stjórn starfsendurhæfingarsjóðs og framkvæmdastjóra hans. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.
    Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu starfsendurhæfingarsjóðs. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.

21. gr.
Skýrsla stjórnar.

    Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á reikningsárinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hans og afkomu á reikningsárinu en ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
    Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:
     1.      atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
     2.      væntanlega þróun sjóðsins og
     3.      aðgerðir sem hafa umtalsverða þýðingu fyrir framtíðarþróun hans.
    Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda þeirra sem greitt er vegna á árinu, fjölda starfsmanna sjóðsins að meðaltali á reikningsárinu, heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, stjórnar og annarra í þjónustu sjóðsins.

22. gr.
Endurskoðun.

    Endurskoðun hjá starfsendurhæfingarsjóði skal gerð af löggiltum endurskoðanda í samráði við ríkisendurskoðanda.
    Endurskoðanda starfsendurhæfingarsjóðs er óheimilt að sitja í stjórn hans, vera starfsmaður hans eða starfa í þágu hans að öðru en endurskoðun.
    Um endurskoðun hjá starfsendurhæfingarsjóði gilda ákvæði laga um ársreikninga, eftir því sem við á, nema annað komi fram í lögum þessum.
    Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri starfsendurhæfingarsjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, innheimtu, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins, svo og ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um starfsemina hafi verið brotnar, skal hann þegar í stað gera stjórn sjóðsins og ráðherra viðvart. Ákvæði þetta brýtur ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda.

VI. KAFLI
Eftirlit og slit.
23. gr.
Eftirlit ráðherra.

    Ráðherra hefur eftirlit með að starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sé í samræmi við ákvæði laga þessara, samþykktir (skipulagsskrár) starfsendurhæfingarsjóða og samninga skv. 9. gr.
    Ráðherra hefur heimild til að krefja starfsendurhæfingarsjóði um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu og er þeim skylt að verða við slíkri kröfu.
    Telji ráðherra að starfsendurhæfingarsjóður uppfylli ekki kröfur samkvæmt lögum þessum, samþykktum (skipulagsskrá) sjóðsins eða samningi skv. 9. gr. eða starfsemi hans sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust skal hann beina tilmælum um úrbætur til sjóðsins.
    Verði starfsendurhæfingarsjóður ekki við tilmælum ráðherra um úrbætur skv. 3. mgr. innan hæfilegs frests skal ráðherra afturkalla viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs skv. 13. gr. Sé um að ræða ásetning eða stórfellt gáleysi getur ráðherra afturkallað viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs án þess að veita honum undanfarandi frest til úrbóta.

24. gr.
Slit starfsendurhæfingarsjóðs og yfirfærsla tryggingaverndar.

    Komi til afturköllunar á viðurkenningu ráðherra á starfsendurhæfingarsjóði skv. 4. mgr. 23. gr. skal ráðherra taka ákvörðun um slit sjóðsins. Sjóðurinn skal einnig tekinn til slita ef sá sem er bær til þess að taka ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðs samkvæmt samþykktum (skipulagsskrá) tilkynnir um slíka ákvörðun til ráðherra.
    Ráðherra skal í þeim tilvikum sem um getur í 1. mgr. þegar í stað skipa skilanefnd er taki við störfum stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins. Ráðherra skal á sama tíma tilnefna annan starfsendurhæfingarsjóð til þess að annast tryggingavernd gagnvart þeim sem voru tryggðir hjá sjóðnum við upphaf slitameðferðar hans. Sé sú leið ekki fær getur ráðherra í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða leitað annarra leiða til að tryggja áframhaldandi þjónustu eftir því sem kostur er.
    Ákvarðanir um slit starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. mgr., ákvörðun um skipun skilanefndar og ákvörðun um tilnefningu annars starfsendurhæfingarsjóðs skv. 2. mgr. skulu birtar samtímis í Lögbirtingablaði og auglýstar í fjölmiðlum.
    Skylda til greiðslu iðgjalds skv. 1. mgr. 5. gr. og sérstaks gjalds skv. 1. mgr. 6. gr. til starfsendurhæfingarsjóðs fellur niður við birtingu ákvörðunar um slit sjóðsins og skipun skilanefndar. Um leið stofnast skylda til greiðslu gjaldanna til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra tilnefnir skv. 2. málsl. 2. mgr. eða eftir atvikum 3. málsl. 2. mgr.
    Skilanefnd skal láta birta tvisvar í Lögbirtingablaði áskorun til lánardrottna sjóðsins um að lýsa kröfum sínum innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunar og hefur hún sömu réttaráhrif og gildir um innköllun krafna við gjaldþrotaskipti. Eignir sjóðsins, sem eftir standa þegar skuldir hafa verið greiddar, skulu renna til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra tilnefnir skv. 2. málsl. 2. mgr. eða eftir atvikum 3. málsl. 2. mgr.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
25. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

26. gr.
Frádráttarbærni framlaga atvinnurekenda.

    Framlag atvinnurekenda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi til starfsendurhæfingarsjóðs skv. 1. mgr. 5. gr. telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt því ákvæði.

27. gr.
Undanþága frá skattskyldu.

    Starfsendurhæfingarsjóðir skulu undanþegnir tekjuskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt.

28. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2012.
    Þrátt fyrir 1. mgr. kemur ákvæði b-liðar 29. gr. til framkvæmda í október 2013 þegar greiða skal framlag ríkisins skv. 7. gr. í fyrsta skipti.

VIII. KAFLI
Breytingar á öðrum lögum.
29. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum:
     a.      Við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr tölul., 1. tölul., sem verður svohljóðandi: Starfsendurhæfingarsjóðir, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, fái í sinn hlut 0,13% af gjaldstofni skv. III. kafla.
     b.      Ný grein bætist við lögin, sem verður 23. gr. a, svohljóðandi ásamt fyrirsögn:

Framlög til starfsendurhæfingarsjóða.

             Framlag skv. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. skal greitt í október ár hvert og byggist á upplýsingum um fjárhæð stofns tryggingagjalds næstliðins árs.

30. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum:
     a.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna kemur nýr málsliður, sem verður 3. málsl., svohljóðandi: Framlög lífeyrissjóða til starfsendurhæfingarsjóða samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsendurhæfingarsjóði teljast framlög í þeim tilgangi sem um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. ákvæðis þessa.
     b.      Nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lögin, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna skal framlag lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða á árunum 2012, 2013, 2014 og 2015 ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna.

31. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður 1. málsl. 10. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, svohljóðandi: Styrkir úr starfsendurhæfingarsjóðum, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila.

32. gr.

    Við gildistöku laga þessara bætist nýr stafliður, d-liður, við 4. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, svohljóðandi: starfsendurhæfingarsjóða.

Ákvæði til bráðabirgða
I.

    Starfsendurhæfingarsjóðir, sem eru starfandi við gildistöku laga þessara, skulu innan árs frá gildistöku laganna tilkynna reksturinn til ráðherra skv. 13. gr. og uppfylla skilyrði laganna að öðru leyti. Hafi starfsendurhæfingarsjóður ekki nægjanlega marga sjóðfélaga skv. 1. mgr. 13. gr. skal í tilkynningu til ráðherra taka fram hvernig sjóðurinn hyggst uppfylla skilyrði greinarinnar. Um viðurkenningu ráðherra fer skv. 13. gr. laganna.

II.

    Stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða skulu endurskoða framlög skv. 5.–7. gr. fyrir lok árs 2014. Til grundvallar þeirri endurskoðun skal meðal annars liggja heildarúttekt óháðrar nefndar sérfræðinga sem ráðherra skipar fyrir árslok 2013. Nefndin skal skipuð þremur til fimm nefndarmönnum og þar af einum tryggingastærðfræðingi.
    Nefndinni skal falið að leggja mat á það hvort framlögum skv. 5.–7. gr. hafi verið ráðstafað með sem skilvirkustum hætti í þágu þeirra markmiða sem stefnt er að í lögum þessum og hvort þjónusta starfsendurhæfingarsjóða hafi haft mælanleg áhrif á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og nýgengi örorku á starfstíma starfsendurhæfingarsjóða.
    Starfsendurhæfingarsjóðir skulu bera kostnað af starfi nefndarinnar í hlutfalli við stærð þeirra og starfstíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Árið 2008 var um það samið í kjarasamningum Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga að þróun nýs fyrirkomulags endurhæfingar yrði hafin á árinu 2008 með því að skipuleggja þjónustu og veita úrræði fyrir þá starfsmenn sem veikjast til lengri tíma og slasast þannig að starfsgeta þeirra skerðist. Markmiðið var að koma að málum eins snemma og kostur væri til að stuðla að því að hver einstaklingur yrði svo virkur á vinnumarkaði sem starfsgeta hans leyfði. Var jafnframt samið um að sérstakt iðgjald yrði lagt á launagreiðendur frá og með 1. júní 2008 sem renna skyldi til Endurhæfingarsjóðs. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við framangreinda kjarasamninga kom meðal annars fram að samkomulag væri milli samningsaðila að hefja uppbyggingu áfallatrygginga. Fyrirhugað væri að leggja nýtt 0,13% launatengt gjald, áfallatryggingagjald, á launagreiðendur samkvæmt kjarasamningum aðila. Enn fremur var gert ráð fyrir að ríkissjóður legði Endurhæfingarsjóði (hér eftir VIRK-Starfsendurhæfingarsjóður en það er nafn sjóðsins í dag) sömu fjárhæð frá og með árinu 2009. Sjóðurinn var stofnaður 19. maí 2008 til að efna framangreind ákvæði kjarasamninga og stofnendur hans eru Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Kennarasamband Íslands, Launanefnd sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Samtök atvinnulífsins.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí 2011 kemur meðal annars fram að draga þurfi markvisst úr ótímabæru brottfalli launamanna af vinnumarkaði, meðal annars með því að bregðast við með virkri heilsuvernd á vinnustöðum, þar á meðal með forvörnum, áður en fólk hverfi úr störfum sínum. Enn fremur kemur fram að almennt samkomulag sé um mikilvægi uppbyggingar markvissrar starfsendurhæfingar svo stuðla megi að þátttöku og virkni á vinnumarkaði. Jafnframt kemur fram að þýðingarmikið sé að atvinnulífið í heild komi að þeirri uppbyggingu ásamt stjórnvöldum og lífeyrissjóðum en stór hluti launagreiðenda greiði þegar 0,13% iðgjald af heildarlaunum til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs á grundvelli kjarasamninga. Kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að lögfest verði skylda allra launagreiðenda til að greiða 0,13% iðgjald til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs auk þess sem samsvarandi iðgjald komi frá lífeyrissjóðunum. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að velferðarráðherra muni skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur fyrir 1. nóvember 2011 um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála þar sem miðað verði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Útfæra þurfi aðkomu ríkisvaldsins varðandi faglegar útfærslur og samspil starfsendurhæfingar tengdri vinnumarkaði og þjónustu heilbrigðiskerfisins.
    Með lögum nr. 73/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, breytt með þeim hætti að við lögin bættist ákvæði til bráðabirgða um skyldu lífeyrissjóða til að greiða til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs vegna starfsendurhæfingar sjóðfélaga sem samsvarar 0,13% af samanlögðum iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. laganna. Enn fremur var mælt fyrir um skyldu launagreiðenda, þar með talið þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til að greiða til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs 0,13% iðgjald af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þar var áréttað að ráðherra velferðarmála og ráðherra lífeyrismála skyldu skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála þar sem miðað yrði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Átti nefndin að leggja fram tillögur að skýrum lagaramma eða umgjörð VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs, meðal annars varðandi greiðsluskyldu, ábyrgð og eftirlit. Var ráðgert að nefndin skilaði tillögum til ráðherra 1. febrúar 2012, sbr. einnig lög nr. 73/2011. Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarp það er varð að framangreindum lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum tóku breytingarnar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða mið af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí 2011 auk þess sem þær tóku að hluta til mið af þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð stöðugleikasáttmálans frá 25. júní 2009 varðandi VIRK-Starfsendurhæfingarsjóð. Þau fyrirheit voru þríþætt og fólu í sér að lögfest yrði skylda launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs samhliða skyldu launafólks til að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar frá 16 til 70 ára aldurs, að lögfest yrði framlag til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðunum er næmi 0,13% af iðgjaldsstofni frá og með 1. júlí 2010 og að lögfest yrði 0,13% framlag ríkissjóðs til VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. júlí 2013
    Velferðarráðherra skipaði samráðsnefnd um framtíðarskipulag starfsendurhæfingar þar sem í áttu sæti fulltrúar fjármálaráðuneytis, Landssamtaka lífeyrissjóða, velferðarráðuneytis og VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs. Hlutverk nefndarinnar var að leggja fram nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála almennt. Nefndin hóf þegar störf í júní 2011 en frumvarp það sem hér um ræðir er afrakstur vinnu nefndarinnar. Er það meðal annars lagt fram í því skyni að vinna að uppbyggingu markvissrar starfsendurhæfingar einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa svo stuðla megi að þátttöku og virkni þeirra á vinnumarkaði. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem mælt var fyrir um framangreinda samráðsnefnd var jafnframt mælt fyrir um að nefndin hefði samráð við skattyfirvöld og í samræmi við það fékk ríkisskattstjóri frumvarp þetta til umsagnar. Þá funduðu fulltrúar samráðsnefndarinnar með fulltrúum Hlutverkaseturs, Hringsjár, náms- og starfsendurhæfingar, Janusar endurhæfingar ehf., Klúbbsins Geysis, Samvinnu, starfsendurhæfingar á Suðurnesjum, Starfsendurhæfingar Austurlands, Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar, Birtu, starfsendurhæfingar Suðurlands, Starfsendurhæfingar Vestfjarða og Starfsorku, starfsendurhæfingar Vestmannaeyja. Á fundinum var farið yfir þær hugmyndir sem frumvarp þetta byggist á. Enn fremur fundaði nefndin með fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Mikilvægt er að einstaklingar sem þurfa aðstoð til að verða virkir í samfélaginu fái þjónustu við hæfi hverju sinni og því er gert ráð fyrir að fagaðilar innan fleiri en eins þjónustukerfis, svo sem heilbrigðiskerfis og félagslega kerfisins, vinni mjög náið saman þegar þess gerist þörf. Frumvarp þetta gerir því ráð fyrir að atvinnutengd starfsendurhæfing verði einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og kostur er. Allir hlutaðeigandi leitist jafnframt við að skilgreina og sinna hlutverkum sínum með þeim hætti að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.
    Gert er ráð fyrir að atvinnutengd starfsendurhæfing verði í höndum starfsendurhæfingarsjóða. Meðal annars er lagt til að öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem eru á aldrinum 16 til 70 ára, skuli tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með því að greitt sé iðgjald vegna þeirra í starfsendurhæfingarsjóð en aðild að tilteknum starfsendurhæfingarsjóði verði ákveðin í kjarasamningum, ráðningarsamningum eða með öðrum sambærilegum hætti, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Þeir sem teljast tryggðir samkvæmt frumvarpinu eru enn fremur þeir sem fá greiðslur frá sjúkrasjóðum eða fjölskyldu- og styrktarsjóðum stéttarfélaga, Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði sem og tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, tekjutengdar greiðslur samkvæmt lögum nr. 40/2009, um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, með síðari breytingum, örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum eða eru í veikindaleyfi frá eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Þá er þeim sem standa utan vinnumarkaðar tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á grundvelli samninga sem ráðherra gerir við starfsendurhæfingarsjóði skv. 9. gr. frumvarpsins, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að almennt eigi allir einstaklingar rétt til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar, hvort sem þeir eru á vinnumarkaði eða standa utan hans, að því gefnu að þeir uppfylli skilyrði frumvarpsins að öðru leyti.
    Í frumvarpinu er lagt til að framlag til starfsendurhæfingarsjóða skiptist jafnt milli atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins í samræmi við það sem rakið er hér að framan, sbr. 5.–7. gr. frumvarpsins. Jafnframt er gert er ráð fyrir að rekstur starfsendurhæfingarsjóða rúmist innan framangreindra framlaga en ekki er gert ráð fyrir að sjóðirnir hafi annars konar tekjur. Þannig gerir frumvarp þetta ráð fyrir að ríkissjóður greiði sem nemur einum þriðja heildarframlaga sem ætlað er að standi straum af rekstri starfsendurhæfingarsjóða. Í því sambandi er lagt til að hluti tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, renni til starfsendurhæfingarsjóða. Þar sem þessi auknu útgjöld ríkissjóðs munu leiða til lakari afkomu ríkissjóðs líkt og kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins á fjárhagsáhrifum frumvarps þessa, sem er fylgiskjal með frumvarpinu, er gert ráð fyrir að við umfjöllun um frumvarpið á Alþingi komi til nánari skoðunar hvaða tekjuöflunaraðgerðir geti staðið undir þessum útgjöldum.
    Þjónusta á vegum starfsendurhæfingarsjóða er nánar skilgreind í 10. gr. frumvarpsins en gert er ráð fyrir að hún felist að mestu leyti í veitingu atvinnutengdrar starfsendurhæfingar, svo sem því að hafa umsjón með þjónustu ráðgjafa, útbúa sérstakar einstaklingsbundnar áætlanir sem atvinnutengd starfsendurhæfing byggir á og að fjármagna þau úrræði sem einstaklingur í atvinnutengdri starfsendurhæfingu þarf á að halda hverju sinni. Í því sambandi er lögð áhersla á að ekki er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir annist sjálfir framkvæmd úrræða heldur geri þess í stað þjónustusamninga við aðila sem bjóða upp á slík úrræði. Að auki er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir veiti atvinnurekendum og stjórnendum fræðslu og stuðning í því skyni að stuðla að endurkomu fólks til starfa eða auka möguleika þeirra til þátttöku í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa. Þá er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir stuðli að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu.
    Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs verði að viðkomandi einstaklingur búi við heilsubrest sem hindri fulla þátttöku hans á vinnumarkaði og að hann stefni að endurkomu á vinnumarkað eða að aukinni þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða megi. Jafnframt er lagt til að gert verði að skilyrði að viðkomandi einstaklingur hafi þörf fyrir þjónustuna, hún sé til þess fallin að auðvelda honum að fara aftur til vinnu og líkleg til árangurs á þeim tíma sem hún er veitt. Þá er lagt til að gert verði að skilyrði að viðkomandi einstaklingur hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu og fylgja þeirri áætlun sem þar er sett fram.
    Frumvarp þetta fjallar einnig um rekstrarumhverfi starfsendurhæfingarsjóða. Gert er ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir starfi sem sjálfseignarstofnanir sem ekki stunda atvinnurekstur enda er litið svo á að starfsendurhæfingarsjóðir séu ekki reknir í hagnaðarskyni. Enn fremur er gert ráð fyrir að þeir sem standi að baki hverjum starfsendurhæfingarsjóði verði að lágmarki 10.000 launamenn og/eða þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sbr. 13. gr. frumvarpsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að velferðarráðherra veiti hverjum sjóði viðurkenningu að því gefnu að samþykktir (skipulagsskrá) þeirra og innkaupastefna séu í samræmi við ákvæði frumvarpsins og að gerður hafi verið samningur við ráðherra um þjónustu við einstaklinga sem eru utan vinnumarkaðar í samræmi við 9. gr. frumvarpsins, sbr. 13. gr. frumvarpsins.
    Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að ráðherra hafi eftirlit með að starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sé í samræmi við ákvæði frumvarpsins, samþykktir (skipulagsskrár) starfsendurhæfingarsjóða og samninga ráðherra skv. 9. gr. frumvarpsins, sbr. 23. gr. frumvarpsins. Ef það er mat ráðherra að starfsemi starfsendurhæfingarsjóðs uppfylli ekki þær kröfur sem leiðir af framangreindu eða að starfsemi hans sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust er gert ráð fyrir að ráðherra beini tilmælum um úrbætur til sjóðsins. Verði starfsendurhæfingarsjóður ekki við slíkum tilmælum um úrbætur innan hæfilegs frests er lagt til að ráðherra afturkalli viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs skv. 13. gr., sbr. 23. gr. frumvarpsins. Sé um að ræða ásetning eða stórfellt gáleysi er þó gert ráð fyrir að ráðherra geti afturkallað viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs án þess að veita honum undanfarandi frest til úrbóta, sbr. 23. gr. frumvarpsins. Ákveði ráðherra að afturkalla viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs er gert ráð fyrir að hann verði tekinn til slita. Hið sama á við ef sá sem er bær til þess að taka ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðs samkvæmt samþykktum (skipulagsskrá) tilkynnir um slíka ákvörðun til ráðherra, sbr. 24. gr. frumvarpsins. Í þeim tilvikum sem starfsendurhæfingarsjóður er tekinn til slita er lagt til að ráðherra skipi skilanefnd sem tekur við störfum stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins. Um leið tilnefni ráðherra annan starfsendurhæfingarsjóð sem taki við tryggingarvernd gagnvart þeim sem tryggðir voru hjá sjóðnum við upphaf slitameðferðar hans. Sé sú leið ekki fær, til dæmis vegna þess að enginn annar starfsendurhæfingarsjóður er starfandi, er lagt til að ráðherra, í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða, verði falið að leita annarra leiða til að tryggja áframhaldandi þjónustu eftir því sem kostur er, sbr. 24. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að frumvarp þetta gildi um starfsendurhæfingarsjóði sem nánar eru skilgreindir í 13. gr. frumvarpsins. Þar kemur meðal annars fram að um sé að ræða sjálfseignarstofnanir sem félög á vegum einstaklinga eða samtaka á vinnumarkaði stofna. Þannig er fyrrnefndum aðilum frjálst að stofna starfsendurhæfingarsjóði að uppfylltum þeim skilyrðum sem lögð eru til í frumvarpi þessu. Enn fremur fjallar frumvarp þetta um gjald sem skiptist milli atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkissjóðs, sbr. II. kafla frumvarpsins, og er ætlað til reksturs sjóðanna, sbr. einnig 10. gr. frumvarpsins. Atvinnutengd starfsendurhæfing er skilgreind í 3. gr. frumvarpsins og um nánari skýringar er vísað til athugasemda við það ákvæði.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um það meginmarkmið frumvarpsins að styðja þá sem eru með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði. Mikilvægt þykir að sem flestir geti tekið virkan þátt á vinnumarkaði, sér og sínum til hagsbóta, en einnig verður að telja að það komi samfélaginu og þá ekki síst atvinnulífinu sjálfu til góða. Áhersla er því lögð á að komið verði á styrku kerfi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar sem starfi samhliða læknisfræðilegri endurhæfingu og félagslegri endurhæfingu eða komi í kjölfar slíkrar endurhæfingar. Þar með er stuðlað að heildstæðu kerfi endurhæfingar einstaklinga sem geta ekki tekið fullan þátt á vinnumarkaði vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa.
    Meginmarkmið atvinnutengdrar starfsendurhæfingar er að einstaklingur verði aftur virkur þátttakandi á vinnumarkaði eftir að hafa þurft að gera hlé á eða draga úr störfum sínum vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa. Þarf þá oft að koma til læknisfræðileg endurhæfing eða félagsleg endurhæfing áður en komið getur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Lengi hefur verið gagnrýnt að þegar endurhæfingu á heilbrigðisstofnunum sleppir skorti á eftirfylgni við að auka starfsgetu viðkomandi einstaklinga svo þeir geti átt afturkvæmt á vinnumarkaðinn. Þannig hafi ekki nægilega verið stuðlað að markvissri endurkomu þeirra til vinnu. Með tilkomu kerfis atvinnutengdrar starfsendurhæfingar sem hefur sterk tengsl við atvinnulífið standa vonir til þess að fleirum gefist tækifæri til að snúa til baka á vinnumarkað eða auka þátttöku sína í þeim tilvikum er einstaklingur hefur verið í hlutastarfi vegna skertar starfsgetu. Samvinna milli fagaðila sem starfa innan ólíkra þjónustukerfa er mjög mikilvæg svo árangur megi nást hvað það varðar. Í þessu sambandi þykir þýðingarmikið að ólíkir þjónustuaðilar leiti liðsinnis hver annars þannig að kerfin vinni mjög náið saman að því markmiði að sem flestir geti tekið þátt á vinnumarkaði eftir það áfall sem veikindi eða slys eru fyrir flesta. Er því um að ræða mikilvæga viðbót við velferðarkerfið með þátttöku atvinnulífsins sem verður að teljast nauðsynleg í ljósi þess markmiðs sem stefnt er að.

