Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 736. máls.

Þingskjal 1174  —  736. mál.



Frumvarp til laga

um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1.      gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja einstaklingum með kynáttunarvanda jafna stöðu fyrir lögum á við aðra í samræmi við mannréttindi og mannhelgi.

2.     gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.

3.     gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
     1.      Kynáttunarvandi: Upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu.
     2.      Kynleiðréttandi aðgerð: Leiðrétting á líffræðilegu kyni með skurðaðgerð.

4.      gr.
Teymi Landspítala um kynáttunarvanda.

    Á Landspítala skal starfa teymi sérfræðinga um kynáttunarvanda og skal það tilnefnt af forstjóra sjúkrahússins. Hlutverk teymisins er að hafa umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda. Í teyminu skulu vera sérfræðingar á sviði geðlækninga, innkirtlalækninga og sálfræði. Teyminu er heimilt að kalla til aðra sérfræðinga sér til ráðgjafar og samstarfs.
    Hafi einstaklingur með kynáttunarvanda hlotið greiningu og viðurkennda meðferð í útlöndum er teyminu heimilt að taka tillit til þess.

5.      gr.
Skipun sérfræðinefndar um kynáttunarvanda.

    Ráðherra skipar sérfræðinefnd um kynáttunarvanda til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti þrír menn. Skulu tveir nefndarmenn skipaðir án tilnefningar, landlæknir, sem er formaður nefndarinnar, og annar læknir. Þriðji nefndarmaðurinn, lögfræðingur, skal tilnefndur af ráðherra sem fer með mannréttindamál.
    Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði og skal hún hafa aðsetur hjá embætti landlæknis.

6.      gr.
Verkefni sérfræðinefndar um kynáttunarvanda.

    Sá sem hlotið hefur greiningu og viðurkennda meðferð hjá teymi Landspítala um kynáttunarvanda getur óskað staðfestingar hjá sérfræðinefnd um kynáttunarvanda um að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Með umsókn skal fylgja greinargerð teymisins. Þar skal m.a. koma fram að umsækjandi hafi verið undir eftirliti teymisins í a.m.k. 18 mánuði og hafi verið í gagnstæðu kynhlutverki í a.m.k. eitt ár.
    Jafnframt er það skilyrði staðfestingar að umsækjandi sé lögráða, eigi lögheimili og hafi haft samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu tvö árin fyrir umsókn og sé sjúkratryggður samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
    Uppfylli umsækjandi skilyrði 1. og 2. mgr. staðfestir sérfræðinefndin að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Ef við á skal sérfræðinefndin einnig staðfesta að umsækjandi sé hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar.
    Sérfræðinefndin skal tilkynna umsækjanda niðurstöður ákvörðunar skv. 3. mgr. Sérfræðinefndin tilkynnir jafnframt Þjóðskrá Íslands að kyn umsækjanda hafi verið leiðrétt samkvæmt lögum þessum.
    Ákvörðun sérfræðinefndarinnar skv. 3. mgr. er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds.

7.      gr.
Réttaráhrif staðfestingar sérfræðinefndar um kynáttunarvanda.

    Umsækjandi sem hlotið hefur staðfestingu skv. 3. mgr. 6. gr. nýtur allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.

8.     gr.
Kynleiðréttingar og nafnbreytingar í þjóðskrá.

    Jafnskjótt og Þjóðskrá Íslands berst tilkynning um leiðrétt kyn einstaklings skv. 4. mgr. 6. gr. skal stofnunin upplýsa viðkomandi um skyldu til nafnbreytingar.
    Leiðrétting á kyni verður ekki skráð í þjóðskrá fyrr en gild umsókn um nafnbreytingu hefur borist Þjóðskrá Íslands og nafni umsækjanda hefur verið breytt samkvæmt lögum um mannanöfn.
    Við leiðréttingu á kyni og nafnbreytingu í þjóðskrá er heimilt að úthluta umsækjanda nýrri kennitölu hjá Þjóðskrá Íslands. Óski hann nýrrar kennitölu skal fyrri kennitala vera aðgengileg þeim stjórnvöldum og öðrum aðilum sem starfs síns vegna þurfa að vita um tengsl nýju og eldri kennitölunnar.

9. gr.
Viðurkenning erlendra ákvarðana.

    Einstaklingur, sem skráður er í þjóðskrá en býr í útlöndum eða hefur búið þar og fengið leiðréttingu á kyni sínu vegna kynáttunarvanda eða nafnbreytingu í tengslum við það ferli, getur óskað þess að Þjóðskrá Íslands skrái þessar breytingar í þjóðskrá. Þjóðskrá Íslands metur gildi framlagðra gagna umsækjanda, m.a. hvort nafnbreyting og/eða leiðrétting á kyni hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla.

10.      gr.

Réttarstaða barns gagnvart foreldri.

    Réttarstaða barns gagnvart foreldri sem hlotið hefur staðfestingu skv. 3. mgr. 6. gr. er sú sama og áður en slík ákvörðun var tekin.

11. gr.
Afturköllun staðfestingar sérfræðinefndar um kynáttunarvanda.

    Einstaklingur sem hlotið hefur staðfestingu skv. 3. mgr. 6. gr. getur leitað til teymis Landspítala um kynáttunarvanda vilji hann hverfa aftur til fyrra kyns.
    Sérfræðinefnd um kynáttunarvanda getur afturkallað staðfestingu skv. 3. mgr. 6. gr. að fenginni umsögn teymis Landspítala þess efnis að viðkomandi uppfylli ekki lengur skilyrði ákvæðisins.
    Um ákvörðun sérfræðinefndar skv. 2. mgr. gilda ákvæði 4.–5. mgr. 6. gr., 7. gr. og 8. gr.

12.      gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara.