Um 3. gr.

    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir veiti þeim sem teljast tryggðir í skilningi frumvarpsins, sbr. 8. gr. þess, þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins að öðru leyti. Nánar er fjallað um þjónustu starfsendurhæfingarsjóða í 10. gr. frumvarps þessa. Í ákvæði þessu er gert er ráð fyrir að atvinnutengd starfsendurhæfing sé ferli sem feli í sér stuðning við einstaklinga með skerta starfsgetu sem rekja megi til veikinda eða afleiðinga slysa. Að jafnaði er miðað við að hlutaðeigandi einstaklingur hafi þurft að nýta sér kjarasamningsbundinn veikindarétt sinn vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slyss í einhvern tíma áður en hann leitar til starfsendurhæfingarsjóðs sem þá metur hvort skilyrði fyrir þjónustu sjóðsins séu uppfyllt, sbr. einnig 11. gr. frumvarps þessa, en viðkomandi kann þá að vera enn í ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn. Tilgangurinn er að auka starfsgetu viðkomandi einstaklinga og auka líkur þeirra á að taka virkan þátt á vinnumarkaði. Skal það því ávallt vera markmið atvinnutengdrar starfsendurhæfingar hjá starfsendurhæfingarsjóðum að stuðla að því að þeir sem njóta þjónustu þeirra hefji störf að nýju að fullu eða að hluta. Í því sambandi er áhersla lögð á að unnið sé með styrkleika einstaklinganna sem í hlut eiga samhliða því að dregið sé úr áhrifum þeirra hindrana sem skerða starfsgetu þeirra.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að öllum þátttakendum á vinnumarkaði, hvort sem um er að ræða launamenn, atvinnurekendur eða einstaklinga sem stunda sjálfstæða starfsemi, á aldrinum 16 til 70 ára, verði tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar hjá starfsendurhæfingarsjóði með greiðslu sérstaks iðgjalds til hlutaðeigandi sjóðs. Miðað er við að atvinnurekendur greiði iðgjaldið í starfsendurhæfingarsjóð vegna sjálfra sín og þeirra sem starfa hjá þeim.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að aðild launamanna að starfsendurhæfingarsjóði verði að jafnaði ákveðin í kjarasamningum sem ákvarða lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgreinum, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launamanna og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Er þetta sambærilegt fyrirkomulag og tíðkast um aðild að lífeyrissjóðum. Áhersla er lögð á að aðild að starfsendurhæfingarsjóði er hluti starfstengdra réttinda sem byggjast á efni kjarasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins semja um í frjálsum viðræðum sín á milli. Aðild að einstökum starfsendurhæfingarsjóði tekur ekki til annarra starfssviða en kjarasamningur tekur til. Kjarasamningar taka almennt hvorki á aðild stjórnenda í fyrirtækjum eða stofnunum sem standa utan stéttarfélaga né aðild atvinnurekenda. Í slíkum tilvikum er því gert ráð fyrir að aðilar velji sér starfsendurhæfingarsjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Sé ekki kveðið á um aðild að starfsendurhæfingarsjóði í kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti eða hann ekki valinn er lagt til að gjaldið renni til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra viðurkennir í þeim tilgangi með reglugerð. Sá sjóður veitir þá hlutaðeigandi einstaklingi þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar þurfi hann á slíkri þjónustu að halda, sbr. 10. gr. frumvarps þessa, enda uppfylli viðkomandi skilyrði frumvarps þessa fyrir slíkri þjónustu.
    Þá er lagt er til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að óheimilt sé að neita þátttakanda á vinnumarkaði um aðild að starfsendurhæfingarsjóði með vísan til tiltekinna aðstæðna hans enda uppfylli hann skilyrði frumvarps þessa um aðild að starfsendurhæfingarsjóði.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að atvinnurekendum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi verði gert skylt að greiða iðgjald vegna sjálfra sín sem og launamanna er starfa hjá þeim til starfsendurhæfingarsjóðs. Við mat á því hvað teljist hæfilegt iðgjald til starfsendurhæfingarsjóða var litið til kjarasamninga Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem þegar hefur verið samið um iðgjald sem renna skuli í þann starfsendurhæfingarsjóð, sem þessir aðilar standa sameiginlega að, VIRK- Starfsendurhæfingarsjóð. Þar hefur verið samið um að þriðjungur heildargjaldsins sem atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi greiði sé 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Er því lagt til að iðgjaldið samkvæmt ákvæði þessu verði hið sama. Hvorki er gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður né Fæðingarorlofssjóður greiði iðgjald til starfsendurhæfingarsjóðs af greiðslum til þeirra sem þar njóta réttinda sinna. Hið sama á við um aðrar lögbundnar greiðslur sem ætlaðar eru að bæta tímabundið vinnutap fólks.
    Enn fremur er í ákvæðinu lagt til að atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi skili fyrrnefndu iðgjaldi vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar vegna þeirra sjálfra og þeirra sem starfa hjá þeim til þess lífeyrissjóðs sem tekur við lífeyrisiðgjaldi vegna sömu aðila. Ætla má að það einfaldi alla innheimtu gjaldsins ef skil þess fara fram samhliða skilum á lífeyrisiðgjaldi til lífeyrissjóðs. Þá er lagt til að ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, gildi að því er varðar gjalddaga og eindaga iðgjaldsins.
    Auk þess er lagt til að lífeyrissjóðir skili iðgjaldi vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar áfram til hlutaðeigandi starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að því er skilað til lífeyrissjóðs, að frádreginni þóknun vegna umsýslunnar. Í því sambandi er jafnframt lagt til að atvinnurekendur og þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi tilkynni til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs til hvaða starfsendurhæfingarsjóðs iðgjöldum skuli skilað. Að öðrum kosti skili lífeyrissjóðurinn iðgjaldinu til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra viðurkennir að taki við iðgjöldum þegar starfsendurhæfingarsjóður er ekki valinn, sbr. 4. gr. frumvarps þessa. Er þetta lagt til í því skyni að einfalda umsýslu lífeyrissjóðanna.
    Lagt er til að sú skylda verði lögð á lífeyrissjóði að þeir innheimti árlega vangreidd iðgjöld vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Er þannig gert ráð fyrir að innheimtan samkvæmt frumvarpi þessu geti farið saman með innheimtu lífeyrissjóðsiðgjalda. Er því litið svo á að lífeyrissjóðir hefji innheimtu iðgjalda vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar samhliða innheimtu lífeyrisiðgjalda. Þá þurfi lífeyrissjóðirnir jafnframt að líta til þess hvort iðgjald vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar hafi í öllum tilvikum fylgt lífeyrisiðgjaldi enda kunni að vera að öðru hafi verið skilað en ekki hinu.
    Loks er áréttað að lífeyrissjóðirnir fái greidda þóknun fyrir umsýsluna við skil á iðgjaldi áfram til hlutaðeigandi starfsendurhæfingarsjóðs og árlega innheimtu vangreiddra iðgjalda fyrir starfsendurhæfingarsjóðina, enda er lífeyrissjóðum óheimilt að verja fjármunum sjóðsins til annarrar starfsemi en þeirra sem lýtur að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris, sbr. 20. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir semji við starfsendurhæfingarsjóði um hæfilega umsýslu- og innheimtuþóknun og eftir atvikum önnur atriði er lúta að umsýslu- og innheimtuhlutverki lífeyrissjóðanna samkvæmt þessu ákvæði. Komi hins vegar til þess að samningar náist ekki er gert ráð fyrir að ráðherra ákvarði þóknunina þannig að tryggt sé að þær skyldur sem lagt er til að lagðar verði á lífeyrissjóði með þessu ákvæði frumvarpsins hafi ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir þá, sbr. einnig 3. og 4. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem verða 4. og 5. málsl. ákvæðisins, sbr. a-lið 28. gr. frumvarps þessa.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir sem veita viðtöku iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar lögum samkvæmt inni af hendi sérstakt gjald til starfsendurhæfingarsjóða vegna sjóðfélaga sinna. Er miðað við að gjaldið nemi sömu fjárhæð og gjaldið sem atvinnurekendur hafa innt af hendi í starfsendurhæfingarsjóð skv. 1. mgr. 5. gr. frumvarps þessa vegna sömu sjóðfélaga hlutaðeigandi lífeyrissjóða og að það renni til sama starfsendurhæfingarsjóðs og greitt er til á grundvelli 5. gr. frumvarpsins.
    Jafnframt er lagt til að lífeyrissjóðirnir skili því gjaldi sem í þeirra hlut kemur til starfsendurhæfingarsjóðs samhliða skilum þeirra á iðgjaldi skv. 5. gr. frumvarpsins eigi síðar en á tíunda degi næsti mánaðar eftir að atvinnurekandi eða sá sem stundar sjálfstæða starfsemi hefur staðið skil á lífeyrisiðgjaldi til lífeyrissjóðsins. Talið er að af þessu fyrirkomulagi hljótist nokkurt hagræði.

Um 7. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta hefur ríkisstjórnin samþykkt að framlag ríkissjóðs til starfsendurhæfingarmála verði til jafns við framlög atvinnurekenda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóða, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá 5. maí 2011. Er því gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði sem nemur einum þriðja heildargjaldsins sem ætlað er að standi straum af rekstrarkostnaði starfsendurhæfingarsjóða. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lagt til að tiltekinn hluti tryggingagjaldsins sem ákveðinn verður í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, skuli renna til starfsendurhæfingarsjóða. Er miðað við að framlagið skuli greitt í október hvert ár en gert er ráð fyrir að það byggist á upplýsingum ríkisreiknings um fjárhæð gjaldstofns tryggingagjalds næstliðins almanaksárs. Gert er ráð fyrir að framlagið skiptist milli starfsendurhæfingarsjóða á grundvelli hlutdeildar hvers sjóðs í heildarframlögum frá atvinnurekendum skv. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins og frá lífeyrissjóðum skv. 1. mgr. 6. gr. frumvarps þessa. Þar sem þessi auknu útgjöld ríkissjóðs munu leiða til lakari afkomu ríkissjóðs líkt og kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins á fjárhagsáhrifum frumvarps þessa, sem er fylgiskjal með frumvarpinu, er gert ráð fyrir að við umfjöllun um frumvarpið á Alþingi komi til nánari skoðunar hvaða tekjuöflunaraðgerðir geti staðið undir þessum útgjöldum.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um hverjir teljist tryggðir hjá starfsendurhæfingarsjóðum en lögð er áhersla á að sem flestir, sem ekki geta tekið fullan þátt á vinnumarkaði vegna heilsubrests sem rekja megi til veikinda eða slysa, eigi rétt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða í því skyni að auka starfsgetu sína.
    Í fyrsta lagi er lagt til að launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi teljist tryggðir hjá starfsendurhæfingarsjóðum meðan á greiðslu iðgjalds skv. 5. gr. frumvarps þessa stendur, sbr. einnig 4. gr. frumvarpsins. Miðað er við að einstaklingurinn verði tryggður frá fyrstu greiðslu hjá þeim starfsendurhæfingarsjóði sem greitt er til, sbr. 4. og 5. gr. frumvarpsins, og sé tryggður meðan greitt er til sjóðsins. Ljóst er að einhver tími getur liðið frá því að launamaður eða sá sem stundar atvinnustarfsemi eða sjálfstæða starfsemi hættir störfum vegna veikinda eða afleiðinga slyss og þangað til hann getur hafið atvinnutengda starfsendurhæfingu. Er því jafnframt lagt til að viðkomandi teljist áfram tryggður hjá hlutaðeigandi starfsendurhæfingarsjóði á grundvelli iðgjaldsins skv. 5. gr. frumvarpsins í allt að tólf mánuði frá því tímamarki er síðasta greiðsla barst starfsendurhæfingarsjóðnum eða lengri tíma ef ástæða þess að hann hefur ekki getað tekið þátt á vinnumarkaði að fullu er í eðlilegu samhengi við þann heilsubrest sem varð til þess að hann hætti störfum. Er þá miðað við að viðkomandi geti hafið atvinnutengda starfsendurhæfingu innan þess tíma og er þá nægilegt að hann hafi hafið endurhæfingu hjá sjóðnum. Atvinnutengda starfsendurhæfingin getur hins vegar tekið langan tíma en miðað er við þann tíma er viðkomandi leitaði fyrst til sjóðsins. Er með þessu verið að tryggja ákveðna samfellu og koma þannig í veg fyrir að fjarvera frá vinnumarkaði í skamman tíma verði til þess að þátttakendur á vinnumarkaði séu ekki tryggðir á grundvelli þeirra iðgjalda sem innt eru af hendi vegna þeirra.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þeir sem fá greiðslur úr sjúkrasjóðum eða fjölskyldu- og styrktarsjóðum stéttarfélaga, Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði teljist tryggðir samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Hið sama gildi einnig um þá sem fá tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, þá sem fá tekjutengdar greiðslur samkvæmt lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinna fjárhagsaðstoðar, sem og þá sem fá greiddan örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum eða eru fjarverandi frá eigin atvinnurekstri vegna veikinda. Hafi verið greitt vegna þessara einstaklinga til tiltekins starfsendurhæfingarsjóðs áður en þeir hættu störfum eða fengu leyfi frá störfum er gert ráð fyrir að þeir muni leita til þess starfsendurhæfingarsjóðs um þjónustu. Enn fremur er gert er ráð fyrir að kveðið verði á um það í samþykktum (skipulagsskrám) starfsendurhæfingarsjóða örorkulífeyrisþegar hvaða lífeyrissjóða fái þar þjónustu, sbr. 14. gr. frumvarps þessa.
    Í þriðja lagi er miðað við að ráðherra geri samninga við starfsendurhæfingarsjóði um tryggingavernd fyrir einstaklinga sem eru utan vinnumarkaðar, sbr. 9. gr. frumvarpsins, og tekið verði fram í samþykktum (skipulagsskrám) sjóðanna hvernig ætlað umfang þeirrar þjónustu verði skilgreint, sbr. 14. gr. frumvarps þessa. Þeirra á meðal eru þeir sem fá greiddan örorkulífeyri á grundvelli laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og þeir sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við 9. gr. frumvarpsins.
    Þá er mælt fyrir um að þeir sem teljist tryggðir þurfi jafnframt að uppfylla skilyrði 11. gr. frumvarps þessa til þess að fá þjónustu hjá hlutaðeigandi starfsendurhæfingarsjóði skv. 10. gr. frumvarpsins, en í 11. gr. frumvarpsins er meðal annars áskilið að hinn tryggði búi við skerta starfsgetu vegna heilsubrests.

Um 9. gr.

    Lagt er til að starfsendurhæfingarsjóðir geri samninga við ráðherra um þjónustu sjóðanna við þá sem standa utan vinnumarkaðar en slíkur samningur er eitt af skilyrðum þess að ráðherra veiti starfsendurhæfingarsjóði viðurkenningu, sbr. 13. gr. frumvarps þessa. Markmiðið er að þeir sem taka ekki virkan þátt á vinnumarkaði geti á grundvelli slíkra samninga fengið atvinnutengda starfsendurhæfingu hjá starfsendurhæfingarsjóðum á sama hátt og þátttakendur á vinnumarkaði. Er með þessu leitast við að tryggja samþættingu atvinnutengdrar starfsendurhæfingar þannig að um heildstætt kerfi endurhæfingar verði að ræða fyrir alla þá sem á þurfa að halda og uppfylla skilyrði þau sem 11. gr. frumvarps þessa gerir ráð fyrir. Telja verður að kostur þessa sé að allir þeir sem þurfa á aðstoð að halda til að komast út á vinnumarkaðinn leiti inn í sama kerfið sem hefur sterka tengingu við vinnumarkaðinn. Kerfinu er ætlað að vera einstaklingsmiðað þar sem áhersla er lögð á þarfir einstaklinganna sem í hlut eiga án þess að litið sé til þess hvaðan framfærsla þeirra kemur.
    Gert er ráð fyrir að framlag ríkissjóðs skv. 7. gr. frumvarps þessa til starfsendurhæfingarsjóða standi undir kostnaði vegna atvinnutengdrar starfsendurhæfingar þeirra sem standa utan vinnumarkaðar og því er ekki gert ráð fyrir að sérstakt fjárframlag verði greitt úr ríkissjóði því til viðbótar. Þegar ljóst er til hvaða starfsendurhæfingarsjóðs viðkomandi einstaklingur á að leita vegna til dæmis fyrri starfa hans á vinnumarkaði er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi leiti til þess sjóðs þurfi hann á þjónustu sjóðsins að halda. Þegar það liggur hins vegar ekki ljóst fyrir til hvaða starfsendurhæfingarsjóðs viðkomandi getur leitað er gert ráð fyrir að hann leiti til þess sjóðs er ráðherra viðurkennir að taki við gjaldi í tilvikum þar sem ekki hefur verið kveðið á um aðild að starfsendurhæfingarsjóði í kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti eða hann ekki valinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. frumvarps þessa. Er gert ráð fyrir að sá sjóður sem ráðherra viðurkennir í því skyni sé svo burðugur að hann geti tekið við þeim sem hafa ekki valið sér sjóð sem og þeim sem falla undir 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins og hafa ekki tengsl við aðra starfsendurhæfingarsjóði til dæmis vegna fyrri starfa.
    Í ljósi þess að gert er ráð fyrir að viðurkenning ráðherra á starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sé háð því skilyrði að samningur samkvæmt ákvæði þessu liggi fyrir, sbr. 13. gr. frumvarpsins, er lagt til að samningar þessir verði ótímabundnir. Hins vegar er gert ráð fyrir að þeir verði endurskoðaðir reglulega en þar á meðal verði árlega farið yfir framgang þeirra og möguleika til þróunar. Gert er ráð fyrir að ráðherra annist eftirlit með þjónustu sjóðsins, sbr. einnig 23. gr. frumvarpsins, og því verði nánar lýst í samningunum en mikilvægt þykir að fylgst verði með árangri starfsins í samstarfi við sjóðina til að tryggja að árangurinn verði sem bestur fyrir viðkomandi einstaklinga.

Um 10. gr.