13.      gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 27. júní 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Almenn atriði.
    Frumvarp þetta er samið af nefnd um réttarstöðu transfólks sem skipuð var af velferðarráðherra 24. mars 2011. Er gerð frumvarpsins í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en þar skuldbindur ríkisstjórnin sig til þess að huga að réttarbótum í málefnum transgender fólks í samræmi við ábendingar umboðsmanns Alþingis. Í nefndinni áttu sæti Laufey Helga Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá velferðarráðuneyti, formaður, Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri Þjóðskrár Íslands, tilnefndur af innanríkisráðuneytinu, Óttar Guðmundsson, sérfræðingur í geðlækningum, tilnefndur af landlækni, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, tilnefnd af Mannréttindaskrifstofu Íslands, og Anna K. Kristjánsdóttir vélfræðingur, tilnefnd af Trans Ísland. Samkvæmt skipunarbréfi ráðherra var hlutverk nefndarinnar að gera tillögur að úrbótum með hliðsjón af áliti setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4919/2007 frá 27. apríl 2009 og tillögu til þingsályktunar um réttarbætur fyrir transfólk sem lögð var fram á 138. löggjafarþingi, sbr. 168. mál á þskj. 187, en hlaut ekki afgreiðslu þingsins.
    Í frumvarpi þessu er að finna tillögur nefndarinnar um úrbætur á réttarstöðu transfólks en þær lúta fyrst og fremst að stjórnsýslu um meðferð mála transfólks og tilhögun kynleiðréttinga og nafnbreytinga í þjóðskrá. Rétt er að taka fram í upphafi að hugtakið transfólk eða transgender einstaklingar er samheiti yfir þá sem haldnir eru ýmsum röskunum sem tengjast kynímynd. Ákveðið var að nota nákvæmara hugtak í frumvarpi þessu, einstaklingur með kynáttunarvanda, sem er sá sem upplifað hefur frá unga aldri að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu.
    Í framangreindu áliti setts umboðsmanns Alþingis voru atvik málsins með eftirfarandi hætti: A kvartaði yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á beiðni sinni um nafnbreytingu. A hafði farið þess á leit við ráðuneytið að nafni hans yrði breytt úr karlmannsnafninu A í kvenmannsnafnið B á grundvelli laga nr. 45/1996, um mannanöfn. A, sem er með kynskiptahneigð, fæddist sem karlmaður en hafði að eigin sögn lifað félagslega sem kona í 12 ár þegar kvörtun hans barst umboðsmanni. Synjun ráðuneytisins var á því reist að A hefði ekki lokið við kynskiptaaðgerð og því hefði ekki verið fært samkvæmt lögum nr. 45/1996 að breyta skráningu í þjóðskrá á nafni eða kyni. A taldi að framangreind ákvörðun ráðuneytisins hefði brotið gegn jafnræðisreglu og friðhelgi einkalífs skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Meðan á athugun umboðsmanns Alþingis stóð átti hann fund með fulltrúum landlæknisembættisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem þessi stjórnvöld lýstu því yfir að þau teldu fært á grundvelli laga nr. 45/1996 að verða við umsókn einstaklings með kynskiptahneigð um nafnbreytingu og kynleiðréttingu eftir að hann hefði lokið hormónameðferð í nánar tilgreindan tíma. Að því virtu og þar sem A hafði meðan á athugun umboðsmanns stóð fengið nafni sínu formlega breytt í kvenmannsnafnið B taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla um lögmæti synjunar ráðuneytisins í máli A. Umboðsmaður tók hins vegar til athugunar, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvort reglur um möguleika einstaklinga, sem haldnir eru kynskiptahneigð, til að óska eftir breytingu á skráningu nafns í þjóðskrá annars vegar og um réttarstöðu þeirra hvað varðar möguleika á að gangast undir meðferð í átt að leiðréttandi kynskiptaaðgerð hins vegar væru nægilega skýrar eða hvort þörf væri á frekari aðkomu löggjafans að málefnum þeirra.
    Umboðsmaður vísaði til þess að hvorki lög nr. 45/1996 né önnur lagaákvæði fjölluðu um rétt einstaklinga sem haldnir væru kynskiptahneigð til að óska eftir breytingu á skráningu nafns og eftir atvikum kyns í þjóðskrá. Umboðsmaður rakti grundvallarreglur stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um friðhelgi einkalífs, ásamt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar réttarstöðu einstaklinga með kynskiptahneigð. Umboðsmaður taldi að réttur einstaklings til auðkennis, sjálfsímyndar og nafns væri varinn af ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, eins og ákvæðið yrði túlkað með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Umboðsmaður taldi ljóst að skortur á lagafyrirmælum um það hvort og að uppfylltum hvaða skilyrðum þessir einstaklingar gætu óskað breytingar á opinberri skráningu nafns og eftir atvikum kyns gæti haft veruleg áhrif á aðstæður þeirra og einkalíf í merkingu 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Umboðsmaður taldi að þegar litið væri til þess að við mat á réttarstöðu þeirra sem haldnir væru kynskiptahneigð yrði að horfa til grundvallarreglna stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, sem og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins á þessu sviði, væri tilefni til þess að vekja athygli dóms- og kirkjumálaráðherra og Alþingis á nauðsyn þess að tekin yrði afstaða til þess hvort þörf væri á að setja skýrari og fyllri reglur um rétt þessara einstaklinga til að óska eftir breytingu á skráningu nafns og eftir atvikum kyns í þjóðskrá. Við slíka endurskoðun kynni eftir atvikum að vera nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvaða áhrif slík nafn- og kynbreyting hefði að öðru leyti fyrir réttarstöðu hlutaðeigandi að lögum.
    Umboðsmaður vísaði til þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hefðu komið í bréfaskiptum hans og landlæknisembættisins ætti grundvöllur og framkvæmd þess ferlis sem leiddi til kynskiptaaðgerðar hvorki beina stoð í lögum né stjórnvaldsfyrirmælum. Umboðsmaður taldi að við athugun þess hvort þörf væri á skýrari lagafyrirmælum í þessum efnum yrði að líta til grundvallarreglna stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og þeirrar þróunar sem hefði orðið í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu á þessu sviði sem fæli í sér auknar skyldur ríkja til að veita einstaklingum sem lokið hefðu kynskiptaaðgerð lagalega viðurkenningu á hinu nýja kyni, sem og þeirrar áherslu sem dómstóllinn hefði lagt á mikilvægi þess að löggjöf í aðildarríkjunum á þessu sviði sætti endurskoðun með hliðsjón af vísindalegri og samfélagslegri þróun. Umboðsmaður vísaði til þess að upplifun einstaklinga af kyni sínu varðaði persónu viðkomandi miklu og félli að kjarna þeirrar friðhelgi einkalífs sem einstaklingum væri tryggð í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til framangreinds taldi umboðsmaður að nægilegt tilefni væri til þess að vekja athygli heilbrigðisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra og Alþingis á nauðsyn þess að lagt yrði mat á hvort mæla skuli með skýrum hætti fyrir í lögum um þær reglur sem eigi að gilda um möguleika einstaklinga með kynskiptahneigð til að gangast undir kynskiptaaðgerð og þá um málsmeðferð og skyldur stjórnvalda í því sambandi sem og þau réttaráhrif sem læknisfræðileg greining á kynskiptahneigð og kynskiptaaðgerðin sem slík kynni að hafa í för með sér fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Umboðsmaður taldi að lokum rétt að kynna forsætisráðherra álit sitt og þá að virtu hlutverki hans skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, og 6. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 177/2007, um Stjórnarráð Íslands. 1
    Í tillögu til þingsályktunar um réttarbætur fyrir transfólk sem lögð var fyrir Alþingi 6. nóvember 2009 var lagt til að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera tillögur að úrbótum á stöðu transfólks (transgender) á Íslandi. Átti nefndin að kanna lagalega og félagslega stöðu transfólks á Íslandi og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til að hvers kyns misrétti gagnvart transfólki hverfi hér á landi og full mannréttindi þess verði tryggð. Þingsályktunartillagan byggðist að miklu leyti á framangreindu áliti umboðsmanns og gekk hún til fyrstu umræðu en hlaut ekki afgreiðslu þingsins fyrir lok 138. löggjafarþings eins og áður sagði.
    Við undirbúning tillagna um úrbætur á réttarstöðu transfólks var nefndinni boðið á málþing um kynáttunarvanda á Læknadögum sem haldnir voru í janúarmánuði 2012. Þar fluttu fyrirlestra tveir sænskir sérfræðingar á þessu sviði, Cecilia Dhejne, geðlæknir, og Stefan Arver, sérfræðingur í innkirtlalækningum. Í framhaldi átti nefndin fund með fyrirlesurunum og fékk frekari fræðslu um málefni transfólks.
    Rétt er að geta þess að við undirbúning frumvarpsins studdist nefndin að mörgu leyti við upplýsingar úr skýrslu Mannréttindaskrifstofu Íslands um réttindi transfólks frá ágúst 2009. Unnið er að uppfærslu skýrslunnar og verður hún endurútgefin á vordögum 2012.

Núverandi staða transfólks.
    Einstaklingar haldnir kynáttunarvanda hafa verið til meðferðar á Landspítala frá árinu 1996. Áður höfðu þessir sjúklingar farið til útlanda til viðeigandi læknismeðferðar. Fyrir tilstuðlan Ólafs Ólafssonar, þáverandi landlæknis, var settur á fót starfshópur lækna til að halda utan um meðferð og greiningu transfólks. Í hópnum sátu og hafa setið Óttar Guðmundsson geðlæknir, Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir, Jens Guðmundsson kvensjúkdómalæknir, Jens Kjartansson lýtalæknir, Arna Guðmundsdóttir, sérfræðingur í innkirtlalækningum, og Tómas Zoëga geðlæknir. Fulltrúar landlæknisembættisins í hópnum hafa verið Ólafur Ólafsson, Sigurður Guðmundsson, Matthías Halldórsson og Geir Gunnlaugsson. Auk þess að hafa einstaklinga með kynáttunarvanda til meðferðar hefur framangreindur samráðshópur það hlutverk að taka ákvörðun um hvort einstaklingur er hæfur til að gangast undir kynleiðréttandi aðgerð. Við meðferð þessara einstaklinga er fylgt alþjóðlegum vinnureglum á þessu sviði, WPATH (World Professional Association for Transgender Health). Læknismeðferðin skiptist í fjögur stig:
    1)     Samtalsmeðferð hjá geðlækni sem vanalega tekur u.þ.b. tvö til þrjú ár. Saga umsækjanda er könnuð ítarlega, rætt er við fjölskyldumeðlimi og einstaklingurinn gengst undir sálfræðipróf og persónuleikapróf. Í þessu ferli er metið hvort hormónameðferð sé ráðleg.
    2)     Meðferð þar sem eigin hormónaframleiðsla er bæld og einstaklingnum gefin hormón hins gagnstæða kyns. Hormónameðferð tekur a.m.k. eitt ár.
    3)     Atferlismeðferð þar sem einstaklingurinn er í gagnstæðu kynhlutverki. Þetta reynslutímabil fer fram samhliða hormónameðferð. Einstaklingum er einnig boðin talþjálfun á vegum talmeinafræðinga á Grensásdeild Landspítala.
    4)     Kynleiðréttandi aðgerð. Hjá körlum eru eistu fjarlægð og leggöng útbúin. Hjá konum eru m.a. brjóst, eggjastokkar og leg fjarlægð og ytri kynfæri eru byggð upp.
    Eftir kynleiðréttandi aðgerð gátu einstaklingar sótt um kynleiðréttingu, nafnbreytingu og eftir atvikum nýja kennitölu hjá Þjóðskrá Íslands. Eins og áður hefur komið fram er nú mögulegt að óska eftir framangreindum breytingum í þjóðskrá fyrr, eða eftir að Þjóðskrá Íslands berst bréf landlæknisembættisins um að viðkomandi einstaklingur sé greindur með transsexúalisma F64.0 samkvæmt núgildandi alþjóðlegri flokkun sjúkdóma og heilsutengdra vandamála (ICD 10. útgáfa, International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems).
    Um greiðsluþátttöku ríkisins í aðgerðum sem einstaklingar með kynáttunarvanda gangast að jafnaði undir er fjallað í reglugerð nr. 722/2009, um lýtalækningar sem sjúkratryggingar almannatrygginga taka til. Samkvæmt fylgiskjali reglugerðarinnar er gerð krafa um fyrir fram samþykkta undanþágu til að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga taki til kynskiptaaðgerðar, sbr. línu 69 í fylgiskjalinu. Af 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar má leiða að Landspítali veiti slíkar undanþágur enda krefst aðgerðin innlagnar á sjúkrahús. Rétt er að geta þess að þar sem erlendur sérfræðingur hefur verið fenginn hingað til lands hin síðari ár til að gera kynleiðréttandi aðgerðir þarf samþykki Sjúkratrygginga Íslands fyrir greiðslu kostnaðar vegna dvalar hans skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
    Aðrar læknismeðferðir sem talið hefur verið nauðsynlegt að einstaklingar með kynáttunarvanda gangist undir eru brjóstnám í tilviki kvenna sem vilja verða karlar og brjóstauppbygging og háreyðing vegna skeggvaxtar í tilviki karla sem vilja verða konur. Eins og staðan er í dag taka sjúkratryggingar ekki til aðgerða vegna brjóstauppbygginga samkvæmt reglugerð nr. 722/2009. Greitt er fyrir háreyðingu hjá konu í undantekningartilfellum samkvæmt skilyrðum í framangreindri reglugerð, sbr. línu 34 og 36 í fylgiskjali hennar. Ljóst er að eftir að transkona hefur fengið kyn sitt leiðrétt í þjóðskrá fellur hún undir undanþágu reglugerðarinnar og getur þar af leiðandi fengið háreyðingu með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Brjóstnám transkarla er þeim að kostnaðarlausu þar sem Landspítali hefur veitt undanþágu vegna þeirrar aðgerðar skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Æskilegt er að taka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í framangreindum aðgerðum til endurskoðunar.
    Eins og núverandi framkvæmd er hér á landi hefur hún tvo ágalla hvað varðar stöðu fólks í kynáttunarvanda. Í fyrsta lagi eru meðferð og greining einstaklinga með kynáttunarvanda og ákvörðunarvald um hvort einstaklingar séu hæfir til kynleiðréttandi aðgerða á hendi sömu aðila. Æskilegt er að aðskilja þessi tvö hlutverk og tryggja umfjöllun um málefni transfólks á tveimur stigum. Í öðru lagi er ákjósanlegt að skjóta lagastoð undir stjórnsýsluframkvæmd Þjóðskrár Íslands um kynleiðréttingar og nafnbreytingar einstaklinga með kynáttunarvanda.
    Rétt er að víkja stuttlega að fjölda þeirra sem fengið hafa kyn sitt leiðrétt hjá Þjóðskrá Íslands. Í heild er um að ræða 23 einstaklinga, í átta tilvikum konur sem urðu karlar og í fimmtán tilvikum karla sem urðu konur. Fyrsta kynleiðréttingin var færð í þjóðskrá árið 1989 en þess má geta að fyrsta kynleiðréttandi aðgerðin var gerð hér á landi árið 1997. Samkvæmt þjóðskrá var yngsti einstaklingurinn við kynleiðréttingu 20 ára en sá elsti 53 ára. Flestir voru á þrítugsaldri.
    Erfitt er að segja nákvæmlega til um tíðni transsexúalisma í alþjóðlegu samhengi en greinilegt er að um mikla fjölgun er að ræða, bæði hérlendis og í nágrannalöndum. Hlutföll transkarla og transkvenna eru svipuð og erlendis, einn transkarl á móti hverjum þremur transkonum.

Markmið frumvarpsins og helstu efnisatriði.
    Markmið frumvarpsins er að gera nauðsynlegar úrbætur á löggjöf hér á landi til að skýra réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Þótt þessi hópur hafi notið læknismeðferðar og skilnings íslenskra stjórnvalda er brýnt að réttarstaða þessara einstaklinga sé skýr í lögum.
Nefndin tók til umræðu hvort löggjöf um réttarstöðu transfólks ætti að vera í formi heildarlaga eða breytingarlaga, þar sem t.d. lögum um landlækni og lýðheilsu, lögum um mannanöfn og barnalögum yrði breytt á þann hátt að réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda yrði tryggð. Ákveðið var að leggja til heildarlög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Taldi nefndin það skýrara út frá lagatæknilegu sjónarhorni og með því lögð áhersla á að ekki væri dregin dul á stöðu þessa hóps. Að auki er ávallt sú hætta fyrir hendi þegar um breytingarlög er að ræða að samhengi löggjafar sem þegar er til staðar verði raskað. Þá má geta þess að í þingsályktunartillögu um réttarbætur fyrir transfólk, sem lögð var fram af átta þingmönnum úr öllum þingflokkum, segir eftirfarandi um þetta atriði: „Mikilvægt er að réttarbætur til handa transfólki séu gerðar með heildstæða löggjöf í huga sem taki á skýran og óyggjandi hátt á málefnum transfólks á Íslandi.“
    Til að auka skýrleika í málaflokknum er frumvarpið samið með það í huga að ferill hvers einstaklings hvað varðar heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslu við leiðréttingar á kyni og nafnbreytingar komi sem gleggst fram í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að einstaklingar leiti fyrst til svokallaðs teymis Landspítala um kynáttunarvanda sem hefur umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda. Eftir að meðferð að lágmarki 18 mánuðum lýkur, þar af tólf mánaða reynslutímabil í gagnstæðu kynhlutverki, og að uppfylltum öðrum skilyrðum, getur viðkomandi sótt um staðfestingu sérfræðinefndar um kynáttunarvanda á að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Hlutverk sérfræðinefndarinnar er að staðfesta að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni og ef við á hvort hann teljist hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar. Eftir að einstaklingur hefur hlotið slíka staðfestingu nýtur hann allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér, sbr. 7. gr. Um skráningu kynleiðréttingar og nafnbreytingu í þjóðskrá er fjallað í 8. gr. frumvarpsins og er í ákvæðinu að mestu gert ráð fyrir sömu stjórnsýsluframkvæmd og nú tíðkast. Í 9. gr. er kveðið á um hvernig fara skuli með erlendar ákvarðanir um kynleiðréttingar og nafnbreytingar einstaklinga með kynáttunarvanda. Mælt er fyrir um óbreytta réttarstöðu barns gagnvart foreldri sem fengið hefur staðfestingu á að það tilheyri gagnstæðu kyni í 10. gr. frumvarpsins. Loks er í 11. gr. fjallað um hvernig bregðast skuli við þeim aðstæðum þegar einstaklingur sem hlotið hefur staðfestingu sérfræðinefndar um kynáttunarvanda skv. 3. mgr. 6. gr. vill hverfa aftur til fyrra kyns.

Evrópuráðið.
     Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildarríkja um aðferðir til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.
    Þann 31. mars 2010 samþykkti ráðherranefnd Evrópuráðsins tilmæli CM/Rec(2010)5 til aðildarríkja um aðferðir til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Recommendation of the Committee of Ministers to member states on measures to combat discrimination on grounds of sexual orientation or gender identity). Í tilmælunum, sem lúta að réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender einstaklinga, er vakin athygli á því að mannréttindi þessara hópa þarfnist sérstakrar aðgerða, eigi þau að vera virk. Í tilmælunum eru aðildarríkin í fyrsta lagi hvött til að skoða og hafa í stöðugri endurskoðun löggjöf og framkvæmd um beina og óbeina mismun vegna kynhneigðar eða kynvitundar. Í öðru lagi að tryggja að löggjöf og framkvæmd sé samþykkt og þeim beitt til að berjast gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar með það að markmiði að tryggja virðingu fyrir mannréttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender einstaklinga. Í þriðja lagi eiga aðildarríkin að tryggja að þolendur mismununar hafi aðgang að virkum réttarúrræðum, að mismununarbrotum fylgi viðurlög og hæfilegar bætur til handa þolanda mismununar.
    Í IV. kafla viðauka við tilmæli ráðherranefndarinnar er fjallað um friðhelgi einkalífs transgender einstaklinga. Mælst er til þess að skilyrði fyrir lagalegri viðurkenningu kynleiðréttingar séu í stöðugri endurskoðun. Aðildarríki ættu að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja lagalega viðurkenningu á kynleiðréttingu einstaklinga á öllum sviðum mannlífs. Sér í lagi ætti einstaklingum að vera mögulegt að breyta nafni og kyni í opinberum skrám og skrám annarra aðila þar sem það er viðeigandi. Einnig ætti að gera transgender einstaklingum sem gengið hafa í gegnum kynleiðréttingu kleift að ganga í hjónaband með einstaklingum af gagnstæðu kyni. Samkvæmt VII. kafla viðaukans eiga aðildarríkin að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja transgender einstaklingum aðgang að viðeigandi þjónustu vegna kynleiðréttinga án óréttmætra skilyrða, þar með talin þjónusta sálfræðinga, innkirtlafræðinga og skurðlækna. Ekki skal framkvæma kynleiðréttingu á mönnum án samþykkis. Að lokum ættu aðildarríki að tryggja að ákvarðanir sem hafa áhrif á þátttöku sjúkratrygginga í kynleiðréttingum séu löglegar, hlutlægar og að gætt sé hófsemi við ákvarðanatöku.

Ályktun þings Evrópuráðsins um mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.
    Þann 29. apríl 2010 samþykkti þing Evrópuráðsins ályktun um mismunun vegna kynhneigðar og kynvitundar (Resolution 1728(2010) Discrimination on the basis of sexual orientation and gender identity). Í ályktuninni eru aðildarríki Evrópuráðsins m.a. hvött til að lögleiða bann við mismunun vegna kynhneigðar og kynvitundar (sjá lið 16.5). Því var einnig beint að aðildarríkjunum að tryggja sérstaklega mannréttindi transgender einstaklinga (sjá lið 16.11).