    Ákvæðinu er ætlað að skilgreina þá þjónustu sem starfsendurhæfingarsjóðum er ætlað að veita þeim sem teljast tryggðir skv. 8. gr. frumvarps þessa og uppfylla skilyrði fyrir veitingu þjónustu starfsendurhæfingarsjóða, sbr. 11. gr. frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er miðað við að starfsendurhæfingarsjóðir skipuleggi og hafi umsjón með þjónustu ráðgjafa í atvinnutengdri starfsendurhæfingu ásamt því að standa straum af kostnaði vegna þeirrar þjónustu.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að sjóðirnir móti og fjármagni gerð sérstakra einstaklingsbundinna áætlana um atvinnutengda starfsendurhæfingu. Í því sambandi er gert ráð fyrir að slíkar áætlanir byggist meðal annars á starfsgetumati. Starfsgetumat er heildrænt mat þar sem færni einstaklingsins til að taka virkan þátt á vinnumarkaði er metin út frá líkamlegum, andlegum og félagslegum forsendum. Styrkleikar og hindranir einstaklingsins eru metin með tilliti til atvinnuþátttöku og getu hans til að afla sér tekna. Litið er á starfsgetumat sem eitt órofa ferli mats annars vegar og virkniaukandi aðgerða og/eða atvinnutengdrar starfsendurhæfingar sem og meðferðar hins vegar. Gert er ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir greiði kostnað vegna ráðgjafar ýmissa sérfræðinga um mótun einstaklingsbundinna áætlana í samræmi við niðurstöðu starfsgetumatsins en misjafnt er hverjir það eru sem þurfa að koma að slíkri áætlanagerð og ræðst það af aðstæðum einstaklinganna hverju sinni. Er þá gert ráð fyrir að dregið verði úr áhrifum hindrana og á sama tíma séu styrkleikar hvers og eins efldir með markvissri þjónustu ráðgjafa og annarra fagaðila. Markmiðið er ávallt að efla starfsgetu einstaklinganna til virkrar þátttöku á vinnumarkaði. Stefnt er að því að í lok þjónustuferils verði komin góð mynd af starfsgetu viðkomandi einstaklings þannig að unnt sé að aðstoða hann við að finna viðeigandi starf á vinnumarkaði.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að sjóðirnir standi straum af kostnaði vegna viðeigandi úrræða fyrir einstaklinga, aðgerða og verkefna á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar enda þótt þeir annist ekki sjálfir framkvæmd þeirra. Er miðað við að sjóðirnir geri þess í stað þjónustusamninga við aðila sem bjóða upp á slík úrræði en þegar eru starfandi þjónustuaðilar á þessu sviði.
    Í fjórða lagi er gert er ráð fyrir því að starfsendurhæfingarsjóðir veiti atvinnurekendum og stjórnendum nauðsynlega fræðslu og stuðning með það að markmiði að stuðla að endurkomu einstaklinga til starfa í kjölfar heilsubrests og auka möguleika þeirra til þátttöku í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu vegna heilsubrests. Það kann til dæmis að vera mikilvægt að innan fyrirtækja og stofnana sé til staðar stefna um vellíðan, fjarvistir og endurkomu starfsmanna til vinnu eftir veikindi og slys og að starfsmenn fái viðeigandi upplýsingar og stuðning til að tryggja farsæla endurkomu til starfa.
    Eins og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að atvinnutengd starfsendurhæfing sé einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman sem kostur er. Í þeim tilvikum þegar niðurstaða mats á starfsgetu felur í sér að hlutaðeigandi einstaklingur eigi fremur að sækja sér annars konar þjónustu áður en hann getur hafið atvinnutengda starfsendurhæfingu eða samhliða henni er lagt til að starfsendurhæfingarsjóðir sinni tiltekinni leiðbeiningarskyldu gagnvart viðkomandi. Þannig er gert ráð fyrir að viðkomandi verði leiðbeint áfram til viðeigandi þjónustustofnana innan annarra þjónustukerfa, svo sem heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, á vegum ríkis og sveitarfélaga sem taka þá ákvörðun um viðeigandi þjónustu. Dæmi um slíka þjónustu er ýmis þjónusta sem veitt er innan heilbrigðiskerfisins, svo sem læknisfræðileg endurhæfing, sjúkraþjálfun, áfengis- og vímuefnameðferð, sem og önnur endurhæfing sem miðar að því að einstaklingur nái getu til að takast á við athafnir í daglegu lífi. Er því mikilvægt að ráðgjafar sem og aðrir sérfræðingar starfsendurhæfingarsjóðanna eigi gott samstarf við hlutaðeigandi þjónustuaðila í samráði við einstaklinginn sjálfan. Verður það að teljast eitt af lykilatriðum þess að einstaklingur nái árangri að allir þeir aðilar sem starfa innan ólíkra þjónustukerfa séu reiðubúnir að vinna saman að því að aðstoða einstaklinginn til að taka virkan þátt á vinnumarkaði. Á þetta við þegar einstaklingurinn fær þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins eða hjá starfsendurhæfingarsjóði.
    Þá er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðum verði jafnframt heimilt að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í málum er tengjast atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Í því sambandi er jafnframt gert ráð fyrir uppbyggingu á starfsgetumati. Þykir þetta mjög mikilvægt enda ljóst að starfsendurhæfing almennt er komin skammt á veg hér á landi.

Um 11. gr.

    Ákvæðið fjallar um skilyrði þau sem lagt er til að einstaklingar þurfi að uppfylla til að geta átt rétt til þjónustu starfsendurhæfingarsjóða. Áhersla er lögð á að einstaklingurinn hafi þörf fyrir þjónustu hlutaðeigandi starfsendurhæfingarsjóðs, þjónustan sé til þess fallin að auðvelda einstaklingnum að verða virkur á vinnumarkaði og líkleg til árangurs á þeim tíma sem hún er veitt. Er gert ráð fyrir að meginskilyrðið verði að einstaklingurinn búi við heilsubrest sem rekja má til veikinda eða afleiðinga slysa og hindrar fulla þátttöku hans á vinnumarkaði. Enn fremur er gert ráð fyrir því skilyrði að einstaklingurinn stefni sjálfur að endurkomu á vinnumarkað eða að auka þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða má og hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Þannig er ekki gert ráð fyrir að sá sem til dæmis missir starf sitt vegna endurskipulagningar í fyrirtæki geti á þeim grundvelli leitað til starfsendurhæfingarsjóðs enda þótt einhver tími líði þar til hann fær starf að nýju. Er enn fremur ekki gert ráð fyrir að sá sem ekki getur tekið þátt í athöfnum dagslegs lífs, svo sem vegna veikinda, hefji atvinnutengda starfsendurhæfingu. Í slíkum tilvikum er talið að viðkomandi þurfi á annars konar aðstoð að halda, svo sem þjónustu innan heilbrigðiskerfisins eða félagslega kerfisins, áður en hann getur hafið atvinnutengda starfsendurhæfingu á vegum starfsendurhæfingarsjóðs. Þá er ekki gert ráð fyrir að einstaklingur sem getur stundað fulla vinnu þrátt fyrir heilsubrest af einhverjum toga eigi rétt á þjónustu hjá starfsendurhæfingarsjóði enda þá ljóst að heilsubresturinn hindrar ekki þátttöku hans á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að það falli í hlut ráðgjafa og annarra sérfræðinga starfsendurhæfingarsjóða að meta hvort skilyrði ákvæðisins teljast uppfyllt. Þá þykir mikilvægt að starfsendurhæfingarsjóðunum sé heimilt að binda þjónustu sína skilyrðum við virka þátttöku einstaklingsins í þeim úrræðum sem honum er boðið að taka þátt í en ekki er í 3. mgr. tæmandi talning á því í hverju atvinnutengd starfsendurhæfing getur falist.

Um 12. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um meðferð persónuupplýsinga hjá starfsendurhæfingarsjóðum en ljóst er að sjóðirnir koma til með að hafa í sinni vörslu mjög viðkvæmar persónuupplýsingar um heilsufar þeirra einstaklinga sem leita til sjóðanna ásamt öðrum upplýsingum því tengdum. Mikilvægt er að upplýsingaskrár starfsendurhæfingarsjóða séu varðveittar með öruggum hætti þannig að upplýsingarnar glatist ekki og aðgangur starfsmanna sem starfa á vegum sjóðanna, þar á meðal fagaðila sem eru bundnir trúnaðarskyldu samkvæmt öðrum lögum, svo sem lækna, sé takmarkaður við þá sem þurfa á upplýsingum um viðkomandi einstaklinga að halda þar sem þeir koma að ráðgjöf og gerð sérstakra einstaklingsbundinna áætlana fyrir þá einstaklinga. Enn fremur er þýðingarmikið að tekið sé fram hvað gera skuli við upplýsingaskrá starfsendurhæfingarsjóðs sem hefur hætt rekstri. Lagt er til að í slíkum tilvikum séu upplýsingarnar fluttar til embættis landlæknis. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með síðari breytingum, gildi um meðferð upplýsinga hjá starfsendurhæfingarsjóðum.

Um 13. gr.

    Lagt er til að starfsendurhæfingarsjóðir skuli vera sjálfseignastofnanir. Enn fremur er gert ráð fyrir að einungis félög á vegum einstaklinga á vinnumarkaði, svo sem stéttarfélög, og samtaka á vinnumarkaði, svo sem samtök atvinnurekenda, geti staðið að slíkum sjálfseignarstofnunum en markmiðið er að kerfið verði vinnumarkaðstengt. Í því skyni að stuðla að því að sjóðirnir komi til með að geta veitt þá þjónustu sem ætlast er til samkvæmt frumvarpi þessu, þar á meðal byggt upp nauðsynlega sérfræðiþekkingu, þykir mikilvægt að kveða á um hver skuli vera lágmarksfjöldi þeirra einstaklinga sem hver starfsendurhæfingarsjóður móttekur iðgjald vegna skv. 5. gr. frumvarpsins. Einnig er tilgangur þessa að stuðla að því að rekstrarkostnaður sjóðanna í hlutfalli við tekjur þeirra verði sem minnstur. Þykir hæfilegur fjöldi í því sambandi vera 10.000 þátttakendur á vinnumarkaði sem greitt er vegna skv. 5. gr. frumvarps þessa. Fari fjöldi þeirra niður fyrir 10.000 og ekki fyrirséð að þeim fjölgi aftur í nánustu framtíð að mati ráðherra verður að taka ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðsins, sbr. einnig 23. og 24. gr. frumvarps þessa.
    Í ljósi þess að gert er ráð fyrir að ráðherra hafi eftirlit með starfsemi starfsendurhæfingarsjóða er lagt til að þeir sem hyggjast standa að stofnun og rekstri starfsendurhæfingarsjóðs tilkynni um fyrirhugaðan rekstur til ráðherra, sem veitir sjóðnum viðurkenningu ef samþykktir (skipulagsskrá) fyrir sjóðinn eru í samræmi við 14. gr. frumvarpsins, innkaupastefna fyrir sjóðinn er í samræmi við 18. gr. frumvarpsins og samningur við ráðherra skv. 9. gr. frumvarpsins liggur fyrir. Þykir mikilvægt að starfsendurhæfingarsjóður verði ekki starfræktur fyrr en viðurkenning ráðherra liggur fyrir og skráning sjálfseignarstofnunar hefur formlega tekið gildi.
    Þá er lagt til að starfsendurhæfingarsjóðum verði einum heimilt og jafnframt skylt að nota í heiti sínu orðið „starfsendurhæfingarsjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum eða til nánari skýringa á starfsemi sinni.