Skýrsla mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins um mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar í Evrópu.
    Þann 23. júní 2011 kom út skýrsla á vegum mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins um mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar í Evrópu (Discrimination on grounds of sexual orientation and gender identity in Europe).
    Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins mælir með að yfirvöld í aðildarríkjum Evrópuráðsins:
     *      Undirriti og fullgildi bókun 12 við mannréttindasáttmála Evrópu um almennt bann við mismunun.
     *      Lögleiði bann við mismunun í innlenda löggjöf þar sem mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar er hluti mismununarástæðna.
     *      Rannsaki innlend lög með það að markmiði að koma í veg fyrir ósamræmi við löggjöf um bann við mismunun.
     *      Setji á fót stofnun sem styður við jafnrétti og bann við mismunun.
    Að auki mælir mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins með að yfirvöld grípi til sérstakra aðgerða hvað varðar vernd einkalífs og fjölskyldu. Aðildarríki Evrópuráðsins skulu:
     *      Viðurkenna lagalega það kyn sem transgender einstaklingar kjósa og þróa greitt og gegnsætt verklag fyrir kynleiðréttingar og nafnbreytingar þeirra á fæðingarvottorðum, í þjóðskrá, á vegabréfum og öðrum álíka skjölum.
     *      Afnema ófrjósemisaðgerðir og aðrar læknismeðferðir sem nauðsynleg skilyrði fyrir viðurkenningu á því kyni sem transgender einstaklingur kýs.
     *      Afnema skilyrði um að transgender einstaklingar verði að vera einhleypir eða fráskildir til að fá viðurkenningu á að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni.
     *      Virða réttindi transgender einstaklinga til að ganga í hjónaband.
     *      Veita samkynhneigðum pörum sömu réttindi og gagnkynhneigð pör njóta, t.d. á sviði almannatrygginga, atvinnu, lífeyrisréttinda, erfðaréttar o.fl.
     *      Veita samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transgender einstaklingum sömu tækifæri á að ættleiða barn og aðrir umsækjendur njóta með hliðsjón af meginreglunni um að gera skuli það sem barni er fyrir bestu.
     *      Viðurkenna áframhaldandi rétt transgender einstaklinga til að vera foreldri eftir viðurkenningu á að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni.
     *      Veita aðgang að tæknifrjóvgun án mismununar á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.
     *      Leitast við að veita fjölskyldum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra eða transgender einstaklinga viðeigandi stuðning.
     *      Endurskoða skilyrði um sjúkdómsgreiningu kynáttunarvanda innan greiningarkerfis geðlækninga (e. diagnosis of mental disorder) til að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu sem transgender einstaklingur. Transgender einstaklingar skulu njóta sjálfsákvörðunarréttar og bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.
     *      Veita transgender einstaklingum möguleika á kynleiðréttingarmeðferð, svo sem hormónameðferð, skurðaðgerð og sálfræðiþjónustu, með þátttöku sjúkratrygginga og að gefnu upplýstu samþykki viðkomandi einstaklings.
     *      Virða atvinnufrelsi transgender einstaklinga með því að tryggja vernd viðkvæmra persónuupplýsinga sem snerta kynvitund þeirra. Yfirvöld skulu einnig hvetja til aðgerða gegn útilokun og mismunun transgender einstaklinga á vinnumarkaði.

    Eina athugasemd mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins sem nefndin telur ekki tímabært að taka afstöðu til er endurskoðun skilyrðis um sjúkdómsgreiningu kynáttunarvanda innan greiningarkerfis geðlækninga. Í dag er transsexúalismi skilgreindur sem geðsjúkdómur með flokkunina F64.0 í alþjóðlegri flokkun sjúkdóma og heilsutengdra vandamála (ICD 10. útgáfa, International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems). Sjúkdómsgreining einstaklinga með kynáttunarvanda er grundvöllur fyrir heilbrigðisþjónustu þeirra. Á síðustu árum hefur verið rætt um að færa kynáttunarvanda í aðra kafla ICD-skrárinnar og hafa kaflar taugalækninga og innkirtlalækninga verið nefndir í því sambandi. Einnig hefur komið til tals hvort ekki ætti að útbúa sérstakan kafla fyrir kynáttunarvanda í ICD- skránni. Ef ákveðið yrði að fella kynáttunarvanda alfarið út úr ICD-skránni er hætta á að slíkt leiddi til missis réttar þessara einstaklinga til heilbrigðisþjónustu.
    Vegna framangreindrar umfjöllunar má geta þess að velferðarráðuneytið undirbýr nú löggjöf um bann við mismunun á öllum sviðum samfélagsins á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna, trúar eða lífsskoðunar, fötlunar, örorku, aldurs eða kynhneigðar, til að innleiða tvær tilskipanir Evrópusambandsins. Nánar tiltekið er um að ræða tilskipun ráðsins nr. 2000/43/EB um innleiðingu meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna (e. Council directive implementing the principle of equal treatment between persons irrespective of racial or ethnic origin) og tilskipun ráðsins nr. 2000/78/EB um innleiðingu meginreglunnar um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi (e. Council directive establishing a general framework for equal treatment in employment and occupation). Væri kjörið við gerð slíks frumvarps að taka til sérstakrar skoðunar hvort rýmka ætti efni tilskipananna þannig að mismunun á grundvelli kynvitundar yrði ein af mismununarástæðum löggjafarinnar, eins og hefur t.d. verið gert í Svíþjóð.

Norræn löggjöf.
Danmörk.
    Í 1. mgr. 115. gr. dönsku heilbrigðislaganna nr. 913 frá 13. júlí 2010 (d. sundhedsloven) segir að einstaklingur geti fengið leyfi fyrir vönun með tilliti til kynleiðréttingar ef kynhvöt viðkomandi hefur í för með sér töluverðar sálrænar þjáningar eða félagslega niðurlægingu. Ákvæði 117. gr. sömu laga hefur að geyma reglugerðarheimild fyrir innanríkis- og heilbrigðisráðherra vegna umsókna um vönun og meðferð slíkra mála. Sett var reglugerð um ófrjósemisaðgerðir og vönun, með tilliti til kynleiðréttinga 10. janúar 2006 (d. Bekendtgørelse om sterilisation og kastration, herunder med henblik på kønsskifte nr. 14). Í 5. gr. kemur fram að beiðni um vönun með tilliti til kynleiðréttinga skuli senda til Sundhedsstyrelsen.
    Sundhedsstyrelsen hefur gefið út leiðbeiningar um vönun með tilliti til kynleiðréttinga (d. Vejledning om kastration med henblik på kønsskifte nr. 10077 frá 27. nóvember 2006) og gilda þær um einstaklinga með sjúkdómsgreininguna „transseksualisme “. Í leiðbeiningunum kemur fram að fyrir utan skilyrði 1. mgr. 115. gr. heilbrigðislaganna séu skilyrðin m.a. þau að ósk umsækjanda um kynleiðréttingu sé varanleg og að hann sjái fram úr afleiðingum hennar. Áður en umsókn er send hefur umsækjandi venjulega verið í gagnstæðu kyni í tvö ár. Vönun er því ekki nægilegur grundvöllur fyrir viðurkenningu kynleiðréttingar. Í leiðbeiningunum kemur fram hvað eigi að fylgja með umsókn um vönun í tengslum við kynleiðréttingu. Sundhedsstyrelsen aflar yfirlýsingar um umsækjanda frá þeirri sjúkrahúsdeild sem hefur haft hann í meðferð þann tíma sem hann hefur verið í gagnstæðu kyni. Yfirlýsingin er því næst lögð fyrir læknaráð (d. Retslægerådet) og þegar álit þess liggur fyrir er umsækjandi boðaður í viðtal og Sundhedsstyrelsen tekur lokaákvörðun sína eftir það. Eftir að vönun og aðgerð á kynfærum umsækjanda hefur átt sér stað viðurkennir Sundhedsstyrelsen að kynleiðrétting hafi farið fram. Í framhaldinu sér stofnunin um að kyn viðkomandi sé leiðrétt í þjóðskrá og að hann fái nýja kennitölu. Því næst getur umsækjandi sótt um nafnbreytingu.
    Sundhedsstyrelsen sér einnig um viðurkenningu kynleiðréttinga sem gerðar hafa verið erlendis, en slíkar ákvarðanir eru teknar eftir heildstætt mat stofnunarinnar. Við meðferð slíkra mála er óskað eftir yfirlýsingu frá þeim lækni sem framkvæmdi aðgerðina og yfirlýsingu frá dönskum sérfræðingi sem rannsakað hefur umsækjanda. Skilyrði fyrir viðurkenningu kynleiðréttingar frá manni til konu eru að kynkirtlar og getnaðarlimur séu fjarlægðir sem og að venjulega fari fram gerð legganga og skapabarma. Skilyrðin þegar um er að ræða kynleiðréttingu frá konu til manns eru að leg og báðir eggjastokkar séu fjarlægðir.
    Árið 2010 var reglugerð um vegabréf breytt í Danmörku þannig að heimiluð var X-merking í dönsk vegabréf (d. Bekendtgørelse om ændring af bekendtgørelse om pas m.v. nr. 931 frá 15. júlí 2010). Í reglugerðinni segir að ríkislögreglustjóri geti leyft einstaklingi sem ekki hefur gengið í gegnum kynleiðréttingu, en sem metinn er af kynfræðideild Ríkisspítalans (d. Rigshospitalets Sexologiske Klinik) sem „transseksuel“ eða í mjög svipaðri aðstöðu, að fá kyn sitt merkt með X-i í vegabréfi.
    Samkvæmt dönsku mannanafnalögunum nr. 524/2005 frá 24. júní 2005 (d. navnelov) er fjölskyldu- og neytendamálaráðuneytinu heimilt að setja reglur sem veita einstaklingum með kynáttunarvanda (d. transseksuelle personer) undanþágu frá banni laganna um að fornöfn og eftirnöfn séu í andstöðu við kyn viðkomandi, sbr. 4. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 13. gr. laganna. Á grundvelli mannanafnalaganna hafa verið settar reglur um nöfn, nr. 923/2009 (d. Bekendtgørelse om navne). Skv. 13. gr. reglnanna er, við mat á því hvort hægt sé að veita undanþágu frá banni mannanafnalaga um að óheimilt sé að taka upp nafn í andstöðu við kyn viðkomandi, heimilt að óska eftir mati kynfræðideildar Ríkisspítalans á því hvort einstaklingur sé „transseksuel“ eða í mjög svipaðri aðstöðu. Sé framangreint mat vafa undirorpið er unnt að afla álits læknaráðs (d. Retslægerådet) skv. 2. mgr. 13. gr. reglnanna. Horfa verður til þessarar nýlegu breytingar á reglum um mannanöfn í samhengi við framangreindar leiðbeiningar Sundhedsstyrelsen frá 2006.

Finnland.
    Í Finnlandi gilda lög nr. 563 frá 28. júní 2002 um staðfestingu kyns einstaklinga með transsexúalisma (s. Lag om fastställande av transsexuella personers könstillhörighet). Skilyrði fyrir staðfestingu á að einstaklingur tilheyri öðru kyni en því sem skráð er í þjóðskrá eru eftirfarandi: Framvísun læknisvottorðs um að einstaklingur tilheyri gagnstæðu kyni og sé í því kynhlutverki og að viðkomandi hafi verið gerður ófrjór eða sé ófrjór af öðrum ástæðum, viðkomandi sé lögráða, ógiftur og ekki í staðfestri samvist (veitt er undanþága frá þessu skilyrði ef maki viðkomandi samþykkir) og að viðkomandi sé finnskur ríkisborgari eða með fasta búsetu í Finnlandi.
    Samkvæmt 3. gr. laganna er kyn einstaklings staðfest af sýslumanni (s. magistraterna) í sveitarfélagi viðkomandi eftir umsókn hans og skal hann færa breytinguna í þjóðskrá. Um kæru þessarar ákvörðunar fer samkvæmt lögum um meðferð stjórnsýslumála (s. Förvaltningsprocesslag). Ákvæði 5. gr. kveður á um að eftir að kyn einstaklings hefur verið staðfest skuli það kyn einstaklingsins gilda við beitingu annarrar löggjafar. Loks er fjallað um viðurkenningu erlendra ákvarðana í 7. gr. laganna. Í Finnlandi er eingöngu í boði að fá kyn sitt merkt í vegabréf sem M (karl) eða F (kona).
    Á grundvelli framangreindra laga hefur á vegum félags- og heilbrigðismálaráðuneytis Finnlands verið sett reglugerð nr. 1053/2002 um tilhögun rannsókna og meðferðar sem hefur þann tilgang að leiðrétta kyn og um læknisfræðilegar rannsóknir til að staðfesta kyn transfólks (s. Social- och hälsovårdsministeriets förordning om ordnandet av undersökning och behandling som syftar till könsbyte samt om den medicinska utredningen för fastställande av transsexuella personers könstillhörighet). Reglugerðin fjallar m.a. um teymi sérfræðinga sem skal starfa við háskólasjúkrahúsin í Helsinki og Tampere og sjá um greiningu og meðferð transfólks, meðferðaráætlun transfólks og læknisfræðilegar rannsóknir til að staðfesta kyn transfólks samkvæmt lögum nr. 563/2002.

Noregur.
    Engin löggjöf er til í Noregi um einstaklinga með kynáttunarvanda. Læknismeðferð einstaklinga með kynáttunarvanda fer fram á ríkissjúkrahúsinu í Ósló. Hægt er að sækja um kennitölubreytingu í Noregi þegar meðferð er lokið. Fyrir konur sem breytast í karla er hægt að sækja um leiðréttingu á kennitölu eftir að eggjastokkar hafa verið fjarlægðir en fyrir karla sem vilja verða konur þegar aðgerð á leggöngum er lokið. Hvað varðar nafnbreytingar er ekki nauðsynlegt að vera í meðferð vegna kynáttunarvanda til að geta skipt um nafn, sbr. dreifibréf norska dóms- og löggæslumálaráðuneytisins frá 15. nóvember 2002 í tilefni nýrra nafnalaga (Rundskriv Justis- og Politidepartementet G-20/2002).

Svíþjóð.
    Í Svíþjóð gilda lög nr. 119 frá 1972 um ákvörðun kyns í vissum tilvikum (s. Lag 1972:119 om fastställande av könstillhörighet i vissa fall), en þeim var síðast breytt árið 2009. Ákvæði 1. gr. kveður á um að einstaklingi sem síðan í æsku hafi fundist hann tilheyra gagnstæðu kyni, geti fengið staðfestingu á að hann tilheyri hinu kyninu. Skilyrði eru að umsækjandi sé 18 ára, ógiftur sænskur ríkisborgari og hafi gengist undir ófrjósemisaðgerð eða sé af öðrum orsökum ófrjór. Skv. 4. gr. getur umsækjandi um staðfestingu skv. 1. gr. laganna sótt um leyfi fyrir aðgerð á kynfærum svo þau líkist kynfærum gagnstæðs kyns. Ákvæði 2. mgr. 4. gr. kveður á um að sá sem fengið hefur staðfestingu skv. 1. gr. geti sótt um leyfi fyrir fjarlægingu kynkirtla. Sama gildir fyrir umsækjanda um staðfestingu skv. 1. gr. sem ekki uppfyllir skilyrði um ófrjósemi. Skv. 5. gr. laganna er staðfesting á að einstaklingur tilheyri gagnstæðu kyni gefin út af Socialstyrelsen í Svíþjóð en á vegum hennar starfar sérstök nefnd, Socialstyrelsens råd för vissa rättsliga, sociala och medicinska frågor, venjulega kallað Rättsliga rådet. Niðurstaða þess er kæranleg til almennra stjórnsýsludómstóla skv. 6. gr. Ákvæði 8. gr. laganna kveður á um viðurlög gegn þeim sem af ásetningi eða gáleysi framkvæmir þær aðgerðir sem nefndar eru í 4. gr. laganna í trássi við lögin (sekt eða fangelsi allt að sex mánuðum). Að lokum má geta þess að í 2. gr. laganna er að finna sérstakt ákvæði um kynákvörðun ungbarna. Á síðustu árum hefur komið fram almenn gagnrýni á sænsku löggjöfina, m.a. vegna skilyrðis laganna um ófrjósemi umsækjanda um staðfestingu á að hann tilheyri hinu kyninu, og er hún nú í endurskoðun. Í mars 2012 kvað stjórnsýsludómstóll Stokkhólms upp dóm þar sem framangreint skilyrði um ófrjósemi umsækjanda var talið andstætt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs.
    Æðsti stjórnsýsludómstóll Svíþjóðar (s. Regeringsrätten) úrskurðaði 28. september 2009 að einstaklingar yfir 18 ára aldri hafi rétt til að ákveða fornafn sitt óháð líffræðilegu eða lagalegu kyni. Sérstök nefnd hefur verið skipuð til að endurskoða nafnalögin og búist er við að skýrsla hennar liggi fyrir árið 2013. Hægt er að sækja um sérstaka merkingu hjá þjóðskrá í Svíþjóð til að halda leynd yfir nafnbreytingarsögu (s. sekretessmarkering).

Löggjöf annarra ríkja.
    Löggjöf um málefni transfólks er víða að finna. Samkvæmt skýrslu Mannréttindaskrifstofu Íslands og áður er vísað til er slíka löggjöf m.a. að finna í Bretlandi, Hollandi, Ítalíu, Þýskalandi og Austurríki. Misjöfn skilyrði gilda um leiðréttingar á kyni samkvæmt þessum lögum og er afgreiðsla málanna ýmist í höndum dómstóla eða sérstakra nefnda. Breska löggjöfin (e. Gender Recognition Act), sem er frá árinu 2004, var sett í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 11. júlí 2001 í máli Goodwin gegn Bretlandi.