Um 14. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um samþykktir (skipulagsskrár) starfsendurhæfingarsjóða. Lagt er til að starfsendurhæfingarsjóðir skilgreini starfssvið sitt í samþykktum (skipulagsskrám) sínum þannig að þar komi fram hverjir eigi aðild að hlutaðeigandi sjóði á grundvelli 5. gr. frumvarps þessa. Einnig er lagt til að í samþykktum (skipulagsskrá) komi fram hverjir eigi rétt á þjónustu á grundvelli 2. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. frumvarps þessa, þar á meðal á grundvelli samnings ráðherra við starfsendurhæfingarsjóð á grundvelli 9. gr. frumvarps þessa.
    Enn fremur er í ákvæði þessu nánar tiltekið hvaða atriði þurfi að koma fram í samþykktum (skipulagsskrám) starfsendurhæfingarsjóða. Er meðal annars gert ráð fyrir að fram komi hverjir standi að viðkomandi sjóði, þar á meðal félagsmenn hvaða félaga, svo sem stéttarfélaga eða starfsmannafélaga, sem og einnig hvaða félög atvinnurekanda eða þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi standa að sjóðnum. Gert er ráð fyrir að í samþykktum (skipulagsskrám) komi fram með almennum hætti hvernig aðild skuli háttað, hvort sem um félög einstaklinga eða samtaka er að ræða, og hvernig hætta má aðild að hlutaðeigandi sjóði. Gert er ráð fyrir að sjóðirnir gegni ákveðinni upplýsingaskyldu gagnvart þeim einstaklingum sem teljast tryggðir skv. 8. gr. frumvarpsins. Í ljósi þess að ekki er um sjóðssöfnun að ræða eða uppsöfnun réttinda sem bundin eru einstaklingnum sérstaklega þykir ekki ástæða til að sjóðirnir sendi bréf til hvers og eins heldur verði nægjanlegt að hver sjóður haldi úti vefsíðu eða annarri sambærilegri kynningu þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi hans komi fram ásamt aðgengi að ársreikningum hans.
    Þá er lagt til að allar breytingar sem gerðar eru á samþykktum (skipulagsskrám) starfsendurhæfingarsjóða skuli tilkynna til ráðherra og öðlast breytingarnar ekki gildi fyrr en ráðherra hefur viðurkennt þær og þannig staðfest að þær fullnægi ákvæðum frumvarpsins.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að framlög til starfsendurhæfingarsjóða eigi að standa undir þeirri þjónustu sem sjóðunum er skylt að veita samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Með öðrum orðum er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðum beri að haga uppbyggingu og skipulagi þjónustunnar innan þess fjárhagsramma sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins, enda er lagt til að kveðið verði með skýrum hætti á um að starfsendurhæfingarsjóðir ábyrgist skuldbindingar sínar með tekjum sínum eingöngu. Þykir mikilvægt í þessu sambandi að taka fram að greiðendur skv. 5.–7. gr. frumvarpsins beri ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðanna nema með framlögum sínum til þeirra.
    Enn fremur er mælt fyrir um að starfsendurhæfingarsjóður skuli á þriggja ára fresti láta fara fram úttekt á fjárhag sjóðsins til þess að tryggt sé að þjónusta sjóðsins rúmist innan framlaga til hans. Í því sambandi er gert ráð fyrir að komi í ljós við slíka úttekt að það sé fyrirséð að sjóðurinn geti ekki greitt fyrir þjónustu sem hann hefur skuldbundið sig að veita í samþykktum (skipulagsskrá) fyrir sjóðinn beri stjórn sjóðsins að hlutast til um breytingar á samþykktunum (skipulagsskránni) með þeim hætti sem þær bjóða og tilkynni þær til ráðherra, sbr. 14. gr. frumvarpsins.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir eigi varasjóð til að mæta sveiflum í rekstri og til að mæta skuldbindingum sínum komi til slita hlutaðeigandi sjóðs. Er miðað við að varasjóður svari að jafnaði til 6–12 mánaða útgjalda hlutaðeigandi sjóðs.
    Enn fremur er lagt til að starfsendurhæfingarsjóðum verði óheimilt að taka lán nema til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins. Sjóðunum verði þó heimilt að nýta almenna greiðslufresti vegna kaupa á þjónustu eða taka skammtímalán til þess að jafna fjárstreymi. Sömu reglur gilda um lántökur og fjárfestingar lífeyrissjóða, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Þá er mikilvægt að skýrt sé tekið á því í samþykktum (skipulagsskrám) að starfsendurhæfingarsjóðum verði óheimilt að greiða fé úr sjóðunum til þeirra sem að þeim standa enda um að ræða sjóði sem reknir eru í almannaþágu til að efla fólk til þátttöku á vinnumarkaði en ekki í hagnaðarskyni. Hið sama gildir um ákvörðun um rétt til þjónustu sjóðanna til handa þeim sem standa að þeim umfram þær reglur sem almennt gilda um aðra þá sem eiga aðild að viðkomandi sjóði.

Um 16. gr.

    Gert er ráð fyrir að stjórnir starfsendurhæfingarsjóða séu skipaðar að lágmarki fimm stjórnarmönnum og jafnmörgum til vara. Stjórnunum er ætlað að fara með yfirstjórn sjóðanna og bera ábyrgð á starfsemi þeirra í samræmi við efni frumvarpsins og samþykkta (skipulagsskráa) sjóðanna.
    Í ákvæðinu er hlutverk stjórna starfsendurhæfingarsjóða nánar tilgreint í tólf töluliðum en ekki er um að ræða tæmandi talningu á verkefnum stjórnar. Meginhlutverk stjórna starfsendurhæfingarsjóða er að móta stefnu hlutaðeigandi sjóða ásamt því að hafa eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna þeirra. Miðað er við að haldin sé gerðabók um það sem gerist á fundum stjórnar og skulu formaður stjórnar og framkvæmdastjóri undirrita fundargerð hvers fundar. Þá er gert ráð fyrir að stjórnir skeri úr ágreiningsmálum er lúta að ákvörðunum starfsendurhæfingarsjóða um veitingu þjónustu sem teknar eru á grundvelli mats á því hvort skilyrði 11. gr. frumvarpsins séu uppfyllt. Þannig er lagt til að einstaklingur sem telur sig eiga rétt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs en fær synjun geti vísað ákvörðuninni til stjórnar sjóðsins sem fer þá yfir málið að nýju.
    Jafnframt er kveðið á um almennt hæfi stjórnarmanna sem er efnislega samhljóða hæfi stjórnarmanna í stjórnum lífeyrissjóða, sbr. 31. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Enn fremur er lagt til að II. kafli stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gildi um sérstakt hæfi stjórnarmanna í stjórnum starfsendurhæfingarsjóða. Þar er kveðið á um vanhæfisástæður, áhrif vanhæfis og málsmeðferð vegna vanhæfis.
    Enn fremur er mælt fyrir um að fulltrúaráð ákveði þóknun stjórnarmanna og er það í samræmi við 20. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri starfsendurhæfingarsjóðs, sem stjórn sjóðsins ræður, annist daglegan rekstur hans. Tekið er fram að ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar geti framkvæmdastjóri einungis gert samkvæmt heimild frá stjórn sjóðsins.
    Þá er mælt fyrir um að framkvæmdastjóra og stjórnarmönnum sé óheimilt að taka þátt í tengdum rekstri. Getur þetta til dæmis átt við aðila sem annast framkvæmd úrræða á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar, svo sem starfsendurhæfingarstöð. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í rekstri en sú skilgreining á ráðandi stöðu sem lögð er til í ákvæðinu tekur mið af skilgreiningu laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, sbr. einnig lög nr. 73/2011.
    Loks er lagt til að sömu hæfisreglur gildi um framkvæmdastjóra og stjórnarmenn í stjórn sjóðanna. Er jafnframt lagt til að tekið verði fram að framkvæmdastjóri geti ekki verið stjórnarformaður starfsendurhæfingarsjóðs og er það í samræmi við 3. mgr. 14. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Um 17. gr.

    Ákvæðið fjallar um ársfundi starfsendurhæfingarsjóða en gert er ráð fyrir að stjórnir sjóðanna boði til ársfundar fyrir júnílok ár hvert. Lagt er til að allir þeir launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem eru tryggðir skv. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins eigi rétt til fundarsetu á ársfundi með málfrelsi og tillögurétt hjá þeim starfsendurhæfingarsjóði sem iðgjald vegna þeirra skv. 5. gr. hefur verið greitt til. Er miðað við að fundirnir verði boðaðir með auglýsingum í fjölmiðlum eða með öðrum tryggilegum hætti í samræmi við samþykktir (skipulagsskrá) sjóðsins. Gert er ráð fyrir að á ársfundi verði gerð grein fyrir störfum stjórnar og ársreikningum. Enn fremur er gert ráð fyrir að stjórnin geri tillögu um val á endurskoðanda til ársfundar, sbr. 9. tölul. 2. mgr. 16. gr. frumvarps þessa.

Um 18. gr.

    Í þessu ákvæði frumvarpsins er kveðið á um nokkur atriði sem starfsendurhæfingarsjóðum ber að fylgja við innkaup á þjónustu. Við samningu ákvæðisins var höfð hliðsjón af ákvæðum laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, enda miðað við að þriðjungur rekstrarfjár sjóðanna komi úr ríkissjóði. Mikilvægt þykir að ávallt sé gætt jafnræðis milli þeirra sem bjóða fram þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Ekki er gerð krafa um að starfsendurhæfingarsjóðir auglýsi innkaup á þessu sviði með hefðbundnum hætti þegar stendur til að gera samninga um kaup á þjónustu frá fyrirtækjum er selja úrræði, aðgerðir eða verkefni á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Hins vegar má ætla að rétt sé að meta í hvert og eitt skipti hvort fleiri fyrirtæki kunni að hafa áhuga á að gera slíkan samning og því sé eðlilegt að auglýsa fyrirhuguð kaup á þjónustu, til dæmis á vefsíðu sjóðsins, í því skyni að geta gert samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Jafnframt má ætla að sjóðurinn geti boðið fyrirtækjum að leggja fram tilboð þannig að samkeppni sé tryggð. Einnig gæti verið nægjanlegt að senda tölvubréf til fyrirtækja sem bjóða slíka þjónustu.
    Ekki er þó gert ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir veki athygli fleiri aðila á gerð samninga til skamms tíma sem gerðir eru til að styrkja eða stuðla að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu skv. 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins enda þeir oftar en ekki gerðir að frumkvæði þeirra sem standa að slíkum rannsóknum eða þróun tiltekinna þjónustuúrræða, aðgerða eða verkefna og er þá jafnan einnig um frumkvöðlastarf að ræða.

Um 19. gr.

    Mikilvægt þykir að kveðið sé sérstaklega á um þagnarskyldu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra sem og starfsmanna sem starfa á vegum starfsendurhæfingarsjóða þegar kemur að viðkvæmum persónuupplýsingum sem eðli málsins samkvæmt skulu fara leynt. Eru upplýsingar um heilsufar þeirra sem leita til starfsendurhæfingarsjóðanna sérstaklega nefndar, þar á meðal ástand þeirra, sjúkdómsgreining, horfur og meðferð. Þagnarskyldan tekur einnig til annarra persónulegra upplýsinga sem hlutaðeigandi starfsmenn fá vitneskju um í starfi sínu. Lagt er til að undanþága verði veitt frá hinni almennu þagnarskyldu þegar um er ræða atvik sem starfsmanni starfsendurhæfingarsjóðs ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lögum. Í slíkum tilvikum ber starfsmanni að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær stjórnvöld. Þagnarskylda hans helst að öðru leyti varðandi atvikið. Jafnframt er lagt til að samþykki hlutaðeigandi geti leyst starfsmann undan þagnarskyldu þannig að starfsmaðurinn geti miðlað upplýsingum til annars aðila og geti þannig til dæmis rætt um aðstæður viðkomandi við þjónustuaðila innan annarra kerfa.