Samræmi við stjórnarskrá.
    Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, er kveðið á um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Samkvæmt athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að stjórnarskipunarlögum og varð að lögum nr. 97/1995 felst í friðhelgi einkalífs fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Þar segir einnig að í friðhelgi einkalífs felist ekki eingöngu skylda ríkisins til að forðast afskipti af einkalífi manna og persónulegum högum heldur einnig að á ríkinu hvíli skylda til að setja reglur í löggjöf til verndar einstaklingunum í innbyrðis samskiptum þeirra. Björg Thorarensen bendir á í bók sinni Stjórnskipunarréttur - mannréttindi að undir hugtakið einkalíf falli einnig auðkenni manns og sjálfsmynd og það sem einkenni einstakling sem persónu gagnvart umhverfi sínu og öðrum í samfélaginu. Í þessu sé fólginn réttur til að ráða nafni sínu, útliti, klæðnaði og kynímynd. 2
    Túlka verður 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar í samhengi við sambærileg ákvæði í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, og 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Á síðustu árum hefur Mannréttindadómstóll Evrópu verið ötull við að rýmka gildissvið 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Réttindi transgender einstaklinga eru ein þeirra sviða sem oft hafa komið til kasta dómstólsins í þessu sambandi. 3 Í máli B gegn Frakklandi frá 25. mars 1992 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu fyrst upp úr um að brotið hefði verið gegn friðhelgi kæranda, sem hafði gengist undir kynleiðréttandi aðgerð, þar sem ríkið hafði ekki leiðrétt kyn kæranda í opinberum skrám og skilríkjum. Í máli Goodwin gegn Bretlandi frá 11. júlí 2002 var um að ræða konu sem gengist hafði undir kynleiðréttandi aðgerð en lagalega var hún enn karlmaður hvað varðaði eftirlaun, tryggingar, lífeyri og fleira. Niðurstaða dómsins var sú að einstaklingar með kynáttunarvanda hafi rétt til persónulegs þroska, líkamlegs og siðferðislegs öryggis til jafns við aðra og að engar vísbendingar væru um að almannahagsmunum væri stefnt í voða með því að breyta lagalegri stöðu þeirra í samræmi við nýtt kyn. Viðurkennt var því að Bretland hefði brotið gegn 8. gr. sáttmálans með því að virða ekki rétt Goodwin til friðhelgi einkalífs með því að neita henni um lagalega breytingu kyns. Í máli L gegn Litháen frá 11. september 2007 voru aðstæður þær að í landslögum var heimild fyrir einstaklinga til að leiðrétta kyn sitt en löggjöf skorti um kynleiðréttinguna sjálfa, framkvæmdina, fyrirkomulag og eftirlit við slíkar aðgerðir. Niðurstaða dómstólsins var sú að þetta hafi orðið til þess að auka þjáningar L og leitt til óöryggis og óvissu er varðaði sjálfsmynd hans. Dómstóllinn taldi að ríkið hefði brotið gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu vegna skorts á lagalegum úrræðum þar sem því bæri að veita einstaklingum með kynáttunarvanda vernd og viðurkenningu. Af framangreindum dómum má sjá að Mannréttindadómstóll Evrópu viðurkennir æ ríkari rétt einstaklinga með kynáttunarvanda til friðhelgi einkalífs en áður. Því er ljóst að á stjórnvöldum hvílir athafnaskylda til að tryggja réttindi þessara einstaklinga en þau verða jafnframt að forðast óþarfa afskipti af einkalífi þeirra. 4
    Markmið frumvarpsins, svo sem áður greinir, er að tryggja réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda svo þeir fái notið þeirra réttinda sem 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um. Verður því að telja að með frumvarpi þessu sé stefnt að því að koma ákvæði um friðhelgi einkalífs til framkvæmda að því er varðar einstaklinga með kynáttunarvanda með hliðsjón af nýlegri dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um friðhelgisákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Samráð.
    Þar sem í nefnd um réttarstöðu transfólks sátu fulltrúar velferðarráðherra, innanríkisráðherra, embætti landlæknis, Mannréttindaskrifstofu Íslands og hagsmunasamtaka transfólks var ekki talin þörf á formlegu samráðsferli. Frumvarp til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda var kynnt á félagsfundi Trans Ísland í byrjun mars 2012 af tveimur nefndarmönnum. Þann 14. mars 2012 var frumvarpið kynnt á fundi í velferðarráðuneyti með helstu hagsmunaaðilum. Boðaðir voru fulltrúar frá Landspítala, embætti landlæknis, Sjúkratryggingum Íslands, Samtökunum '78, Trans Ísland, umboðsmanni barna og innanríkisráðuneytinu. Á fundinn mættu fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands, Landspítala og umboðsmanns barna. Á báðum þessum fundum var frumvarpinu almennt vel tekið og engar breytingar voru gerðar á því í kjölfarið.

Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er stefnt að réttarbót fyrir einstaklinga með kynáttunarvanda. Leitast er við að færa framkvæmd mála er varða heilbrigðisþjónustu þessara einstaklinga og stjórnsýslu Þjóðskrár Íslands í skýra löggjöf. Tekið er á þeim atriðum sem nokkur réttaróvissa hefur ríkt um, þ.e. réttarstöðu einstaklings eftir að hann hefur hlotið staðfestingu á að tilheyra gagnstæðu kyni, réttarstöðu barna sem eiga foreldri með kynáttunarvanda og hvernig bregðast skuli við þeim aðstæðum þegar einstaklingur sem hlotið hefur staðfestingu á að hann tilheyri gagnstæðu kyni vill hverfa aftur til fyrra kyns. Ljóst er að um er að ræða löggjöf sem hefur mikla þýðingu fyrir hlutaðeigandi einstaklinga og hefur þar að auki réttarskýrandi áhrif fyrir þá aðila innan opinberrar þjónustu sem hafa með málefni transfólks að gera.
    Þótt frumvarpið byggi að meginstefnu til á þeirri almennu tilhögun og verklagi sem tíðkast nú hjá stjórnvöldum hér á landi við kynleiðréttingar er ekki unnt að útiloka að það hafi áhrif á stjórnsýslu ríkisins og einhvern kostnaðarauka í för með sér. Formleg skipun sérfræðinefndar um kynáttunarvanda og hugsanleg endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í læknismeðferðum transfólks gætu leitt til frekari útgjalda ríkissjóðs frá því sem nú er.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um markmið laganna sem er að tryggja einstaklingum með kynáttunarvanda jafna stöðu fyrir lögum á við aðra í samræmi við mannréttindi og mannhelgi. Er ákvæðið í samræmi við orðalag jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er fjallað um gildissvið laganna. Lögin gilda um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, sbr. skilgreiningu 3. gr. Upp hafa komið tilvik þar sem erfitt er að ákvarða kyn barns við fæðingu en lögunum er ekki ætlað að ná yfir þær aðstæður. Ef slík tilvik koma upp er venjan sú að framkvæma litningarannsókn á barninu til að ákvarða kyn þess.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um skilgreiningu á hugtakinu kynáttunarvandi (e. gender identity disorder) og kynleiðréttandi aðgerð (e. sex reassignment surgery). Kynáttunarvandi er upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óski að tilheyra hinu kyninu. Kynleiðréttandi aðgerð er leiðrétting á líffræðilegu kyni með skurðaðgerð. Síðarnefnda hugtakið tekur bæði til transkvenna og transkarla (sem vilja oft einungis láta fjarlægja leg og eggjastokka). Hjá körlum eru limur og eistu fjarlægð og leggöng útbúin. Hjá konum eru m.a. brjóst, eggjastokkar og leg fjarlægð og ytri kynfæri eru byggð upp.
    Transfólk eða transgender einstaklingar er samheiti yfir þá sem haldnir eru ýmsum röskunum sem tengjast kynímynd. Hugtakið transsexúalismi (e. transsexualism) tekur til þeirra einstaklinga sem vilja lifa og vera samþykktir af samfélaginu sem einstaklingar af gagnstæðu kyni. Þessir einstaklingar upplifa oft mikla vanlíðan og óþægindi við að lifa í þeim líkama sem þeir fæddust í og vilja jafnvel gangast undir erfiðar og flóknar aðgerðir til að leiðrétta kyn sitt, þ.e. þeir eru haldnir kynáttunarvanda. Transsexúal einstaklingar hafa oft verið nefndir TS einstaklingar á íslensku. Áður fyrr var notað orðið kynskiptingur yfir transsexúal einstaklinga og orðið kynskiptahneigð yfir transsexúalisma. Margir telja þessi tvö síðarnefndu hugtök villandi og neikvæð og því hefur nefndin ákveðið að nota hugtakið kynáttunarvandi í frumvarpinu. Kynleiðréttingarmeðferð er sú meðferð þegar líffræðilegt kyn er leiðrétt með skurðaðgerð og/eða lyfjum, þ.e. karli breytt í konu og öfugt. Hugtakið transkona er notað yfir karl sem er í kynleiðréttingarmeðferð og hugtakið transkarl er notað yfir konu sem er í kynleiðréttingarmeðferð. 5

Um 4. gr.

    Í 4. gr. er fjallað um teymi Landspítala um kynáttunarvanda, tilnefningu þess og hlutverk. Óformlegt teymi um transgender einstaklinga er til staðar í dag og er markmiðið með ákvæðinu að festa það formlega í sessi. Ljóst er að sú sérhæfða heilbrigðisþjónusta sem einstaklingar með kynáttunarvanda þurfa er einungis í boði á Landspítalanum. Nokkur umræða skapaðist í nefndinni um hvort fjalla ætti um teymi Landspítala um kynáttunarvanda í frumvarpinu. Nefndin var ásátt um að nauðsynlegt væri að tryggja varanleika teymisins á Landspítala með sérstöku ákvæði en einnig til þess að lögin verði heildstæðari og nýtist betur einstaklingum með kynáttunarvanda og öðrum þeim sem starfa að málefnum þessa hóps.
    Í 1. mgr. segir að í teyminu skuli sitja sérfræðingar á sviði geðlækninga, innkirtlalækninga og sálfræði en þetta eru þeir sérfræðingar sem bera höfuðábyrgð á meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda. Teymið skal tilnefnt af forstjóra sjúkrahússins. Mikilvægt er að teymi Landspítala geti kallað aðra sérfræðinga sér til ráðgjafar og samstarfs, t.d. lýtalækni, talmeinafræðing, félagsráðgjafa, lögfræðing, hjúkrunarfræðing og fulltrúa einstaklinga með kynáttunarvanda. Hlutverk teymisins er að hafa umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda í samræmi við alþjóðlegar vinnureglur þar um (World Professional Association for Transgender Health, standards of care). Endanleg ákvörðun um hvort viðkomandi sé hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar yrði í höndum sérfræðinefndar landlæknis um kynáttunarvanda ef frumvarpið verður samþykkt.
    Í 2. mgr. kemur fram að hafi einstaklingur með kynáttunarvanda hlotið greiningu og viðurkennda meðferð í útlöndum er teyminu heimilt að taka tillit til þess. Hér er um að ræða heimildarákvæði fyrir teymi Landspítala til að líta til viðurkenndrar meðferðar í útlöndum ef einstaklingur hefur byrjað meðferð þar en flyst búferlum og óskar eftir áframhaldandi meðferð hér á landi.

Um 5. gr.

    Ákvæði 5. gr. mælir fyrir um skipun sérfræðinefndar um kynáttunarvanda. Helsta gagnrýni á núverandi stöðu einstaklinga með kynáttunarvanda er sú að sömu aðilar, þ.e. samráðshópur lækna á vegum landlæknis, hafa þessa einstaklinga til meðferðar og greiningar og taka einnig ákvörðun um kynleiðréttandi aðgerðir. Í Danmörku og Svíþjóð er annars vegar starfrækt sérstakt meðferðarteymi fyrir einstaklinga með kynáttunarvanda og hins vegar er sérstök nefnd sem fer með ákvörðunarvald hvað varðar kynleiðréttandi aðgerðir. Er ætlunin með frumvarpinu að aðskilja þessi verkefni með því að setja upp annars vegar teymi á Landspítala um kynáttunarvanda og hins vegar sérfræðinefnd um kynáttunarvanda undir forustu landlæknis eins og hefð hefur skapast fyrir.
    Í 1. mgr. er lagt til að velferðarráðherra skipi sérstaka sérfræðinefnd og skal skipunartími hennar vera fjögur ár. Gert er ráð fyrir að velferðarráðherra skipi sjálfur tvo nefndarmenn án tilnefningar, lækni og landlækni sem skal vera formaður nefndarinnar. Þriðji nefndarmaðurinn skal vera lögfræðingur tilnefndur af innanríkisráðherra.
    Í 2. mgr. kemur fram að kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði og að hún skuli hafa aðsetur sitt hjá embætti landlæknis. Gert er ráð fyrir að kostnaður af störfum nefndarinnar verði óverulegur en ekki er hægt að útiloka að nefndin þurfi að leita sér sérfræðiráðgjafar eða stofna til annars kostnaðar.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er að finna ákvæði um hlutverk sérfræðinefndar um kynáttunarvanda. Skv. 1. mgr. getur sá sem hlotið hefur greiningu og viðurkennda meðferð hjá teymi Landspítala skv. 4. gr. óskað staðfestingar sérfræðinefndarinnar á að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Með slíkri umsókn skal fylgja greinargerð teymisins og þar þarf m.a. að koma fram að umsækjandi hafi verið undir eftirliti teymisins í a.m.k. 18 mánuði og í gagnstæðu kynhlutverki í a.m.k. eitt ár.
    Samkvæmt 2. mgr. eru það einnig skilyrði staðfestingar sérfræðinefndarinnar að umsækjandi sé lögráða í skilningi lögræðislaga, nr. 71/1997, eigi lögheimili og hafi haft samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu tvö árin fyrir umsókn og sé sjúkratryggður. Rétt er að geta þess að hjúskaparstaða einstaklinga með kynáttunarvanda skiptir ekki máli þar sem nú gilda ein hjúskaparlög á Íslandi.
    Rök sem liggja að baki framangreindu lögheimilisskilyrði eru fyrst og fremst þau að á meðan réttindi einstaklinga með kynáttunarvanda eru enn þá einungis viðurkennd í lögum fárra ríkja sé rétt að krefjast þess að aðilar hafi ákveðin tengsl við ríki sem tryggir slík réttindi með lögum. Tveggja ára skilyrði um lögheimili kallast á við þann tíma sem metinn hefur verið lágmarkstími undir eftirliti teymis Landspítala, þ.e. 18 mánuðir, og þann tíma sem kveðið er á um 10. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Þar segir að sjúkratryggðir samkvæmt lögunum séu þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum nema annað leiði af milliríkjasamningum. Gert er ráð fyrir að umsækjandi leggi fram búsetuvottorð frá Þjóðskrá Íslands til að sýna fram á að hann hafi verið skráður með lögheimili í skilningi laga nr. 21/1990, um lögheimili, í tvö ár. Þá þarf einnig að gera ráð fyrir því, við mat á löglegri dvöl, að erlendir umsækjendur sem komnir eru með lögheimili hér á landi sýni fram á að þeir séu með gilt dvalarleyfi útgefið af Útlendingastofnun eða aðrar samsvarandi gildar heimildir til dvalar á grundvelli laga um útlendinga. Þess má geta að lágmarkstími undir eftirliti sérfræðingateymis um kynáttunarvanda í Svíþjóð er tvö ár og þar er gerð er krafa um eins árs reynslutímabil.
    Samkvæmt 1. mgr. er það gert að skilyrði að umsækjandi um staðfestingu skv. 3. mgr. 6. gr. hafi verið í gagnstæðu kynhlutverki að lágmarki í eitt ár. Umsækjandi telst vera í gagnstæðu kynhlutverki ef hann gengur undir nafni hins kynsins, klæðir sig í samræmi við kynhlutverkið allan sólarhringinn og kemur að öðru leyti fram, t.d. í vinnu og skóla, sem hitt kynið. Hefur þetta tímabil jafnan verið kallað reynslutímabilið. Reynslutímabilið er nauðsynlegur undanfari skurðaðgerðar til leiðréttingar á kyni, þ.e. kynleiðréttandi aðgerðar, og fer fram undir handleiðslu teymis Landspítala um kynáttunarvanda. Með umsókn skv. 1. mgr. 6. gr. skal fylgja greinargerð teymisins og skal hún m.a. bera með sér hversu lengi umsækjandi hefur verið í gagnstæðu kynhlutverki. Samkvæmt þessu er það teymi Landspítala sem ákveður við hvaða tímamark skuli miða þegar einstaklingur með kynáttunarvanda hefur reynslutímabilið. Er þessi krafa um eins árs lágmarkstíma í gagnstæðu kynhlutverki í samræmi við alþjóðlegar vinnureglur WPATH.
    Samkvæmt 3. mgr. er verkefni sérfræðinefndar um kynáttunarvanda að staðfesta að einstaklingur sem greindur hefur verið með kynáttunarvanda (transsexúalisma, ICD 10 (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems) F64.0) tilheyri gagnstæðu kyni að uppfylltum skilyrðum 1. og 2. mgr. Sé óskað staðfestingar á að viðkomandi sé hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar skal sérfræðinefndin taka slíka beiðni til skoðunar. Ekki hafa allir einstaklingar með kynáttunarvanda áhuga á að gangast undir kynleiðréttandi aðgerðir og geta ýmsar ástæður legið þar að baki. Til dæmis er sú aðgerð sem stendur transkörlum til boða ekki ásættanleg að margra mati og einnig geta heilsufarsástæður hamlað aðgerð hjá einhverjum. Til upplýsingar má nefna að sænska sérfræðinefndin um kynáttunarvanda lýkur sínum málum á þrjá mismunandi vegu. Umsókn er samþykkt, umsókn er samþykkt að hluta, þ.e. breyting á nafni er heimiluð, eða umsókn er hafnað.
    Samkvæmt 4. mgr. skal sérfræðinefnd um kynáttunarvanda tilkynna umsækjanda niðurstöður ákvörðunar skv. 3. mgr. Jafnframt tilkynnir sérfræðinefndin Þjóðskrá Íslands um leiðrétt kyn umsækjanda. Í kjölfarið sendir umsækjandi umsókn til Þjóðskrár Íslands um nafnbreytingu, sbr. 8. gr.
    Áfrýjun ákvarðana sérfræðinefndar um kynáttunarvanda kom til tals hjá nefndinni. Var nefndin sammála um að þar sem málefni einstaklinga með kynáttunarvanda væru til umfjöllunar hjá teymi Landspítala um kynáttunarvanda og sérfræðinefndar um kynáttunarvanda væri ekki þörf á sérstakri kæruleið, t.d. til úrskurðarnefndar eða ráðuneytis. Var sérstaklega litið til þess að málefni einstaklinga með kynáttunarvanda væru sérstæð og vandkvæðum búið að finna sérfræðinga á þessu sviði hér á landi. Einnig má benda á að kæruheimild til ráðuneytis fæli að öllum líkindum einungis í sér endurskoðun á málsmeðferð sérfræðinefndar um kynáttunarvanda en ekki endurskoðun á sérfræðilegu mati nefndarinnar. Slík kæruheimild myndi því ekki bæta réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, enda gæti hann kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna málsmeðferðar.

Um 7. gr.