Um 20.–22. gr.

    Ákvæðin fjalla um gerð ársreikninga, skýrslu stjórnar og endurskoðun starfsendurhæfingarsjóða. Ákvæðin eru efnislega samhljóða 40.–42. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Gert er ráð fyrir að um endurskoðun hjá starfsendurhæfingarsjóði gildi ákvæði laga nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum, eftir því sem við getur átt. Í ljósi þess að gert er ráð fyrir að þriðjungur rekstrarfjár starfsendurhæfingarsjóða komi úr ríkissjóði er talið mikilvægt að ríkisendurskoðandi komi að endurskoðun sjóðanna þannig að endurskoðun hjá starfsendurhæfingarsjóðum verði gerð af löggiltum endurskoðanda í samráði við hann.

Um 23. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að ráðherra hafi eftirlit með að starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sé í samræmi við ákvæði frumvarps þessa, samþykkta (skipulagsskráa) sjóðanna og samninga þá sem ráðherra gerir við starfsendurhæfingarsjóði á grundvelli 9. gr. frumvarpsins. Í þeim tilgangi er gert ráð fyrir að ráðherra geti krafið starfsendurhæfingarsjóð um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg vegna eftirlitsins.
    Þá er mælt fyrir um viðbrögð ráðherra verði hann þess var að starfsemi starfsendurhæfingarsjóðs sé ekki í samræmi við ákvæði frumvarps þessa, samþykkta (skipulagsskrá) sjóðsins og samning þann sem ráðherra hefur gert við starfsendurhæfingarsjóðinn á grundvelli 9. gr. frumvarpsins eða að hún sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Ber ráðherra þá að beina tilmælum um úrbætur til starfsendurhæfingarsjóðs, enda sé ekki um ásetning eða stórfellt gáleysi að ræða. Verði starfsendurhæfingarsjóður ekki við tilmælum ráðherra, eftir atvikum innan þess frest sem ráðherra kann að setja, er gert ráð fyrir að ráðherra beri að afturkalla viðurkenningu sjóðsins. Gert er ráð fyrir að sé um ásetning eða stórfellt gáleysi að ræða skuli ráðherra afturkalla viðurkenningu starfsendurhæfingarsjóðs án þess að veita honum undanfarandi frest til úrbóta.

Um 24. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um hvernig slitum starfsendurhæfingarsjóðs skuli háttað en starfsendurhæfingarsjóður skal tekinn til slita annars vegar ef ráðherra afturkallar viðurkenningu sjóðsins, sbr. 4. mgr. 23. gr. frumvarpsins, og hins vegar ef sá sem er bær til þess að ákveða slit sjóðsins samkvæmt samþykktum (skipulagsskrá) hans tekur slíka ákvörðun og upplýsir ráðherra þar um. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að þegar tekin hefur verið ákvörðun um slit starfsendurhæfingarsjóðs beri ráðherra að skipa skilanefnd þegar í stað sem tekur við störfum stjórnar og framkvæmdastjóra. Gert er ráð fyrir að ráðherra beri jafnframt að fela öðrum starfsendurhæfingarsjóði tryggingavernd þeirra sem voru tryggðir hjá þeim sjóði sem tekinn er til slita. Ef sú staða kemur upp að enginn starfsendurhæfingarsjóður er starfandi og þar af leiðandi ómögulegt að fela öðrum sjóði tryggingavernd þeirra sem voru tryggðir hjá sjóðnum sem tekinn er til slita er lagt til að ráðherra verði falið að leita annarra leiða til að tryggja áframhaldandi þjónustu í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða. Telja verður að fremur ólíklegt sé að sú staða komi upp að engum öðrum starfsendurhæfingarsjóði verði til að dreifa en rétt þykir þó að mæla fyrir um hvernig bregðast skuli við ef sú staða kæmi upp.
    Gert er ráð fyrir að ákvarðanir um slit sjóðsins, skipun skilanefndar og tilnefningu þess starfsendurhæfingarsjóðs sem annast skal tryggingavernd gagnvart þeim sem tryggðir voru hjá sjóðnum sem tekinn er til slita verði birtar í Lögbirtingablaðinu og auglýstar í fjölmiðlum. Jafnframt er gert ráð fyrir að hið sama eigi við um ákvörðun sem ráðherra tekur í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða skv. 2. mgr. ákvæðisins.
    Við birtingu ákvörðunar ráðherra er gert ráð fyrir að aðilum sem eru greiðsluskyldir skv. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins beri eðli máls samkvæmt ekki lengur að greiða til starfsendurhæfingarsjóðs sem tekinn hefur verið til slita en viðkomandi aðilum beri þess í stað að greiða til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra tilnefnir skv. 2. málsl. 2. mgr. eða eftir atvikum 3. málsl. 2. mgr. Þannig er gert ráð fyrir að fjármunir fylgi hinum tryggðu.
    Loks er gert ráð fyrir að skilanefnd birti tvisvar í Lögbirtingablaði áskorun til lánardrottna sjóðsins um að lýsa kröfum sínum innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunar og að birtingin hafi sömu réttaráhrif og gildir um innköllun krafna við gjaldþrotaskipti. Þá er gert ráð fyrir að eignir sjóðsins, sem eftir standa þegar skuldir hafa verið greiddar, skuli renna til þess starfsendurhæfingarsjóðs sem ráðherra tilnefnir skv. 2. málsl. 2. mgr. eða eftir atvikum 3. málsl. 2. mgr. ákvæðisins.

Um 25. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að framlag atvinnurekenda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi til starfsendurhæfingarsjóðs teljist rekstrarkostnaður í skilningi laga um tekjuskatt.

Um 27. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að verði frumvarpið að lögum öðlist þau gildi 1. júlí 2012. Þó er lagt til að ákvæði b-liðar 29. gr. komi til framkvæmda í október 2013 þegar greiða skal framlag ríkisins í fyrsta skipti og verði þá 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds miðað við hálft árið 2012, það er frá 1. júlí 2012 þegar lögin taka gildi verði frumvarp þetta að lögum.

Um 29. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögum um tryggingagjald, með síðari breytingum, verði breytt þannig að 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds renni til starfsendurhæfingarsjóða. Þá er í ákvæðinu lagt til sá hluti tekna af tryggingagjaldi, sem kemur í hlut starfsendurhæfingarsjóða, verði greiddur í október ár hvert. Er miðað við að framlagið skuli greitt í október hvert ár en gert er ráð fyrir að það byggist á upplýsingum ríkisreiknings um fjárhæð gjaldstofns tryggingagjalds næstliðins almanaksárs.

Um 30. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, verði breytt þannig að kveðið verði á um að framlög lífeyrissjóða til starfsendurhæfingarsjóða samkvæmt frumvarpi þessu teljist framlög í þeim tilgangi sem um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. laganna. Þó er gert ráð fyrir að framlög lífeyrissjóða til starfsendurhæfingar á árunum 2012 til og með 2015 verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna. Er það gert til þess að lágmarka hættuna á að lífeyrissjóðirnir kunni að þurfa að skerða réttindi og það hugsanlega áður en niðurstöður þeirrar heildarúttektar sem mælt er fyrir um í ákvæði til bráðabirgða II við frumvarpið liggja fyrir. Eftir að sú úttekt hefur verið framkvæmd ætti að liggja fyrir hvort með tilkomu atvinnutengdrar starfsendurhæfingar samkvæmt frumvarpi þessu verði dregið úr örorkubyrði lífeyrissjóðanna.

Um 31. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á fyrri málsl. 10. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt, með vísan til þess að samkvæmt gildandi ákvæði teljast styrkir greiddir af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins meðal annars vegna endurhæfingar ekki til tekna en með frumvarpi þessu er lagt til að starfsendurhæfingarsjóðir komi í stað þessara aðila og þar sem undanþágur frá skattskyldu ber að túlka þröngt þykir rétt að taka af allan vafa. Jafnframt þykir rétt að árétta að starfsendurhæfingarsjóðir teljast hvorki reka atvinnu né standa í hagnaðarskyni þannig að framlög til þeirra skapi ekki skattskyldar tekjur í þeirra hendi enda sé tekjum þessum varið í þágu þeirrar starfsemi sem mælt er fyrir um.

Um 32. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur verði breytt þannig að lögin taki ekki til starfsendurhæfingarsjóða og þykir það eðlilegt í ljósi eðli þeirrar starfsemi sem sjóðunum er ætlað að inna af hendi auk þess sem í frumvarpi þessu er sérstaklega mælt fyrir um stofnun og samþykktir starfsendurhæfingarsjóða, stjórn og framkvæmdarstjórn, ársreikning og endurskoðun ásamt breytingu samþykkta, slit og sameiningu starfsendurhæfingarsjóða.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er í fyrsta lagi lagt til að starfsendurhæfingarsjóðir sem eru starfandi við gildistöku laganna, verði frumvarp þetta að lögum, tilkynni innan árs frá gildistökunni um reksturinn til ráðherra skv. 13. gr. og uppfylli skilyrði frumvarpsins að öðru leyti. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að einn starfsendurhæfingarsjóður verði starfandi við setningu þeirra, VIRK-Starfsendurhæfingarsjóður, og gert er ráð fyrir að ráðherra veiti sjóðnum viðurkenningu þegar formlega hefur verið tilkynnt um rekstur sjóðsins og sýnt fram á að sjóðurinn uppfylli skilyrði sem fram koma í frumvarpi þessu.
    Jafnframt er lagt til að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og Landssamtök lífeyrissjóða endurskoði framlög skv. 5.–7. gr. til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar fyrir lok árs 2014. Er talið eðlilegt að framlögin verði endurskoðuð á þeim tímapunkti enda verður að telja að fyrr verði ekki unnt að meta hvort framlögin séu of há eða lág og hver sé árangur þeirrar þjónustu sem veitt er af starfsendurhæfingarsjóðum. Gert er ráð fyrir að til grundvallar endurskoðuninni liggi meðal annars heildarúttekt óháðrar nefndar sérfræðinga sem velferðarráðherra skipar í samráði við þá aðila sem koma að endurskoðun framlaga. Lagt er til að nefndina skipi þrír til fimm nefndarmenn og þykir eðlilegt að einn þeirra sé tryggingastærðfræðingur í ljósi hlutverks nefndarinnar. Lagt er til að nefndinni verði falið að meta hvort framlögum skv. 5.–7. gr. hafi verið ráðstafað með sem skilvirkustum hætti í þágu þeirra markmiða sem stefnt er að í lögum þessum og hvort þjónusta starfsendurhæfingarsjóða hafi haft mælanleg áhrif á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og nýgengi örorku á starfstíma starfsendurhæfingarsjóða. Þá er lagt til að starfsendurhæfingarsjóðir beri kostnað af starfi nefndarinnar í hlutfalli við stærð þeirra og starfstíma.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu
og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða .

    Með frumvarpinu er stefnt að uppbyggingu á markvissi atvinnutengdri starfsendurhæfingu með það fyrir augum að draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði og draga úr örorkubyrði og nýgengi örorku. Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu, vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa, atvinnutengda starfsendurhæfingu. Er gert ráð fyrir að starfsendurhæfingin verði einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og kostur er.
    Frumvarpið er lagt fram með vísan til fyrirheita sem gefin voru við gerð stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins 25. júní 2009 þar sem meðal annars var kveðið á um að ríkið skyldi lögfesta skyldu ríkissjóðs til greiðslu á iðgjaldi til starfsendurhæfingarsjóðs sem næmi 0,13% af tryggingagjaldsstofni. Einnig er vísað til fyrirheita sem gefin voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 þar sem kveðið var á um mikilvægi uppbyggingar markvissrar starfsendurhæfingar en á þeim tíma var stór hluti launagreiðenda farinn að greiða 0,13% iðgjald til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs á grundvelli kjarasamninga. Í þeirri yfirlýsingu skuldbatt ríkisstjórnin sig til að beita sér fyrir lögfestingu á skyldu allra launagreiðenda til að greiða 0,13% iðgjald til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og að jafnhátt iðgjald yrði greitt af hálfu lífeyrissjóðanna. Enn fremur var tiltekið að velferðarráðherra mundi skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem kæmi með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011. Með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 73/2011, var lífeyrissjóðum og launagreiðendum gert skylt að greiða sem næmi 0,13% iðgjald af iðgjaldastofni til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og var það gert til bráðabirgða eða þangað til að nánari útfærsla á starfsendurhæfingarmálum lægi fyrir út frá vinnu samráðsnefndarinnar. Er þetta frumvarp afrakstur þeirrar vinnu og er því meðal annars ætlað að lögfesta framlögin til sjóðanna til frambúðar ásamt því að lögfesta umgjörð um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.
    Í fyrsta lagi er í frumvarpinu kveðið á um hverjir verði tryggðir samkvæmt lögunum, hver þjónusta sjóðanna eigi að vera og hvaða skilyrðum þarf að fullnægja til að eiga rétt á þeirri þjónustu. Gert er ráð fyrir að starfsendurhæfingarsjóðir hafi meðal annars umsjón með og fjármagni þjónustu ráðgjafa, móti og fjármagni gerð sérstakra einstaklingsbundinna áætlana um atvinnutengda starfsendurhæfingu, fjármagni viðeigandi úrræði, aðgerðir og verkefni og veiti atvinnurekendum og stjórnendum nauðsynlega fræðslu og stuðning til að stuðla að endurkomu einstaklinga til starfa og þátttöku í atvinnulífinu. Almennt eru þeir tryggðir sem eru á vinnumarkaði með greiðslu iðgjalds auk þeirra sem fá greiðslur úr ýmsum sjóðum, svo sem sjúkrasjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. Einnig er gert ráð fyrir að með sérstökum samningi við ráðherra séu aðilar utan vinnumarkaðar tryggðir, t.d. þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Ýmis skilyrði eru þó sett í frumvarpinu fyrir því að einstaklingar geti notið þjónustunnar. Gerð er krafa um að þeir búi við heilsubrest sem hindri fulla þátttöku á vinnumarkaði, að viðkomandi hafi þörf fyrir þjónustuna, hún sé viðeigandi til að auðvelda honum að fara aftur til vinnu og líkleg til árangurs á þeim tíma sem hún sé veitt. Jafnframt skuli einstaklingurinn hafa vilja og getu til að taka markvissan þátt og fylgja eftir áætlun sem sett er fram en starfsendurhæfingarsjóði er heimilt að binda þjónustu við einstakling við það skilyrði að hann skuldbindi sig til virkrar þátttöku í atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Vakin er athygli á því að í fjárlögum 2012 veitir velferðarráðuneytið fjárheimildir til ýmissa verkefna er tengjast starfsendurhæfingu eða samtals rúmlega 500 m.kr. Þeim fjárhæðum er meðal annars varið til svæðismiðlana auk annarra aðila er bjóða upp á endurhæfingu. Þar sem matið á því hverjir fái þjónustuna er alfarið sett í hendur starfsendurhæfingarsjóðanna ríkir umtalsverð óvissa um það hversu mikill sparnaður muni nást í núverandi kerfi en þó er gróflega áætlað að hann gæti numið rúmlega 300 m.kr. af núverandi verkefnum hjá velferðarráðuneytinu.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu kveðið á um framlag til starfsendurhæfingarsjóða og er í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar lagt til að það verði þrískipt á milli atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkissjóðs. Framlag atvinnurekenda verði 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Er lífeyrissjóði viðkomandi aðila ætlað að innheimta iðgjaldið og skila til starfsendurhæfingarsjóðs að frádreginni þóknun vegna umsýslu. Lífeyrissjóðir eiga enn fremur að greiða iðgjald sem nemur sömu fjárhæð og sjóðfélagi greiddi til síns starfsendurhæfingarsjóðs. Vakin er athygli á að greiðslur lífeyrissjóðanna kunna að leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga til lengri tíma litið en á móti ætti að vega minni örorkubyrði vegna aukinnar starfsendurhæfingar. Hjá lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga þar sem réttindi eru tryggð samkvæmt sérlögum þyrfti að breyta lögum til að draga úr þeim réttindum, ella kann þessi skerðing á tekjum sjóðanna að leiða til aukinna skuldbindinga fyrir hið opinbera þótt talsverða óvissa sé um fjárhæðir í því samhengi. Framlag ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða er samkvæmt frumvarpinu 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og skal framlagið greitt í október ár hvert og skiptast á milli starfsendurhæfingarsjóða á grundvelli hlutdeildar hvers sjóðs í heildarframlögum til starfsendurhæfingarsjóða á næstliðnu almanaksári. Miðað við þann tryggingagjaldsstofn sem var til grundvallar í fjárlögum ársins 2012 er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs vegna þeirrar starfsendurhæfingar sem kveðið er á um í frumvarpinu verði tæplega 1.200 m.kr. á ársgrundvelli. Þar sem gildistaka laganna er áætluð 1. júli 2012 gerir frumvarpið ráð fyrir að í október 2013 greiði ríkissjóður framlag vegna seinni helmings ársins 2012, eða sem svarar til tæplega 600 m.kr., en að árið 2014 og eftirleiðis greiði ríkissjóður framlag í október miðað við tryggingagjaldsstofns heils árs, eða sem gæti svarað til um 1.200 m.kr. á ári.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu gerð grein fyrir starfsemi starfsendurhæfingarsjóða en gert er ráð fyrir að þeir verði sjálfseignarstofnanir og að baki þeim standi að lágmarki 10.000 launamenn eða þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í frumvarpinu er kveðið á um ýmsa þætti sem lúta að starfsemi sjóðanna, svo sem stofnun þeirra, samþykktir, úttekt á fjárhag, innkaupastefnu, eftirlit að hálfu ráðherra, slit sjóðanna og yfirfærslu tryggingaverndar, en einkum er vakin athygli á tveimur atriðum er lúta annars vegar að stjórn sjóðanna og hins vegar að varasjóði þeirra. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að 20 manna fulltrúaráð velji stjórn starfsendurhæfingarsjóða og er gert fyrir að ráðið sé skipað í samþykktum sjóðanna. Verði frumvarpið lögfest er gert ráð fyrir að einn starfsendurhæfingarsjóður verði starfandi við setningu þeirra, en það er VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, og eru fulltrúar í stjórn sjóðsins einkum fulltrúar atvinnurekenda og launþega og hafa til að mynda lífeyrissjóðir engan fulltrúa í stjórn þess sjóðs. Í 15. gr. frumvarpsins er síðan kveðið á um að starfsendurhæfingarsjóðir skuli halda nauðsynlegan varasjóð til að mæta sveiflum í útgjöldum og til að mæta skuldbindingum sínum. Er miðað við að stærð sjóðsins nemi að jafnaði 6–12 mánaða útgjöldum hluteigandi sjóðs. Ljóst er að stærð varasjóðanna getur þar með orðið mjög veruleg þar sem árleg velta starfsendurhæfingarsjóða getur hlaupið á milljörðum króna og er vandséð hvernig það samrýmist hlutverki þeirra að safna varasjóði með þessum hætti og hafa af því vaxtatekjur. Ekki verður heldur séð að ef á annað borð kæmi til slita á slíkum sjóði þurfi að vera fyrir hendi umtalsverður varasjóður hjá þeim starfsendurhæfingarsjóði sem tæki við þeim einstaklingum, enda væru viðkomandi sjóði tryggðar greiðslur iðgjalda frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum og árið eftir slit sjóðsins kæmi til framlag ríkissjóðs.
    Í fjórða lagi er kveðið á um að framlag lífeyrissjóðanna á árunum 2012–2015 skuli ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna sem lögum samkvæmt er framkvæmd einu sinni á ári. Með þessu er átt við að þegar slík athugun fer fram sé ekki reiknað með því að framlögin verði til frambúðar. Ef reiknað væri með slíku útstreymi allt það tímabil sem athugunin nær yfir mundu lífeyrisskuldbindingar sjóðanna aukast umtalsvert sem gæti leitt til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga og því er reynt með þessu bráðabirgðaákvæði að draga úr hættu á því. Vonir standa til þess að með atvinnutengdri starfsendurhæfingu megi draga úr útgreiðslum sjóðanna vegna örorkubóta á móti þannig að tryggingafræðileg staða þeirra verði ekki lakari. Gert er ráð fyrir því að framlög atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins verði endurskoðuð fyrir árslok 2015 og að þá verði meðal annars athugað hver áhrifin hafa verið á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og hvort framlög til starfsendurhæfingarverkefna hafa skilað tilætluðum árangri.
    Með lögfestingu frumvarpsins er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um tæplega 1.200 m.kr. árlega vegna greiðslu framlags til starfsendurhæfingarsjóða. Til staðar eru fjárheimildar innan velferðarráðuneytisins vegna málaflokksins sem nema rúmlega 500 m.kr. en þar sem óvissa ríkir um það hverjir munu fá aðgang að þjónustu starfsendurhæfingarsjóðanna er hér áætlað að um 300 m.kr. af þeim útgjöldum sparist með lögfestingu frumvarpsins. Nettó útgjaldaaukning frumvarpsins á ársgrundvelli er því áætluð á bilinu 800–900 m.kr. og yrðu því útgjöld til málaflokksins samtals um 1.200–1.400 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að við umfjöllun Alþingis á frumvarpinu komi til nánari skoðunar tekjuöflunaraðgerðir til að standa undir þessum auknu útgjöldum sem leiðir af lögfestingu frumvarpsins. Þar sem gildisákvæði frumvarpsins er 1. júlí 2012 má gera ráð fyrir að nettó útgjaldaaukning ríkissjóðs á árinu 2013 verði rúmlega 400 m.kr. ef frumvarpið verður að lögum. Hvorki hefur verið gert ráð fyrir þessum umtalsverðu útgjöldum í gildandi fjárlögum né í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2012–2015. Að öðru óbreyttu mun lögfesting frumvarpsins því valda 800–900 m.kr. lakari afkomu á ríkissjóði á ári hverju en ella hefði orðið.