    Hér er fjallað um réttaráhrif staðfestingar sérfræðinefndar um kynáttunarvanda skv. 3. mgr. 6. gr. um að einstaklingur sem greindur hefur verið með kynáttunarvanda tilheyri gagnstæðu kyni. Samkvæmt ákvæðinu nýtur hann allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um kynleiðréttingar og nafnbreytingar í þjóðskrá. Árið 1989 fékk Þjóðskrá fyrst erindi um leiðréttingu á kyni einstaklings er gengist hafði undir kynleiðréttandi aðgerð. Við erindinu var orðið og eftir leiðréttingu á fæðingarskýrslu gaf Þjóðskrá út fæðingarvottorð sem bar með sér hið nýja kyn. Sú verklagsregla gilti hjá Þjóðskrá að ef kyn einstaklings var leiðrétt hér á landi var skráning þeirrar breytingar færð á fæðingarskýrslu og í tölvukerfi skrárinnar um leið og viðkomandi fékk fullu nafni sínu breytt samkvæmt lögum um mannanöfn. Ef leiðrétting átti sér aftur á móti stað í útlöndum lagði viðkomandi undantekningarlaust fram hjá Þjóðskrá gögn um breytinguna í búsetulandi.
    Eftir skoðun umboðsmanns Alþingis á málefnum transfólks, sem áður var fjallað um, var ákveðið að breyta þeirri stjórnsýsluframkvæmd sem gilti um kynleiðréttingar og nafnbreytingar í þjóðskrá. Núverandi framkvæmd er því þannig að landlæknisembættið sendir staðfestingu til Þjóðskrár Íslands um að tiltekinn einstaklingur sé greindur með kynáttunarvanda (ICD 10 F64.0). Þjóðskrá breytir í framhaldi nafni viðkomandi og leiðréttir skráningu á kyni. Rétt er að geta þess hér að fæðingarskýrsla einstaklings með kynáttunarvanda ber með sér kynleiðréttingu og nafnbreytingu í neðanmálsgrein. Ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. eru í samræmi við framangreint verklag Þjóðskrár Íslands, þ.e. leiðrétting á kyni og nafnbreyting er gerð samtímis í þjóðskrá.
    Í 3. mgr. kemur fram að umsækjanda sé heimilt að fá úthlutað nýrri kennitölu samhliða leiðréttingu kyns og nafnbreytingu í þjóðskrá. Heimildarákvæði þetta er í samræmi við núverandi verklag Þjóðskrár Íslands en fimm einstaklingar af 23, sem hafa fengið kyn sitt leiðrétt í þjóðskrá, hafa samtímis fengið nýja kennitölu. Þrátt fyrir að kennitölur hér á landi séu ókyngreindar og þjóðskrá sé uppfærð með reglulegri hætti en áður fyrr getur úthlutun nýrrar kennitölu verið hluti af upphafi nýs lífs einstaklings með kynáttunarvanda. Ný kennitala getur engu að síður skapað vandamál hjá ýmsum stjórnvöldum séu þeim ekki kunn tengslin við eldri kennitölu, eins og t.d. skattyfirvöld, sakaskrá, Fangelsismálastofnun og fleiri. Í síðari málslið 3. mgr. er því gert ráð fyrir að fyrri kennitala umsækjanda verði aðgengileg þeim stjórnvöldum og öðrum aðilum sem starfs síns vegna þurfa að vita um tengsl nýju og eldri kennitölunnar. Það að fyrri kennitala sé aðgengileg þýðir að Þjóðskrá Íslands verður heimilt að afhenda þessar kennitölubreytingar til þeirra sem fá aðgang stofnunarinnar að viðbótarupplýsingum úr þjóðskrá, sem eru t.d. hjúskaparstaða einstaklings, ríkisfang, fæðingarstaður hans og kennitala maka, ef við á, o.fl. Aftur á móti mundu þessar upplýsingar ekki fylgja með grunnupplýsingum úr þjóðskrá sem eru nafn einstaklings, kennitala hans, heimilis- og póstfang. Þær upplýsingar eru almennt aðgengilegar öllum án rökstuðnings við gerð samnings við Þjóðskrá Íslands. Hér áður fyrr afhenti Þjóðskrá árlega mörgum stórnotendum þjóðskrár allar kennitölubreytingar sem unnar voru í skrána. Kennitölubreyting getur stafað af ýmsum orsökum, t.d. röngum fæðingardegi eða misskráningu. Ef þessi háttur á afhendingu yrði tekinn upp aftur hjá Þjóðskrá Íslands kæmust allar kennitölubreytingar gerðar í þjóðskrá með reglubundnum hætti til hlutaðeigandi notenda með viðbótarupplýsingunum úr skránni.
    Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands skv. 8. gr. frumvarpsins eru kæranlegar til innanríkisráðuneytis sem æðra stjórnvalds.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. er mælt fyrir um viðurkenningu erlendra ákvarðana er varða leiðréttingar á kyni og nafnbreytingar einstaklinga með kynáttunarvanda. Er ákvæðið í samræmi við núverandi verklag Þjóðskrár Íslands um afgreiðslu þessara erinda. Könnun Þjóðskrár Íslands lýtur m.a. að því hvort nafnbreyting og/eða leiðrétting á kyni hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla. Þá þarf að gæta að áreiðanleika gagna. Ef umsókn um viðurkenningu erlendrar ákvörðunar lýtur einungis að nafnbreytingu er eingöngu sú breyting færð í þjóðskrá. Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands skv. 9. gr. frumvarpsins eru kæranlegar til innanríkisráðuneytis sem æðra stjórnvalds.

Um 10. gr.

    Í 10. gr. kemur fram að réttarstaða barns sem á foreldri sem hlotið hefur staðfestingu hjá sérfræðinefnd skv. 3. mgr. 6. gr., um að það tilheyri gagnstæðu kyni, verður óbreytt. Hagsmunir barns mæla með því að réttarstöðu þess gagnvart foreldri sé ekki raskað. Þannig verður fæðingarvottorði barns ekki breytt þó foreldri þess fari í meðferð til leiðréttingar á kyni. Er ákvæðið í samræmi við 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í 2. mgr. 2. gr. segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra. Í 1. mgr. 8. gr. samningsins segir að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með talið ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um afturköllun staðfestingar sérfræðinefndar um kynáttunarvanda skv. 3. mgr. 6. gr. Þó enginn hafi enn óskað eftir því að hverfa aftur til fyrra kyns hér á landi verður að gera ráð fyrir verklagi sem tekur á slíkum tilfellum. Þess má geta að af þeim 650 einstaklingum sem fengið hafa kyn sitt leiðrétt í Svíþjóð frá árinu 1972 hafa einungis 15 óskað eftir að hverfa aftur til fyrra kyns. Er gert ráð fyrir að sá sem hlotið hefur staðfestingu skv. 3. mgr. 6. gr. og vill hverfa aftur til fyrra kyns leiti fyrst til teymis Landspítala um kynáttunarvanda til ráðgjafar og meðferðar. Ef skilyrði 3. mgr. 6. gr. eiga ekki lengur við um viðkomandi einstakling getur hann óskað eftir því að sérfræðinefnd um kynáttunarvanda afturkalli staðfestingu þess efnis að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Skv. 3. mgr. eiga ákvæði 4. og 5. mgr. 6. gr., 7. gr. og 8. gr. við um ákvörðun sérfræðinefndarinnar skv. 2. mgr. Er því gert ráð fyrir sama fyrirkomulagi við tilkynningar nefndarinnar til Þjóðskrár Íslands, kynleiðréttingar og nafnbreytingar í þjóðskrá og gilda við staðfestingu skv. 3. mgr. 6. gr. vegna aðstæðna sem tilgreindar eru í 11. gr.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um reglugerðarheimild ráðherra og þarfnast ákvæðið ekki nánari skýringa.

Um 13. gr.

    Ýmis lagaleg réttindi samkynhneigðra hafa öðlast gildi 27. júní og þar sem náin samvinna er á milli þeirra og transfólks fer vel á því að miða við sömu dagsetningu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.

    Í frumvarpinu eru lagðar til úrbætur á réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda og snúa þær einkum að stjórnsýslulegri meðferð mála viðkomandi einstaklinga og tilhögun kynleiðréttinga og nafnbreytinga í þjóðskrá. Þótt þessi hópur einstaklinga hafi undanfarin ár notið læknismeðferðar þykir brýnt að gera réttarsöðu þeirra skýrari með heildarlöggjöf.
    Með frumvarpinu er ætlunin að formfesta fyrirkomulag sem hefur verið við lýði frá 1996 en meðal helstu ákvæða er að lagt er til að stofnað verði teymi sérfræðinga innan Landspítalans, að skipuð verði sérfræðinefnd um kynáttunarvanda sem hafi aðsetur hjá embætti landlæknis og að Þjóðskrá Íslands haldi utan um skráningu kynleiðréttra einstaklinga ásamt nafnbreytingu og útgáfu nýrra kennitalna.
    Þar sem um tiltölulega fá mál er að ræða á ári hverju sem koma til kasta teymis sérfræðinga Landspítalans og sérfræðinefndarinnar um kynáttunarvanda, eða eitt til tvö, er gert ráð fyrir að frumvarpið muni hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Reifun umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4919/2007.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur - mannréttindi, Bókaútgáfan Codex, Reykjavík 2008, bls. 288.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur - mannréttindi, Bókaútgáfan Codex, Reykjavík 2008, bls. 286.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Mannréttindaskrifstofa Íslands, Réttindi transfólks, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Sjá m.a. skýrslu Mannréttindaskrifstofu Íslands um réttindi transfólks um skilgreiningu ýmissa hugtaka, bls. 4–6.